Grímseyingar sekir

Punktar

Þegar leitað er sökudólga vegna verðs Grímseyjarferju, gleymast heimamenn. Um síðir heimtuðu þeir breytingar, sem kostuðu hundruð milljóna króna. Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra, varð við kröfum þeirra. Hann lét ráðuneytið grípa fram fyrir hendur vegagerðarinnar. Hún og ráðunautur hennar bera hluta ábyrgðarinnar, en eiga ekki skilið krossfestingu. Þyngsta ábyrgð bera Grímseyingar og Sturla. Að venju var pólitík í spilinu. Faglega ferlið var ekki nógu gott, en úrslitum réð byggðapólitík. Kristján Möller ráðherra geltir upp á ranga menn. Hann á að skamma Sturlu og Grímseyinga.

Tómatlausar Flúðir

Punktar

Leifar smokkfisksins reka neyzlubúð á Flúðum. Innan um gróðurhúsin selja Samkaup ekki tómata og grænmeti svæðisins. Og auðvitað ekki heimaframleiddu jarðarberin. Það litla, sem til er í búðinni, kemur innpakkað úr Reykjavík. Þetta minnir mig á tilraunina til að kaupa nýjan fisk á Akureyri. Það var alls ekki hægt, þrátt fyrir tvær af stærstu útgerðum landsins. Í miðstöð sjávarútvegs var bara hægt að kaupa frosinn fisk. Svona er nútíminn. Vara fer beint af færibandi í umbúðir og er síðan send í dreifingarmiðstöðvar. Ég keyrði um Flúðir, en sá hvergi skilti um sölu grænmetis úr gróðurhúsi.

Kaupmennskuna vantar

Punktar

Ekkert skilti er um grænmetissölu á Flúðum. Þar er bara vísað á sjoppu Samkaupa. Með því að aka plássið á enda eftir veginum til Syðra-Langholts má þó finna gróðurhúsið Mela. Þar fást þrenns konar tómatar og margs konar kál. Allt var þetta tekið upp í morgun og býr yfir mögnuðum bragðgæðum nýs grænmetis. Slíkt bragð finn ég ekki í búðunum. Mér finnst, að garðyrkjufólk Flúða eigi að taka sig saman um markað fyrir ferðamenn. Þar sem daglega má fá nýupptekið grænmeti dagsins og jafnvel jarðarber staðarins. Og auðvitað á að merkja hverja vöru framleiðandanum. Það er bissness að monta sig ögn.

Lögreglan er óhæf

Punktar

Lögregla ríkis og Reykjavíkur er óhæf til að gæta öryggis almennings. Hún vaknar bara til lífsins, þegar góðmenni á borð við Falung Gong koma til landsins. Hún getur ofsótt pólitíska mótmælendur. Svo er það búið. Hún þorir ekki út úr bílunum, þegar dóp- og áfengisóðir menn vaða gargandi um göturnar. Lögreglustjórinn í Reykjavík talar digurbarkalega um “zero tolerance”. Svo er það búið. Miðbærinn í Reykjavík er eini miðbær evrópskra höfuðborga, sem er undirlagður óðum skríl um nætur og morgna. Neyðarlínan anzar ekki einu sinni köllum þar. Því að löggan þorir ekki á svæðið.

Ekkert er marktækt

Punktar

Hefðbundin fjölmiðlun byggist á trausti. Þótt fólk vantreysti almennt fjölmiðlum meira en þeir eiga skilið, er sambúð fjölmiðla og notenda í föstum skorðum. Ekkert slíkt traust fylgir né getur fylgt nýjum fjölmiðlum, til dæmis bloggi. Í gamla daga treysti fólk að minnsta kosti ljósmyndum, en nú hefur Photoshop gert myndfalsanir hversdagslegar. Klippingar á vefnum fara rangt með upprunaskjalið. Spjallrásir, SMS og vefspuni er notað til að koma rangfærslum á flug. Nafnelysingjar ríða húsum. Enginn veit lengur, hver talar, né hvers vegna. Ekkert er marktækt. Traust er hverfandi.

Glerbrot sóðanna eru verst

Punktar

Verst eru glerbrot drukknu sóðanna. Plastdósir og málmdósir má tína upp, en glerið sprengja ölraftarnir, þegar þeir grýtta bjórnum í götuna. Þetta sé ég á hverjum degi, þegar ég fer gönguleiðina um Snoppu og Suðurnes á Seljarnarnesi. Aldrei verður hægt að ná brotunum upp, ekki einu sinni með ryksugu. Raunar er fráleitt að leyfa sölu á bjór og gosi í glerflöskum. Við búum í samfélagi, þar sem fjölmennur minnihluti er ekki húsum hæfur. Þar sem uppeldi í heimahúsum hefur týnzt og þar sem skólar hafa bara áhuga á að skemmta nemendum. Við þær aðstæður má ekki sleppa gleri í hendur fólks.

Fáar girðingar duga

Punktar

Sauðfé er annað hvort talið vera í afgirtum heimalöndum eða á afréttum ofan afgirtra byggða. Svo er ekki, það vill vera á Kaldbak. Í því skyni stekkur það tvo metra yfir vegarist eða syndir yfir Stóru-Laxá. Eða læðist yfir ógirt landsvæði í eigu ríkisvaldsins, til dæmis Hrunaheiðar. Ríkið girðir ekki land, sem það eignast með kröfuhörku í þjóðlendu-málaferlum, telur eignarhald sitt vera án ábyrgðar. Ég er sammála Herdísi Þorvaldsdóttur leikkonu um, að sauðfé eigi að vera afgirt. Frekar en að umheimur sauðfjár þurfi að vera afgirtur fyrir því. En fáar girðingar duga gegn sauðfé.

Terrorismi sauðfjár

Punktar

Ég reið í klukkustund meðfram landfriðunargirðingu milli Þeistareykja og Grjóta, suðaustan Lambafjalla. Hún er ný, sögð liggja til Sandvatns ofan Mývatns, 60 km leið. Þetta var fín girðing úr hönnuðum einangrunarstaurum og rafmagni í hverjum streng. Samt taldi ég jafnmargar kindur í hrauninu innan girðingar og utan. Eins og girðingin væri engin. Það segir mér, að girðingar séu út af fyrir sig engin lausn á landvernd gegn kindum. Þetta eru terroristar, sem láta ekkert standa í vegi fyrirætlana sinna. Ég tel, að upp sé risinn sauðfjárstofn, sem lætur engar girðingar hindra sig.

Þykjusta gegn sauðfé

Punktar

Sum landsvæði eru þekktari fyrir riðu en önnur. Hrunamannahreppur er eitt þeirra. Þaðan koma þriðja hvert ár fréttir um riðu. Ætla mætti, að reynt sé að hindra samgang sauðfjár á slíku svæði. Víða er þar að vísu vel girt, en sauðfé sleppur samt í gegn. Það stekkur yfir vegaristar eða syndir yfir ár. Eða er í eigu bænda, sem láta girðingar sínar grotna niður eða opna hliðin. Þetta er látið viðgangast og segir mér, að baráttan gegn riðu sé meira eða minna tilgangslítil. Kannski skipta girðingar litlu máli í vörnum gegn sjúkdómum. En þá eiga menn að viðurkenna það og ekki hafa þykjustuvarnir.

Feilað á fyrirmyndum

Punktar

Samfylkingin á Íslandi hefur taugar til flokks Tony Blair í Bretlandi. Sá flokkur hefur einkavætt suma innviði þjóðfélagsins, svo sem járnbrautir. Enda eru brezkar lestir verstar og sóðalegastar í Vestur-Evrópu. Með sparnaði hafa verið búnir til biðlistar á sjúkrahúsum. Það gildir jafnt um járnbrautarlestir og sjúkrahús, að staðan er mun betri á Norðurlöndum, í Þýzkalandi og einkum þó í Frakklandi. Miklu nær væri fyrir Samfylkinguna að sækja fyrirmyndir til slíkra landa, einkum hins vanmetna Frakklands. Eftir langvinna stjórn Tony Blair er einkavætt Bretland ekki til fyrirmyndar.

Hótelin í borginni

Ferðir

Hótel Loftleiðir fær lága einkunn á TripAdvisor. Herbergin sögð gömul og léleg, maturinn í veitingasalnum óætur. Verri umsögn fá sum lítil hótel. Eigandi Hotel Atlantis á Grensásvegi sagður ruddalegur í orðbragði og umgengni, húsnæði í lamasessi, skelfileg lífsreynsla segir einn. Næstverst var sagt gistiheimilið Adam á Skólavörðustíg. Eigandinn sagður hræðilegur, með gistingu í útikofa, hafi aðeins áhuga á að hrifsa peninga. Einn sagði það versta hótel ævi sinnar. Turninn TopCityLine Grand í Sigtúni fékk langversta einkunn, skelfilega lýsingu á framkvæmdum, sóðaskap og vanhæfni.

Grétu sig í svefn

Ferðir

Á TripAdvisor er skelfileg lýsing á hótelum á Íslandi, einnig utan borgar. Sögufrægt KEA á Akureyri fær þar á baukinn, herbergi sögð lítil og sóðaleg. Álitsgjafar TripAdvisor hafa líka slæma reynslu af Icelandair Flughotel í Keflavík. Fosshótel Laugar í Reykjavík er sagt vera verra en vítishola, gestirnir grétu sig í svefn. Fosshótel Húsavík er sagt vera þreytt. Hótel Látrabjarg í Örlygshöfn fær niðrandi ummæli fyrir okur og lélegan aðbúnað. Ferðamálaráð þarf að hafa frumkvæði í að koma slíkum upplýsingum áfram til viðkomandi aðila. Ófært er, að tugur hótela varpi skugga á landið allt.

Umbi lesenda

Punktar

Eitt atriði umfram önnur reynist auka traust notenda á fjölmiðlum. Það er umbinn, sem kominn er til sögunnar í bandarískum fjölmiðlum og raunar víðar. Umbi notenda flytur gegnsæi inn í heim fjölmiðlunar. Því eru margir fjölmiðlungar hræddir. Menn tregðast við að birta leiðréttingar og að birta þær allar á sama stað, á blaðsíðu tvö. Menn vilja ekkert samtal um gæði fjölmiðilsins. Vegna eigin smákónga tregðaðist New York Times lengi við, þótt Washington Post og Guardian hefðu greinilega grætt á umbanum. Nú er New York Times líka komið með umba. En enginn íslenzkur fjölmiðill enn.

Hata friðargæzluna

Punktar

Tveir af hverjum þremur Þjóðverjum hafna þáttöku ríkisins í friðargæzlu í Afganistan. Brezkur yfirmaður í hernámsliðinu hefur beðið bandarískar sérsveitir um að hætta aðild að aðgerðum á hans svæði. Sérsveitirnar hafa valdið miklu manntjóni óbreyttra borgara. Hann telur þær hindra Breta í að afla fylgis íbúanna við hernámsliðið. Fyrir löngu hefur framleiðsla eiturlyfja í landinu náð heimsmeti. Nánast allir Afganar hata hernámið og friðargæzluna, sem því fylgir, þar ná meðal hina íslenzku. Fyrir löngu er kominn tími til að hætta aðild Íslands að þessum stórglæp vesturlanda.

Umbinn er í stuði

Punktar

Umboðsmaður neytenda er kominn í fínt stuð, hættur að vera Framsókn. Fyrst setti hann hornin í “fittið”. Það er sjálftekt bankanna á löggjafar- og dómsvaldi og stuldur þeirra á fé almennings og ríkisvaldsins. Strax á eftir kom næsta skot. Hann kvartaði um seðilgjöld, sem ýmis einokunarfyrirtæki leggja á reikninga. Að frumkvæði hans eru þessi gjöld núna til skoðunar í viðskiptaráðuneytinu. Kannski setur hann hornin víðar í einokunina, sem einkennir íslenzkan okurbúskap. Kominn er til sögunnar í kerfinu aðili, sem neitar að fallast á ýmsar tegundir af okri íslenzkrar einokunar.