Öðuskel sægreifans

Veitingar

Fór í hádeginu í gær til Kjartans sægreifa að borða öðuskel og rífast um hval. Kafarar höfðu veitt skelina, líklega í Hvalfirði. Stór og þykk skel með risastórri hlussu í matinn. Matreidd eins og kræklingur, þurrsoðin á hellu unz til hún opnaðist. Með henni var ekkert nema sítróna. Þetta var bragðmikill skelfiskur, töluvert ólíkur bragðdaufri öðuskel, sem ég fékk á Þórshöfn um daginn. Sægreifinn býður stundum óvenjulegt úr sjó og vötnum. Þekktastur er állinn, sem Kjartan reykir sjálfir. Nauðsynlegt er að hafa sægreifa í matargerðarlistinni í landinu. Næst fæ ég kuðunga hjá honum.

Stífa efri vörin

Punktar

Þegar ég var ungur, þótti brýnt að láta ekki sjá á sér vín. Menn urðu sérfróðir í að verða fullir með stífa efri vör. Grunnur þessarar speki var, að ölæði þótti lélegt athæfi. Nú er öldin önnur. Skrílmenni sýna ölæði og hrósa sér af. Þetta er munur áranna 1957 og 2007. Almenningsálitið hefur snúizt á sveif með þeim, sem slefa í eyrun á þér á kaffihúsum. Og þeim sem svæla þig með tóbaki út þaðan. Nú hefur verið tekið á tóbaksofbeldinu, en ölæðisofbeldið er óleystur vandi. Láta ber fólk finna fyrir, að sýnilegt ölæði sé brot á lögum og góðum siðum. Ölæðisfólk sé bara ekki húsum hæft.

Fáránleg tóbakskenning

Punktar

Hástig fáránleikans er, að tóbaksbanni er kennt um sóðaskap og hávaðasamt ofbeldi í miðbænum. Ef slíkt hefur aukizt eftir tóbaksbannið, er ekki því um að kenna, heldur þeim, sem reykja. Þeir, sem reykja fyrir utan búllur, valda sóðaskap og hávaða. Þeir eru vandamálið og þeirra tóbak. Bannið er ekki vandamálið, það er sjálfsögð heilbrigðisaðgerð. Bannið reykir ekki og sukkar ekki. Nú þarf að taka á þessum tóbaksruddum. Þeir hafa ekki aðeins magnað miðbæjarvandann. Þeir reyna líka að kenna öllu öðru en sjálfum sér um vandræðin. Sem hljótast þó greinilega af þeirra eigin tóbaki og sukki.

Kolaportinu lokað

Punktar

Hægri borgarstjórnin er orðin verri en vinstri borgarstjórnin var. Nú á að loka borgarmarkaðinum Kolaportinu, helzta aðdráttarfli Reykjavíkur. Ekki í hálfa aðra viku, heldur í hálft annað ár. Ég hef ekki séð frétt um, að neitt eigi að koma í staðinn í eitt og hálft ár. Bara er talað um, að plássið verði minna og lélegra, þegar það verður opnað að nýju. “Gamli, góði Villi” hefur ruglazt í volga bjórnum. Hann ætlar að drepa helzta sameiningartákn borgaranna. Vondur var Reykjavíkurlistinn, en hann hefði samt aldrei lokað Kolaportinu. Þetta er ný firring í fílabeinsturninum.

Ekki verri en aðrir

Punktar

“Ég er ekki verri en hver annar.” Þetta gætu verið pólitísk einkunnarorð Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Hann ver afskipti sín af Grímseyjarferju með því að segja millifærslur fjárveitinga vera algengar. Ríkisendurskoðun telur þær hins vegar siðlausar. Þetta er sami ráðherra og gaf Landsvirkjun vatnsréttindi í Þjórsá í skjóli myrkurs þremur dögum fyrir kosningar. Með stuðningi formanns og varaformanns Framsóknar. Þá auglýstu ráðherrar gerðir sínar á daginn til að berja sér á brjóst. En þögðu yfir þessari ráðstöfun. Skyldi gagnast Árna lengi að segjast ekki vera verri en hver annar krimmi?

Þjóðleg iðja stöðvast

Punktar

Einar K. Guðfinsson sjávarútvegsráðherra hefur gefið út yfirlýsingu um, að hvalveiðum Íslendinga sé lokið. Ekkert hefur selzt af hvalkjöti og því er veiðunum sjálfhætt. Þetta sagði ég áður en hvalveiðar hófust að nýju. Nú hefur ráðherrann séð ljósið, síðastur manna. Hvalveiðar eru bara hugsjón auðugs sérvitrings, sem erfði nokkra hvalabáta. Bátarnir hafa lengi verið að grotna niður í Reykjavíkurhöfn. Þrjózka erfingjans og hvalveiðisöngur Helga Björnssonar hafa of lengi talið fólki trú um, að líkið væri lifandi. Þótt þjóðlegt sé talið að skjóta hvali, sögðu markaðslögmál stopp.

Skurðir og skógar

Punktar

Ég vil láta loka skurðum til að endurheimta votlendi. Mýrar eru vörn gegn landeyðingu. En stríð gegn skurðum kemur ekki í stað skógræktar á öðrum stöðum í landinu. Tré skjóta rótum, sem verjast uppblæstri. Við þurfum að gróðursetja tré sem víðast, þótt önnur landgræðsla sé líka góð. Við skulum ekki detta í skotgrafir með og móti skurðum, með og móti trjám, með og móti grasi. Við skulum styðja allt þetta, að minnsta kosti upp í 400 metra hæð. Sumir vilja svarta landvernd á hálendinu. En mér finnst eðlilegt að reyna að efla gróðurþekjuna einnig þar. Til samræmis við stöðuna við landnám.

Landnám aspa

Punktar

Við eigum ekki að vera andvíg öspum, bara gróðursetja þær ekki of nálægt húsum. Aspir standa sig vel og skjóta sterkum rótum, sem geta skaðað mannvirki. Þótt þær séu ekki upprunalegar í náttúrunni, eru þær hliðstæðar og svipaðar upprunalegum trjátegundum landsins. Gaman er sjá dugnaðinn í öspum, sem láta ekki veður og vinda buga sig, heldur rísa þráðbeint, hratt. Mun hraðar en aðrar trjátegundir. Við þurfum á öllu þessu að halda, trjám, runnum og lyngkvisti. Beztur er sjálfsprottinn kvistur á vernduðu svæði. En við skulum ekki lasta nýja laufviðartegund, sem spjarar sig sjálf.

Frekjudallar á ferð

Punktar

Íslendingar láta ekki lengur fara lítið fyrir frekju sinni. Blindfull og orðljót ökukona kærir lögguna á Selfossi fyrir árás. Reykingamenn kvarta um, að glerbrot og annað svínarí hafi aukizt um allan helming við barina. Dettur þeim ekki í hug að líta í eigin barm? Nemendur í Verzló fara í blöðin og kvarta um, að þeim var meinað að rústa hótel við Svartahafið. Vandamálafræðingar sífra um, að ófært sé að meina ólátabelgjum og tossum skólavist. Samt koma þeir í veg fyrir, að hinir fái notað skólavistar. Það furðulega er, að fjölmiðlar taka undir stjórnlaust rugl frekjudalla.

Áróður torfæruhjóla

Punktar

Kastljós og aðrir fjölmiðlar taka þessa dagana þátt í áróðursherferð fyrir torfæruhjólum. Hvergi er minnst á vandræði, sem stafa af hjólunum. Mörg þeirra eru ótryggð, utan laga og réttar. Þau hafa líka valdið varanlegum spjöllum á fögru landslagi. Fyrir mér eru notendur torfæruhjóla óvættir í landinu. Þeirra vegna hafa landeigendur víða gripið til þess ráðs að læsa vegum. Fjölmiðlar hafa undanfarið hossað eigendum torfæruhjóla án þess að minnast einu orði á vel þekktar skuggahliðar þeirra. Mér er torskilið, hvernig hægt er að starfa við fjölmiðla án nokkurs faglegs metnaðar.

Ónothæfir frambjóðendur

Punktar

Einn af frambjóðendum í prófkjörum bandarísku flokkanna vill halda áfram stríðsstefnu. Það er svertinginn Barack Obama, sem reynir að slá við George W. Bush forseta. Obama telur koma til greina að ráðast á Íran. Samt eru Bandaríkin lömuð í utanríkismálum vegna stríðs gegn Afganistan og Írak og hernáms þeirra. Obama hefur ítrekað þessa skoðun sína, þótt hann eigi að heita frambjóðandi í flokki demókrata. Áður hefur komið fram, að Hilary Clinton hefur til skamms tíma stutt stríðsstefnu ríkisstjórnarinnar. Líklega er John Edwards eini nothæfi demókratinn. Fyrir utan Al Gore.

Fjölmiðlafræðin

Fjölmiðlun

Mér sýnist við Guðbjörg Kolbeins vera í stórum dráttum sammála um mismun á kennslu í blaðamennsku og í fjölmiðlafræði. Á heimasíðunni kolbeins.blog.is ræðir hún fyrri skrif mín um þennan mun. Hún fer rækilegar í sakirnar á ýmsum sviðum og ég get tekið undir það flest. Setja verður skörp skil milli náms í blaðamennsku, sem er hagnýtt nám, og fjölmiðlafræðinnar. Of margir leggja stund á fjölmiðlafræði og telja sig vera að læra blaðamennsku. Svo er ekki. Ég legg áherzlu á, að hagnýt blaðamennska er betur kennd af fagmönnum í greininni fremur en af fræðingum án langvinnrar starfsreynslu.

Þjónn misréttis

Punktar

Jóhanna Sigurðardóttir ráðherra er farin að tapa sér. Hún lætur ráðuneytið ljúga að sér, að sveitarfélögum henti ekki aðild að fjármagnstekjuskatti. Ef það væri rétt, hentar sveitarfélögum ekki heldur útsvar, sem er aðild að launatekjuskatti. Kenningin um vanhæfni fjármagnstekjuskatts er bara notuð til að vernda of lága prósentu hans. Hún er aldrei notuð til að taka útsvar af sveitarfélögum og hækka fasteignagjöld á móti. Kenningin er bara þáttur í viðleitni vel stæðra til að borga mun lægri tekjuprósentu en almenningur. Jóhanna er orðin að þjóni misréttis og stéttaskiptingar í þjóðfélaginu.

Ögrun fallistaríkis

Punktar

Í fyrsta skipti eftir fall Sovétríkjanna hefur Rússland sent langdrægar sprengjuþotur út á Atlantshaf. Það er liður í ögrunarstefnu Vladimír Pútín forseta, sem vill sýna heiminum herstyrk ríkisins. Hann telur fólk þurfa að muna eftir, að Rússland sé heimsveldi. Áhrifin verða þó önnur. Fólk telur Rússland stefna í átt til ábyrgðarleysis og dólgsháttar í alþjóðlegum samskiptum. Um leið og það stefnir frá lýðræði í átt til gerræðis að hætti Sovétríkjanna. Rússland er fallistaríki, þar sem ævilíkur borgaranna eru að hætti þriðja heimsins og fara lækkandi. Sprengjuþotur lækna það ekki.

Geðveikrahæli endurreist

Punktar

Geðveikrahæli Sovétríkjanna hafa verið endurreist. Vladimír Pútín er farinn að senda pólitíska andstæðinga á geðveikrahæli. Larisa Arap var nýlega látin laus að tilhlutan Vladimir Lukín, umba mannréttinda. Hún hafði verið sett á vitfirringahæli fyrir að koma upp um vinnubrögð hælisins. Þar var hún pynduð með lyfjum og sprautum. Hún hefur kært meðferðina, en á lítinn séns, því að dómstólar styðja fasisma ríkisvaldsins. En hún getur sagt frá meðferðinni. Á hælinu er fullt af heilbrigðum stjórnarandstæðingum, sem ofbeldismaðurinn Pútín forseti reynir í gerræði að láta gera geðveika.