Þingmenn lyfta fakír

Punktar

Nokkrir íslenzkir þingmenn eru sagðir styðja, að fakírnum Sri Chinmoy verði veitt friðarverðlaun Nóbels. Eru þar nefndir tveir fyrrverandi þingmenn, Halldór Blöndal og Hjálmar Árnason. Fleiri hafa ekki verið nefndir, svo ég viti. Kannski eru þessu bara logið upp á bjánana. Fakírinn er hér á landi þekktastur fyrir að lyfta Steingrími Hermannssyni á Lækjartorgi. Hann er sagður hafa framið fleiri kraftaverk, svo sem að semja þúsund lög. Þar að auki sætir fakírinn nokkrum kærum fyrrverandi félaga í söfnuðinum. Það er fyrir að hafa nauðgað konum og neytt þær til fóstureyðinga (Sjá Wikipedia).

Dónaskapur rektors

Punktar

Á Íslandi og í Persíu er til siðs frá fornu fari að vera kurteis við gesti. Annað er uppi á teningnum í hrokafullum og siðlausum Bandaríkjunum. Þar bauð Lee C. Bollinger, rektor Columbia, Mahmúd Amadinejad, forseta Írans, í skólann að halda ræðu. Notaði síðan tækifærið til að hella óbótaskömmum yfir gestinn. Mótmælendur mega gera slíkt á götum úti, enda buðu þeir ekki forsetanum. En gestgjafinn sjálfur má ekki gera slíkt, það er óbærilegur dónaskapur. Og fráleitt er að meina Amadinejad að sjá staðinn, þar sem tvíburaturnarnir voru. Enginn getur sagt, að hann hafi verið þar að verki.

Viðurkennum Kosovo

Punktar

Evrópusambandið og Bandaríkin eru komin á fremsta hlunn með að viðurkenna Kosovo sem sjálfstætt ríki. Rússland hefur verið því andvígt og hindrað framgang málsins hjá Sameinuðu þjóðunum. Kosovo mun lýsa einhliða yfir sjálfstæði í desember og fá þá staðfestingu vesturveldanna. Eðlilegt er, að Ísland verði í þeim hópi. Við höfum alltaf stutt smáríki til sjálfstæðis, þegar þau hafa losnað undan hrammi nágrannaríkis. Vladimir Pútín nær ekki upp í nefið á sér. En Rússland er ekki lengur heimsveldi. Það er ruddalegt meðalríki með hagkerfi á stærð við Mexíkó eða New Jersey í Bandaríkjunum.

Götótt er velferðin

Punktar

Þótt fólk borgi skattana, getur það ekki búizt við tímanlegri og ókeypis heilsugæzlu. Sumt þurfa menn að borga að hluta eða að öllu leyti. Stundum þarf fólk að bíða of lengi og stundum ekki. Tannlækningar eru ekki greiddar nema fyrir suma. Tannréttingar eru greiddar að hluta. Flest lyf eru greidd að hluta og sum ekki. Göngusjúklingar þurfa að borga sumt, sem legusfólk þarf ekki að borga. Slys og sjúkdómar geta gert fólk gjaldþrota eða leitt til ótímabærs heilsutjóns eða dauða. Í okkar fátæka kerfi ræður tilviljun, hvort fólk nýtur velferðar í heilsugæzlunni eða býr í þriðja heims ríki.

Velur hvorki né hafnar

Punktar

Ríkiskerfið hefur ekki siðferðisstyrk til að skilgreina, hvað sé ókeypis í heilbrigðiskerfinu, niðurgreitt eða greiðist fullu verði. Það þykist reka fulla velferð, en gerir það samt ekki. Það hefur ekki hugmynd um, hvernig eigi að velja og hafna sjúkdómum, lyfjum, uppskurðum. Það veit ekki, hvort tannskemmdir eða lýti séu sjúkdómar. Neitar að sjá, hvar réttlátt sé að hafa biðlista. Það stendur á gati gagnvart nýjum okurlyfjum. Það klórar sér í hausnum, þegar nefnt er, að göngufólk borgar meira en legufólk. Ríkið forðast að taka siðferðislegar og pólitískar ákvarðanir um stöðu velferðar.

Fyrirmyndir eru erlendis

Punktar

Bandaríkjamenn hafa dýrt heilbrigðiskerfi fyrir fáa útvalda. Bretar leysa vandann með skítugum spítölum og óralöngum biðlistum. Svíar, Þjóðverjar og Frakkar reyna að hafa fínt heilbrigðiskerfi fyrir alla. Þetta vita þeir, sem hafa orðið veikir í útlöndum. Þeir vita, að það jafngildir himnaríki að veikjast í Frakklandi, en helvíti í Bretlandi eða Bandaríkjunum. Ísland rambar millileið í velferðinni. Við þykjumst reka sænskt-franskt-þýzkt kerfi. En höfum þó ívaf af brezkri skömmtun og bandarískri mismunun. Um svona atriði á pólitík að snúast. Í staðinn þegja aumingjar málin í hel.

Eitraður biti bandalags

Punktar

Framkvæmdastjóri Nató, De Hoop Scheffer, rífur hár sitt í örvæntingu. Ríkisstjórnir þess vilja hvorki láta hann hafa aura né dáta. Hann ferðast um Evrópu án árangurs. Jafnvel til Íslands. Vandinn er, að evrópskir kjósendur kæra sig ekki um að senda unga fólkið í stríð gegn Afganistan. Ekki heldur til annarra þeirra ríkja, sem stofuhaukarnir í Bandaríkjunum vilja sprengja hverju sinni. Ráðagerðir bandalagsins um hraðvirkar bardagasveitir í fjarlægum heimsálfum hafa farið út um þúfur. Nató gleypti eitraðan bita með því að senda 40.000 dáta til fjarlægs Afganistans.

Háskóla á Kaldbak takk

Punktar

Íslendingar eru sagðir mælast hátt í fjölþjóðlegum samanburði nemendafjölda í háskólum. Mælingin tekur ekki tillit til gæða námsins. Nú eru oddvitar farnir að dreyma um háskóla í hverjum hreppi. Nýjasta hugmyndin er um háskóla á Sólheimum í Grímsnesi. Við höfum fengið doktora í reiðmennsku og fáum bráðum lektora í hreinsitækni. Fyrir nokkrum árum gerðu menn grín að Háskóla Íslands og kölluðu hann súpergaggó. Sjálfur veit ég dæmi þess, að heil námsgrein skólans sé rakið rugl. Enn meira verður hægt að grínast með háskóla, sem reistir verða á Ísafirði, á Grímsstöðum á Fjöllum, á Kaldbak.

Torfæruhjól eru galin

Punktar

Það er galið, að kerfið skuli vera að gamna sér við að selja ódýrara benzín á torfæruhjól. Galið, að slík hjól skuli sum vera flutt til landsins án þess að vera skráð. Að þau skuli sum vera ótryggð fyrir slysum, sem þau valda. Að þau skuli hafa sérstaka aðstöðu ofan við vatnsverndarsvæðið í Heiðmörk. Að menn tala um, að ríkið skuldi torfærufólki aðstöðu. Að þau skuli fá að sjást, þegar jörðin er blaut, til dæmis þegar frost fer úr jörð. Að þau skuli mega spilla slóðum á hálendi. Þau megi spæna göngu- og reiðleiðir upp í öldur. Það er galið, að hjólin skuli yfirleitt vera til.

Síðasti móhíkaninn

Veitingar

Síðasti móhíkaninn hefur gefizt upp. Tour d’Argent, fínasta veitingahús veraldar, hætti að bjóða klassíska franska eldhúsið. Í gullturninum við hlið Notre Dame í París, handan Signu, er komið nýfranskt eldhús. Áfram verður þó hægt að fá “blóðönd” og “fiskibollur”. Hér er sagt, að gaffallinn hafi verið fundinn upp fyrir rúmum fjórum öldum. Enn er þar einn dýrasti vínkjallari heims. Claude Terrail safnaði honum, rak húsið í sextíu ár, er nýlátinn. Sonur hans, André Terrail hyggst bylta eldhúsinu. Ég efast um, að hann geti selt nýfrönsku hugmyndina. Hún er þegar orðin þrjátíu ára gömul.

Menn eru að uppgötva Maó

Punktar

Ég hef bara hitt einn mann, sem hrósaði Maó formanni. Hann tók upp á því fyrir 30 árum til að hafa eitthvað um að tala í fjölskylduboðum. Mér kemur á óvart, ef umræða er í samfélaginu um, að Maó hafi ekki verið alls varnað. Mér sýnist allir, sem ég tala við, telja hann hafa verið hinn versta skúrk, í flokki með Hitler og Stalín. Þeir vissu þetta fyrir mörgum áratugum. Ég þekki fullt af vinstri mönnum. Enginn þeirra hefur nokkru sinni borið blak af formanninum. Annað hvort eru menn að stríða Agli, ef þeir hrósa Maó. Eða þeir telja það fela í sér óbeina gagnrýni á terrorista nútímans, Bush.

Stóðhestur flúði merarnar

Punktar

Á nokkurra ára fresti fréttist af vanfóðruðum stóðhestum. Sumir gæzlumenn þeirra virðast telja, að þeir hafi það svo fínt, að þeir þurfi ekki að éta. Einn frægasti stóðhestur sögunnar, Höfða-Gustur, var kenndur við bæ, þar sem dýraníð var kallað “sjálfbær landbúnaður”. Hann kom einu sinni illa haldinn í girðingu á Suðurlandi. Landsliðseinvaldurinn tók þar á móti honum. Sagði hann hafa verið svo örmagna, að hann hafi ælt, þegar hann sá merarnar og síðan flúið undan þeim yfir girðingar. Höfði lenti svo með réttu í klóm sýslumanns og dýralækna, sem vildu bjarga “sjálfbærum” dýrum.

Vandinn fluttur til

Punktar

Af öllum hugmyndum miðbæjarvandans er sízt sú hugmynd lögreglustjórans að færa hann til úthverfanna. Vandinn færist bara til, eyðist ekki. Þegar er vandi víða í úthverfum, til dæmis við opnar verzlanir á nóttunni um helgar. Kaffistofur og krár eiga að vera í miðbænum. En eiga ekki að vera opnar fram á morgun, það er afbrigðilegt. Erlendis er slíkum stöðum lokað um miðnætti. Annað er með næturklúbba. Þeir eiga að vera í hljóðheldu húsnæði og án útivistar við dyr. Þeir eiga að vera í iðnaðarhverfum. Órói um nætur á hvergi að vera innan um íbúðir. Hvorki í miðbænum né í úthverfunum.

Niður með yfsilon

Fjölmiðlun

Enska er að ryðjast inn á íslenzkan markað í kjölfar hnattvæðingar. Það stafar af leti hinna hnattvæddu. Þeir lærðu upp á amerísku og vita ekki, að íslenzka er lipur. Hún hefur nútímalega setningafræði, svipaðra enskri. Hún á gott með að innbyrða nýyrði, sem ekki eru slettur. Undarlegar beygingar eru ekki fleiri eða skrítnari í íslenzku en í ensku. Ekkert bendir til, að íslenzka sé úrelt tungumál eða vanhæft í fjármálum og tækni. Ritmálið er hins vegar erfitt í skólum. Ef bókstafurinn yfislon væri afskaffaður, mundi vera auðveldara að læra íslenzku. Það væri gott innlegg í varnarstríðið.

Nokkrir nothæfir

Veitingar

Hádegisverðarstaðir hafa ekki mikið svigrúm í verðlagi. Múlakaffi er ágæt sjálfsafgreiðsla, selur mat á 1300 krónur. Fyrsta flokks staður matgæðinga, Humarhúsið, selur hann á 2000 krónur. Bara Kínahúsið fer niður úr skalanum með 950 króna hádegismat. Á bilinu eru svo nothæfir, Tilveran í Hafnarfirði á 1500 krónur, Laugaás á 1700 krónur og Þrír frakkar hjá Úlfari á 1800 krónur. Þetta eru bara fimm staðir á öllu höfuðborgarsvæðínu. Restin er ýmist vanhæf eða sprengir upp verðskalann. Sumir staðir eru fyrir túrista, sumir þvo peninga, sumir þykjast cool og aðrir eru bara. Í tilgangsleysi.