Dónaskapur rektors

Punktar

Á Íslandi og í Persíu er til siðs frá fornu fari að vera kurteis við gesti. Annað er uppi á teningnum í hrokafullum og siðlausum Bandaríkjunum. Þar bauð Lee C. Bollinger, rektor Columbia, Mahmúd Amadinejad, forseta Írans, í skólann að halda ræðu. Notaði síðan tækifærið til að hella óbótaskömmum yfir gestinn. Mótmælendur mega gera slíkt á götum úti, enda buðu þeir ekki forsetanum. En gestgjafinn sjálfur má ekki gera slíkt, það er óbærilegur dónaskapur. Og fráleitt er að meina Amadinejad að sjá staðinn, þar sem tvíburaturnarnir voru. Enginn getur sagt, að hann hafi verið þar að verki.