Stórblöðin eru marklaus

Fjölmiðlun

Ég er orðinn gáttaður á stórblöðum Bandaríkjanna. Þau fela fyrir þjóðinni, að George W. Bush skandaliseraði fyrir framan fulltrúa efnahagsvelda heims. Sendimenn Kína og Indlands fussuðu eins og sendimenn Evrópu, þegar fundinum lauk. Maðurinn er fífl, sögðu menn. Bush boðaði til fundarins til að draga athyglina frá umhverfisumræðu Sameinuðu þjóðanna. Það tókst ekki. Allir fulltrúarnir sögðu marklaust að setja umhverfisreglur án markmiða. Eins og hraðatakmarkanir án viðurlaga. Um þetta fjölluðu evrópsk stórblöð í gær. En New York Times og Washington Post reyna að fela hörð viðbrögð umheimsins.

Auðræðið er komið

Punktar

Næsta stig á eftir lýðræði er auðræði. Það er þegar komið til skjalanna í Bandaríkjunum. Þar kemst enginn maður á þing, nema fyrir gjafafé stórra fyrirtækja. Hver einasti þingmaður er skuldbundinn auðugum hagsmunum. Og allir forsetar landsins eru enn háðari. Öll lagasetning í Bandaríkjunum er miðuð við hagsmuni stórfyrirtækja og auðmanna. Þess vegna er velferðin að brotna niður í landinu. Stjórnarstefnan miðast við hagsmuni bandarískra fyrirtækja í hnattvæðingu. Þess vegna er ráðist á lönd í þriðja heiminum, Afganistan, Írak og næst Íran. Og auðræðið sækir víðar fram um heiminn.

Sarkó slær Bush við

Punktar

Frakkar hafa fengið sinn Bush. Nicolas Sarkozy forseti hefur stjórnlausa óskhyggju að hagstefnu. Neitar að mæta heimatilbúnum efnahagsvanda. Hann kennir Seðlabanka Evrópu um hann. Og bankastjóranum Jean-Claude Trichet, sem er franskur. Sarkozy neitar að spara útgjöld ríkisins og lækkar þar á ofan skatta. Það er dæmigerður Bush. Frakkinn heimtar þar á ofan lækkun forvaxta, sem Bush hefur ekki heimtað. Francois Fillon forsætisráðherra viðurkenndi fyrir viku, að Frakkland rambi á barmi gjaldþrots. Hinn nýi forseti Frakklands hefur reynzt vera sjónhverfingamaður og lýðskrumari.

Skakkur gerandi Davíðs

Punktar

Í Mogganum í gær skrifar Davíð Logi Sigurðsson um blogg Egils Helgasonar og mitt um fund Amadinejad í Columbia-háskóla. Hann telur skrif okkar sýna, að forseta Írans hafi tekist vel upp í áróðursstríðinu. Það er skökk rökfræði Davíðs. Ekki var það Amadinejad, sem ákvað, að Lee C. Bollinger rektor yrði með dónaskap á fundinum. Það var rektorinn sjálfur. Hann flutti dónaskapinn áður en gesturinn byrjaði að tala. Við Egill vorum að gagnrýna gestgjafann, ekki að taka þátt í áróðursstríði stórvelda. Forsetinn er varla svo klár, að hann hafi fyrirfram spáð dónaskapnum. Og þannig spilað á íslenzkt blogg.

Fréttir finna farveg

Fjölmiðlun

Herstjórnin í Burma gengur lengst allra harðstjóra í að skerða notkun á internetinu. Henni líkar illa að geta ekki stjórnað fréttum af mótmælum. Fréttir og myndir hafa jafnóðum lekið út, um myndsíma og net óbreyttra borgara. Við vitum, hvaða amerískur ferðamaður særðist og hvaða japanskur blaðamaður var myrtur. Í fyrradag var farsímakerfum landsins lokað til að hindra slíkar fréttir. Allt kom fyrir ekki. Fólk notar gervihnattasíma til að flytja fréttir, þegar hefðbundnir fjölmiðlar eru frystir. Tæknin er orðin slík, að engir valdhafar geta lengur hindrað fréttir af harðstjórn.

Fleiri styðja fakírinn

Punktar

Halldór Blöndal segir í Mogganum, að fleiri en hann og Hjálmar Árnason styðji friðarverðlaun fakírs. Hann segir nokkra íslenzka þingmenn hafa sent nóbelsnefndinni tilnefningu. Sjálfir eru Halldór og Hjálmar hættir á þingi. Huldumennirnir vilja, að indverski fakírinn Sri Chinmoy fái friðarverðlaun Nóbels. Þingmenn, sem styðja verðlaun handa umdeildum fakír eiga ekki að fela sig. Við eigum að fá að vita, hverjir sendu tilnefninguna aðrir en Halldór og Hjálmar. Fakírinn er frægur peningaplokkari, sem lifir á trúgirni. Hann hefur víða lyft fólki, til dæmis Steingrími Hermannssyni.

Glæpasaga hnattvæðingar

Punktar

Út var að koma bókin “A Game As Old As Empire”. Hún segir frá glæpaverkum hnattvæðingarinnar. Fyrrverandi starfsmenn fjölþjóðabanka, öryggissveita og fjölþjóðasamtaka segja þar reynslu sína. Hún er gefin út í framhaldi af “Confessions of an Economic Hit Man” eftir John Perkins. Höfundarnir segja skelfilega sögu af stríðum, morðum og efnahagsofbeldi á vegum Halliburton, Shell, Bechtel og annarra risafyrirtækja. Á vegum Heimsviðskiptastofnunar, Alþjóðabankans, og annarra merkisbera hnattvæðingar. Á vegum Bretlands og Bandaríkjanna. Olíuránið í Írak er blóðugasti glæpur hnattvæðingarinnar.

Þjóðamorð Alþjóðabankans

Punktar

Þjóðarmorðið í Rúanda var framið á vegum vestrænna ríkja og fyrirtækja, sem vildu komast yfir sjaldgæfa málma í Kongó. Hernám Íraks er framið á vegum Bandaríkjanna, sem vilja komast yfir olíulindir svæðisins. Það hefur Alan Greenspan játað, fyrrverandi Seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Shell hefur staðið fyrir fjöldamorðum til að komast yfir olíuna í Nígeríu. Öll ríki, sem hafa farið að fyrirmælum Alþjóðabankans um hnattvæðingu, hafa tapað á því. Kína, Indland og Malasía neituðu afskiptum og græddu ofsalega. Nú eru að koma út bækur, sem kortleggja ofbeldi vesturlanda í þriðja heininum.

Vesturlönd eru vandinn

Punktar

Vandi mannkyns núna er ekki al Kaída, Afganar eða Írakar. Í framtíðinni verða Rússland og Kína vandamál. En vandi dagsins í dag er skelfilegt ofbeldi vestrænna ríkisstjórna, stórfyrirtækja og stofnana í þriðja heiminum. Hún lýsir sér meðal annars í, að meirihluti peninga hnattvæðingar er illa fengið fé. Olíukarlinn George W. Bush forseti og Bechtel-stjórinn Dick Cheney varaforseti eru persónugervingar hinnar vestrænu græðgi. Þeir og þeirra líkar hafa magnað réttláta reiði fátækra þjóða. Vesturlönd munu lengi verða að líða fyrir að hafa rústað þriðja heiminum með hnattvæðingu.

Verra en ríkið

Punktar

Auðvelt er að hefja viðskipti við Vodafone, engin fyrirhöfn. Annað er að losna úr viðskiptum við það. Þá finna starfsmenn fyrirtækisins alls konar meinbugi á slíku. Þeir halda áfram að senda reikninga. Vodafone selur fólki netsímasamband án fyrirvara um tölvustýrikerfi. Svo kemur í ljós, að forrit Vodafone er lélegt og passar ekki við algengt stýrikerfi. Þá ber auðvitað að slíta viðskiptunum. En Vodafone þrjóskast við og setur í gang hverja hindrunina á fætur annarri. Notandinn virðist eiga að koma til Íslands til að losna úr þrælahaldinu. Vodafone er verra en ríkiseinokun. Passið ykkur.

Himnaríki Humarhússins

Veitingar

Eitt allra bezta veitingahúsið býður hádegisverð á 2000 krónur. Humarhúsið var í gær með mjúka gulrótarsúpu og bezta saltfisk landsins fyrir lægra verð en Fish & Chips í Tryggvagötu. Saltfiskurinn var hæfilega útvatnaður og bragðmildur, borinn fram með mjúkum humri, gulrótarsósu, hörpufiski og laxahrognum. Þjónustan var fullkomin, enda langskólagengin. Húsnæðið er eins notalegt og það getur verið. Humarhúsið er mörgum gæðaflokkum ofar en önnur hús með hádegismat kringum 2000 krónur. Þannig er vörumerkjaöldin, verð og gæði á vöru og þjónustu eru tvennt ólíkt, hafa engan snertiflöt.

Löggan sökkar grimmt

Punktar

Löggan þorir ekki út að nóttu, en hefur tíma til að ofsækja þá, sem minna mega sín. Hún hefur beðið Útlendingastofnun um að vísa Miriam Margret Rose jarðfræðinema af landi brott. Sök hennar felst í að hafa tekið þátt í mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun. Ég hef lengi talið, að viðhorf fasisma ráði lögum og lofum hjá yfirmönnum löggunnar. Jarðfræðineminn er skýrt dæmi um firrta lífsýn þeirra. Þeim er ekki treystandi til að verja líf og limi borgaranna gegn ofbeldismönnum og handrukkurum. En löggan fer á fulla ferð, ef komið er við þandar fasismataugar yfirmannanna. Hún sökkar grimmt.

Fjandsamleg lýðræðinu

Punktar

Ég skil ekki, hvernig úrskurðarnefnd um upplýsingalög getur neitað Pétri Gunnarssyni blaðamanni um upplýsingar. Hann vill fá að vita, hvort forseti Íslands fór í einkaþotu milljarðamærings til Leeds. Það er sjálfsögð og eðlileg spurning. Texti íslenzku upplýsingalaganna er svipaður texta sólskinslaga ýmissa ríkja í Bandaríkjunum. En meðferð úrskurðarnefndar á beiðnum hefur frá upphafi verið fjandsamleg upplýsingum, fjandsamleg fjölmiðlun, fjandsamleg gegnsæi, fjandsamleg lýðræði. Í reynd hafa lögin ekki leitt til upplýsinga, heldur magnað kansellístefnu stjórnsýslunnar.

Ekki bara Súdan

Punktar

Við heyrum mikið um fjöldamorð og nauðganir í Súdan. Það stafar af, að þar eru múslimar að misþyrma kristnu fólki. Við heyrum minna um fjöldamorð og nauðganir annars staðar í Afríku. Samt eru blóðugar borgarastyrjaldir í flestum löndum milli Sahara og Suður-Afríku. Völdin girnast herstjórar með stuðningi vestrænna risafyrirtækja hnattvæðingar. Og harðstjórar verjast með stuðningi annarra slíkra fyrirtækja. Allt frá blóðbaðinu í Rúanda hefur eymd Mið-Afríku einkum stafað af græðgi og mútum og yfirgangi vestrænna fyrirtækja. Þau vilja komast yfir demanta og sjaldgæfa málma álfunnar.

Slöpp fjölmiðlun

Fjölmiðlun

Ég las í fjölmiðli, að vinstri grænir vilji ekki sambýli fyrir geðfatlaða. Nokkrum dögum síðar leiðrétti fjölmiðillinn sig og sagði, að vinstri grænir taki græn svæði fram yfir geðfatlaða. Hið rétta í málinu er, að vinstri grænir eru andvígir staðsetningu sambýlisins á grænu svæði. Það felur ekki í sér, að fólk taki græn svæði fram yfir sambýli. Skemmtilegt innskot kom svo í öðrum fjölmiðli. Þar segir borgarfulltrúi, að vinstri grænir hafi mislesið skipulagskort og haldið grátt svæði vera grænt. Ekki ætti að vera ofviða fjölmiðli að upplýsa, hvort sé. Fremur en að fara ítrekað með villu.