Herstjórnin í Burma gengur lengst allra harðstjóra í að skerða notkun á internetinu. Henni líkar illa að geta ekki stjórnað fréttum af mótmælum. Fréttir og myndir hafa jafnóðum lekið út, um myndsíma og net óbreyttra borgara. Við vitum, hvaða amerískur ferðamaður særðist og hvaða japanskur blaðamaður var myrtur. Í fyrradag var farsímakerfum landsins lokað til að hindra slíkar fréttir. Allt kom fyrir ekki. Fólk notar gervihnattasíma til að flytja fréttir, þegar hefðbundnir fjölmiðlar eru frystir. Tæknin er orðin slík, að engir valdhafar geta lengur hindrað fréttir af harðstjórn.