Fjórefld rangindi

Punktar

Fjórir meginstraumar brenglaðrar hugsunar sameinast í stuðningi við George W. Bush Bandaríkjaforseta. Þeir hafa magnað hver annan síðustu sjö ár og munu falla sameiginlega í kosningunum að ári. Einn hópinn mynda fylgjendur aukinnar stéttaskiptingar að hætti frjálshyggjunnar. Annan hópinn mynda trúarofstækismenn, sem telja heimsenda á næsta leiti. Þriðja hópinn mynda hrokafullir heimsvaldasinnar, sem vilja stöðugt stríð við tilbúna óvini í framhaldi af Írak. Fjórða hópinn mynda afneitunarsinnar, hafna viðvörunum um hraða mengun jarðarinnar. Þessi fjóreflda villa mun falla sameiginlega.

Afsökun Fukuyama

Punktar

Frægasti framtíðarfræðingurinn sagði fyrir tveimur áratugum, að sagnfræðin væri komin á leiðarenda. Francis Fukuyama skrifaði þá “End of History” um, að bandarísk viðhorf hefðu sigrað heiminn. Nú hefur hann snúið við blaðinu. Heimurinn er ekki á leiðarenda, því að George W. Bush hefur klúðrað verki. 1) “Framvirk” stríð að hætti forsetans ganga ekki upp. 2)Evrópa neitaði að sætta sig við bandarískt einræði. 3) Hefðbundin stríð duga ekki í þriðja heiminum. 4) “Nýja íhaldið” kann ekki til verka. Fukuyama spáði vitlaust sem forgöngumaður þeirrar stefnu. En hefur manndóm til að játa mistök sín.

Dýrt heilbrigðiskerfi

Punktar

Sicko varar Evrópu við að feta í bandarísk heilbrigðisspor. Svört kvikmynd Michael Moore um bandaríska spítala og tryggingar hefur vakið athygli. Þess vegna eru draumar nýja íhaldsins um einkavæðingu heilsugeirans á flótta í Evrópu. Samt gæla sumir enn við hana á Íslandi. Við sjáum í bíómyndinni, hvernig slíkt muni fara. Ekki þarf að sjá neina bíómynd til að átta sig á, að einkavæðingin verður mjög dýr. Bandarískt heilbrigðiskerfi er langdýrast í heimi miðað við íbúafjölda. Samt nær það ekki til tugmilljóna fólks. Það er utan kerfis. Það hefur ekki tryggingar eða hefur of lélegar tryggingar.

Tungumálið flýtur

Fjölmiðlun

Einu sinni var ágætt betra en gott. Nú er gott betra en ágætt. Merking orða breytist í tímans rás. Einu sinni var ljótt að vera krati og kommi. Síðar urðu menn stoltir af að kalla sig krata og komma. Vandamálafræðingar komu samt einn góðan veðurdag og vildu bannfæra orð vegna neikvæðrar merkingar. Svertingi getur verið hlutlaust orð í dag, en fordómaorð á morgun. Negri getur verið fordómaorð í dag, en verður hlutlaust orð á morgun. Vonlaust er að flýja undan tungumálinu. Það hefur lag á að koma að þér síðar úr öfugri átt. Bannfæringar félagslegs rétttrúnaðar eru dæmdar til að mistakast.

Vandamál á íslenzku

Fjölmiðlun

Vandamálasérfræðingurinn Hallfríður Þórarinsdóttir vill taka upp ensk orð í stað íslenzkra. Samkvæmt forsíðufrétt Fréttablaðsins á föstudaginn vill hún “integration” í stað “aðlögunar”. Þetta kann að vera rangt eftir haft, svo vitlaust er það. Það minnir á vandamálafélög, skírð erlendum skammstöfunum, svo að enginn móðgist. Út eru rekin orð á borð við eyðni og hvítblæði og krabbi, þykja of ruddaleg. Sýna á virðingu með því að taka upp erlend orð og skammstafanir. Það er angi af fjölmenningunni. Vandamálafræðingar eru komnir á hratt skrið. Kominn er tími til að stöðva vitleysuna úr þeim.

Viðkvæmir minnihlutar

Punktar

Enginn truflast, þegar ég ber saman guð almáttugan og Albert Guðmundsson. Engri ró er raskað, þótt ég efist um eingetnað Krists. Enginn fær flog, þótt ég kalli hvítt fólk bleikskinna eða grámyglur. Sumir minnihlutahópar eru hins vegar viðkvæmir fyrir orðavali. Múslimar láta skrípó af Múhameð spámanni æsa sig upp. Svertingjar ganga af göflunum út af orðunum negri og surtur. Fjölmenningarhyggja er komin í ógöngur, þegar menn skera upp herör gegn vali á orðum og myndum. Einfaldast til velfarnaðar og ánægju í lífinu er að gefa öðrum ekki færi á æsa sig upp. Minnihlutahópar eiga að læra það.

Smásala á bjór og víni

Punktar

Bjór, vín og brennivín eru ekki bara vara eins og brauð og fiskur. Þetta eru fíkniefni eins og tóbak, hættulegri en hass og krakk. Fjórðungur okkar þolir ekki bjór, vín og brennivín. Við lesum og heyrum um afleiðingarnar á hverjum degi. Samfélagið er sundurtætt af bjór, sem hefur breytt þjóðinni í dagdrykkjufólk. Nú er heimtuð einkavæðing á sölu bjórs, víns og brennivíns. Slíkt fellur að rétttrúaðri frjálshyggju. Hún á bara ekki við í þessu efni. Raunar þarf að samræma smásölu fíkniefna, hvort sem þau eru hvítvín eða hass, tóbak eða prozak. Bezt er að hafa allt á einum stað, í apótekinu.

Vill leyfa eiturlyf

Punktar

Einn af lögreglustjórum Bretlands vill leyfa eiturlyf. Richard Brunstrom í Norður-Wales segir tíma kominn til að afnema sjötíu ára gamalt bann. Það hafi aldrei virkað og núna verr en nokkru sinni. Hagkerfi eiturlyfjanna jafnast á við olíuhringina, segir hann. Telur bannið vera ósiðlegt, grafi undan lögum og rétti. Allt eru þetta þekkt rök. Miklu betra er að ríkið sjálft græði á eiturlyfjum og geti lagt hluta gróðans til meðferðar fíkla. Alveg eins og ríkið græðir nú á bjór og brennivíni. Brunstrom er frábær róttæklingur. Innleiddi hraðamyndavélar í Bretlandi fyrstur löggustjóra.

Ísland styður eitrið

Punktar

Hamid Karzai er forseti Afganistans. Bróðir hans, Amed Wali Karzai er einn helzti fíkniefnabarón landsins. Forsetinn er leppur hernáms Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins. Í skjóli þeirra hindrar hann, að lögum verði komið yfir bróðirinn. Framleiðsla eiturlyfja í Afganistan er nú orðin sú langmesta í heimi. En lá að mestu niðri á valdaskeiði talíbana. Nú hefur leppstjórnin í Kabúl hindrað áætlanir um að dreifa eitri úr flugvélum yfir eiturlyfjaakra. Ekki er amalegt fyrir Ísland að vera aðili að hernáminu. Sem stuðlar að stærsta þjóðfélagsvanda vesturlanda nú um stundir.

Bjánar í almannatengslum

Fjölmiðlun

Bezta slagorð síðustu áratuga er: “Toyota tákn um gæði”. Það stuðlar vel. Versta slagorð síðustu áratuga er “Ford nýtt tákn um gæði”. Það átti að vera viðbrögð við fyrra slagorðinu. Stuðlar ekki. Enn verra er, að Ford birti auglýsingu sína í formi kveðju til “strákanna á Toyota”. Ég held, að auglýsingar Ford á Íslandi séu í höndum bjána, sem ekki hafa vaxið upp úr fótbolta “strákanna”. Auglýsingar og almannatengsli eru því miður hér á landi í höndum fólks, sem skírir fyrirtæki “N1” og “A4”. Skírðu þau áður “Group”. Þar á undan “Lausnir”. Auglýsingastofa Fords heitir “Group”.

Clinton er leikhús

Punktar

Bandaríkjamenn öðlast ekki frelsi að nýju með því að kjósa Hillary Clinton sem forseta. Hún er einangruð í fílabeinsturni ráðgjafa. Alein frambjóðenda demókrata talar hún tæpast við blaðamenn. Meðan keppinautar hennar tala við blaðamenn oftar en einu sinni á dag, talar hún við þá á nokkurra mánaða fresti. Hún tregðast meira en aðrir frambjóðendur við að svara fyrirspurnum úr fundarsal. Larry Sabato prófessor í stjórnmálafræði við Virgina-háskóla segir hana vera mest einangraða frambjóðanda í sögu Bandaríkjanna. Allt hennar ferli er vandlega skipulagt leikhúsverk. Lesið Suzanne Goldenberg.

754.960 terroristar

Punktar

Nú eru 754.960 manns komnir á skrá Bandaríkjastjórnar yfir terrorista. Þeim hefur fjölgað um 200.000 manns á ári í nokkur ár. Það virðist því ekki ganga vel að útrýma andstæðingum Bandaríkjanna úr heiminum. Að vísu er ekki alveg að marka listann. Sumir koma þar fyrir oftar en einu sinni. Og einnig er þar slæðingur af börnum og fólki með undarleg nöfn. Listinn mun á næsta ári komast í eina milljón manns. Erfitt er að vera með vænisýki á háu stigi. Því má segja, að Osama bin Ladens hafi náð miklum áhrifum með því að breyta bandarísku samfélagi til hins verra. Þú getur lent í Guantanamo.

Þeir bregðast Huppu

Punktar

Bændur bregðast landnámskúnni. Vilja flytja inn kyn frá Svíþjóð. Þeir vega ómaklega að Huppu, sem gerði Kluftir frægar, næsta bæ við mig. Þeir hafa áður flutt inn kúakyn. Með engum árangri. Galloway kýr voru skapvondar og bragðlausar. Bændur hugsa ekki um nautakjötið að þessu sinni. Þeir hafa raunar aldrei gert það. Þeir telja, að nytin verði meiri í sænsku kúnum. Afleitt er að afgreiða þetta kúamál í umræðu meðal bænda einna. Þeir hafa ekki meira vit á þessu en við hin. Eltast við drauminn um mjólkurnytina. Í stað þess að viðurkenna, að afkomendur Huppu eru beztir allra á bragðið.

Fjögurhundruð leyfi

Punktar

Það getur ekki verið satt, að fjögurhundruð leyfi þurfi til að setja upp ferðaþjónustu hér á landi. Ef það er satt, er það frétt aldarinnar. Við eigum fyrir löngu að vera búin að ná tökum á eftirliti. Það getur ekki verið, að hér sé indverskt ástand í eftirlitsiðnaði. Samtök atvinnulífsins halda því þó fram. Segja ferðaþjónustuna Hvíldarklett þurfa fjögurhundruð leyfi til að starfa. Það er út í hött. Eftirlit hins opinbera þarf að sameinast um einn kontór, sem gefur út eitt leyfi, en ekki fjögurhundruð. Við eigum nú að glíma við kapítalisma framtíðar, ekki sósíalisma fortíðar.

Ratsjárstofnun í ólagi?

Punktar

Meðferð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á forstjóra Ratsjárstofnunar er röng. Stofnunin var af flestum talin í sæmilegum rekstri, hafði sætt aðhaldi og sparnaði. Utanríkisráðuneytið hefur ekki skýrt, hvers vegna nauðsynlegt var að reka forstjórann formálalaust. Það er ekki nóg, að hún þurfi pláss fyrir enn einn kratann. Kannski hefur eitthvað verið að. Þá eiga kjósendur rétt á að vita það. Utanríkisráðherra er enginn sólkóngur, sem má fara að geðþótta í umgengni með valdið. Því miður bendir ýmislegt fleira til, að nýr utanríkisráðherra telji utanríkismál vera sín prívatmál.