Einnar krónu munur

Punktar

Fáokun er fyrr eða síðar óhjákvæmileg, þegar fyrirtæki eru orðin þrjú eða færri í greininni. Ódýrara verður að tala saman en að keppa. Fyrst verður samkeppnin afstæð. Þá berjast fyrirtæki um stöðu verðlags innbyrðis. Bónus er krónu lægri en Krónan. Ef Krónan lækkar verð, þá lækkar Bónus. Ef Krónan hækkar, þá hækkar Bónus. Þessi afstæði slagur um mismun ríður yfir nokkrum sinnum á degi hverjum. Og kemur lítið við algildri samkeppni um kílóverð. Neytendur eru hvorki betur né verr settir. Bónus er ætíð krónu lægri, hvort sem kílóverðið er fimmhundruðkall eða þúsund. Allt er þetta sýndarmennska.

Bitur ágirnd

Punktar

Orkuveitumálið fellur í skynsamlegan farveg. Borgin hefur hafnað samruna við einkabransann. Hann kvartar um, að tímabundin sóknarfæri glatist í austurlöndum. Við svo búið verður að standa. Lukkuriddarar fóru of geyst að pólitíkusum borgarinnar, teymdu gamla borgarstjórann á asnaeyrunum. Það komst upp og málið er dautt, verður ekki lagað úr þessu. Verstur er þáttur milligöngumanna, ráðamanna Orkuveitunnar, voru að sigla inn í persónuleg auðævi. Þeir eru trausti rúnir, svo og stjórn Orkuveitunnar, sem fékk glýju í augu. Vonandi læra svo allir af biturri reynslu. Ágirndin hefur kostað.

Sagnfræðin ritskoðuð

Fjölmiðlun

Menn í fréttum hafa áttað sig á, að hér gildir ekki lengur prentfrelsi að vestrænum hætti. Sannleikur er ekki lengur vörn fyrir dómstólum. Þeir spyrja bara, hvort einhver hafi móðgast. Ef svo er, þá eru fjölmiðlar bara látnir borga. Það heitir persónuvernd. Nú vilja menn í fréttum meira. Þeir vilja láta afmá nafn sitt úr stafrænum fréttasöfnum. Þannig nálgast þeir, að sannleikurinn hafi aldrei gerzt. Logi Freyr Einarsson hafi aldrei verið handtekinn, ef frétt um það sé afmáð. Þannig var sagnfræðin endurskoðuð í “1983” eftir George Orwell og í Sovétríkjunum. Lifi Sovét-Ísland árið 2007.

Lögbrot ekki fréttir

Fjölmiðlun

“Þetta er ekki fréttaefni”, sagði Sigurður Kjartansson, varaoddviti Bæjarhrepps. Þorgerður Sigurjónsdóttir oddviti hafði leyft tengdaforeldrum dóttur sinnar að byggja sumarhús í ríkislandi. Til þess hafði hún ekki leyfi hreppsnefndar. Og ekki heldur leyfi landbúnaðarráðuneytisins, sem fer með ríkislönd. Sumarhúsið er þarna ekki með neinu leyfi, segir talsmaður ráðuneytisins. Fyrrverandi oddviti hefur reynt að grafa upp þetta glæpamál, en engin viðbrögð fengið. Og varaoddvitinn telur það ekki vera neitt efni frétta, að hreppsnefndin sé utan laga og réttar. Dæmigerður Íslendingur.

Bókarbrenna forsjárhyggju

Punktar

Ef fólk byrjar að brenna bækur hér á Íslandi, fer það um síðir að brenna fólk. Forsjárhyggja félagslegs rétttrúnaðar leysir málfrelsi af hólmi. Þegar fólk fer að ákveða, hvaða bækur eigi að banna eða hvaða bækur eigi að fá skertan aðgang að fólki. Nú er talað um Tíu litla negrastráka. Hvað um annan texta, sem stríðir gegn félagslegum rétttrúnaði? Umræðan um málið veldur mér sömu klígju og þegar ég les annan fasistískan áróður. Þeir, sem næst komast fasisma í nútímanum, eru forsjármenn að norrænum hætti. Það er fólk, sem sí og æ hefur vit fyrir öðrum með undarlegum boðum og bönnum.

Erfðabreytt á erfitt

Punktar

Á Norðurlöndum eykst fylgi við frelsi frá erfðabreyttum matvælum. Í samræmi við almannavilja um alla Vestur-Evrópu. Helzta krafan er, að erfðabreytt matvæli séu merkt, svo að þeir, sem það vilja, geti forðast þau. Oft hefur verið kvartað um skort á slíkum merkingum hér á landi. Stór landsvæði í Evrópu hafa verið lýst laus við erfðabreytt fóður og erfðabreyttan mat. Norrænir matvælaframleiðendur sjá fram á, að verða frystir út af markaði. Þar sem þeir taka ekki afstöðu í þessu deilumáli. Um síðir verður bönnuð sala erlendis á íslenzkum mat, því að hér ríkja fyrirtæki erfðabreytinga.

Terroristi númer eitt

Punktar

Íran er terroristaríki eins og Bandaríkin. Byltingarsveitir Írans stunda hryðjuverk eins og bandaríska leyniþjónustan CIA. Herinn í Íran stundar hryðjuverk eins og bandaríski herinn og einkareknir herir bandarískir. En samt er munur á þessum ríkjum. Íran hefur aldrei sett af ríkisstjórn í Bandaríkjunum. Íran er ekki hættulegt Bandaríkjunum. Það voru Bandaríkin, sem steyptu Mossadeg af stóli. Það eru Bandaríkin, sem ráðast á fjarlæg lönd, steypa þar ríkisstjórnum og myrða fólk. Hryðjuverkamenn eru víða á ferð. En Bandaríkin eru sem ríki og þjóð versta hryðjuverkafyrirbæri heims.

Stríð á kostnað barna

Punktar

Bandaríkjamenn vita ekki verð stríðsins gegn Írak. Þeir borga það nefnilega ekki. Sexhundruð milljarðar eru teknir að láni til að heyja siðlaust stríð úti í heimi. Bandaríkjamenn velta sér bara í sukki og velsæld. Reikningur stríðsins hefur verið sendur til barna þeirra, sem nú eru fullorðnir. Kjósendur, sem bera ábyrgð á rugli Bandaríkjanna, hafa ekki borgað neitt og ætla ekki að borga neitt. Þeir vísa öllum eftirmálum til framtíðarinnar. Það er svo sem ekki nýjar fréttir fyrir Íslendinga, sem eru vanir slíku í smáum stíl. En Bandaríkin hafa kastað 600 milljörðum á herðar afkomendanna.

Evrópa sigrar Bandaríkin

Punktar

Evrópusambandið er stærra hagkerfi en Bandaríkin. Það vex hraðar og dregur að sér meiri fjárfestingu. Erlend fjárfesting í Evrópu er helmingur allrar erlendrar fjárfestingar í heiminum. Atvinnuleysið er komið niður í 6,7%. Á sama tíma er velferð margfalt öflugri í Evrópu en í Bandaríkjnunum. Frí eru lengri og vinnutími styttri. Evrópa leiðir heiminn í átt til vistvænna stjórnarhátta. Evrópa notar miklu minni olíu en Bandaríkin og hefur sett sér háleit markmið um minni útblástur hættulegra lofttegunda. Það er ekki Evrópa, sem er sjúki maðurinn í heiminum þessa dagana. Það eru Bandaríkin.

Fimmta herdeildin

Punktar

Borgarstjórn vill lýsa stjórnarfund Orkuveitunnar ólöglegan. Veitustjórnin, skipuð af borgarstjórn, krefst frávísunar. Hópar lögmanna berjast, allir á kostnað borgarbúa. Lengra verður ekki komizt í rugli sveitastjórnarmanna. Sjálfstæðið og Framsókn hófu það í Orkuveitunni. Vinstri flokkarnir og Framsókn erfðu það og ætla að halda því áfram. Innan um eru málaliðar auðhringa á ferð. Ólígarkar hyggjast ná mannauði Orkuveitunnar frítt. Hafa til þess stuðning fimmtu herdeildarinnar meðal embættismanna. Einnig meðal pólitískra fulltrúa í stjórn Orkuveitunnar. Enginn kann á hemlana.

Áhlaup á Orkuveituna

Punktar

Nýr meirihluti borgarstjórnar þarf að verða trúverðugur í Orkuveitumálinu. Hann þarf að gera áhlaup á Orkuveituhúsið. Þar hafa hreiðrað um sig embættismenn og pólitískir sendimenn, sem taka ekki mark á pólitík. Þeir eru ákveðnir í að gefa ólígörkum mannauð stofnunarinnar. Þótt meirihluti borgarstjórnar hafi fallið vegna málsins. Borgarstjórn gerir sig að fífli með að ræða málið út og suður í ráðhúsinu. Kastalamenn Orkuveitunnar sanka að sér lögmönnum og verjast tilraunum að ná lýðræðislegum tökum á henni. Borgarstjórnin þarf að ganga í kastalann og taka lyklavöld af pakkinu.

Auglýst á ensku

Fjölmiðlun

Kaupþing auglýsir á ensku eftir starfsfólki í dagblöðum, sem að öðru leyti eru skrifuð á íslenzku. Það greiðir þeim, sem þess óska, launin í evrum. Á næstu mánuðum hyggst bankinn byrja að gera upp reikninga sína í evrum. Hnattvæðingin heldur linnulaust áfram. Þáttur í henni er aðför að íslenzku, sem kemur fram á fleiri sviðum. Vandamálafræðingar taka upp ensk heiti á viðkvæmum hugtökum minnihlutahópa og sjúklinga. Vandamálafélög skíra sjúkdóma enskum skammstöfunum. SMS-tungumál unga fólksins er skotið ensku. Kannski er íslenzka orðin úrelt tungumál í hnattvædda markaðssamfélaginu.

Góð leikhúsrýni

Punktar

Einu sinni var ég með frumsýningarmiða í Þjóðleikhúsinu og mætti á aðra sýningu í Borgarleikhúsinu. Svo fattaði ég, að var alltaf að sjá leikara í sömu rullunni. Þeirri sem gerði þá fræga. Síðan komu nýir straumar. Þeir fólust í að misþyrma fínum leikhúsverkum eða búa til nýja vitleysu. Þetta er kennt í skóla og þykir fínt. Ég hætti að fara í leikhús. Núna hefur Jón Viðar Jónsson leikhúsrýnir DV afgreitt þessa þróun mála. Hann gerir grín að sakleysingjum, sem enn klappa á frumsýningum. Þegar verið er að misþyrma Tennessee Williams og tala bullmál frá Noregi. Gott og tímabært hjá honum.

Burt frá notendum

Punktar

Nokkrar listgreinar hafa fjarlægzt listnotendur á síðustu áratugum. Fremst fer þar myndlistin. Hún fór að ruglast upp úr 1960. Þá voru höfundarnir orðnir leiðir á afstrakti. Síðan hafa þeir ekki fundið list, sem fólk vill kaupa. Og vilja ekki finna hana. Þeir stunda mest leiklist á sviði. Svipað gerðist síðar í leiklistinni. Í bland við góð leikverk fóru að skjótast inn afskræmingar góðra leikverka og ýmislegt rugl, sem fólki leiddist. Svipuð gjá milli listamanna og notenda myndaðist líka í matargerðarlist. Kokkarnir fóru að stunda myndlist, en kúnnarnir vildu fá mat, ekki litaðar froður.

Listamönnum leiðist

Punktar

Listamönnum leiðist í myndlist, leiklist og matargerðarlist. Þeim finnst erfitt að vera í svipuðum málum og gamlir meistarar. Þola heldur ekki samanburðinn. Þeir vilja finna upp eitthvað nýtt, öðlast svigrúm að nýju. Matreiðslufólk hamast við myndlist og myndlistarfólk hamast við leiklist. Leiklistarfólk hamast að vísu ekki við matargerðarlist. Það mundi þó loka þessum skrítna hring. Það væri skárra en að afskræma gömul verk og búa til nýtt bull. Kúnnarnir eru ráðalausir, hættir að mæta. Allt stafar þetta af, að listamönnum leiðist vinnan. Vilja ekki gera sama og forverarnir gerðu.