Próflausir blaðamenn

Fjölmiðlun

Egill Helgason birtir frábæran lista fólks, sem hefur stutta menntun, en samt náð langt í blaðamennsku. Þar eru ritstjórar og aðrir yfirmenn á fjölmiðlum og útgefandi á heimsvísu. Blaðamennska er samt ekki “síðasta athvarf próflausra”. Fremur er hún athvarf margra, sem hafa lært í skóla lífsins. Blaðamennska er nefnilega enn eitt handverkið. Rétt eins og hjá skurðlæknum og málflytjendum, prestum og rithöfundum. Langskólaganga getur nýtzt vel á sumum sviðum og hamlað þeim á öðrum. Til dæmis er textastíll oft ónothæfur hjá langskólagengnu fólki, þegar það byrjar á fjölmiðlum.

Fatlaðir þrælkaðir

Punktar

Ég hef ekki séð vefengda fréttina um, að fatlaðir fái 4.200 krónur á mánuði fyrir vinnu sína. Þeir fá þetta fyrir að pakka vörum og líma miða á þær hjá svonefndri “hæfingarstöð” fatlaðra. Lága upphæðin er afsökuð með, að þetta sé ekki full vinna, heldur sé líka veitt starfsþjálfun. Svipaðar skýringar eru áreiðanlega á takteinum hjá fyrirtækjum, sem nota börn fyrir þræla í verksmiðjum þróunarlandanna. Mér sýnist þrælahald á fötluðum hér á landi vera svipað og þrælahald erlendis á börnum í þágu tízkuframleiðandans GAP og skógerðarinnar Nike. Vandamálafræðingarnir hafa ekkert gert í málinu.

Sími sigrar tölvur

Fjölmiðlun

Ég nota litla fartölvu, sem rúmar nákvæmlega lyklaborð af eðlilegri stærð, 27 sentimetra. Ég þarf svona stórt lyklaborð, af því að ég skrifa texta. Vonlaust væri fyrir mig að nota Blackberry lófatölvu. Skjárinn er bara tólf tommur hjá mér, en er samt of stór. Ég þarf að draga þessi 2,4 kíló með mér, hvert sem ég fer. Þarna eru farseðlarnir og öll bókunarnúmerin. Þarna er allt sambandið við umheiminn, Google og póstinn, jafnvel Skype. Þetta er auðvitað að verða úrelt. Nú koma símar, sem hver á fætur öðrum tekur yfir meira af hlutverkum tölvu. Lyklaborðið mun þó reynast þeim erfiðasta þúfan.

Andvaralausir fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Hefðbundnir fjölmiðlar taka samkeppni nýmiðla ekki nógu alvarlega. Heilar kynslóðir verða fullorðnar án þess að lesa prentmiðla og sjá ljósvakamiðla. Þær lesa ekki, heldur skanna texta á skjá. Þær taka persónulega miðla á borð við Facebook og YouTube og MySpace fram yfir hefðbundna fréttamiðla. Nota GoogleNews í staðinn fyrir fréttamiðla. Vandinn er ekki bara, að ungt fólk vilji ekki borga fyrir fjölmiðla. Það kærir sig hvorki um að sjá né lesa hefðbundna miðla. Aukin nærvera hefðbundinna fjölmiðla á vefnum jafnar þetta ekki. Enn síður dugar hún í tekjuöfluninni. Google hirðir aurinn.

Hann ætlar í stríð

Punktar

George W. Bush ætlar að ráðast á Íran á næsta ári og fyrir kosningarnar í Bandaríkjunum. Þannig ætlar hann að þjappa þjóðernissinnum um repúblikana í kosningunum. Mikilvægasta alþjóðamál Evrópuríkja og Evrópusambandsins er að gera ekkert, sem stuðlar að þessari hugsjón. Evrópa verður að haga pólitík þannig, að erfiðara en ella verði fyrir Bandaríkin að fara í stríð. Evrópa er þegar flækt í tvær vitleysur af því tagi, Afganistan og Írak. Fyrir milligöngu dauðvona Atlantshafsbandalags. Tímabært er, að Evrópa hætti að láta bandalagið segja sér fyrir verkum. Nú verður að stöðva stríðsæsingar.

Tveir brezkir landsfeður

Punktar

Tveir menn stjórna Bretlandi, annar stjórnarandstöðunni og hinn stjórninni. Ashcroft lávarður stjórnar Íhaldsflokknum með fé sínu. Hann ákveður, hvar verður slegizt í kjördæmum og hvaða kjördæmi verða látin eiga sig. Hann er dæmi um fé, sem yfirtekur flokk. Hinn er Ástralinn Rupert Murdoch, sem stjórnar Verkamannaflokknum. Hann gerir það í krafti fjölmiðla, sem eru gróft pólitískir. Persónuleg áhugamál Murdochs ráða stjórnastefnunni. Til dæmis andúð á Evrópusambandinu og stríð með Bandaríkjunum gegn ýmsum ríkjum í þriðja heiminum. Hann er dæmi um fjölmiðlavald, sem yfirtekur flokk.

Þjóðir og ríki

Fjölmiðlun

Bandaríkin eiga einn stuðningsmann í Pakistan. Það er Pervez Musharraf og er einræðisherra. Þegar hann fellur, láta trúarofstækismenn að sér kveða. Verður sárt fyrir Bandaríkin. Einkennilegt er, að ráðamenn og fjölmiðlar í Bandaríkjunum rugla saman hugtökunum þjóð (nation) og ríki (state). Þannig segir New York Times, að sex þjóðir styðji aukna hörku gegn Íran. Það er rangt. Það eru sex ríki, sem styðja þetta. Þjóðirnar að baki eru auðvitað andvígar aðgerðunum. En í Bandaríkjunum finnst þeim fínt að hafa aðgang að einum landsföður. Og hugsa ekki um, að á morgun verður hann búinn að vera.

Hlægilegar spár

Punktar

Mestu ágirndarmenn samtímans fögnuðu stríðinu gegn Írak. Þeir vildu komast í olíulindir landsins. Alan Greenspan seðlabankastjóri segir nú, að allir hafi þá vitað, að stríðið snerist um olíu. Rupert Murdoch fjölmiðlakóngur neri saman höndunum og sagði stríðið mundu færa olíuna niður í 20 dollara á tunnuna. Hún er núna komin upp í 96 dollara og er enn á uppleið. Það er ekki gefið, að hinir ágjörnustu hafi rétt fyrir sér, þótt þeir þykist klárir í útrásum. Þeir eru iðnir að spá. Sumir spáðu velgengni í stríði gegn Írak. Aðrir spá velgengni í viðskiptum um jarðhita í Austur-Asíu.

Peningar dansa villt

Punktar

Ég hef áhyggjur af fjármálum heimsins. Of miklir peningar leika lausum hala. Dollarinn sígur án afláts. Olían rís án afláts, þótt vestrið hafi farið í stríð til að ná í olíu. Of miklar hreyfingar eru á gengi pappíra, einkum í New York og London. Hremmingar í húsnæðislánum skóku Bandaríkin í haust. Skattgreiðendur urðu að bjarga Northern Rock bankanum í Bretlandi. Frjálst flæði fjármagns um heiminn hefur haft mikla kosti í för með sér. Það mun líka gera bakslagið hastarlegra, ef skuldir greiðast ekki og kreppa tekur við. Menn átta sig ekki á hliðarverkunum af frjálsu peningakerfi.

Sýndarmennska í Leifsstöð

Punktar

Löggan fær útrás, þegar Falung Gong eða Vítisenglar koma. Þá verst hún hugsanlegum glæpum gegn þjóðinni eða gegn frægum fúlmennum frá Kína. Þá talar hún um sakaskrár, án þess að nefna nein dæmi. Hún getur hins vegar ekki varið þjóðina fyrir raunverulegum glæpamönnum. Hún getur til dæmis ekki höndlað fíkniefnabaróna og handrukkara þeirra. Hér flýtur allt í glæpum í neðanjarðarhagkerfinu. Í staðinn stundar löggan sýndarmennsku á Keflavíkurvelli eins og þar sé eins konar stríð. Mér dettur í hug, að hún sé að reyna að vernda innlenda fíkniefnabaróna fyrir norskum amatörum.

Sátt um negrastrákana

Punktar

Ég legg til, að miðstöðvar félagslegs réttrúnaðar fái að setja límmiða á bækur, sem honum eru þóknanlegar. Miðinn sýni, að bókin sé laus við ýmsa plágu, sem steðjar að börnum, svo sem fordóma. Dimmalimm og Tíu litlir negrastrákar fengju ekki gæðastimpil. Alveg eins og gæðastimplar eru á lífrænt ræktuðum mat, svo að ég þurfi ekki að kaupa erfðabreytt. Svona stimplar geta verið til þæginda fyrir fólk. Sumir geta mælt með og aðrir varað við. Aðalatriðið er, að skýr skilgreining liggi að baki. Fólk getur svo sjálft valið, hvort það verður við meðmælum eða andmælum á límmiðum.

Pakistan er martröð

Punktar

Herlög í Pakistan eru martröð. Landið býr yfir kjarnorkuvopnum. Oft hefur það lent í stríði við Indland. Ríkisvaldið er einangrað frá þjóðinni. Pervez Musharraf einræðisherra er hataður af landslýð. Hann er bandamaður Bandaríkjanna í stríði gegn hryðjuverkum. Um leið er landið uppspretta hryðjuverkamanna. Þar eru flestir trúarskólarnir, sem kenna hryðjuverk. Ríkisvaldið nær ekki til landsbyggðarinnar. Þar ráða ýmist öldungar eða trúarofstækismenn. Helztu lýðræðishetjurnar eru forríkir fjárglæframenn, Benazir Bhutto og Nawaz Sharif, sem mökuðu krókinn á valdatímum sínum.

Vítisenglar – skátar

Punktar

Ég skil ekki einæði kerfisins gegn vítisenglum. Efast um, að þeir séu eins umfangsmiklir í glæpum og látið er í veðri vaka. Þetta eru menn, sem ganga um með auglýsingar framan á sér og aftan. Amatörar, engir stórkarlar í fíkniefnasölu og handrukkun. Alvöru glæpamenn auglýsa ekki, hverjir þeir séu. Hvað hafa svo vítisenglar gert af sér, annað en að snapa fæting við aðrar klíkur montrassa á mótorhjólum? Eru einhverjar sannanir á takteinum? Í samanburði við ekta glæpamenn eru vítisenglar aumari en skátar. Þetta eru einkum hassbrunnir montrassar, sem snapa ýfingar við umhverfi sitt.

Ratzinger er reiður

Punktar

Ratzinger páfa dreymir um gamla falangismann, þegar trúin var þáttur í lífi fólks. Hann hefur gert tæplega fimmhundruð spánska falangista að dýrlingum. Ekki orð frá honum um tugþúsundir, er falangistar drápu til að afmá frelsi. Aðgerð páfans er stríðsyfirlýsing gegn ríkisstjórn Spánar. Hún hefur haft frumkvæði í að gera upp sakirnar við fortíðina. Hún er að fá þingið til að fordæma stjórn Franco sáluga og heiðra þá, sem vörðust honum. Jose Luis Zapatero forsætisráðherra hefur stuðlað að fleiri endurbótum, sem kaþólska kirkjan afturhaldssama er andvíg. Þess vegna hrökk Ratzinger páfi í gang.

Kirkja barnaperranna

Punktar

Skrítið er, að málsmetandi menn skuli enn líta á kaþólska kirku sem eins konar móðurkirkju í kristni. Og líti á páfann í Róm sem oddvita kristni á jörð. Í Vatíkaninu eru biðraðir pólitíkusa að nudda sér utan í páfann, þar á meðal Geir Haarde forsætisráðherra. Kaþólska kirkjan á samt skelfilegri fortíð en aðrar stofnanir heims. Og er nú heimsins mesta afturhald. Fátt gagnlegt hefur komið þaðan í seinni tíð. Vatíkanið er önnum kafið við að verjast gagnrýni. Brenglaðir prestar hennar reynast vera heimsins mestu barnaperrar. Skaðabætur eru orðnar hæsti útgjaldaliður kaþólskunnar.