Tvær milljónir á mann

Punktar

Hrörnunarsjúklingar fá ekki nýtt undralyf, því að Landspítalinn hefur í bili ekki ráð á því. Það er ekki í fyrsta og ekki í síðasta skipti, sem sjúkrageirinn stendur andspænis slíkum vanda. Þegar nýtt lyf kostar rúmar tvær milljónir á ári á hvern sjúkling, eru góð ráð dýr. Upphæðirnar koma að mestu til viðbótar öðru. Þá má spyrja, hvort og hvernig sjúkrakerfið sé takmarkað. Tannviðgerðir eru ekki greiddar. Og sjúklingar verða að borga lyf og þjónustu, ef þeir eru ekki lagðir inn. Sjúkrakerfið þarf að finna réttláta leið við að velja og hafna kostnaði. Ef það ræður ekki við allt.

Fjölmennasta öngþveitið

Punktar

Pakistan er fjölmennasta öngþveiti heims, 160 milljón manns við hungurmörk, undir einræði Pervez Musharraf rugludalls. Þar kenna moskur ungum mönnum að fremja hryðjuverk á Vesturlöndum. Þar eru atómbombur. Landamærum stjórna vinir alKaida. Þar er háð stríð við Indland á 20 ára fresti. Bandaríkin setja allt sitt traust á Musharraf. Hvatti hann til að semja við Benazir Bhutto um völd. Hann klúðraði því og kom upp lögregluríki. Til skjalanna kom Nawaz Sharif, annar pólitíkus, hallur undir trúarofstæki. Hann er jafn spilltur og jafn vinsæll og Bhutto. Öngþveitið hefur náð nýju hámarki.

Ógnun olíuskömmtunar

Punktar

Arftaki Stalíns er Pútín, sem reynir að snapa fæting við Vesturlönd. Hann hyggst ná rússneskri kosningu í þinginu eftir viku að hætti Stalíns. Hann neitar Öryggissamvinnu-stofnuninni um vegabréfsáritanir fyrir eftirlitsmenn kosninganna. Kennir svo Bandaríkjunum um, að þeir komast ekki. Pútín er ósvífinn og hættulegur einræðisherra, sem mun verða Vesturlöndum erfiður. Atlantshafsbandalaginu ber að hætta að snapa fæting í löndum íslams og snúa sér að upprunalegu markmiði, viðnámi í Evrópu. Meira máli skiptir þó, að Vesturlönd komist undan ógn olíuskömmtunar, sem Pútín beitir Vesturlönd.

Héraðsdómar læknaðir

Punktar

Lögmenn eru svo ósáttir við héraðsdóma, að þeir vilja stofna nýtt dómstig í landinu. Millidómurinn taki á sakamálum og létti á Hæstarétti. Hann þarf þá ekki lengur að vísa málum heim í hérað. Það hefur hann gert í síbylju, því að meðferð mála í héraði hefur verið ábótavant. Margir hérðasdómarar eru vanfærir í starfi, en tilþrifaminni lausn ætti að vera til á þeim vanda. Hestadómarar eru sífellt á námskeiðum til að endurbæta sig og bera sig saman við starfsbræður. Getur kerfið ekki lært af hestamönnum og sett upp námskeið fyrir héraðsdómara? Svo þeir fái ekki málin ætíð aftur í hausinn.

Björn milli tanna

Punktar

Dómsmálaráðherra vill stofna 115 milljón króna embætti héraðssaksóknara. Þar af eru 62 milljónir hrein viðbót við núverandi kostnað. Engar tillögur fylgja um fjáröflun eða sparnað á móti. Samt hefur ríkisstjórnin samþykkt, að öllum tillögum um aukinn kostnað fylgi mótvægistillögur. Engar upphæðir eru í fjárlögum vegna þessa máls. Fjármálaráðherra hefur vakið athygli á þessum tvískinnungi. Mér sýnist þarna vera á ferð ágreiningur milli Björns Bjarnasonar og annarra ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Þeir eru auðvitað viðkvæmir fyrir auknum ríkisrekstri. Og vilja gjarna losna við Björn líka.

Enginn vill örorkuna

Punktar

Lífeyrissjóðirnir kæra sig ekki að sjá um örorku, telja hana vera verkefni ríkisins. Þeir hafi verið stofnaðir til að sjá um lífeyri, ekki örorku. Ríkisvaldið vill koma örorku á sjóðina, sem mundi skerða getu þeirra til að greiða lífeyri. En auðvitað spara ríkinu mikið fé á móti. Nú hefur verið metið féð, sem er í húfi. Félagsmálaráðherra vill, að sjóðirnir leggi 400 milljón krónur í púkkið og fái til þess 100 milljónir frá ríkinu. Þetta er skylt öðru, að ríkið vill láta félagssamtök sjá um ýmsa velferð, svo sem húsnæði fatlaðra. Og þrengir um leið getu þeirra til að annast hana.

Brennimerktir ógæfu

Punktar

John Howard hrundi í Ástralíu og Jaroslaw Kaczynski í Póllandi. Áður lak Tony Blair frá völdum í Bretlandi. Silvio Berlusconi féll á Ítalíu og Jose Maria Aznar á Spáni. Hver á fætur öðrum hverfur. Förunautar George W. Bush erlendis eru brennimerktir ógæfunni. Bara Anders Fogh Rasmussen í Danmörku tókst að hanga. Að vísu komu inn Nicolas Sarkozy í Frakklandi og Angela Merkel í Þýzkalandi. Það leiddi ekki til nýrra hermanna í Írak/Afganistan í stað þeirra, sem heim voru kallaðir. Ógæfan, sem fylgir Bush, náði líka til Íslands. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hröktust úr valdastólunum.

Stýrt með röddinni

Fjölmiðlun

Innrás farsíma í tölvuheiminn hefur gengið hægar en vonað var. Netvæddir símar hafa komið til sögunnar, en þungt er að nota þá. Hafa ekki lyklaborð eins og Blackberry. Það er kleppsvinna að slá inn vefslóðir. Og hönnun vefsíðna aflagast í litlum símaskjá. Gagnaflutningur umfram skilaboð er á þessu ári aðeins 12% af símatekjum í stað þeirra 50%, sem spáð var fyrir sjö árum. Hugbúnaðurinn Android frá Google og iPhone frá Apple eru skref ársins í rétta átt. En meira þarf, ef duga skal. Til að nýtast vefnum þurfa símar að fara úr klossaðri stjórnun með hnöppum. Yfir í stjórn með rödd.

Grænskattur á flugið

Ferðir

Flug er orðið of ódýrt. Við fljúgum án tilefnis. Til að eyða hálfum öðrum sólarhring í Prag. Sumir fara í erindisleysu mánaðarlega til útlanda. Aðrir reka erindi, þótt léttara sé að nota myndfundasíma. Til dæmis hjá ríkinu. Við getum ekki lengi hagað okkur svona. Allt þetta flug framleiðir mikinn koltvísýring og flýtir fyrir ragnarökum. Betra er að hægja á þessu með því að leggja grænan skatt á flug. Til dæmis tíuþúsundkall á miðann innan álfu, tuttuguþúsund krónur í milliálfuflugi, hundraðþúsund á hvert einkaflug. Bezt væri að gera þetta sameiginlega, til dæmis á vegum Evrópusambandsins.

Aukaferðir á Hringbraut

Punktar

Notaleg eru umferðarmannvirki Hringbrautar frá Tjörninni að Klambratúni. Gatan er sveigð og greið, notaleg í akstri. Fyrir augum blasa rammsveigðar göngubrýr. Þær eru umhverfislistaverk fremur en samgöngutæki. Ég fer um á bíl eins og þjóðin öll. Virði þessar brýr fyrir mér sem meginþátt í dýrð brautarinnar. Hún var áður samgönguteppa eins og horn Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, þar sem vantar brýr. Hún er orðin að ljúfu umferðarfljóti, sem vinnur verk sitt fljótt og vel. Ég hef stundum tíma til aukaferðar fram og til baka um Hringbrautina til að njóta fagurs útsýnis og aksturslags.

Leynd veldur vantrausti

Fjölmiðlun

Leynimakk um Orkuveituna vekur ekki traust. Stofnunin hefur verið staðin að undarlegu fjármálavafstri, sem samræmist ekki borgarstofnun. Innan hennar hafa risið embættismenn, sem vilja braska og hafa rífandi tekjur fyrir sjálfa sig. Með stuðningi pólitískt skipaðrar stjórnar. Orkuveitan hefur verið staðin að skrítnum samskiptum, sem flokkast undir mútur, samanber Ölfushrepp. Það er eins og stofnunin sé á kóki. Svo er fréttum lokað, þegar stýrihópur hyggst lækna sjúklinginn. Minnihlutinn lekur auðvitað sérvöldum atriðum og grunsemdir magnast. Meirihlutinn getur brennt sig illa á málinu.

Traustið lekur niður

Punktar

Á Miðnesheiði hafa aðilar tengdir Sjálfstæðisflokknum farið bratt í braski með eignir varnarliðsins sáluga. Þar hefur ekki verið fylgt nútímareglum um útboð. Slíkt vekur auðvitað grun um, að ekki sé allt með felldu. Þeir, sem settu upp dæmið, verða að láta opna málið og hreinsa það. Þeim dugir ekki að fullyrða í síbylju um einlægni sína og heiðarleika. Óháður aðili verður að kanna málið fyrir opnum tjöldum og segja okkur, hvernig þarna var staðið að verki. Í samfélaginu hefur ágirnd verið leidd til hásætis. Því þarf að velta strax við steinum, þegar grunur fæðist. Annars lekur traustið niður.

Bezt í heimi: Tokyo

Veitingar

París hefur orðið fyrir áfalli, eins konar jarðskjálfta. Tokyo hefur slegið matarborginni við. Michelin hefur gefið út fyrstu leiðsögubókina um Tokyo. Þar er 191 stjarna, en aðeins 98 stjörnur eru í Parísarbókinni. London hefur 50 stjörnur og New York 49. Aðeins lítill hluti stjarnanna í Tokyo er hjá veitingahúsum með frönsku sniði. Allur þorri þeirra er hjá stöðum með japanskri matreiðslu. Með bók Michelin hefur hún loks náð heimsvirðingunni, sem hún á skilið. Á sama tíma var lokað Maru, japanska veitingahúsinu í Reykjavík. Því að stjörnulausir Íslendingar fatta ekki matargerðarlist.

Úr 25 í 90 dollara

Punktar

Olíutunnan hefur hækkað úr 25 í 90 dollara á tunnuna síðan stríðið hófst gegn Írak. Hækkunin er George W. Bush og Bandaríkjunum að kenna. Þið skuluð muna eftir því, þegar þið fyllið benzíntankinn. Þá eruð þið að taka þátt í herkostnaði stríðs, sem hefur kostað rúmlega hálfa milljón manns lífið í Írak. Samkvæmt útreikningi bandarískra læknaskóla og birt í Lancet. Í stað þess að efla skóla og heilsu og velferð heima, sóa vestræn ríki peningum almennings í þáttöku í styrjöld fávitans í Hvíta húsinu. Allir, sem borga benzín og olíu, taka þátt í að borga brúsann. Ekki bara Davíð Oddsson.

Múslimar Vesturlanda

Punktar

Samkvæmt reynslunni er hinn dæmigerði hryðjuverkamaður af meiði múslima með þennan feril: Hann fæddist í Sádi-Arabíu af vel stæðu fólki. Nokkrir fæddust þó í Egyptalandi. Hann lærði á Vesturlöndum, einkum læknisfræði eða tæknifræði. Hann fór á námskeið í hryðjuverkaskóla í Pakistan. Loks fór hann aftur til Vesturlanda með neikvæðu hugarfari. Öll ríkin, sem hér hafa verið nefnd, búa við leiðtoga, sem eru bandamenn Bandaríkjanna. Íran, Írak og Afganistan koma þar ekki við sögu. Hryðjuverkamenn múslima hafa kynnnzt Vesturlöndum og hafnað hugmyndaheimi þeirra, samanber Osama bin Laden.