Ísafjarðarsýslur

Bolungarvíkurbjarg

Frá Bolungarvík á Ströndum fyrir Bolungarvíkurbjarg til Furufjarðar á Ströndum.

Sæta þarf sjávarföllum til að komast fyrir Bolungarvíkurófæru.

Förum frá sæluhúsinu í Bolungarvík suðaustur með Bolungarvíkurbjargi um ógreiðfærar urðir út á Drangsnes. Síðan förum við suður um Bolungarvíkurófæru undir Hádegishnúki. Á fjöru getum við farið undir Ófærunni, en verðum annars að klöngrast mjóan stíg um sjálfa Ófæruna. Við höldum áfram suðsuðvestur ógreiðfæra fjöruna undir Bolungarvíkurbjargi. Síðan tekur við gróið land að Ánni í Landinu. Förum yfir Ána hjá Mávabergi og síðan inn í Furufjörð að sæluhúsinu þar.

5,4 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Skálar:
Bolungarvík: N66 18.143 W22 14.147.
Furufjörður: N66 15.888 W22 14.152.

Nálægar leiðir: Bolungarvíkurheiði, Hornstrandir, Skorarheiði, Svartaskarð, Göngumannaskörð, Furufjarðarnúpur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Bakkaskarð

Frá Keflavík til Meiribakka í Skálavík.

Snarbratt að norðanverðu, en ekki klettar. Keflavík var í byggð með hléum á fyrri öldum. Þar hefur orðið manntjón í brimi og lendingu. Síðast var hér bústaður vitavarðar.

Förum frá Keflavík austur Sunndal og og síðan austnorðaustur og upp Norðdal að stórri vörðu. Austur um Bakkaskarð í 470 metra hæð og síðan mjög bratt og grýtt austur í Bakkadal í Skálavík. Loks norður að Meiribakka í Skálavík.

5,6 km
Vestfirðir

Mjög bratt

Skálar:
Ásgerðarbúð: N66 10.887 W23 28.530.

Nálægar leiðir: Ófæra, Skálavíkurheiði, Norðureyrargil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Álftamýrarheiði

Frá Álftamýri við Arnarfjörð um Álftamýrarheiði að Hólum við Dýrafjörð.

Á Kirkjubóli bjó Jóhannes Ólafsson galdramaður fyrri hluta nítjándu aldar. Af honum fóru miklar sögur, en aldrei komst hann undir manna hendur. Á Álftamýri voru löngum stundaðar hvalveiðar og voru þar menn sérþjálfaðir í að skutla hvali. Þegar hvalveiðar hófust í stórum stíl, hvarf hvalur úr Arnarfirði.

Förum frá Álftamýri vestur fyrir Álftamýrarmúla og síðan austur Fossdal. Úr botni dalsins bratt upp í Kvennaskarð á Álftamýrarheiði í 540 metra hæð. Og strax bratt niður í Kirkjubólsdal og norður dalinn að Kirkjubóli við Dýrafjörð, rétt hjá Þingeyri. Loks frá Kirkjubóli að þjóðvegi 623 við Hóla í Dýrafirði.

15,8 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta. Mjög bratt
Jeppafært

Nálægar leiðir: Lokinhamrar, Sandafell, Göngudalsskarð, Kvennaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Álftafjarðarheiði

Frá Kirkjubóli í Önundarfirði að Seljalandi í Álftafirði.

Jafnan fáfarin og ill yfirferðar. Löng leið, en sjálf heiðin er stutt.

Á Vestfjarðavefnum segir: “Frá Seljalandi eru stikur sem vísa leiðina upp í skarðið. Eins eru nokkrar vörður þegar komið er upp á hjallann og yfir skarðið. Þar tekur við stór snjóskafl sem stendur allt árið. Þaðan eru aftur stikur sem liggja niður á veg. Einnig er hægt að fylgja lækjum sem safnast í ánna og elta hana niður eftir.”

Förum frá Kirkjubóli austur Korpudal og upp Moldarbrekkur um Heiðarskarð fyrir botni hans í 720 metra hæð og síðan austur og niður Svarfhólsdal að Seljalandi í botni Álftafjarðar.

12,0 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Nálægar leiðir: Hestskarð vestra, Lambadalsskarð, Þóruskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Atlaskarð

Frá Horni við Hornbjarg um Rekavík bak Horn og Atlaskarð að Hælavík.

Í árbók FÍ 1994 segir: “Leiðirnar eru varðaðar og troðin gata upp í Atlaskarð. Í norðvestur frá Atlaskarði heitir Hraun og Hraunbrekka, gróðurlaus öræfi. Í Atlaskarði segir sagan að liggi brotamaður og við liggi gæfa ferðamanns, ef ekki leggur stein í dys Atla, grjótdyngju í háskarðinu. Meðfram grýttum troðningum upp í skarðið vaxa burnirót og maríustekkur úr grasi á örþunnum skriðujarðvegi. … Austur úr Atlaskarði er slóði ofan berar skriður en fljótlega tekur við gróin hlíð, lækjótt og með mosabreiðum, en blágresi, sóley, maríustakkur og grasvíðir, þar sem er hæfilegur raki. Jarðvegurinn er fjarska þunnur, milli lækjarskorninga eru berir melhryggir og stakir steinar á víð og dreif um hlíðina, hrundir úr fjöllunum í kring.”

Förum frá Horni suður með Hornvík, vestur fyrir víkina að Höfn í Hornvík. Síðan suður undir Dögunarfelli vestanverðu og komið að Skipakletti. Hægt er að fara fyrir hann á fjöru, annars verður að klífa hann. Til þess eru hafðir kaðlar á klettinum. Næst förum við um Hafnarós, þar sem einnig þarf að sæta sjávarföllum. Þá er ósinn farinn í fjörunni, annars verðum við að fara ofar yfir Kýrvað, þar sem Kýrá fellur í Hafnarós. Síðan förum við norður fyrir Tröllakamb og vestur í Rekavík. Þaðan vestur og bratt um greinilega sneiðinga upp í Atlaskarð og meðfram Atladys í 330 metra hæð. Þar erum við norðan Darra og sunnan Rekavíkurfjalls. Síðan vestur og niður í Hraunbrekku. Við förum norður í Hælavík að bænum Hælavík.

15,4 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Hornvík: N66 25.666 W22 29.440.

Nálægar leiðir: Almenningsskarð, Hafnarskarð, Skálarkambur, Kýrskarð, Rangalaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Arnardalur

Frá Arnardal í Skutulsfirði til Súðavíkur í Álftafirði.

Vegur liggur inn hálfan Arnardal, merktur sem einkavegur. Hann liggur í gömlu þjóðleiðinni og er því lögum samkvæmt öllum heimill. Leiðin er stikuð.

Förum frá eyðibýlinu Arnarfirði við mynni Skutulsfjarðar að austanverðu. Höldum suður allan Arnardal og upp Kika í skarð í 480 metra hæð. Þar beygjum við beint til austurs Sauradal að Súðavík í Arnarfirði.

12,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þóruskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Almenningaskarð

Frá Látravík um Almenningaskarð að Horni og Yztadal í Hornvík.

Leiðin um Almenningaskarð er ein ógnvænlegasta gata landsins.

Hjá fossinum Drífanda, sem fellur í sjó fram, er hringlaga Dugguhola í ströndinni. Suður af Almenningaskarði eru fyrst Hestskarð og síðan Kýrskarð, sem benda til, að þar hafi verið farið með húsdýr, þótt skörðin séu há og brött.

Förum frá sæluhúsinu í Látravík á Hornströndum norður eftir bjarginu neðan við Hest, fyrst hjá Blakkabási og fossinum Drífandi. Síðan norður á brattann í átt að Almenningaskarði í 300 metra hæð. Stígurinn þræðir bjargbrúnina og skarðið er nánast við bjargbrúnina, þar sem er 280 metra fall niður í sjó. Síðan förum við norðvestur og niður í Innstadal, fyrst um bratta brekku og síðan um mýrar og móholt út með ströndinni að Horni í Hornvík. Við Svaðaskarð er gengið á brattann og meðfram Miðfelli norður í Yztadal.

7,1 km
Vestfirðir

Skálar:
Látravík: N66 24.641 W22 22.741.

Nálægar leiðir: Atlaskarð, Hornstrandir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Almenningar

Frá sæluhúsinu í Hlöðuvík um Almenningaskarð og Þorleifsskarð til Atlastaða í Fljótum og sæluhússins Fljótavíkur. Stikuð leið.

Á Almenningum gerði Geirmundur heljarskinn bú, en eftirmaður hans missti það í hendur almennings í sekt eftir þjófnaðarmál. Í Almenningum var trjáreki og stundum hvalreki, sem sóttur var af sjó. Um Almenningaskarð segir í Árbók FÍ 1994: “Um grjóthjalla er að fara neðan úr Almenningum og í skarðið, en ef komið er úr Fljóti um Breiðuskörð eða Þorleifsskarð er veruleg hækkun uppí Amenningaskarð ekki nauðsynleg, en farið skáhallt um grýtt og lækjótta hjalla fremst á Almenningum og komið í gróðurlaust skarðið …” Og: “Ráð er þá að fara ofarlega uns kemur á móts við grænar tætturnar af Kjaransvíkurbæ og fara þá ofan.” Á Atlastöðum bjó Atli, þræll Geirmundar heljarskinns.

Förum frá sæluhúsinu í Hlöðuvík vestur með sjó til Kjaransvíkur og þaðan norður um skriður og hjalla Kjalarárnúps í Almenningaskarð í 360 metra hæð. Síðan vestur um stórgrýtta hjalla Almenninga að Þorleifsskarði í 400 metra hæð. Þaðan niður skriður til Þorleifsdals og ekki alveg að Fljótavatni. Síðan í hlíðinni ofan vatnsins norðvestanverðs út með Hvannadalshorni og komum niður að vatninu við Hvanná. Áfram um mýrina meðfram vatninu yfir Svíná út á Langanes að Atlastöðum í Fljótum handan vatnsins og áfram vestur að sæluhúsinu í Fljótavík. Einnig er hægt að fara Snið úr Þorleifsdal til Atlastaða.

13,7 km 
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Hlöðuvík: N66 24.860 W22 40.520.
Fljótavík: N66 27.128 W22 55.558.

Nálægar leiðir: Skálarkambur, Hlöðuvíkurskarð, Kjaransvíkurskarð, Fljótsskarð, Háaheiði, Kjölur, Breiðuskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Afréttardalur

Frá Dynjandisvogi í Arnarfirði um Afréttardal til Dynjandisheiðar.

Förum frá Dynjandisvogi sunnanverðum norðnorðaustur í Afréttardal nálægt þjóðvegi 60 og þar austur með fjallinu. Þar sem sá vegur þverbeygir til vesturs, liggur okkar leið suður að vesturenda Eyjarvatns. Frá Eyjavatni er stutt austur á leiðina frá Mjólká að Þingmannaheiði. Við förum suðvestur inn á Dynjandisheiði, sem liggur suðvestur í Geirþjófsfjörð. Á heiðinni erum við í 500 metra hæð. Þar er lélegur fjallaskáli.

10,2 km
Vestfirðir

Skálar:
Dynjandisheiði: N65 42.546 W23 12.323.

Nálægar leiðir: Dynjandsheiði, Kirkjubólsheiði, Mjólká.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Aðalvík

Frá Látrum í Aðavík suður um Aðalvík og Miðvík til Húsatúns í Þverdal.

Sillan í Posavogi hefur verið breikkuð og er ekki lengur eins hættuleg göngufólki.

Á Vestfjarðavefnum er leiðinni um Posavog lýst þannig: “Möguleiki er að komast um voginn á fjöru og klífa 3-4 metra háan klett niður í voginum sem umkringdur er hálu stórgrýti. Önnur leið er að fara Tök. Þá er klifið 3-4 metra upp götuna í klettabeltinu um 40-50 metra áður en komið er að Posavogi. Þar liggur vaður niður í götuna sem hægt er að styðja sig við upp fyrir klettana og er þá auðvelt að ná fótfestu. Þá er komið upp á grasflöt í hlíðinni, svokallað Land, og þaðan er auðgengið niður á sléttar grundir Þverdals.”

Förum frá Látrum suður með harðri og gullinni fjörunni, yfir Stakkadalsós, út fyrir Mannfjall til Miðvíkur, yfir Miðvíkurós og að Miðvíkurfjalli. Frá Miðvíkurósi er hægt að fara með hesta um Þverdalsdrög til Aðalvíkur. En við förum um grýtta fjöru vestur fyrir Hvarfnúp til Húsatúns í Þverdal. Fyrst er núpurinn farinn um aurskriður og síðan eftir sillu inn fyrir Posavog. Loks er komið að Húsatúni í Aðalvík. Þaðan er stutt leið til Sæbóls.

6,8 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Látrar: N66 23.555 W23 02.200.
Sæból: N66 20.596 W23 06.155.

Nálægar leiðir: Rekavík, Kjölur, Mannfjall, Hesteyrarskarð, Þverdalsdrög, Sléttuheiði, Skarðadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort