Atlaskarð

Frá Horni við Hornbjarg um Rekavík bak Horn og Atlaskarð að Hælavík.

Í árbók FÍ 1994 segir: “Leiðirnar eru varðaðar og troðin gata upp í Atlaskarð. Í norðvestur frá Atlaskarði heitir Hraun og Hraunbrekka, gróðurlaus öræfi. Í Atlaskarði segir sagan að liggi brotamaður og við liggi gæfa ferðamanns, ef ekki leggur stein í dys Atla, grjótdyngju í háskarðinu. Meðfram grýttum troðningum upp í skarðið vaxa burnirót og maríustekkur úr grasi á örþunnum skriðujarðvegi. … Austur úr Atlaskarði er slóði ofan berar skriður en fljótlega tekur við gróin hlíð, lækjótt og með mosabreiðum, en blágresi, sóley, maríustakkur og grasvíðir, þar sem er hæfilegur raki. Jarðvegurinn er fjarska þunnur, milli lækjarskorninga eru berir melhryggir og stakir steinar á víð og dreif um hlíðina, hrundir úr fjöllunum í kring.”

Förum frá Horni suður með Hornvík, vestur fyrir víkina að Höfn í Hornvík. Síðan suður undir Dögunarfelli vestanverðu og komið að Skipakletti. Hægt er að fara fyrir hann á fjöru, annars verður að klífa hann. Til þess eru hafðir kaðlar á klettinum. Næst förum við um Hafnarós, þar sem einnig þarf að sæta sjávarföllum. Þá er ósinn farinn í fjörunni, annars verðum við að fara ofar yfir Kýrvað, þar sem Kýrá fellur í Hafnarós. Síðan förum við norður fyrir Tröllakamb og vestur í Rekavík. Þaðan vestur og bratt um greinilega sneiðinga upp í Atlaskarð og meðfram Atladys í 330 metra hæð. Þar erum við norðan Darra og sunnan Rekavíkurfjalls. Síðan vestur og niður í Hraunbrekku. Við förum norður í Hælavík að bænum Hælavík.

15,4 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Hornvík: N66 25.666 W22 29.440.

Nálægar leiðir: Almenningsskarð, Hafnarskarð, Skálarkambur, Kýrskarð, Rangalaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort