Punktar

Lokið fyrir athugasemdir

Punktar

Væri ég ritstjóri fjölmiðils, væri ég andvaka út af virkum-í-athugasemdum við fréttir. Mundi leysa málið með að loka athugasemdum og tengja frá fréttum yfir á fésbók fjölmiðilsins. Á fésbók koma flestir fram undir nafni. Hægt er að hafa ritstjóra fésbókar, sem strikar út skrif gervihöfunda og þekktra nafnafalsara. Þannig axlaði ég ekki ábyrgð á margvíslegu rugli og rýrði líkur á málshöfðun. Nákvæmlega þetta geri ég í eigin bloggi. Þar er lokað fyrir athugasemdir. Hins vegar er á fésbókarvegg mínum hlekkjað yfir í fréttina. Þar verður málefnalegri umræða en hjá nafnlausum virkum-í-athugasemdum. Slíkt mættu fjölmiðlar prófa.

Allir vernduðu flakkið

Punktar

Til marks um ræfildóm fjórflokksins er, að tvær ríkisstjórnir hafa ekki mannað sig upp í mannasiði. Hafa ekki bannað kennitöluflakk. Og ekki bannað þá tegund þess, sem felst í færslu lánsfjár yfir í nýtt félag. Skuldin skilin eftir í gamla félaginu, sem gerist gjaldþrota. Ragnheiður Elín ráðherra orðar þetta svo fagurt, að bann við kennitöluflakki geti skaðað svigrúm athafnamanna. Augljóst er, hvar hjartað slær hjá henni og raunar öllum fjórflokknum. Þeim mátti öllum ljóst vera, að kennitöluflakk var eitt stærsta hneyksli hrunsins. Létu það samt kyrrt liggja. Sumir athafnamenn hafa nærri tuttugu sinnum fengið að flakka.

Ég hafna Kínahverfum

Punktar

Kínahverfi vesturlanda voru hvert öðru lík. Frægast Chinatown í New York hefur mest verið rannsakað. Þar kynntust bláfátækar fjölskyldur frá Kína grimmdinni í landi tækifæranna. Kínagreifar komu fjölskyldunum fyrir í þessum hverfum, settu sætu stúlkurnar í hóruhús, þær ófríðu og mömmurnar á saumaþrælastofur, hvort tveggja á efri hæðum húsanna. Á annarri hæð voru spilavíti, þar sem greifarnir hirtu smáaura kínverskra fátæklinga í ópíumvímu. Neðst voru svo matstofur, þar sem synirnir þræluðu í uppvaski. Bakþankar Pawel Bartozek í Fréttablaðinu horfa á sýndarveruleikann. Kínahverfi eru helvíti. Ég hafna hvers kyns Kínahverfum.

Heimsins mesta rán

Punktar

GREIN Gunnars Smára í Fréttatímanum gefur innsýn í hækkun í hafi í útflutningi. Hún margfaldaðist í aðdraganda hrunsins. Um þessar mundir leka árlega tugir milljarða, kannski hundrað milljarðar, úr landi á þann hátt, að kvótagreifar selja sjálfum sér fiskinn erlendis. Hækkunin verður milli Íslands og erlendra hafna. Þannig geta farið hundrað milljarðar á ári út úr mældum þjóðarbúskap, skattfrítt með öllu og framhjá samningum. Væri því bætt við þjóðarframleiðslu með útboði veiðiheimilda, gætum við staðið undir velferðarsamfélagi. Hækkun í hafi er langstærsta rán sögunnar, heimsmetið sjálft, hornsteinn bófaflokkanna.

Vinstri-hægri er úrelt

Punktar

Katrínu Jakobsdóttur mistekst að heimta staðsetningu pírata á gömlum ás vinstri og hægri. Píratar flokkast illa á slíkum ás, því veruleiki þeirra er margvíður. Ásarnir eru minnst tveir, annars vegar saman-einka ásinn og hins vegar frelsis-forsjár ásinn. Á síðari ásnum eru píratar fjarri vinstri grænum, fylgja frelsi umfram forsjá. Samt hafa samþykkt stefnumál pírata eindregið verið höll undir samhyggju umfram einkahyggju, svo að samstarf er hugsanlegt. Píratar flokka sig samt ekki eftir forskrift frá Katrínu. Hún verður að sætta sig við, að viðræður um samstarf eftir kosningar taki mið af víðari veruleika en áður var í pólitík.

Fínt form án innihalds

Punktar

Aðeins að formi til er Ísland eitt norrænna velferðarríkja. Höfum ytri stefnu og metnað að norrænni fyrirmynd. Framkvæmdin er hins vegar götótt og sumpart ekki til. Þjónustan er með höppum og glöppum vegna rosalegs skorts á fjármagni. Fólk bíður árum saman eftir hjartaaðgerð eða augnsteinaskiptum og raunar hvers kyns aðgerðum. Heilir sjúkdómar eru á fjárhagsábyrgð sjúklinga. Kostnaður fólks hleðst upp á öllum heilsupóstum. Langir biðlistar lengjast hratt. Ráðherra og ríkisstjórn stefna einbeitt að hruni heilbrigðiskerfisins. Fljótlegra fyrir ráðherra væri að skjóta aldraða, öryrkja, tannveika og krabbameinsfólk á færi.

Ævintýrið er flökkusaga

Punktar

Háðfuglar heimsins frá John Oliver til Lars Christensen gera sér mat úr kreppu íslenzkra stjórnmála. Þemað er svipað hjá þeim öllum: Ríkisstjórn bófa og bjána gegn alþýðunni á Austurvelli, gegn búsáhöldum og banönum, Björk og öllum hinum álfunum. Sigmundur Davíð og Skattaskjóls-Bjarni niðurlægja landið, en kjósendur og píratar bjarga þjóðinni úr klóm bófanna. Þetta er falleg flökkusaga. Leiðir til, að tugþúsundir frá öllum heimshornum koma og vilja virða fyrir eigin augum hina frábæru þjóð, sem dæmdi bankstera til hótelvistar. Sigmundur slær heimsmet og þá sem versti skúrkurinn. Við hin bara græðum á daginn og grillum á kvöldin.

„Græðgi er góð“

Punktar

Flekahlaup óeðlis urðu í samfélaginu við tilkomu spakmælisins „Græðgi er góð“. Óvandað fólk um allt land fann þar allt einu skjól og eðlilega skýringu á óeðli sínu. Þetta gildir um ríka og fátæka. Þannig misnota sumir bændur au pair til að binda erlenda unglinga í þrælavinnu. Þannig treður útgerð í hvalaskoðun tvöfalt leyfilegum fjölda farþega í gúmbát. Þannig grófu þrír ráðherrar undan fjárhag samfélagsins með stofnun skattaskjólsreikninga á aflandseyjum. Menn höggva tré í annarra manna görðum, rífa í offorsi vernduð hús, leigja hóruhúsum íbúðir í fjölbýli. Vitna svo bara full hroka í spakmæli Hannesar Hólmsteins.

Skrítið skjal Ólafar

Punktar

Rannsókn á bakgrunni þriggja yfirlýsinga Ólafar Nordal um eignir í skattaskjóli á aflandseyjum sýna, að sameiginlegur höfundur þeirra er Óli Björn Kárason. Einnig sést, að tveir aðilar koma að samningunni, höfundur og ritskoðari, sem reynir að minnka nálægð Ólafar við umræðuefnið. Loks sést, að engin útgáfan svarar spurningunni um skattalegt hagræði Ólafar af verknaðinum. Málið sýnir, hversu auðvelt er að kanna bakgrunn skjala með leitarforritinu Exiftool. Með tölvuþekkingu er hægt að nálgast áður falin leyndarmál. Ólöf Nordal þarf því að gera nánari grein fyrir máli sínu. Hún er ráðherra, sem fipast í burtskýringum.

Stundin

Framsókn hrynur og píratar síga

Punktar

Þótt fylgi Framsóknar hafi hrunið eftir uppljóstranir um Sigmund Davíð, hefur fylgi stjórnarflokkanna staðið í stað. Flóttafólkið úr Framsókn fór nefnilega ekki til stjórnarandstöðunnar, heldur til Sjálfstæðisflokksins. Þannig er fylgi bófaflokkanna samtals enn um þriðjungur þjóðarinnar. Fastafylgi bófaflokkanna hefur fyrir löngu fundið þar sinn botn og fer ekki neðar, þótt skjálfi himinn og jörð. Hin fréttin úr könnun Gallup er flótti 3% kjósenda frá vinstri kanti Pírata yfir til Vinstri grænna. Ég sé þar afleiðingar augljósra innanflokkserja pírata. Veita kjósendum ekki lengur öryggistilfinninguna, sem þeir áður veittu. Sumir efast um, að staðið verði við stutt kjörtímabil með nýrri stjórnarskrá.

Skoðanakönnunin

Spakmæli upp úr fésbók

Punktar

Fésbókin er hið nýja spakmælasafn. Hér eru nokkur sýnishorn frá síðustu dögum:
„Fyrir lögfræðinga væri mjög heppilegt að ekki væri neinn raunheimur. Sama gildir um hagfræðinga.“
„Traustið er farið og þá er gegnsæið það eina sem dugar.“
„Íslenskt viðskipta- og stjórnmálalíf er og hefur lengi verið það spilltasta í Vestur-Evrópu.“
„Hversu samfélagslega skaðlegt það er að standa í stöðugu stríði við fjölmiðla. Þetta þekkist hvergi nema á Íslandi.“
„Skondið með þessi skattaskjól. Aðrir geyma þar peninga til að fela peninga og skjóta undan skatti, en Íslendingarnir virðast engan áhuga hafa á slíku.“
„Skattaskjólin eru vettvangur skattsvika af stærðargráðu sem er óskiljanleg fyrir venjulegt fólk.“
„Af hverju talar Sigmundur svona mikið um meinta fjárglæfra eiginkonunnar. Er honum eitthvað illa við hana?“
„Við erum ekki að reyna að koma þessum kónum í tugthús. Við erum að koma þeim úr stjórnarráðinu.“
„Þetta snýst mest um siðferði og heiðarleika en ekki endilega lög og reglur.“

Frosti er vanhæfur

Punktar

Enginn hefur varið skattaskjól Sigmundar Davíðs á aflandseyju ákafar en Frosti Sigurjónsson. Sagði þessa aðgerð formanns flokks síns fullkomlega eðlilega og löglega. Enda hafi Sigmundur Davíð gert fulla grein fyrir máli sínu. Nú vill sá sami flokksformaður, að hinn eindregni verjandi sinn stýri nefnd, sem á að leiða baráttuna gegn skattaskjólum. Af því tilefni hefur Frosti snögglega skipt um skoðun og þykist nú vera andvígur skattaskjólum. Allt er á sömu bókina lært hjá tækifærissinnum bófaflokkanna. Lítið en gott dæmi um skítabixið, sem er alfa og ómega þessarar ríkisstjórnar. Frosti getur ekki leitt þessa nefnd.

Hatrið á fjölmiðlum

Punktar

Eitt af sérkennum Íslands er hatrið á fjölmiðlum. Fremst fara þar ríkisstjórn og málsvarar hennar. Aurnum er sí og æ mokað á fjölmiðla, einkum Ríkisútvarpið og samfélagsmiðla fólks. Veruleikinn er allt annar. Fjölmiðlar eru svo þægir, að Bjarni Ben þykist geta hrokast yfir útlenda blaðamenn. Hér er bara spurt á þann veg sem valdamenn vilja. Sigmundur Davíð fer í kerfi, ef fjölmiðill fer út af fyrirskipaðri braut. Hér eru flestir fjölmiðlar hallir undir valdið. Aðeins fáir vefmiðlar leyfa sér að efast. Ef ekki væri hér blogg og fésbók, lifðum við í myrkviðnum. Þegar útlent kastljós skellur á valdinu, hrökkva bófarnir í kút.

Brennuvargarnir eru hér

Punktar

Utanríkisráðherra brennuvarganna leitar í neikvæðni erlendra fjölmiðla skýringa á innlendum eldsvoðum vantrausts. Þess þarf ekki, brennuvargarnir eru þekktir. Ríkisstjórnin veldur vantrausti fólks á pólitíkinni. Orsökina er að finna í lygum forsætis- og fjármálaráðherranna. Sátu beggja vegna borðsins. Sigmundur samdi við kröfuhafa og var kröfuhafi á sama tíma. Bjarni móaðist gegn kaupum á skrám yfir skattsvikara og vildi heimila þeim sakaruppgjöf, ef þeir gæfu sig fram. Var sjálfur með reikning í skattaskjóli á aflandseyju. Enginn ástæða er til að gefa honum tíma og svigrúm til að smíða fjárlagafrumvarp fyrir auðbófa.

Fánýtar hótanir og hroki

Punktar

Mótmælendur á Austurvelli hafa engan áhuga á svigrúmi Bjarna til að leggja fram auðgreifafrumvörp, allra sízt fjárlagafrumvarp. Tafir á kosningum eru aðeins í þágu auðgreifa. Stjórnarandstaðan hefur engan áhuga á að fallast á neitt af svindlbraskinu, sem auðgreifar vilja koma fram. Fráleitt hefur þjóðin nokkurn hag af að fallast á frekari kúgun aflendings úr skattaskjóli. Því verður heitt sumar. Mótmæli munu halda áfram linnulaust, unz komin er nálæg tímasetning á kjördegi. Pólitískir bófar, sem hafa fordjarfað öllu trausti, geta ekki lengur flaggað hótunum og hroka. Pólitísk ævisaga Bjarna Benediktssonar er á þrotum.