Punktar

Í landi Osama

Punktar

George W. Bush er í dag í heimsókn í landinu, þar sem Osama bin Laden felur sig. Bush var í opinberri heimsókn að þakka einræðisherra landsins fyrir stuðninginn. Það hæfir vel utanríkisstefnu Bandaríkjanna að senda forsetann í faðmlög við helztu skúrka mannkyns. Þegar skúrkar faðmast, krossleggja þeir væntanlega fingur til merkis um, að ástin sé ekki alger. Pervez Musharaf stjórnar Pakistan í skjóli hersins, sem hefur alls ekki getað fundið Osama, af því að herinn er ramm-íslamskur og vill alls ekki finna þennan óvin Bandaríkjanna númer eitt.

Líka ferðabókahöfundar

Punktar

Stofnendur ferðabókaflokkanna Lonely Planet og Rough Guides hafa ákveðið að taka undir með þeim, sem hvetja fólk til að ferðast minna í flugi af tillitsemi við umhverfið. Þeir vilja, að fólk fari minna í snöggar ferðir og dveljist í staðinn lengur á hverjum stað. Hér eftir munu allar útgáfur bóka þeirra birta viðvörun um mengun af völdum flugvéla. Fyrirtæki þeirra munu gefa stórfé til umhverfismála. Ennfremur hafa þeir tekið undir kröfuna um mengunarskatta á flugfarseðla, sem Bandaríkin og Evrópusambandið eru að reyna að banna í fundarsölum að tjaldabaki.

25 McDonalds lokað

Punktar

Ákveðið hefur verið að loka 25 skyndibitastöðum McDonalds í Bretlandi vegna minnkandi viðskipta. Þetta er vonandi fyrsta merkið um, að fólk sé að verða fráhverft þeim mat, sem óhollastur er talinn, skyndibitum. McDonalds er ekki einn um þá hituna, en er þekktasta keðja sykurs, salts og fitu, eins konar flaggskip óhollutunnar. Um alla Evrópu var stöðnun. Afturförin í Bretlandi er einkum þökkuð sjónvarpskokkinum Jamie Oliver, sem barist hefur fyrir hollari mat í skólum. Aðeins 1% 13-15 ára barna í Bretlandi telja McDonalds vera uppáhalds matstaðinn sinn, voru 8% fyrir ári.

Glórulaus Kenía

Punktar

Lögreglusveitir réðust í gær inn í hús Standard í Nairobi til að eyðileggja prentvél, af því að blaðið hefur sagt frá glórulausri spillingu ríkisstjórnarinnar og Mwai Kibaki forseta Kenía. Einn ráðherrann hefur flúið land og lýst spillingunni. Kenía hefur lengi verið gæludýr vesturlanda, þótt röð spillingarfíkla hafi mergsogið landið og troðið hungursneyð upp á þjóðina. Í Kenía var ég krafinn um mútur í fyrsta skipti á ævinni. Það var á flugvellinum fyrir óralöngu. Ég neitaði auðvitað að borga.

Útskerjamenn hverfa

Punktar

Gott er, að Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi vill ekki landfyllingar úti á skerjum á sínu svæði. Gísli Marteinn Baldursson varð ekki borgarstjóraefni sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hann boðaði landfyllingar úti á skerjum á sínum tíma, en gafst svo upp á því og Vilhjámur Þ. Vilhjálmsson varð borgarstjóraefni. Ég held, að allir sveitarstjórnamenn á höfuðborgarsvæðinu séu hættir að tala um útskerjabyggð, enda er það heimsku- og hættulegt í landi, þar sem nóg er til af plássi.

Voru langt niðri

Punktar

Húsvíkingar telja sig hafa unnið í happdrættinu. Þeir héldu álvöku og fengu óbeint vilyrði fyrir álveri. Einn þeirra sagði, að þetta væri merkasti atburður í sögu staðarins frá því að Garðar Svavarsson kom þar í upphafi Íslandsbyggðar. Þeir eru svo rosalega fegnir, að þeir hljóta að hafa verið langt niðri og einstaklega vonlausir um framtíðina áður en þeir fengu fréttina. Í Skagafirði fagna menn hins vegar að þurfa ekki að taka við álveri. Þar eru menn með reisn eins og þegar ég var þar í sveit.

Lýðræði fæst ekki gefins

Punktar

Washington Post hringdi í Bell símafélagið og fékk staðfest, að einn innbrotsmanna hafði hringt nokkrum sinnum í Hvíta húsið. Persónuvernd hefðí brjálast, ef slíkar upplýsingar hefðu verið gefnar á Íslandi. Á fyrsta sólarhring Watergate-hneykslisins af 380 dögum þess voru fjölmiðlar komnir með upplýsingar, sem flestar hefðu verið ófáanlegar á Íslandi. Munurinn stafar af, að Bandaríkin eru gróið lýðræðisríki, sem trúir á gegnsæi í þjóðfélaginu, en Ísland er gamalt fasistaríki, sem fékk lýðræði óumbeðið í för með fullveldi frá dönskum kóngi.

Ekki hægt á Íslandi

Punktar

Daginn eftir hringir Washington Post í símanúmerið hér að ofan og fær að vita, að Hunt geti verið inni hjá Colson. Aftur hringdi blaðið í Hvíta húsið og fékk að vita, að Hunt væri á starfsmannaskrá þess. Hringt var í Endurkjörsnefndina og í CIA og á báðum stöðum var staðfest, að Hunt hefði lengi unnið fyrir CIA. Blaðið hringdi enn í Hvíta húsið, í þetta skipti í bókasafnið og fékk að vita, hvaða bækur Hunt hefði tekið þar að láni. Þið skulið ekki ímynda ykkur, að þetta hefði gengið svona vel á Íslandi. Hér hefðu fyrstu skrefin ekki tekizt.

Allir menn forsetans

Punktar

Ég var að endurlesa All The President’s Men. Hún byrjar á, að fréttaritari Washington Post á lögreglustöðvum borgarinnar fær að vita, hvað var í vösum fimm manna, sem voru staðnir að innbroti, peningar í númeraröð og tvær minnisbækur með símanúmeri í Hvíta húsinu. Á Íslandi hefði þetta ekki verið hægt og því hefði Watergate-málið aldrei byrjað á Íslandi. Sama daga birtir Associated Press, að fjármálaskýrslur stjórnmálaflokkanna sýni tengsl eins innbrotsmanns við Endurkjörsnefnd Nixons forseta. Engar slíkar skýrslur eru til á Íslandi eins og allir vita.

Flugið mengar

Punktar

Bannað verður að leggja mengunargjald á flug samkvæmt uppkasti að samningi milli Bandaríkjanna og Evrópu. Þar sem flug er einn mesti mengunarvaldur í heiminum um þessar mundir og sá sem magnast hraðar, er þessi samningur út í hött. Nær væri að skattleggja flugvélabenzín þyngra en bílabenzín, því að brennsla þess hefur í för með sér 2,7 sinum meiri losun gróðurhúsalofts og gerist ofar í andrúmsloftinu. Evrópu ber skylda til að skoða þetta mál í alvöru í stað þess að láta Bandaríkin þrýsta sér til óhæfuverka. Óvinsælt en brýnt er að leggja hátt mengunargjald á flugfarseðla.

Svínasúpa

Punktar

Góðgerðafélag í Frakklandi hefur vakið mikla reiði stjórnvalda með því að bjóða fátæklingum ókeypis svínasúpu, sem múslimar og gyðingar borða ekki af trúarástæðum. Súpan er kölluð þjóðmenningarsúpa, enda er hún fjörgamall hluti af lífi almennings þar í landi. Um leið er hún hluti af ört vaxandi andstöðu fólks í Evrópu við innflutning fólks með trú, sem að hluta til stríðir gegn siðum og reglum í álfunni. Múslimar líta á svínasúpuna sem sérstaka ögrun við sig. Lögreglan hefur reynt að hindra súpugjafirnar án nokkurs árangurs. Súpunni fylgir brauð og ostur, rauðvín og eftirréttur.

Sykurkorn og sykurmjólk

Punktar

Mikið af morgunkorni er ekki bara óhollt, heldur beinlínis til þess fallið að gera börn að sykurfíklum. Í sumum tilvikum er viðbættur sykur þriðjungur af innihaldinu og fer upp undir helming í einu eða tveimur tilvikum. Þar á ofan fá sum börn mikið sykraðar mjólkurafurðir með morgunkorni. Ofþyngd og tilheyrandi menningarsjúkdómar tengjast langvinnri ofnotkun á sykri í morgunkorni og mjólkurvörum. Þetta eru mikið notaðar vörur, sem kalla má tóbak nútímans. Einu sinni þótti tóbak sjálfsagt. En er ekki kominn tími til að setja heilsuskatt á viðbættan sykur?

Til mikilla vandræða

Punktar

Öll fjölþjóðleg samtök um mannréttindi styðja tillögu allra ríkja heims nema Bandaríkjanna um nýskipan Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Human Rights Watch og Amnesty International. Þá hafa tólf manns, sem fengið hafa friðarverðlaun Nóbels, lagst á sveif með mannkyninu gegn Bandaríkjunum. Ljóst er, að Bandaríkin eru og verða áfram til mikilla vandræða í samfélagi ríkja. Því er undarlegt, að ríkisstjórnir í Evrópu og jafnvel Evrópusambandið eru stundum að reyna að friða Bandaríkin með aðild að ofbeldi þeirra, til dæmis ríkisstjórn Íslands í Afganistan.

Enn og aftur Bandaríkin

Punktar

Bandaríkin höfnuðu í gær tillögu alls heimsins um nýja Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. og tefla enn fram tillögu sinni gegn niðurstöðu allra annarra ríkja. Bandaríkin telja sig yfir hafin öll ríki heims samanlagt, svo mikill er hrokinn. Bandaríkin hafa líka lagt niður mannréttindi með því að saka hundruð manna holt og bolt um hryðjuverk og loka það inni árum saman án dóms og laga og án þess að nokkuð sannist í málum þeirra. Ekki er líklegt, að nýskipan nefndarinnar nái fram að ganga, því að Bandaríkin fresta greiðslum, ef þeim er eitthvað á móti skapi.

Styrkja Palestínu

Punktar

Evrópusambandið ætlar að greiða Palestínu tíu milljarða króna neyðarstyrk til að stjórnskipulagið hrynji ekki af fjárskorti vegna þjófnaðar Ísraels á skattfé. Áður var sambandið búið að hóta að hætta að styrkja Palestínu, þegar róttæki flokkurinn Hamas náði meirihluta í frjálsum kosningum. Sú hótun var á þeim tíma undarleg og ólýðræðisleg, enda hefur Evrópusambandið skipt um skoðun. Bandaríkin hafa líka ákveðið að veita Palestínu áfram peningastyrk. Betra væri, að þessar valdastofnanir tækju strax réttar ákvarðanir í stað þess að láta almenningsálitið knýja sig til þeirra.