Punktar

Þrautrædd stjórnarskrá

Punktar

Í pípunum eru tvær stjórnarskrár, Stjórnlagaráðs og Stjórnskipunarnefndar. Sú síðari er efnislega samhljóða hinni fyrri, með tæknilegum breytingum að óskum lögfróðra. Þær hafa fengið rækilega umfjöllun og sú fyrri mjög jákvæð úrslit í þjóðaratkvæði. Sigri stuðningsmenn þeirra í næstu kosningum, þarf að leggja aðra eða báðar fyrir alþingi. Þar fer málið í eðlilegt þingferli með óskum um athugasemdir fólks. Þingnefndin, vinnur úr þessu og leggur fram tillögu, sem alþingi samþykkir. Boðað verður til þjóðaratkvæðis og nýrra kosninga. Nýtt alþingi staðfestir svo útkomuna. Þetta ferli getur tekið eitt eða mest tvö ár.

Saumað að aflendingum

Punktar

Ríkisskattstjóri og vararíkisskattstjóri skrifa grein í skattablaðið Tíund um skattaskjól á aflandseyjum. Segja fæsta aflendinga hafi greitt skatta og skyldur af földu fé. Kerfi blekkinganna sé að hrynja sem aumasta spilaborg. Panamalekinn sýni, að íslenzkir athafnamenn hafi lagt áherzlu á að fela fengið fé. Skattayfirvöld hafi verið blekkt, svo og fjármála- og samkeppnisyfirvöld. Hafi verið gert með flókinni uppsetningu með aðstoð fróðra manna í töfum, flæmingi, smjörklípum og jafnvel hótunum. Aflendingar geti „tæplega vænzt þess lengur að sitja einir að góssinu“, segja Skúli Eggert og Ingvar í TÍUND.

Nýrri stjórnarskrá hrósað

Punktar

Stjórnarskráin frá Stjórnlagaráði hefur vakið athygli erlendis. Þetta segir Antoni Ninet, lagaprófessor í Kaupmannahöfn: „Frá lagalegu og stjórnmálalegu sjónarhorni hefur sú opna og gegnsæja aðferð, sem notuð var á Íslandi við gerð nýrrar stjórnarskrár, vakið athygli fjölda sérfræðinga, háskóla og samfélaga, og nú er fylgst með möguleikanum á því að slíkri aðferð verði beitt á ný. Það er byltingarkennd aðferð að fela þjóðinni að semja stjórnarskrá, en vandinn er sá að ekki eru til hliðstæð dæmi til samanburðar. Það er líka afrek að láta ferlið ganga upp, og í framtíðinni verður litið til reynslu Íslands þegar unnið verður að stjórnarskrám um veröld víða.“

Þarf að bera Bjarna út

Punktar

Bjarna Benediktssyni tókst í tæpt ár að tefja kaup skattrannsóknastjóra á lista yfir eigendur reikninga í skattaskjólum. Sagði lista frá nafnlausum aðila ekki vera merkilegt plagg. Tregðaðist við að láta ráðuneytið borga, fannst upphæðin of há. Var hún þó bara krækiber í helvíti skattsvikanna. Fyrir rest varð hann þó að gefa eftir. Nú er komið í ljós, að fyrirtæki hans sjálfs er í skjölunum, svo og föður hans. Bjarni og öll hans ætt Engeyinga eru braskarar, sem nota pilsfald ríkisins til að komast yfir fé og fela. „Pólitískar árásir sem beinast að mér persónulega“, segir Bjarni. Það á að bera braskarann út úr ráðuneytinu.

Kostuleg bræðrabylta

Punktar

Freku karlarnir gengu of langt í sandkassaleik sínum um Bessastaði. Úr varð kostuleg bræðrabylta. Hornsteinn landsins að eigin mati hljóp inn í framboð og út úr framboði á fárra daga fresti. Snautlegur endir á ferli Ólafs Ragnars Grímssonar. Hinn roggni karlinn úr fortíðinni reynist hafa enn minni stuðning. Davíð Oddsson lét Hannes Hólmstein telja sér trú um, að hann væri alls ekki helzti hrunvaldurinn, heldur þjóðhetjan. Snautlegt framboð kollvarpaðist á bara tveimur dögum. Engin eftirspurn er lengur eftir þessum uppskrúfuðu körlum úr fortíðinni. Gamla, spillta Ísland er að deyja og Nýtt Ísland fer að taka við.

KÖNNUNIN

Þöggun er búmerang

Punktar

Þöggun íslamsvandans er að bresta víða um Evrópu. Hér lenda bókabúðir í vanda, þegar upp kemst. Í Svíþjóð falsaði löggan lengi tölur um afbrot múslima. En nú segir hún, að 55 hverfi í landinu séu bannhverfi, sem hún sé að missa tökin á. Eftir síðustu nýársnótt í Þýzkalandi kom í ljós, að löggan og fjölmiðlar höfðu lengi þaggað vandann. Nú er allt að opnast þar. Þetta hefur verið vatn á myllu róttækra múslimahatara. Þeir benda á óheilindi fjölmenningarsinna, sem knúðu fram þessa þöggun. Búast má við auknu fylgi flokka múslimahatara víðs vegar um Evrópu. Í opnu samfélagi hefnir þöggun sín, hún hittir þig eins og búmerang.

Allt eins og áður var

Punktar

Landsfaðirinn hefur lengi séð um, að sólin komi upp á morgnana og allt verði eins og áður var. Nú vill hann færa keflið nýjum landsföður, sem sjá mun um, að sólin komi upp á morgnana og allt verði eins og áður var. Síðar verður boðið upp á þingkosningar, þar sem þú velur Sjálfstæðisflokkinn til að sjá um, að sólin komi upp á morgnana og allt verði eins og áður var. Gamla Ísland mun vara við ævintýragirni pírata og annarra, sem vilja nýju stjórnarskrána. Þú veizt, hvað þú hefur, en ekki hvað þú færð. Láttu mafíuna sjá um þig og fleygja til þín brauðmolum. Það verður þema spillta, gamla Íslands í pólitík næstu mánaða.

Hrun vestræns siðferðis

Punktar

Panama-pappírarnir veita innsýn í síðustu kortérin á hruni vestræns siðferðis. Auðfyrirtæki og auðfólk fela í auknum mæli tekjur og eignir í skattaskjóli aflandseyja. Forðast samfélagskostnað og draga þar á ofan úr veltu þess. Sérstök lögfræðifyrirtæki á borð við Mossack Fonseca taka þátt í lagasmíði aflandseyja til að fela fé og tilfærslu fjár. Fyrir tilviljun þorði stórblað Þýzkalands að taka þátt í birtingu gagnanna. Eigendur fjölmiðla eru nefnilega auðfyrirtæki með aflandsfé. Fréttablaðið, Stöð 2 og Morgunblaðið hefðu aldrei tekið þátt í slíkri birtingu. En Süddeutsche þorði að opna Pandóru-boxið.

Tveggja tudda fall

Punktar

Fylgi Ólafs Ragnars hrundi um helming í skoðanakönnun í gær. Klukkustundu síðar hætti hann við framboð. Ekki með hvelli á Bessastöðum heldur með andvarpi eða stunu í síma. Þar með erum við laus við annan af helztu tuddum fortíðarinnar. Hinn fékk dapra innkomu, sem bendir til 15-20% fylgis Davíðs. Háðuleg tala, sem sýnir, að þjóðin fyrirgefur honum ekki hrunið. Tölurnar slefa honum í þriðja sætið. Gefa tveimur frambjóðendum rými fyrir ofan. Andi Snær er aftur kominn inn í myndina. Því að fólk þarf ekki að velta fyrir sér að kjósa taktískt.

Davíð á Kvíabryggju

Punktar

Forsætisráðherrann, sem einkavinavæddi bankana og bjó til skort á eftirliti með þeim, vill verða forseti. Forsætisráðherrann, sem stjórnaði landinu með frægum reiðiköstum, vill verða forseti. Forsætisráðherrann og Seðlabankastjórinn, sem Time Magazine telur með 25 helztu gerenda heimskreppunnar árið 2008, vill verða forseti. Seðlabankastjórinn, sem skóf allan gjaldeyri bankans til að afhenda einkabönkum án veða daginn fyrir hrunið, vill verða forseti. Ritstjórinn, sem kvótagreifar settu til að gæta hagsmuna sinna á Mogganum, vill verða forseti. Þessi svartibófi Íslands ætti frekar að vera á Kvíabryggju en á Bessastöðum.

Davíð verri en Ólafur

Punktar

Almannatenglar Ólafs Ragnars Grímssonar tjá honum, að framboð Davíðs Oddssonar eyðileggi framboð Ólafs. Fylgi Davíðs komi að mestu frá honum og dreifi því þannig, að báðir muni falla. Ólafur fái meira að segja lakari útkomu en Davíð. Því er Ólafur Ragnar kominn á fremsta hlunn með að hætta við að hætta við að hætta. Sér var nú hver hornsteinninn. Ekki tekur betra við, þegar frambjóðandi auðgreifa grípur kyndilinn. Davíð Oddsson er mun verri kostur en Ólafur og sameinar þrælafylgið betur en hann. Því mættu þeir, sem lenda í þriðja sæti eða neðar í næstu könnunum, víkja fyrir einum, sem helzt getur keppt við Davíð.

Þykjast ekki skilja ensku

Punktar

Pólitískir bófar virðast almennt halda fram, að þeir skilji ekki spurningar á ensku. Þannig skildi Sigmundur Davíð ekki spurningu SVT og Ólafur Ragnar skildi ekki spurningu CNN. Hafa þó dvalið langdvölum í enskumælandi löndum. Sigmundur Davíð sagði af sér af þessu tilefni, en Ólafur Ragnar situr límdur við stólinn. „Do you have any offshore accounts? Does your wife have any offshore accounts? Is there anything that’s going to be discovered about you and your family?“ Tengdaforeldrar eru „family in law“ á ensku. Svar Ólafs var afdráttarlaust: “No, No, No, No, No, that is not going to be the case.” Auðvitað var hann að ljúga. Klaufalega eins og Sigmundur.

Nú verður leðjuslagur

Punktar

Alþjóðlega viðurkenndur persónugervingur hrunsins hyggst fara í leðjuslag við klappstýru hrunsins. Þar verður fjallað um „skítlegt eðli“ og annað að hætti örvasa jálka hefðbundinna stjórnmála. Þeir tveir kunna að bíta frá sér. Það verður eitthvað. Á sama tíma geta Guðni Th. og Andri Snær stundað uppbyggilega kosningabaráttu nær okkar öld. Báðir forsetalegir, meðan hinir eru leðjupiltar. Eins og er virðist Davíð munu hafa Ólaf Ragnar undir í baráttu um eitt af tapsætum kosninganna. Væri frábær bræðrabylta. En því miður er ekki góð reynsla af íslenzkum kjósendum. Elska sína „sterku menn“ og eru til alls vísir.

Davíð sturlar pólitíkina

Punktar

Það kórónar sturlun íslenzkra þjóðmála að persónugervingur hrunsins bjóði sig fram til forseta Íslands. Maðurinn, sem framkallaði eftirlitsleysi með bönkum, þegar hann var forsætisráðherra. Maðurinn, sem skóf allan gjaldeyri innan úr Seðlabankanum daginn fyrir hrunið. Maðurinn, sem Time Magazine skilgreindi sem einn 25 helztu gerenda alþjóðakreppunnar 2008. Davíð Oddsson vill nú þar á ofan  verða forseti Íslands. Í samkeppni við annan gaur af svipuðum toga siðblindu og samvizkuleysis. Þar hittir andskotinn ömmu sína, ég man ekki, hvor þeirra notaði orðið „skítlegt eðli“ um hugarfar hins. Nú býð ég ekki í kjósendur vora.

Lýsing TIME

Allt eins og áður var

Punktar

Átta árum frá hruni, hefur ekki enn verið stoppað í lagagöt. Að einhverju leyti taka lög á þeim þjófnaði, sem kallast umboðssvik. Felur í sér, að stjórar taka að sér að skafa innan fyrirtæki sín, til dæmis banka, til dæmis fyrir eigendur eða ráðherra. Stærsti umboðssvikarinn er auðvitað Davíð, sem skóf Seðlabankann að innan; hefur ekki enn verið kærður. Kennitöluflakk tíðkast óbreytt, skuldir skildar eftir á gamalli kennitölu og lánsfé flutt yfir á nýja kennitölu. Enn er talað um ýmis skattsvik sem skattasniðgöngu eins og reglur séu hindranir, sem sveigja beri fyrir. Dorrit bófi gerði reglur um búsetu að víðfrægum skrípaleik.