Punktar

Misjöfn einkunn

Punktar

Athyglisverðast í kosningabaráttunni er framlag Sigurðar Björnssonar viðskiptafræðings, sem hefur greint fjárhag og stjórnsýslu nokkurra sveitarfélaga á suðvesturhorninu. Niðurstaða hans er, að Kópavogi, Garðabæ og Seltjarnarnesi hafi verið vel stjórnað undanfarin ár, en Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Reykjanesbæ illa stjórnað. Í þremur síðasttöldu stöðunum þarf að skipta um meirihluta, en ekki í þremur hinum fyrri. Ég hefði viljað sjá svona úttekt á Reykjavík og Akureyri líka. Hitt er annað mál, að kjósendur hlíta ekki svona skynsamlegum ráðum.

Burt með ógifta foreldra

Punktar

Óvígð sambúð kostar 30.000 krónur á dag í Black Jack, kaupstað í Missouri í Bandaríkjunum, ef fólk eignast börn. Olivia Shelltrack og Fondray Loving eru fyrstu óvígðu foreldrar í bænum og búast við að þurfa að flýja til nútímans. Fleiri staðir hafa horn í síðu ógiftra og sett svipaða reglugerð um siðsemi. Næst í röð þeirra, sem hrakin verða brott frá Black Jack með ógnun um 30.000 króna dagsekt, verða líklega Michael Watson landgönguliði og vinkona hans, sem hefur eignast barn. Norman McCourt bæjarstjóri tekur fram, að Black Jack sé ekki réttur staður fyrir ósiðlegt athæfi.

Erfðabreytt fýkur

Punktar

Ræktun venjulegrar og erfðabreyttrar búvöru fer ekki saman. Erfðabreytt sæði fýkur um allt í Evrópu, yfir á venjulega akra, einnig lífrænt ræktaða. Með ræktun erfðabreyttra matvæla á afmörkum stöðum eru allir nágrannabændur í vanda. Þeir, sem áður seldu lífrænt ræktaðan mat á háu verði, verða að brenna akrana til að losna við erfðabreytta sæðið og fá ekki bætur, því að bændur erfðabreyttrar búvöru eru ekki tryggðir fyrir viðskiptatjóni, og eru ekki borgunarmenn. Þetta mun gerast í Eyjafirði og valda vandræðum í hefðbundinni búvöru. Og svo vill enginn selja eða kaupa erfðabreytt í búðum í Evrópu.

Passaðu þig

Punktar

Uggur sækir að fólki víða um heim og mest í Bandaríkjunum, þar sem menn eru ekki bara hræddir við fuglaflensu, heldur ótal önnur vandræði, allt frá Osama bin Laden til kalkúna, sem sagðir eru farnir að ráðast á fólk í úthverfum, samkvæmt Wall Street Journal. Bílaframleiðendur á borð við Volvo og Lexus auglýsa bílana eins og þeir séu að auglýsa brynvarða skriðdreka. Upp er komin krafa um, að fótboltakrakkar noti hjálma. Og New York Times varar fólk við notkun vatns til baða. Washington Times hefur rosaáhyggjur af X-geislum og gamma-geislum frá Norður-Kóreu og Íran.

Dómvenja og fjölmiðlar

Punktar

Óvæntir dómar hafa fært vestrænum fjölmiðlum nýjar hættur, þar á meðal íslenzkum. Áður þurftu þeir bara að vara sig á meiðyrðamálum, sem hafa orðið sjaldgæfari. Nú er fremur kært fyrir árás á einkalíf. Ekki er lengur nóg til varnar að hafa sagt satt. Málskostnaður leiðir til tilmæla að ofan um að leggja minna upp úr uppljóstrunum og forðast þær, einkum ef þær eru þess eðlis, að öflugir aðilar geti höfðað mál út af þeim. Dómvenja hefur kælandi áhrif á uppljóstranir. Þurfa fréttamiðlar að fá tryggingu til að greiða kostað við málaferli? Gera tryggingafélög þeirra kröfu um geldfréttir?

Nútíminn er spuni

Punktar

Þegar George C. Wallace ríkisstjóri neitaði að fara úr anddyri skóla í Alabama á frægum tíma, var það ekki atburður, heldur leikin aðgerð í samráði við John F. Kennedy, þáverandi forseta. Hún hafði það að markmiði, að báðir aðilar kæmu vel út úr málinu. Wallace var að afla sér fylgis svertingjahatara í Suðurríkjunum og Kennedy var að láta sig líta út sem þann, sem vildi flýta fyrir blöndun kynþátta í menntakerfinu. Í samstarfi léku þeir lítinn slag, hvor fyrir sitt lið. Við lifum í heimi, þar sem menn berjast um ímyndir. Fólk telur því ekki neinn sannleik vera til, heldur bara spuna.

Myndin af barninu

Punktar

Vinur segir: “Mikið er þetta fallegt barn.” Móðir svarar: Þú ættir að sjá myndina af því.” Sýndin skiptir meira máli í þessu samtali en veruleikinn. Þannig snýst nútíminn um ímyndir. Ólæti á útifundi eru gott dæmi um gerviatburð fyrir sjónvarp. Þau byrja, þegar vélarnar fara í gang, og þeim linnir, þegar vélarnar hætta. Gerviatburðir eru framleiddir til að koma þeim í sjónvarp. Oft eru stjórnvöld og flokkar að verki. Stjórnmálamenn þurfa athygli og viðurkenningu og nota sér þörf sjónvarps fyrir myndefni til að framleiða gerviatburði fyrir kjósendur, sem lifa í sýndarveruleika.

Gleymd og grafin

Punktar

Silvia Night hefur aðeins verið nefnd einu sinni á dag á nafn í útlöndum undanfarna daga og þá sem aukalína í fréttum af öðru. Eini markverði miðillinn af þeim er Daily Telegraph í London, sem segir hana heimskulega. Enginn nefndi hana í gær. Fremjendur uppákomunnar í Aþenu hafa gert mikið úr athygli fjölmiðla, sem er alls engin. Það verður enginn frægur af að pruma eða hrækja á almannafæri, nema kannski í íslenzku sjónvarpi. Slíkt getur gengið í 70.000 lúða, sem eru aldir upp við slíkt í íslenzku sjónvarpi, en gengur alls ekki í útlöndum, allra sízt vestan hafs.

Pyndingaskólinn

Punktar

Bandaríski herinn og leyniþjónustan pynda ekki aðeins, heldur kenna erlendum bullum sínum pyndingar. Kennslan fer fram í Fort Benning í Georgia, þar sem liðþjálfum og höfuðsmönnum, einkum frá rómönsku Ameríku eru kenndar nauðganir og pyndingar og morð. Þessi skóli hefur lengi starfað undir ýmsum nöfnum, heitir núna School of the Americas og ber ábyrgð á hörmungum fólks í álfunni. Það er merkilegt, að bandarískir fjölmiðlar, sem oft eru góðir, skuli ekki hafa kveikt á perunni og hafið rannsókn á ríkisstofnuninni í Fort Benning.

Geldfugl í sagnfræði

Punktar

Fjölmiðlar hafa sagt frá erindi sagnfræðings um hleranir íslenzkra stjórnvalda í kalda stríðinu. Eftir fréttum að dæma hefur framsetning sagnfræðingsins verið geld, fjallaði um ótilgreindar persónur, sem ofsóttu ótilgreindar persónur. Úr þessu efni verður engin sagnfræði fyrr en upplýst er, hverjir skipulögðu og framkvæmdu hleranir og hverjir urðu fyrir þeim. Ímyndið ykkur sagnfræði, sem segði okkur, að bandamenn hafi eftir stríð höfðað mál gegn ónafngreindum þýzkum leiðtogum. Sagnfræðingar, sem hugsa: “Nomina sunt odiosa” eru geldfuglar í faginu.

Þriggja-gljúfra-slysið

Punktar

Grænfriðungar af öllu tagi nota nýju Þriggja-gljúfra-stífluna í Kína sem skólabókardæmi um tap á stíflum virkjunarsinna. Þessi stífla kláraðist um helgina og ryður einni milljón manns úr vegi lónsins. Fiskar deyja í lóninu, af því að hraðinn á vatninu nægir ekki til að hreinsa það. Gríðarleg drulla er farin að safnast við stífluna. Stíflan er dæmi um skelfileg áhrif af lánastefnu Alþjóðabankans, sem hefur hingað til ekki haft í verki neinn sjáanlegan áhuga á umhverfi mannkyns, þótt bankinn tali mikið eins og Landsvirkjun gerir líka.

Einkaherir í boði

Punktar

Einkaherir eru orðnir fyrirferðarmiklir. Flestir eru í Afríku, þar sem þeir gæta hagsmuna vestrænna glæpafyrirtækja. Stærsti einkaherinn er þó Aegis, 20.000 manna her Tim Spicer í Írak. Aegis er ráðinn af bandaríska hernum til að vernda hann fyrir vondu fólki. Eftir því sem vígfúsum ríkjum fækkar og eftir því sem heimþrá bandaríska hersins eykst, þeim mun meiri líkur eru á, að einkaherir taki upp slakann og gæti vestrænna hagsmuna, til dæmis í olíunni. Einn einkaherinn, Blackwater, hefur boðist til að leysa stríðið í Darfur í Súdan og býður þjónustu sína hverjum þeim, sem bezt borgar.

Notið féð í Huppu

Punktar

Samkvæmt skoðanakönnunum á Framsókn 3.000 kjósendur í Reykjavík, sem dugar ekki í einn borgarfulltrúa af fimmtán. Ef við gerum ráð fyrir, að barátta Framsóknar, sem einkum er háð í sjónvarpi, kosti 60 milljónir króna, þá eru það 20.000 krónur á hvern kjósanda flokksins. Fylgið hefur ekkert aukizt við þessa galið dýru kosningabaráttu. Skynsamlegra væri að nota peningana í eitthvað gáfulegt, sem mundi verma hjarta okkar, til dæmis að setja upp á Kluftum styttu af Huppu, frægustu kú Framsóknar og formóður allra kúa landsins, sem uppi var fyrir einni öld.

Beðið um aðstoð

Punktar

Það eru gamlar fréttir, að Framsókn verði óróleg í sjálfstæðissænginni, er fylgið fýkur burt. Ef úrslitin fylgja könnunum, má búast við erfiðu samstarfi þetta ár. Hins vegar er óvíst, að Björn Ingi Hrafnsson græði á að sýna veikleika og benda á þetta undir lok baráttunnar. Er hann að biðja sjálfstæðiskjósendur að hlaupa undir bagga með Framsókn, svo að hún verði þolanleg í skapinu? Mér finnst ólíklegt, að slíkrar neyðaraðstoðar sé að vænta. Hver er sjálfum sér næstur í þessum kosningum og fáir munu leggja lykkju á leið sína til að lappa upp á þreytta ríkisstjórn.

Varin sem leikhús

Punktar

Framkoma Silvíu Nætur í Aþenu er varin sem leikhús, er menn eigi ekki að skilja eins og veruleika. Katrín Jakobsdóttir spyr í Mogga, hvort persóna, sem ekki er til, geti verið slæm landkynning. Svarið er já, jafnvel dauðir hlutir geta verið slæm eða góð landkynning. Firnavont er fyrir orðstír Íslands, að sorgarleikur Silvíu Nætur fór úr böndum. Eina grínið í rallinu er, að hún fékk stuðning 70.000 firrtra Íslendinga til að skandalísera í Aþenu. Þannig séð er rétt, að Silvía Nótt er skopmynd af nútíma Íslendingi. En hana skortir stuðning til frekari skemmdarverka erlendis.