Punktar

Frjáls maður

Punktar

Heimsleikar í fótbolta eru hafnir og ég hef nógan tíma til alls. í hvert sinn sem einhver nefnir fótbolta fagna ég að hafa nógan tíma. Margir telja sig skuldbundna að horfa á boltann tvo tíma eða fjóra eða sex á degi hverjum. Ég þarf ekki að fara í frí á nákvæmlega tilteknum tíma til að koma heimsleikunum fyrir í lífi mínu. Ég get þekkzt boð um að koma í kaffi í sveitinni án þess að skoða tímaskrá boltaleikja. Hér í húsinu er sjónvarpstæki, en ég þarf aldrei að kveikja á því. Það eru 24 ár síðan ég missti áhuga á fótbolta. Ég er orðinn frjáls.

Sex stríð í einu

Punktar

Nató tekur æ víðar til hendinni. Það er með áætlanir um stríð á sex stöðum í heiminum með 60.000 hermönnum, þótt það hafi verið stofnað til að gæta friðar í Evrópu einni. Í auknum mæli kemur Atlantshafsbandalagið fram sem stuepige eftir yfirreið bandaríska hersins, hreinsar upp eftir herinn. Afganistan er gott dæmi um þessa iðju, sem kölluð er friðargæzla. Hún er í rauninni stríð, af því að þolendur gæzlunnar vilja ekki hafa neitt með hana að gera. Í hlutverki hnattvæddrar löggæzlu hefur Nató þau áhrif á þriðja heiminn, að þar fara menn að vantreysta Evrópu eins og Bandaríkjunum.

Bækur á skjánum

Punktar

Eftir tæpan mánuð fást 300.000 stafrænar bækur ókeypis á vefnum hjá Project Gutenberg og World eBook Fair. Þetta eru fyrstu skrefin til stafræns bókasafns, sem á að spanna allar bækur. Leitarvélin Google er stórtækasti aðilinn, er nú að skanna allt bókasafn Harvard-háskóla. Þröskuldur í vegi byltingarinnar er skortur á lestölvum, sem virka eins og bækur og eru næstum eins léttar. Þær hafa ekki komið enn á markað, þótt Sony tali fallega um Reader sinn. Þegar hæfilegar tölvur koma, má vænta þess, að bókalestur í tölvum springi út.

Stórsókn Framsóknar

Punktar

Menn eru ánægðir með Framsókn á Reyðarfirði, á Húsavík og í Keflavík, en í sveitum landsins er lítið fylgi við vatnsorkuver á hálendinu til að efla vinnu í sérstökum byggðum. Menn eru ekki heldur sáttir við að gefa álverum orkuna á hálfvirði. Á höfuðborgarsvæðinu er nánast enginn stuðningur við ofbeldi Framsóknar í umhverfismálum, né heldur við andúð hennar á öldruðum og öryrkjum samkvæmt stjórn hennar á heilbrigðis- og félagsmálum. Allra minnst er þó fylgi manna við hönnun atburðarásar í þágu klíku Halldór Ásgrímssonar, sem sízt af öllu er í stórsókn þessa dagana.

Risabandalagið

Punktar

Myndað hefur verið fjölmennasta ríkjabandalag heims, Sjanghæ-klúbburinn, þar sem Kína og Rússland eru með nokkrum langtburtistan-ríkjum í Asíu í samkeppni við Bandaríkin. Eins og önnur slík segist það keppa að nýskipan stjórnmála og hagmála, en er í raun bandalag harðstjóra og einræðisherra. Það er andvígt stjórnarandstæðingum af hvaða tagi sem er. Mannréttindi eru blótsyrði í bandalaginu. Það er dæmi um, að vestræn gildi eru ekki að blómstra í heiminum. Hitt dæmið eru Bandaríkin, er hafa vikið frá vestrænum gildum, sem gefa okkar heimshluta reisn.

Súrari úthöf

Punktar

Nú eru úthöfin farin að súrna eins og skógarnir og vötnin. Í efri lögum þeirra er 30% meiri sýra en var fyrir iðnbyltingu. Sýran étur til dæmis skeljar. Aukin sýra stafar af losun gróðurhúsalofttegunda og er þegar farin að hafa áhrif á lífríki hafsins, kannski líka á þorskinn og ýsuna. Úthafið er of stórt til að dugi að hella í það kalki eins og gert hefur verið við sum vötn. Thomas E. Lovejoy skrifar um þetta í International Herald Tribune og telur, að vinna verði hraðar gegn útblæstri hættulegra lofttegunda.

Róttæk Sómalía

Punktar

Íslamistar hafa með valdi tekið völdin í Mógadisju, höfuðborg Sómalíu, af herstjórum á mála hjá Bandaríkjunum. Hinir nýju valdhafar eru hallir undir al Kaída og Osama bin Laden. Það er enn eitt dæmið um ósigra Bandaríkjanna í krossferðum George W. Bush forseta í ríkjum íslams. Almenningur og kaupmenn í landinu styðja íslamista, því að þeir skipuleggja þjónustu, meðan leppar Bandaríkjanna hugsa bara um að drepa fólk. Herstjórarnir eru nú komnir á flótta víðar í landinu. Þeir voru á sínum tíma illræmdir eftir kvikmyndina Black Hawk Down, sem fjallaði um frægan bardaga í landinu.

Evrópa verst enn

Punktar

Mikil barátta er um erfðabreytt matvæli í Evrópu, því að í flestum löndum álfunnar vilja hvorki bændur, stórmarkaðir né neytendur vita af slíkum mat. Erfðabreytt sæði fýkur hins vegar milli akra og tryggingafélög hafa neitað að tryggja bændur gegn skaðabótakröfum vegna foks á erfðabreyttu sæði. Smám saman verður erfitt fyrir hefðbundna bændur að selja afurðir sem ómengaðar, nema einstök lönd geti heft innreið erfðabreytts korns. Í deilunni er Alþjóða viðskiptastofnuninni beitt gegn Evrópu, enda er vistvænn og lífrænn landbúnaður utan við dómgreind viðskiptafræðinga hennar.

Svíar meðsekir

Punktar

Skýrsla Evrópuráðsins um fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar í Evrópu slær því föstu, að Pólland og Rúmenía hafi verið lönd pyndingabúða hennar. Ennfremur, að Svíþjóð, Þýzkaland, Spánn og Ítalíu séu meðal þeirra ríkja, sem leyfðu leyniþjónustunni að taka fólk ólöglega í fangaflugið. Alls telur nefnd Evrópuráðsins, undir forsæti Dick Marty, að 14 Evrópuríki séu að meira eða minna leyti samsek. Þau hafi brotið gegn Evrópusáttmálanum og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Því eiga margir valdamenn eftir að svara til saka, meðal annars Svíar.

Endurtekin mistök

Punktar

Bandaríkjamenn hafa gert alveg sömu mistök í Írak og Bretar gerðu þar eftir fall Tyrkjaveldis við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, segir H.D.S. Greenway í Boston Globe. Enda sé þeim fátt verr gefið en að læra sagnfræði, samanber fortíð Frakka í Víetnam. Fáránlegt orðalagið er eins á pólitískum ímyndunum árið 1920 og 2006. Menn töldu sig og telja sig vera frelsisengla, er megi ekki snúa baki við Írak, sem verði fyrirmyndar lýðræðisríki. Greenway klikkir út með því að segja, að enn eldri brezkir draugar séu á ferð í bandarísku hernámi Afganistans.

Æðsti prestur

Punktar

Landlæknir vill, að silkihúfur á spítölum ráði, hvort fjölmiðlar fái aðgang að sjúklingum, sem vilja tala við þá. Í Fréttablaðinu er birt mynd af Steingrími J. Sigfússyni með fréttinni og sagt, að hún sé ekki í tengslum við málsefnið. Það er rangt, myndin passar akkúrat við fréttina. Samkvæmt landlækni má Steingrímur ekki ráða, hvort hann talar við blaðamann á spítala. Heldur á einhver silkihúfan að ákveða það, svokallaður “æðsti fagstjórnandi”. Við vitum, að hrokinn er mikill á spítölum, en um þverbak keyrir að reyna að taka völdin af Steingrími ræðukóngi.

Óhrein Leifsstöð

Punktar

Nú er loksins komið í tízku að axla ábyrgð í pólitík. Það gildir þó ekki um embættismenn, sem eru þögulir eins og gröfin um, að Leifsstöð hefur glatað skráningu Evrópusambandsins sem gildur öryggisaðgangur inn í Evrópu. Íslenzkir embættismenn í utanríkisráðuneyti og í Leifsstöð hafa sofið á verðinum. Þeir hafa væntanlega ímyndað sér, að Evrópa sætti sig við, að öryggi í Leifsstöð sé alvarlega ábótavant. Þetta er dæmi um, að í kerfinu eru óhæfir embættismenn að skaða hagsmuni landsins. Annað dæmi er skortur á lögum um torfæruhjól og akstur þeirra utan vega.

Hönnuð atburðarás

Punktar

Að gömlum hætti Finns Ingólfssonar ætluðu þeir Halldór Ásgrímsson að hanna atburðarás um, að Halldór arfleiddi Finn að embættum flokksformanns og forsætisráðherra. Fórna átti Guðna Ágústssyni varaformanni í leiðinni. Hönnunin gekk ekki upp og varð Finnur frá að hverfa. Í sjónvarpinu í gær sást vel, að Guðni er frambærilegastur flokksmanna um þessar mundir, mun yfirvegaðri en til dæmis Valgerður Sverrisdóttir, sem gaggaði eins og reið hæna. Guðni kann að minnsta kosti mannasiði, sem er eftirsóttur eiginleiki í pólitík hvar sem er í heiminum.

Ónotuð ráðgjöf bregzt

Punktar

Hafrannsóknastofnunin telur, að lengi hafi verið farið gegn hennar ráðum við úthlutun veiðikvóta. Hún vill 16% kvóta, en ráðherra og kvótakóngar vilja 25%. Kvótakóngar segja veiðiráðgjöf Hafró hafa brugðizt, þótt erfitt sé að ímynda sér, hvernig bregðist ráðgjöf, sem ekki er farið eftir. Þeir vilja fá frítt spil í restina af þorski og ýsu, enda margir með keyptan og dýran kvóta, sem kallar á stundargróða á kostnað langtímaöryggis. Einar K. Guðfinnsson ráðherra þykist vera úti að aka og ekkert skilja í Hafró. Vísindi hafa lítinn stuðning í kerfinu árið 2006.

Torfæru-brjálæðingar

Punktar

Ég sá hluta af eltingaleik löggunnar í þyrlu við ökumenn torfæruhjóla í Henglinum. Þótt löggan hafi tekið við sér, er rammi laganna lamaður í baráttunni við ferlega terrorista í náttúrunni. Réttast væri að banna þessi hjól alveg, setja að öðrum kosti á þau himinhá gjöld til að borga kostnað við eftirlit með varginum. Og hafa háar refsingar, þar á meðal fangelsisvist fyrir notkun óskráðra hjóla. Margir ökumanna torfæruhjóla eru brjálæðingar, sem ekki eiga heima í siðuðu þjóðfélagi. Lausagangur þeirra er gott dæmi um, að rangt er spakmælið um kerfiskarla okkar, að þeim sem guð gefi embætti gefi hann líka forstand.