Eftir tæpan mánuð fást 300.000 stafrænar bækur ókeypis á vefnum hjá Project Gutenberg og World eBook Fair. Þetta eru fyrstu skrefin til stafræns bókasafns, sem á að spanna allar bækur. Leitarvélin Google er stórtækasti aðilinn, er nú að skanna allt bókasafn Harvard-háskóla. Þröskuldur í vegi byltingarinnar er skortur á lestölvum, sem virka eins og bækur og eru næstum eins léttar. Þær hafa ekki komið enn á markað, þótt Sony tali fallega um Reader sinn. Þegar hæfilegar tölvur koma, má vænta þess, að bókalestur í tölvum springi út.