Punktar

Fjölmiðlar spila með

Punktar

Ekki einu sinni The New York Times og Los Angeles Times, Associated Press og Reuters finnst fréttnæmt, að meirihluti Bandaríkjamanna er fylgjandi brottför hersins frá Írak. Þeim finnst hins vegar fréttnæmt, að repúblikanar á þingi segja suma demókrata hafa “cutting and running” skoðun á hernámi Íraks. Hinir kunnu fjölmiðlar kynda þannig undir þeirri skoðun, að brottför frá Írak sé sérkennileg og huglaus skoðun nokkurra demókrata, en ekki skoðun meirihlutans. Þetta má hafa sem dæmi um þau heljartök, sem repúblikanar hafa náð á fjölmiðlun í Bandaríkjunum.

Kurteisi í New York

Punktar

Mannasiðir eru betri í New York en í öðrum heimsborgum. Þar er meira um, að fólk segi “takk”, haldi dyrum opnum fyrir öðrum og hjálpi þeim að tína upp blöð, sem þeir hafa misst á götuna. Þetta er samkvæmt rannsókn Reader’s Digest í 35 borgum heims. New York fékk 8 í einkunn, Zürich í Svissw 7,7, Toronto í Kanada 7 og Berlín 6,8. Efst á Norðurlöndum er Stokkhólmur með 6,3. Hinar gömlu menningarborgir París og London eru í miðjum klíðum með 5,7. Moskva er nálægt botninum með 4,2. Neðst eru Búkarest í Rúmeníu með 3,5 og Bombay í Indlandi með 3,2. Reykjavíkur er ekki getið.

Leit er heimsk

Punktar

Peter Preston segir í Guardian í gær, að leitarvélar vefsins séu farnar að stýra fyrirsögnum blaða til góðs og ills. Leitarstjóri New York Times mæli gegn fyndnum og tvíræðum texta, vilji heldur fyrirsagnir, sem leitarvélar geta skilið og vísað notendum rétta leið. Þetta leiðir til betri skilnings á efni dagblaða, segir Preston, en gerir þau um leið hversdagslegri og heimskari. Preston notar tækifærið og þakkar guði fyrir þá tækni, sem gerir honum kleift að spóla hratt yfir auglýsingar í sjónvarpi. Hann hafi síðast séð auglýsingu fyrir jól.

Blogg er vont

Punktar

New York Times segir í leiðara í gær, að menn verði að gæta sín, þegar þeir setji persónuleg atriði á netið, hlægilegar myndir af sér og vafasaman texta. Ráðningarstjórar fyrirtækja noti leitarvélar til að finna efni frá starfsumsækjendum. Sumt ungt fólk heldur að velgengni í lífinu byggist á að setja óprenthæf atriði á netið. Sannleikurinn sé sá, að þetta efni geti orðið því fjötur um fót, komið í veg fyrir, að það fái góða vinnu. Menn hafa hingað til óttast mest öfugugga á netinu, en nú fer að stafa meiri hætta af ráðningarstjórum.

Lýsi er hollt

Punktar

George Monbiot segir í Guardian í gær, að sönnunargögn hlaðist upp um hollustu lýsis í baráttu gegn þunglyndi, síþreytu, sjóndrepru og kölkun. Hann bendir á minnkandi neyzlu Omega3 fitusýra á menningarsögulegum tíma og hvetur til aukinnar neyzlu á lýsi, lýsispillum eða Omega3 pillum. Hann kvartar um, að lýsi sé sóað í áburð, fóður, rafmagn og dísilolíu í stað þess að nota það meira til manneldis. Samkvæmt þessu má búast við batnandi gengi lýsis í heiminum á næstu árum. Matthías Johannessen segir í Mörg eru dags augu: “Þú tekur matskeið af þorskalýsi.”

Mengun umferðarljósa

Punktar

Menn eru enn að tala um, að mislæg gatnamót valdi mengun. Sannleikurinn er öfugur. Viðstöðulaus akstur sparar mengun af bíl í kyrrstöðu og af bíl, sem leggur af stað og nær 50 kílómetra hraða á klukkustund. Umferðarljós valda mengun, af því að þau neyða menn til stöðva bíla, bíða og taka aftur af stað. Mislæg gatnamót án umferðarljósa spara þessa mengun og spara auðvitað líka benzínið, sem fer í að halda kyrrstæðum bíl í gangi og fara síðan með hann upp í 50 kílómetra hraða. Erfingjar Reykjavíkurlistans fara enn með rangt mál gegn mislægum gatnamótum.

Ríkisrekin lyfsala

Punktar

Innflytjendur lyfja standa sig svo illa, að starfsmenn landlæknis skrifa um það hverja blaðagreinina á fætur annarri. Ódýr samheitalyf fást ekki, af því að innflytjendur vilja koma tífalt dýrari sérlyfjum í verð. Greinilegt er, að hinn dásamaði markaðsbúskapur virkar ekki í heildverzlun lyfja hér á landi. Enda er tæpast hægt að gera þá kröfu, að ein hagfræðikenning ráði við öll tilvik. Við þurfum því að fá aftur ríkisrekna lyfsölu, sem tekur að sér að gæta hagsmuna fólks, þegar samráðarisar fara fram úr sér í hamslausri græðgi að hætti erlendra fyrirmynda.

Ódýrt og ófáanlegt

Punktar

Genentech hefur framleitt ódýra lyfið Avastin, sem virkar vel gegn blindu gamals fólks. Fyrirtækið vill samt ekki setja það á markað, af því að það kostar ekki nema 1.500 krónur skammturinn. Í staðinn vill það setja á markað Lucentis, sem hefur sömu áhrif, en kostar 150.000 kr skammturinn. Ódýra lyfið hefur verið notað í 7000 tilvikum í tilraunaskyni og augnlæknar heimta að fá það í apótek. En það er ekki hægt, því að siðblint Genentech telur sig ekki græða nóg. Frægt er, að markaðs- og mútugreiðslur lyfjaframleiðenda eru hærri en rannsóknakostnaður þeirra.

Íþróttaandinn

Punktar

Hollenzkir áhugamenn um fótbolta á heimsleikunum voru látnir fara úr buxunum, þegar Holland keppti við Fílabeinsströndina. Urðu þeir að horfa í nærbuxunum á leikinn. Buxurnar voru merktar bjórnum Bavaria, en bjórinn Budweiser á heimsleikana. Tekið er mjög strangt á slíku. Þeir, sem voru merktir Nike, lentu í sömu vandræðum, af því að Adidas á leikana. Til þess að tryggja yfirráð vörumerkja yfir óympíuleikunum í London 2012 er verið að setja þar lög um, að siga megi löggunni á rangan klæðaburð, merktan röngum fyrirtækjum. Það er lágt skriðið á sportinu núna, Guardian sagði frá.

Eyðileggja úthöfin

Punktar

Sameinuðu þjóðirnar vöruðu á föstudaginn við spillingu úthafanna. Veiðar eru að mestu stjórnlausar, þorskur er víða að deyja út. Hafið er notað sem ruslakista mannkyns. Hitinn hækkar og sýrustig vatnsins líka. Það vegur þungt, því að 90% af lífrænum efnum jarðarinnar eru í hafinu. Rúmlega helmingur þeirra er utan við efnahagslögsögu ríkja og þar með í sérstakri hættu fyrir sjóráni, segir í skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Námugröftur á hafsbotni er nýjasta mengunarhættan. Nautilus Minerals er að byrja gull- og kopargröft við Nýju-Gíneu.

Kókhátíðin

Punktar

Guardian segir líka frá kókhátíð, sem haldin var í Greenbriar í Evans í Georgia á menntadegi ríkisins. Þar flutti forstjóri hjá kók aðalræðuna og kenndur var bakstur kók-tertu. Aðalatriði hátíðarinnar var myndataka af öllum nemendum skólans í rauðum kók-búningum. Einn nemandinn, Mike Cameron, fór úr skyrtunni á síðustu stundu og var þá í pepsí-skyrtu innan undir. Þetta eyðilagði myndina að mati skólans og var Mike rekinn úr skólanum fyrir vikið. Auglýsendur hafa komið fram af aukinni hörku síðustu árin og hafa næga meðreiðarsveina, allt frá skólastjórum yfir í ólympíunefndir.

Minni þróunaraðstoð

Punktar

Lítið fer fyrir efndum vesturveldanna á loforðum um stóraukna aðstoð við þróunarlöndin. Aðstoð Bandaríkjanna við önnur ríki en Írak og Afganistan hefur minnkað um 4% milli ára. Bretar, Frakkar og Þjóðverjar hafa einnig dregið úr aðstoð milli ára. Aðeins Ítalía, Kanada og Japan hafa aukið aðstoð við þróunarríkin. Á fundum áttveldanna hefur mikið verið talað og talað um stóraukna aðstoð, en efndir hafa látið á sér standa. Öll þessi ríki eru langt innan við þau mörk, sem fjölþjóðasamfélagið hefur sett um slíka aðstoð. Einnig Ísland. Aðeins Noregur stendur sína pligt.

Græn Landsvirkjun

Punktar

Eins og BP og Shell stundar Landsvirkjun stórfelld umhverfisspjöll og ver ógrynni fjár til að blekkja fólk með umhverfisvænum áróðri. Landsvirkjun er komin lengra en hin fyrirtækin með áróður sinn í skólum sem kennslubækur. Öll þessi fyrirtæki hafa að markmiði að segjast vera hvít, þótt þau séu svört. Ímyndarfræðingar segja forstjórum þeirra, að fólk sé svo heimskt, að það trúi, að fyrirtækin séu græn, ef þau endurtaki það nógu hátt og lengi. Um leið sé þeim óhætt að haga sér svartar en nokkru sinni fyrr. Úr því að 70 þúsund kusu Silvíu Nótt muni þau trúa hverju sem er.

Svart er grænt

Punktar

George Monbiot segir í Guardian, að olíufélögin hafi orðið hættulegri en nokkru sinni fyrr, síðan þau fóru að þykjast vera vistvæn og auglýsa sig grimmt sem slík. Exxon er verst þeirra og síðan koma BP og Shell. BP sætir nú ákæru fyrir að sulla 270.000 tonnum af olíu í freðmýrar Alaska. Það hefur einnig stundað umhverfis- og mannréttindaglæpi við gerð olíuleiðslu frá Baku við Kaspíahaf. Þrátt fyrir bann við olíubruna í Nígeríu brennir Shell enn hundruðum rúmfeta olíu á degi hverjum og neitar að greiða sektir. Auk þess stýrir það morðum á umhverfisvinum í Nígeríu, t.d. á Saro-Wiwa.

Pólitísk kvígildi

Punktar

Pólitísk gæludýr í hlutverki sendiherra eru meðal þess sem stuðlar að vondri stöðu Bandaríkjanna í áliti umheimsins. Thomas J. Raleigh segir í International Herald Tribune, að 49 bandarískir sendiherrar séu ekki atvinnumenn, heldur pólitísk kvígildi. Margir þeirra eru í starfi fyrir að vera “Pioneers”, hafa látið Bush hafa meira en 7 milljónir króna í kosningasjóð. Þeir eru svo mikið úti á kanti í pólitík erlendis, að enginn tekur mark á þeim og þeir eiga því erfitt með að gæta hagsmuna ríkisins. Þetta minnir á hina afdönkuðu í diplómatíu Íslands.