Punktar

Hnattvæðing á enda

Punktar

25 ára ferill hnattvæðingar er á enda, segir Martin Jacques í Guardian í gær. Fundaröðin, sem kennd er við Doha, er að fara út um þúfur. Iðnríki og þróunarríki ná ekki saman. Bandaríkin eru fráhverf fjölþjóðasamningum og reyna að ná tvíhliða samningum, þar sem þau geta beitt afli gegn hinu ríkinu. Dæmin eru framlenging vestrænna einkaleyfa og fjármagnsfrelsi, en lokun á búvörur þróunarlanda. Vestræn fyrirtæki kvarta sífellt ákafar yfir auknu afli Kína og Indlands og heimta verndun. Vestræn verndarstefna tekur nú við af vestrænni hnattvæðingu, hægt og sígandi.

Hættuleg handvopn

Punktar

Mary Robinson kvartaði í Guardian í gær um viðhorf Bandaríkjanna á fundi Sameinuðu þjóðanna um hömlur á útbreiðslu handvopna. Mannréttindastjórinn fyrrverandi kallaði þau gjöreyðingarvopn í hægagangi. Samanlagt valda þau árlega meira tjóni en kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki samanlagt. Bandaríkin stóðu með Kúbu, Indlandi, Íran, Ísrael og Pakistan gegn hömlum á útbreiðslu handvopna. Hver velur sér félagsskap við hæfi og það gerðu Bandaríkin á þessum fundi. Robinson hvetur andstöðuríki vopnanna til að ná tökum á þróun þessara mála á allsherjarþingi samtakanna í haust.

Lúðarnir leiða

Punktar

Leiðindagaurar hafa náð völdum í hverju ríki Austur-Evrópu á fætur öðru. Appelsínugula byltingin hefur farið út um þúfur í Úkraínu. Í Póllandi hafa komizt til valda róttækir sveitamenn, Kassinski tvíburarnir, sem hafna vestrænum hugmyndum á borð við homma og evrur. Sósíalistinn Fíkó hefur tekið við Slóvakíu með stuðningi arftaka einræðisherrana Mesíar. Grýtt verður leið svæðisins til vestræns hagkerfis með slíkum hliðarsporum. Evrópusambandið horfir á og fær ekki að gert, en margir eru farnir að harma upptöku Austur-Evrópu í hagnaðarbandalag álfunnar.

Hófleg hamingja

Punktar

Enn ein hamingjuvísitalan hefur birzt og nú er hlutur Íslandi lakari en í sumum hinna fyrri. Ísland er hér í meðallagi. Minnst er hamingjan auðvitað í Bandaríkjunum og Rússlandi og í mestum hluta Afríku, en Suður- og Mið-Ameríka skara fram úr. Það er New Economics Foundation í London, sem hefur búið til vísitöluna með því að blanda saman ýmissi tölfræði, til dæmis um langlífi og gott umhverfi. Íslendingum hefur gengið betur í vísitölum, þar sem þeir lýsa hamingju sinni. Þessi vísitala spyr ekki um slíkt, heldur mælir raunverulegar tölur, sem sýna mun minni hamingju.

Smurt á farseðla

Punktar

Gamall vinur er sakaður um að hafa fólk að fífli. Mér brá, þegar Ryanair var sett á sakabekk. Ég hef oft flogið með því og verið ánægður með lág fargjöld. Nú segja menn, að það smyrji ýktum og upplognum upphæðum ofan á upphæðina, til dæmis ýktum vallargjöldum og ímynduðum ferðaþjónustugjöldum. Neytendaráðherra Evrópusambandsins hefur sett málið í rannsókn. Ryanair mótmælir sakargiftum, en skjölin segja sína sögu. Eðlilegast er auðvitað, að heimasíður flugfélaga gefi upp verðið, sem kúnninn á að borga. Það er almenna reglan í viðskiptum.

Hlíta ekki dómi

Punktar

Hæstiréttur hefur dæmt ógildan brottrekstur yfirlæknis á Landspítalanum. Í stað þess að hlíta dómnum, lýsir spítalinn yfir, að hann muni hunza hann. Ákvörðun framkvæmdastjórnar styður stjórn spítalans og jafnvel ríkisstjórn. Einstefnan kallar á skaðabótamál, sem spítali og ríki munu tapa. Þessir aðilar átta sig ekki á hlutverki laga í ríkinu og gera bara það, sem þeim finnst þægilegt fyrir sig. Þeir eru hvorki færir um að stjórna spítalanum né hafa eftirlit með stjórn hans. Ekki á að vera hægt að gefa skít í landslög í vestrænu ríki.

Alliance er næst

Punktar

Alliance-húsið við vestanverða Geirsgötu er rúmlega áttrætt og skemmtilegt hús, sem segir þátt í sögu sjávarútvegs og byggingalistar. Það er nýjasta fórnardýr þéttingar byggðar í Reykjvík, sem hefur spillt gömlum hverfum og umhverfi lifandi fólks víðar um bæinn. Ég hef hingað til vonað, að árátta vinstri sinnaðra borgaryfirvalda mundi hverfa með nýjum hægri meirihluta í pólitík, en það virðist taka nokkurn tíma. Kerfið í Reykjavík malar áfram á sama hátt og áður. Embættismenn Reykjavíkurlistans sjá um að varðveita hugmyndafræðilegt ofstæki liðins tíma.

Halldór muldraði

Punktar

Evrópa var ekki myllusteinn um háls Halldórs Ásgrímssonar. Umræðuefni hans var muldur um, að hugsanlega kæmi að því í framtíðinni, að menn færu að ákveða, að líklega mætti ræða þætti samstarfs í Evrópu fyrr eða síðar. Fók hafði ekki áhuga á þessu muldri, skildi ekki ráðherrann. Fólk er nefnilega annað hvort með eða móti aðild að Evrópu, með eða móti evrunni sem mynt. Menn nenna ekki að undirbúa að velta síðar fyrir sér, hvort hugsanlega megi ræða um Evrópu einhvern tíma. Menn vilja kýla á það eða ekki kýla á það. Eins og í viðskiptum. Það var muldrið, sem fældi, ekki Evrópa. Nýtt formannsefni Framsóknar er enn að ræða, hvort ræða megi.

Berir keisarar

Punktar

Daniel Gros talar eins og barnið, sem horfði á bera keisarann. Hann er forstjóri Evrópurannsóknahúss CEPS og spyr Íslendinga: “Hvers vegna ekki hafa sama gjaldmiðil og helztu viðskiptalöndin og spara sér gengiskostnað og óþægindi af sveiflukenndum gjaldmiðli?” Það er von, að beri keisarinn á Íslandi vilji ekki ræða evruna. Við höfum lent í og munum lenda í sveiflum á þessu ári. Það er skólabók um veikan gjaldmiðil, sem hoppar upp og niður og veldur óbærilegum vöxtum. Allir vita, að evran mun lækka vexti, en samt vilja fáir ræða hana. Landsfeðurnir vilja vera berir keisarar.

Hata náttúruna

Punktar

Safnadagurinn var notaður til að minna okkur á, að nærri 20 nefndir hafa verið stofnaðar án árangurs til að fjalla um stofnun náttúruminjasafns. Ísland er eina vestræna landið, sem ekki hefur alvörusafn á því sviði. Hins vegar var ekki útskýrt, af hverju ekki hefur tekizt að koma hér upp svo sjálfsögðu safni. Vandræðin stafa af, að langvinn ríkisstjórn er svo illa haldin af stóriðjustefnu, að hún hatast beinlínis við náttúru Íslands. Hún er hrædd um, að safn verði til þess að auka áhuga almennings á ósnortinni náttúru Íslands. Svo einfalt er það, því miður.

Jón utangátta

Punktar

Formannsefni Framsóknar kemur illa fyrir í sjónvarpi. Jón Sigurðsson virðist ekki geta svarað einföldustu spurningum og flytur í staðinn þvælu, sem enginn skilur. Hann fullyrðir, að ríkisstjórnin hafi verið stefnulaus í stóriðju í þrjú ár. Hann telur sig rosalega kláran, sem er rangt. Einnig er óhentugt fyrir flokksformann, sem á að sækja fylgi til kjósenda, að vera óvenjulega hrokafullur. Hann kemur úr fílabeinsturni Seðlabankans, virðist við fyrstu sýn vera enn meira úti að aka en Halldór Ásgrímsson. Hann endist flokknum í mesta lagi fram yfir tapið í kosningum að ári.

Ógleði af lygara

Punktar

Mér verður ætíð óglatt af að sjá Tony Blair í sjónvarpi, mesta lygalaup heimsbyggðarinnar. Því meira sem hann lýgur, þeim mun alvörugefnari og einlægari verður svipur hans. Furðulegt er, að brezkir kjósendur láta milljónum saman blekkjast af fölsku yfirbragði leiðtogans. Samt eru það aldagömul sannindi, að þeir, sem fegurst og einlægast tala, eru verstu prangaranir. Þannig hefur það ævinlega verið í hrossabransanum og póltíkinni. Lúðvík Jósepsson ráðherra varð alltaf einlægur á svipinn og tók ofan gleraugun, þegar hann laug í sjónvarpinu.

Ljótt hestahopp

Punktar

Mér finnst ljótt að sjá hesta hoppa í reið. Mér finnst svifamikið brokk ljótt, enda mundi enginn ríða á því í göngum. Mér finnst hágengt tölt ljótt, ef það fer yfir vinkilbeygju fótleggja, enda er það þá stundum hast. Mér finnst óeðlilegt, að höfuð á hesti sé lóðrétt á hægu tölti. Mér finnst hast tölt ljótt. Mér finnst ljótt að hestar skeiði með uppréttan háls og haus í vinkil. Mér finnst ljótt, að hestar skeiði eins og þeir séu á hröðu tölti. Ég viðurkenni, að markaðurinn borgar mest fyrir svona hopphlunka, en ég vil ekki sjá þá í ferðum. Ég er víst einn um þessar skoðanir.

Maxwell stal lífeyri

Punktar

Erlendis er slæm reynsla af lífeyrissjóðum á vegum fyrirtækja. Frægt er, að blaðakóngurinn Robert Maxwell stal öllum lífeyrissjóði starfsmanna sinna. Þegar fyrirtæki verða gjaldþrota, reynist oft erfitt að ná nokkru út úr sjóðum þeirra. Miklu betra er núverandi kerfi, að sjóðirnir starfi í tengslum við stéttarfélög og festi fé sitt vítt og breitt í pappírum af ýmsu tagi, innlendum og erlendum. Við höfum afar gott lífeyriskerfi, sem á að vernda. Bezt er að banna lífeyrissjóði á vegum fyrirtækja og banna þar á ofan öll afskipti fulltrúa fyrirtækja af stjórnum lífeyrissjóða.

Einkasýning hrossa

Punktar

Thorstein Reisinger ræktar íslenzk hross í Pfaffenbuck í Þýzkalandi. Á hverju vori heldur hann einkasýningu kynbótahrossa heima hjá sér. Þar sýnir hann öll hrossin sjálfur, á sum þeirra sjálfur og hefur alltaf sömu þýzk-austurrísku dómarana. Öll fá þessi hross góða dóma, yfirleitt 1. eða 2. verðlaun. Þessar háu tölur ganga svo inn í reikning íslenzkra bænda á kynbótagildi hrossa samkvæmt sérstöku reikningskerfi, sem heitir blöpp eða blöff. Ýmsar aðferðir efla erfðir hrossa og þessi hlýtur að teljast ein hin merkasta.