Punktar

Einmana pláneta

Punktar

Lonely Planet leiðsögubækurnar froðufella ekki af dálæti á merkisstöðum, sem þær segja frá. Bókin um Ísland varar við fyllibyttum og segir frá landspjöllum af völdum sauðfjár og stjórnvalda. Nú hafa yfirvöld í Moskvu reiðst vegna lýsinga Moskvubókar Lonely Planet á morðum, öðrum glæpum, kynþáttahatri, stéttaskiptingu, vörusvikum og ofurkostnaði þar í borg. Borgarstjórinn í Moskvu ætlar að verja tæplega 20 milljörðum króna til að bæta ímynd borgarinnar erlendis. Verulega gott er, að í aumri eyðimörk leiðsögubóka skuli vera til einn bókarflokkur, sem reynir að segja satt.

Terroristarnir

Punktar

Umhverfis-terroristum ríkisstjórnarinnar hefur verið boðið að skoða botn fyrirhugaðs Hálslóns við Kárahnjúka, tína þar ber og skoða fjölbreytta náttúru. Enginn vafi er á, að þeir munu ekki þekkjast boðið, enda þykjast þeir vita, að ekkert líf sé á þessum slóðum. Auðvitað er of seint að hindra terror stjórnvalda gegn ósnortinni víðáttu. Við munum hins vegar lengi muna eftir verstu terroristum landsins, sem valda tjóni með uppistöðulónum, svo sem Valgerði Sverrisdóttur og Siv Friðleifsdóttur. Halldór Ásgrímsson er sem betur fer endanlega horfinn af vettvangi, sligaður af illvirkjum sínum.

Græðgishagfræðin

Punktar

Birting skattskrár vekur athygli á því gerræði stjórnvalda að láta eigendur fjármagns borga 10% tekjuskatt, en almenning 37%. Græðgishagfræðingar segja þetta þurfa að vera svona, því að annars mundu ríkir kallar flýja land og alls ekki borga skatt, eins og þeir feðgar Björgólfur og Björgólfur Thor hafa raunar gert. Við getum hins vegar ekki verið fangar slíkra hótana, enda er gott að losna við verstu græðgisfíklana. Tekjuskattur á að vera jafn og flatur, hinn sami á fjármagn og vinnu, háar tekjur og lágar. Ef svo væri, þyrfti tekjuskattur almennings aðeins að vera 25%, það er að segja sanngjarn.

Kosningar að ári

Punktar

Kosningar verða að ári hér á landi. Þær skipta máli, því að hlutverk þeirra er að skipta um stjórn án blóðsúthellinga. Að öðru leyti er lítið á þeim að græða, því að kjósendur skilja fáir almannahagsmuni. Þær eru nauðsynlegur þáttur lýðræðis, en ekki fullnægjandi þáttur þess. Til þess að lýðræði virki, þarf að ríkja gegnsæi í valdastofnunum, svo sem ríki, flokkum og fyrirtækjum, svo og í skattskrám. Einnig þurfa að vera til verklagsreglur, sem ráðamenn fara eftir. Mikill misbrestur er hér á landi á, að kerfið sé gegnsætt og að farið sé að góðum verklagsreglum.

544 ferðaleiðir

Punktar

Ég hef safnað ferðaleiðum af kortum og sett upp í GPS-staðsetningarkerfi, sem ég ætla að setja frítt á vefinn í haust. Flestar leiðanna [routes] eru á gömlu herforingjaráðskortunum og sýna samgöngur landsins fyrir öld. Ég hef reynt að gefa þetta Landssambandi hestamanna, en áhugi þar er svo lítill, að málið gleymist sífellt. Ég hef ekki farið og staðfest með GPS-ferlum [tracks] nema 56 leiðir eða 10%. Það tæki mig 50 ár að klára það. Ef einhver hefur tekið saman ferðaferla sína, er hann því beðinn um að senda þá til jonas@hestur.is. Ég mun segja, hver safnaði hvaða leið.

Lífeyrissjóðir græði

Punktar

Lífeyrissjóðir eiga að fara að lögum og gæta hagsmuna lífeyrisþega með því að hámarka arð af lífeyri. Þeir eiga ekki að æfa sig í pólitík með því að reyna að handstýra inneignum sjóðfélaganna með gæðamati á fyrirtækjum og enn síður með valdabrölti stjórnarmanna. Víst væri huggulegt, ef sjóðirnir höfnuðu aðild að fyrirtækjum, sem ögra réttlætiskennd fólks, til dæmis með ofurgræðgi forstjóra eða með lífríkisskaða eða með ofurfátækt starfsfólks. En slíkt er ekki hlutverk lífeyrissjóða, heldur kjósendanna, sem neita að ryðja ríkisstjórnum og hagsmunaþingmönnum frá völdum.

Ókeypis dagblöð

Punktar

Um alla Evrópu eru ókeypis dagblöð að taka við af seldum blöðum. Í Frakklandi er fjórða hvert eintak ókeypis. Murdoch er að fara í gang í Bretlandi í næsta mánuði. Í Þýzkalandi á ókeypis viðskiptablað að fara af stað í dag. Af 28 milljónum eintaka fríblaða í heiminum eru 19 milljónir gefnar út í Evrópu. Lengst hefur starfað hið sænska Metro, sem kemur út í 21 landi. Víðast liggja þessi blöð á brautarstöðvum. Dagsbrún er eina fyrirtækið, sem fer þá leið að senda eintökin heim í hús til fólks að vel heppnuðum hætti Fréttablaðsins. Danmerkurútgáfa þess fer að koma út með haustinu.

Ruglaðar heimildir

Punktar

Hvorki landsfeður né leyniþjónustur lesa dagblöð. Betra er talið að láta njósnara semja eftirsóttar jáskýrslur, sem falla að hugmyndafræði yfirvalda. Þannig hélt Olmert, að Hezbolla yrði sigrað á nokkrum dögum. Þannig héldu Bush og Blair, að gereyðingarvopn væru í Írak. Þannig heldur Bush, að allt gangi vel í Írak. Þannig hélt Bush, að Talíban væri útdautt í Afganistan. Til skamms tíma hafði CIA aldrei heyrt um klerkana, sem nú hafa tekið völd í Sómalíu. Í CIA velta menn enn fyrir sér, hver hafi tapað Úsbekistan. Þeir hefðu frekar átt að lesa dagblöðin en skýrslur njósnara sinna.

Endurskírnarárátta

Punktar

Klambratún hefur lengi verið kallað Miklatún, eins og Mikligarður hefur lengi verið kallaður Istanbúl og Efri-Volta hefur lengi verið kallað Burkina Faso. Sankti Pétursborg hét um tíma Leningrad og Volgograd hét Stalingrad. Hitler var lítillátur og skírði ekkert eftir sér, en Saigon heitir núna Ho Chi Min. Indverjar eru duglegastir við að skíra upp borgir. Bombay heitir núna Mumbai, Madras heitir Chennai, Calcutta heitir Kolkata, allt til að losna úr nýlenduviðjum. Hér á landi heitir gamall og góður Sumarliðabær hinu fáránlega nýnefni Hestheimar.

Lygar læknarita um lyf

Punktar

Bandarísk læknatímarit eiga enn erfitt með að höndla lyfjarisa, þótt hvað eftir annað hafi komizt upp um lygagreinar í þeim um ágæti lyfja. Wall Street Journal rekur tvö ný dæmi, annað úr bandaríska Læknaritinu, JAMA, og hitt úr Neuropsychoparmacology. Í báðum tilvikum tóku tímaritin hrátt upp fullyrðingar lyfjarisanna, án þess að kanna málin. Mörg læknatímarit hafa hert reglur um birtingu greina um lyf og gera meðal annars kröfur um, að upplýst séu fjárhagstengsli greinahöfunda og lyfjarisa. Samt hefur þeim ekki tekizt að hreinsa orðstír sinn, eins og grein WSJ sýnir.

Næst kemur varúlfur

Punktar

Leyniþjónusta Bandaríkjanna er sögð hafa reynt 638 aðferðir til að koma Fidel Castro fyrir kattarnef. Samt er sá gamli um það bil að deyja af eðlilegum ástæðum. Hvorki tókst að koma í hann vindli með sprengiefni né koma eitri í lyfjabox hans. Ekki tókst að setja sprengiefni í skeljar og mála þær fagurlega, svo að hann færi að skoða þær, þegar hann var að kafa sér til skemmtunar. Ekki tókst að koma veirum í vasaklút hans. Og ekki tókst að koma 90 kílóum af sprengiefni í ræðustól hans í ferð til Panama. Dagblaðið Guardian segir, að bara sé eftir að finna varúlf til að siga á Castro.

Svart og hvítt

Punktar

Viðhorf Evrópumanna og Bandaríkjamanna til Miðausturlanda eru gerólík. Flestir Bandaríkjamenn styðja Ísrael, Flestir Evrópumenn styðja Palestínu og Líbanon. Flestir Bandaríkjamenn telja, að Palestína og Líbanon eigi sök á ófriðnum og flestir Evrópumenn telja, að Ísrael eigi sök á honum. Kannanir sýna mun, sem er eins og svart og hvítt. Þess vegna getur Ísrael farið sínu fram eins og því sýnist, brotið alþjóðasamninga um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Bandaríkjamenn styðja Ísrael eigi að síður og eru alls óragir við ofbeldi í samskiptum þjóða. Atlantshafsgjáin víkkar.

Lýsingin smellpassar

Punktar

Hryðjuverkamaður hefur hugmyndafræði og heimsmynd, djúpa sannfæringu og einbeitingu, er haldinn trúarofstæki og trúboðshyggju, skiptir heiminum í “okkur” og “hina”. Þessi lýsing smellpassar við tvo ráðamenn í heiminum, George W. Bush og Tony Blair. Þegar slíkir ofsamenn ná völdum, verða ríki þeirra hryðjuverkaríki, sem fara með manndrápum og skemmdarverkum um óviðkomandi ríki, til dæmis Afganistan, Írak, Palestínu og Líbanon. Engir þúsund terroristar komast samanlagt í hálfkvisti við þessa tvo og öll ríki heimsins komast ekki í hálfkvisti við hryðjuverkaríkin tvö.

Skrípaleikur í kerfinu

Punktar

Dómsmálaráðuneytið segist ekki geta afhent gömul skjöl um símahleranir Bjarna Benediktssonar hermálaráðherra af því að þau hafi daginn áður verið afhent Þjóðskjalasafni. Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður segist ekki geta afhent þau, af því að ekki sé til reglugerð um hana. Er þó liðin sú hálfa öld, sem kerfið telur sig þurfa til varnar leynimakki. Þannig bendir hver blýantsnagarinn á annan til að hjálpa Birni Bjarnasyni hermálaráðherra við leyndarstefnuna. Reglugerðin, sem Ólafur þykist vera að bíða eftir, átti lögum samkvæmt að vera til árið 1994, en hefur ekki sézt enn.

Hugsjónalaus þjóð

Punktar

Lítið fer fyrir hugsjónum Íslendinga nú á dögum. Menn rífa stundum kjaft, en gera lítið í málum. Meirihlutinn er andvígur landníði Landsvirkjunar, en lætur þar við sitja. Við Kárahnjúka mótmæla aðeins nokkrir tugir manna, flestir útlendingar. Ef allt væri með felldu, væru þar þúsundir borgara að mótmæla. Þá væri búið að stöðva landníð ríkisstjórnarinnar. En við lifum á tímum, þegar flestir hugsa mest um eigin hag, um að koma sér áfram í lífinu. Nokkur þúsund manns eru svo langt leidd, að þau kjósa xB-vinnumiðlun í kosningum, rétt eins og Framsókn sé stjórnmálaflokkur.