Punktar

Yfirstærðir

Punktar

B5 Bistró er skemmtilega innréttaður veitingasalur í yfirstærðarformum, allt frá risavöxnum loftlömpum og bókahillum, um langa barborðið, yfir í dimmgráan diskinn og brúna viðarvegginn að baki hans. Staðurinn er að öðru leyti hvítur og dimmgrár. Hann lætur lítið yfir sér að utan, en sagði “bistró”, um leið og ég kom inn. Húsbúnaður er nútímalegur og einfaldur í sönnum bistró-stíl. Þá tegund veitingahúsa hefur sárlega vantað hér á landi. Ég man í flýti ekki eftir fleiri ekta stöðum af því tagi öðrum en 101, handan við hornið í Ingólfsstræti.

Hamingjudagar

Punktar

Hamingjudagar eru hér á ný. Í forrétt fékk ég volga gulrótarfroðu (850 kr) með sýrðum rjóma og vænum skammti af kúmeni, notalegt dæmi um góða útkomu úr matvinnsluvél. Í aðalrétt fékk ég bragðsterka og frábærlega hæfilega eldaða Klausturbleikju (1.690 kr.) með gljáðum rófum, nýjum kartöflum og glansandi silungshrognum. Á eftir fékk ég skyrfrauð (750 kr.) með nýjum jarðarberjum, það eina, sem ekki skaraði fram úr öðrum stöðum. Með B5 Bistró í Bankastræti er loksins kominn nýr staður, sem skiptir máli. Slíkt hefur ekki gerzt í bænum, síðan Sjávarkjallarinn var opnaður fyrir þremur árum.

Eitt menntaráð

Punktar

Leikskólar stefna að því að verða skólar. Þar er börnum kennt að draga til stafs. Stefnt er að ókeypis leikskólaplássi fyrir öll börn eins og í öðrum skólum. Skólar stefna hins vegar að því að verða leikskólar, þar sem nóg sé af brauði og leikjum og gaman sé að vera. Enda tekur það skólana sex ár að kenna krökkum að lesa, skrifa og reikna, sem væri mánaðarverk í skóla í Afríku. Einhvers staðar í þessum breytingum munu skólar og leikskólar mætast. Því spyr ég: Af hverju þarf að skipta menntaráði borgarinnar í tvö ráð? Mér sýnist framtíðin stefna að einu ráði.

Annar alveg eins

Punktar

Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í gær, enda er hann eldri en fráfarandi formaður. Jón hefur hvorki orðið var við við stóriðjustefnu flokksins né stríðsstefnu hans. Hann veit greinilega mjög lítið um helztu umræðuefni þjóðarinnar, talar bara eins og forsetinn. Hann tekur þó sérstaklega fram, að allt sé gott, sem Framsókn hafi gert. Hann vill nákvæmlega alls enga stefnubreytingu. Þess vegna er hann ekki líklegur til að ná til baka neinu af því fylgi, sem hefur flæmzt frá flokknum undanfarin ár.

Mál er að linni

Punktar

“Nú er mál að linni” voru andlátsorð Halldórs Ásgrímssonar í pólitíkinni. Sennilega er þetta óvart sagt, enda var hann ekki sleipur í tungumálinu. Orðalagið smellpassar við pólitíkus, sem hafði allt of lengi valdið fólki þjáningum. Halldór færði okkur stríð við saklausar þjóðir í þriðja heiminum. Hann færði okkur kvótakerfi handa fjölskyldufyrirtæki sínu. Hann færði okkur Kárahnjúkavirkjun, mesta glæp Íslandssögunnar, sem aldrei verður bættur. Halldór var versti pólitíkus landsins. Því er gott, að hann varð bráðkvaddur í pólitíkinni.

Stríð sníkjudýra

Punktar

Framkvæmdirnar við Kárahnjúka eru verkfræðileg stríðsyfirlýsing sníkjudýra gegn landinu, sem þau lifa á. Hér hefur í jarðsögulega skamman tíma búið þjóð, sem rænir landið og ruplar, áður með sauðfé og skógarhöggi og nú með miðlunarlónum og verksmiðjutogurum. Íslendingar lifa í núinu, í afla dagsins, og hafa fæstir tilfinningu fyrir sjálfbærni. Jafnvel Þingvallavatn er notað sem miðlunarlón. Hvorki bændur né sjómenn og allra sízt verkfræðingar hafa sýn til langs tíma yfir afleiðingar rányrkju á auðlindum lands og sjávar. Sem landið á sjálft, en ekki sníkjudýrin á landinu.

Login hryðjuverkaógn

Punktar

Fyrrum brezkur sendiherra í Úsbekistan segist í Guardian hafa efasemdir um handtökur 24 manna vegna aðildar að tilraun til hryðjuverka í flugvélum milli Bretlands og Bandaríkjanna. Craig Murray segir engan þeirra hafa smíðað sprengju og engan þeirra hafa keypt sér flugmiða. Hann segir flesta þeirra hafa verið undir eftirliti í rúmt ár. Hann segir ekkert mark takandi á yfirheyrslum í Pakistan, þar sem menn séu pyndaðir til að játa hvað sem er. Þeir verði sýknaðir að lokum. Hann telur aðgerðina vera áróður, sem eigi að fá fólk til að sætta sig við harðara lögregluríki.

Sérmeðferð fínimanna

Punktar

Terroristaótti sýslumanna um allan heim hefur gert flughafnir óbærilegar fólki, meðal annars Keflavíkurvöll. Þeir, sem ferðast mikið, vilja fá undanþágu frá biðröðunum. Þess vegna er verið að leita leiða til að koma fínimönnum hraðar en almenningi gegnum flugvelli. Þeir fari um sérstök hlið með augnskönnun. Þetta var rætt á fundi innanríkisráðherra Evrópusambandsins í London á miðvikudaginn. Á sumum flugvöllum er slíkt kerfi þegar komið. Ef þannig er hægt að friða fínimennina, geta stjórnvöld haldið ótrauð áfram að kvelja fólk í skjóli hryðjuverkagrýlunnar.

Opin símtöl

Punktar

Orkuveitan hljóðritar símtöl, en geymir þau í of skamman tíma, aðeins þrjá mánuði. Lengri tíma getur tekið að uppgötva, hvort símtal verði gagn í málaferlum eða forsenda aðgerða í öryggismálum. Það er brenglað sjónarmið, að persónuvernd hvíli yfir símtali milli tveggja aðila. Margir nota símtöl til að ausa hótunum, klámi og annarri andstyggð yfir viðmælandann. Það er ekki einkamál friðarspilla og krefst að mínu viti ekki persónuverndar þeirra. Almennt eiga allir, sem það geta, að taka upp símtöl til að verja sig gegn brengluðu fólki, er telur símann vera vopn í taugastríði.

Ómar og ráðherrarnir

Punktar

Mér finnst gott hjá Sjálfstæðisráðherrum að taka boði Ómars Ragnarssonar um að fljúga og ganga með honum um gróið land, sem fer í kaf í miðlunarlóni Kárahnjúka. Þar á meðal eru svæði, sem voru affriðuð til að geta virkjað Hálslón. Þetta sýnir opnari huga þeirra en hjá ráðherrum Framsóknar. Hinir síðari reka enn róttæka virkjanastefnu í ósnortnum víðernum, þótt verðandi flokksformaður þykist ekki sjá. Með hjálp Ómars verður sýn stjórnarinnar opnari og víðari en hún hefur hingað til verið. Vonandi fer hann varlega í fluginu. Mér þótti nóg um, þegar hann skellti sér í gljúfrið.

Fíllinn Babar

Punktar

Thomas Gagen skrifar góða grein í Boston Globe um 75 ára gamlar sögur af fílnum Babar, sem missti móður sína í frumskóginum. Hann fluttist til Parísar og tók upp siði manna. Hann fékk skjól hjá franskri hefðarfrú, klæddist í græn föt og borðaði sætar kökur á kaffihúsi. Margir hafa verið ósáttir við þessar bækur, fundizt þær ala á kynjamismun og vestrænu yfirlæti. Sumir sérfræðingar hafa meira að segja sagt, að brenna ætti bækurnar um fílinn Babar. Gagen er því andvígur, telur þær vera hinar beztu bækur. Því er ég hjartanlega sammála. Hemil þarf að hafa á félagslegum rétttrúnaði.

Hezbolla hjálpar

Punktar

Hamas og Hezbolla eru eiginlegt stjórnvald á svæðum, þar sem ríkið kemur fólki ekki að gagni. Samtökin sjá um félagslega velferð, byggja hús fyrir fólk og útvega því nauðsynlega þjónustu, svo sem vatn og rafmagn. Hamas vann kosningarnar í Palestínu, af því að samtökin hjálpuðu fólki en sugu ekki af því fé eins og Fatah gerir. Hezbolla hefur nú forustu í endurreisn Líbanons. Hryðjuverkaríkjum hentar að kalla þessi samtök hryðjuverkasamtök, þótt þau séu fyrst og fremst pólitísk hugsjónasamtök, sem eru vel vopnum búin. Í hryðjuverkum jafnast þau ekki á við Bandaríkin eða Ísrael.

Stjörnulaus vegur

Punktar

Útlendir sérfræðingar misstu af nýja kaflanum á vegi 1 frá Gljúfrá upp fyrir Munaðarnes, þegar þeir gáfu íslenzkum vegum þrjár stjörnur af fjórum mögulegum. Þessi kafli er að mestu í holum og öldum eins og gamlir vegir, sem sökkva í mýrum. Verktaki vegarins hefur sparað um of og ekki skilað frambærilegri vinnu. Það er skylda Vegagerðarinnar sem verkkaupa að sjá um, að verktakar skili frambærilegri og skaðlausri vinnu. Vonandi verða brýnar og nauðsynlegar endurbætur á kaflanum ekki á kostnað skattgreiðenda. Of mikið er um, að verktakar komist upp með hvað sem er.

Síminn okrar

Punktar

Síminn vill ekki viðurkenna, að 250 króna seðilgjald sé okur á kostnaði við útskrift, pappír og póstun reikninga. Það rétta er, að sérstakt umstang við reikninga umfram pappírslaus viðskipti er um 50 krónur. Tæplega eða um það bil 200 krónur af hverjum reikningi er hreint okur. Réttmætt er að kvelja Símann og önnur okurfyrirtæki, sem stunda þetta. Síminn er alls ekki að spara pappír og vernda umhverfið, þegar hann okrar á seðilgjaldinu. Lengi hafa glæpamenn veifað biblíunni og vafið sig þjóðfánanum. Umhverfismál þjóna sama hlutverki hjá Símanum.

Engin áritun

Punktar

Pakistanar eru þriðjungur þeirra, sem grunaðir eru um aðild að misheppnuðu hryðjuverki um helgina í flugvélum milli Bretlands og Bandaríkjanna. Um leið segja fréttir, að til framkvæmda sé komið samkomulag Pakistans og Íslands um afnám vegabréfsáritunar til Íslands. Það er ótímabær ákvörðun. Pakistan er annar endi öxuls hryðjuverkakerfis alKaída. Þar læra hryðjuverkamenn. Hinn endi öxulsins er Sádi-Arabía, þar sem illvirkin eru fjármögnuð. Afganistan og einkum Írak eru aukapeð í þessu tafli. Það er ekki í lagi, að hryðjuverkamenn frá Pakistan eigi greiða leið til Íslands.