Punktar

Óheiðarleg og ósvífin

Punktar

Kjarnorkumálastofnun Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg skefur ekki af áliti sínu á skýrslu bandarísku fulltrúadeildarinnar um atómvopn í Íran. Stofnunin segir skýrsluna óheiðarlega og ósvífna. Þar sé ítrekað farið rangt með staðreyndir. Þetta minnir á, að Bandaríkin fóru í stríð við Írak á forsendu gereyðingarvopna, sem ekki reyndust vera til. Nú eru Bandaríkin að undirbúa stríð við Íran, en ólíklegt er, að margar verði fúsu þjóðirnar í þeirri herferð. Evrópuríkin taka meira mark á stofnun í Vínarborg en froðufellandi þingmönnum í Washington.

Bannaðir terroristar

Punktar

Af félagslegum rétttrúnaði hafa stjórnvöld í Evrópu látið undir höfuð leggjast að móta aðflutta múslima í vestrænni mynd. Þess vegna hafa gerzt atburðir, sem valda hatri fólks á múslimum. Lýðskrumarar átta sig á þessu og heimta breytingar, sem senn fela í sér, að múslimum verði bönnuð landvist í Evrópu, samanber Nicolas Sarkozy, er verður næsti forseti Frakklands. Nærtækara væri þó að banna landvist bandarískt ættaðra sértrúarsafnaða, sem boða hatur, landspjöll, kjarnorkustríð og heimsendi. Þessi falskristna geðveiki hefur þegar numið land í söfnuðum á Íslandi.

Sértrúarsöfnuðir

Punktar

Hryðjuverkaógn mannkyns er tvíþætt. Hún kemur frá kristnum og íslömskum trúarofstækismönnum. Kristnir sértrúarsöfnuðir afbaka biblíuna og hinir íslömsku afbaka kóraninn. Báðir textar eru á köflum vafasamt vegarnesti í nútímanum, einkum hatursfullt gamla testamentið. Fjölmennir og valdamiklir hópar í Bandaríkjunum trúa, að heimsendir sé að koma, vistkerfi jarðar megi fara fjandans til, mannkynið eigi að loga í styrjöldum. Þetta sé allt vilji guðs, sem muni í lokin taka sértrúarliðið í fang sér. Bandaríkin eru knúin fram af þessu rugli, sem er enn hættulegra en múslimar með sprengjur.

Frekir múslimar

Punktar

Múslimar biðjast ekki afsökunar á neinu, en heimta sífelldar afsakanir af öðrum. Þeir heimtuðu afsakanir út af dönsku teikningunum af Múhameð spámanni og nú heimta þeir afsakanir af páfanum fyrir að gera lítið úr íslam. Á sama tíma brenna múslimar dúkkur og fána, sprengja óviðbúna borgara víða um lönd, garga á útifundum. Við erum orðin þreytt á þessum múslimska tryllingi. Við skulum hætta að taka mark á honum og haga orðum okkar eins og okkur býr í brjósti, en ekki vera sífellt að taka tillit til fólks, sem ekki er húsum hæft í vestrænu samfélagi.

Persónuvernd

Punktar

Þú getur rakið þína ætt í Íslendingabók og þú getur rakið ættingja þína frá langaafa þínum. En þú getur ekki rakið ættir annars fólks. Þú getur til dæmis ekki fundið, hvað varð um afkomendur systkina forfeðra þinna. Þetta stafar af Persónuvernd, illu fyrirbæri í stjórnkerfinu, sem hefur það að markmiði að gera þjóðfélagið gersamlega ógegnsætt. Persónuvernd vinnur skipulega gegn lýðræði í landinu, undir vernd stjórnvalda, sem hafa komið henni á fót. Hún gengur svo langt, að hún reynir að bregða fæti fyrir fólk, sem vill stunda ættfræði í frístundum. Burt með þetta skrímsli eins og það leggur sig.

Rugludallarnir

Punktar

Greenway segir í greininni, að ríkisstjórn Bandaríkjanna fari með hreint bull í málum íslamskra þjóða. Notkun stjórnarinnar á slagorðum á borð við “íslamskan fasisma” þjóni engum tilgangi og skaði líkur á árangri. Einnig segir Greenway að áherzlan á Írak og Líbanon hafi dregið úr áherzlu á Afganistan og aukið líkur á hruni þar. Greenway ítrekar, að leiðin að hjarta fólks felist ekki í að kasta bombum á það. Í rauninni er Greenway að segja eins og flestir aðrir, að ráðamenn Bandaríkjanna séu rugludallar í utanríkismálum.

Vissu ekkert

Punktar

H.D.S. Greenway hjá Boston Globe talar yfirleitt skýrt. Í nýjustu greininni segir hann: “Engar líkur eru á, að Írak verði lýðræði að vestrænum hætti, leiðarljós annarra í heimi araba. Hugmyndin um að troða lýðræði upp á arabískt land með því að ráðast á það var fundin upp af þeim, sem annað hvort vissu ekkert um Írak eða vildu ekki vita neitt um það. Það bezta í stöðunni er málamiðlun, sem geti stöðvað villimannlegt borgarastríð í landinu.” Greenway segir um bandarísk stjórnvöld, að þau séu eins og Beaverbrook lávarður, sem hélt, að hlutir yrðu sannir á því að fullyrða þá.

Evrópa vinsælli

Punktar

Þau gleðitíðindi hafa gerzt, að stuðningur eykst við Evrópusamband og evru. Nú vilja 58% hefja viðræður við sambandið um aðild, en aðeins 25% eru því andvígir. 46% vilja beinlínis aðild, en aðeins 33% eru henni andvígir. 47% vilja evru og 40% eru því andvígir. 55% telja aðildina verða jákvæða, en aðeins 31% telja hana verða neikvæða. Ekki hafa áður sézt svona jákvæðar tölur um bandalagið. Fylgismenn allra flokka hafa færzt nær Evrópusambandinu nema Framsóknarflokksins, sem eru sér á parti með sértrúarsöfnuðum, vilja stuðning við Ísrael og stríð við Írak, Palestínu og Líbanon.

Davíð rekinn?

Punktar

Þótt Davíð Oddsson sé Seðlabankastjóri, líst mér illa á þá hugmynd Þorsteins Más Baldvinssonar hjá Samherja, að Davíð og öðrum slíkum verði sagt upp og gerður við þá starfslokasamningur. Með því væri verið að opna fyrir, að frekjuhundar í atvinnulífinu fari að ráðskast með Seðlabankann. Slíkt er hvergi stundað í heiminum, heldur lögð áherzla á, að bankastjórarnir séu friðhelgir í starfi. Bankastjórar Seðlabankans eiga að vera óvinsælir. Þeir eiga að neita að gera eins og Þorsteinn Már og aðrir frekjuhundar vilja. Þeir eiga að rífast við ríkisstjórnina. Þeir eiga að hækka vextina.

Ódýr málverk

Punktar

Greinar Tryggva P. Friðrikssonar í Listapóstinum frá Fold eru oft góðar. Í nýjasta pósti er skrá um verðgildi málverka á uppboðum síðustu ár. Athygli hans og mína vekur, að meðalverð á Jóhannesi S. Kjarval var aðeins 365.000 krónur. Enn merkilegra finnst mér, að meðalverð á Erró var ekki nema 170.000. Svavar Guðnason hlýtur að teljast alþjóðlegur, en var samt ekki nema 173.000 króna maður. Nína Tryggvadóttir var í 212.000 krónum. Kóngur listans var Jón Stefánsson með 734.000 krónur stykkið og næstur kom Ásgrímur Jónsson með 536.000 krónur. Bara ættingjar kaupa unga listamenn.

Slóðin er rakin

Punktar

Mörgum lítilmennum er ókunnugt um, að prívat er ekki til á vefnum. Þeir flétta saman órökstuddum svívirðingum í meintu skjóli nafnleyndar. Þeir átta sig ekki á, að slóðin er eilíf og verður rakin, ef þess er þörf. Allt er geymt nútildags, þar á meðal skrár um símtöl frá einu númeri í annað. Einkaspjæjarar í Bandaríkjunum útvega fólki slíkar skrár fyrirvaralítið. Menn verða að gera ráð fyrir, að símtöl þeirra og spjall á vefnum geti verið opið öðrum, ef einhver nennir að leita. Varaformaður handboltadeildar Fram lenti þannig sjálfur réttilega í eigin nafnlausu spýju.

Örorka ríkisins

Punktar

Það er úti af kortinu, að óviðkomandi aðilar geti troðið örorkuskyldum ríkisins upp á lífeyrissjóði landsins. Þeir geta ekki veitt sjóðfélögum sínum sómasamlegan lífeyri, af því að 20% af tekjum þeirra fara í greiðslur til öryrkja. Mál er að þeirri óhæfu linni. 10% er hámark á þessu undanskoti peninga almennings. Ríkið á að sjá um örorkumál. Lífeyrissjóðir eiga að sjá um lífeyri. Einhvers staðar í nálægri fortíð hefur orðið bilun í þessu kerfi verkaskiptingar, sem lífeyrissjóðir verða að vinda ofan af, þótt hagsmunaaðilar og billegir pólitíkusar reki upp ramakvein.

Fatlaða löggan

Punktar

Ömurlegt var að sjá myndina í Mogganum af lögreglubíl í stæði fatlaðra við Kringluna. Við vissum, að af eðlislægri frekju og yfirgangi hikar einn stórforstjórinn og frambjóðendur Framsóknar til borgarstjórnar ekki við að misnota stæði fatlaðra. En það tekur öðru fram, þegar löggan er farin að misnota þessi stæði. Ef hún tekur upp á þeim sið að leggja, hvar sem henni sýnist, á þeim forsendum, að það sé til þæginda í starfi, má búast við, að öðrum finnist sér muni leyfast það. Með hegðun sinni er löggan að grafa undan lögum og rétti.

Haukdælir entust

Punktar

Sturlungar, fyrirferðarmestir Íslendinga á Sturlungaöld, létu öldina heita eftir sér, en eru ekki rúmfrekir í nútímanum. Samkvæmt Íslendingabók deCode Genetics er ég bara kominn á 606 mismunandi vegu af Hvamm-Sturlu, þar af rúmlega helminginn af Snorra. Hressari hafa ættir Ásbirninga og Oddaverja verið. Ég er kominn á 821 vegu út af Tuma Kolbeinssyni og á 903 vegu út af Jóni Loftssyni. Fjórði maðurinn, sem var fæddur um 1125 og setti svip sinn á Sturlungu, var Haukdælinn Gissur Hauksson. Samkvæmt Íslendingabók er ég á 1239 mismunandi vegu út af honum kominn, tvöfalt á við Sturlunga.

Hlóðu niður börnum

Punktar

Langalangafi minn, Kristján ríki, átti sjö börn með sex konum. Af þessum sjö hafa tvö skilað sér til nútímans. Faðir hans, Jón bólginn, átti ellefu börn og þar af á aðeins Kristján afkomendur í nútímanum. Afinn var Jón á Balaskarði, sem átti sex börn, þar af eitt, sem hefur skilað sér til okkar daga. Langafinn var svo Jón harði-bóndi, sem átti ellefu börn og þar af aðeins eitt, sem á afkomendur í nútímanum. Þannig var ævi forfeðra okkar og formæðra. Þau hlóðu niður tíu börnum, þar af lifðu tvö. Annað þeirra varð fullorðið og gat af sér afkomendur. Lífið var erfitt fyrir tvöhundruð árum.