Punktar

Að éta og eiga köku

Punktar

Almannatenglar hafa mælt með, að Viðreisn hjóli ekki í Sjálfstæðisflokkinn. Muni hafa öfug áhrif á fólk, sem er á jaðri þess að yfirgefa Flokkinn vegna glæpa hans. En ber samt tilfinningar til hans frá fornu fari. Með því að halda friðinn við Flokkinn, muni opnast fyrir streymi til Viðreisnar. Líklega rétt ályktað, en hefur jafnframt þau áhrif að loka fyrir streymi frá Bjartri framtíð og Samfylkingunni. Fólk úr þessum flokkum, sem lízt vel á frambjóðendur og stefnu Viðreisnar mun hræðast þessa meðvirkni í garð gráðugra bófa og hætta við að veðja á Viðreisn. Ekki er bæði hægt að éta kökuna og eiga hana.

Velkomið flóttafólk

Punktar

Íslendingar eru almennt hlynntir móttöku flóttafólks, hlynntari en flestar aðrar þjóðir. Þrír af hverjum fjórum Íslendingum vilja auka viðtöku flóttamanna og einn af hverjum fjórum eru andvígir aukningu. Þetta eru vinsamlegri hlutföll en hjá öðrum mældum þjóðum. Konur og ungt fólk er vinsamlegra í þessum málum en aldraðir karlar. Gestrisnin nær til þess, að meirihluti fólks vill flóttafólk í sitt hverfi. Sjálfur tel ég, að við eigum að auka móttöku flóttafólks. Og auðvelda byggingu mosku í Sogamýri, þótt ég sé andvígur íslam sem trúarbrögðum. Við þurfum bara að taka betur á móti flóttafólkinu, svo það einangrist ekki.

Hundrað mála flokkur

Punktar

Píratar eru enginn eins máls flokkur. Þeir eru hundrað mála flokkur með betur markaða stefnu en aðrir flokkar. Hún er unnin í löngu og öflugu ferli samráðs við sérfróða og felur í sér sátt milli misjafnra sjónarmiða. Þar er skýr stefna um nýja stjórnarskrá, um uppboð á veiðikvótum, um endurreisn heilsustofnana og mannsæmandi kjör sjúkra, aldraðra og öryrkja. Einnig um höfundarétt, þjóðgarð á hálendinu og ótal fleiri atriði, sem fimmflokkur hinna sviknu loforða hefur trassað. Píratar bjóða ekki aðeins þroskaða og fullmótaða stefnu. Þeir bjóða líka ný vinnubrögð, sem munu breyta pólitísku ferli og efla virðingu alþingis.

Nokkrar vikur frelsis

Punktar

Þegar nokkrar vikur eru til kosninga er óráðlegt að trúa enn einu sinni orðum reyndra pólitíkusa. Segjast ætla að gera allt annað næst en þeir gerðu síðast. Bezt sést þetta á ráðherrunum. Þeir þykjast nú allt í einu ætla að byrja að þjónusta almenning eftir þriggja ára svik. Skoðanakannanir sýna, að tugþúsundir kjósenda hyggist enn trúa orðum svikara. Kjósendur eiga samt að vita, að verk ráðherra tala og þau segja þá vera þjóna auðs og valda. Límið í samfélaginu er að grotna niður, því að ráðamenn taka ævinlega málstað auðs og valda. Nú er sá tími kominn á nokkurra ára fresti, að fólkið getur hrifsað til sín völdin.

Listar auðmanna-andlita

Punktar

Nú eru óðum að birtast framboðsandlit flokkanna, hvítskúruð af ást til sjúkra, aldraðra og öryrkja. Af sumum þeirra lekur ömurleg reynslan. Svo eru líka ný andlit á nýjum listum, sem eiga að gefa meiri von. Kannski munum við trúa því, að fyrrverandi talsmaður álvera og kvótagreifa styðji forkláraður bann við þunnri fjármögnun og hækkun í hafi og styðji útboð á veiðileyfum. Kannski munum við trúa, að auðmannaandlitin í Viðreisn séu bara gamli góði Flokkurinn, áður en hann datt í ótínda glæpamennsku. Hver veit, mörgu hefur þjóðin trúað um dagana. En fleiri listar eru í boði en villuráfandi silfurskeiðungar Engeyinga.

Heilagar kýr

Punktar

Íslenzkir kvótakóngar bjóða 62 krónur í kílóið af þorski í Barentshafi og segja ekki múkk. Það er töluvert meira en þær 11 krónur, sem þeir greiða hér heima í auðlindaretnu. En ekki eins mikið og þeir borga hver öðrum fyrir leigðan kvóta, 200 krónur. Frjálsi markaðurinn gefur hér í rentu 200 kr á kílóið og 62 kr hjá Færeyingum. En leigður kvóti af íslenzka ríkinu kostar ekki nema 11 krónur í rentu. Sú er ástæðan fyrir því, að íslenzka ríkið getur ekki haldið upp ókeypis heilsuþjónustu að norrænum og þýzkum hætti. Og getur ekki borgað öldruðum og öryrkjum það, sem áður var samið um. Hér á landi eru kvótakóngar heilagar kýr.

Sjá: Jón Steinsson, Columbia-háskóli

Marktækt eða ekki

Punktar

Alþingismenn eiga að byrja á að viðurkenna þjóðaratkvæðagreiðslur áður en þeir stinga upp á nýjum. Gætu til dæmis viðurkennt þjóðaratkvæðið um stjórnarskrána í stað þess að muldra um „ráðgefandi“. Það er bara á Íslandi, að þjóðaratkvæði er bara ráðgefandi. Bretar vita, að Brexit var ekki ráðgefandi, heldur sjálf afgreiðsla málsins. Þegar búið er að viðurkenna þjóðaratkvæðið um stjórnarskrá, má hafa ný þjóðaratkvæði um Vaðlaheiðargöng, Bakkafjöruhöfn, Neyðarflugbraut, nýjan landspítala og annað, sem eins máls fólki liggur á hjarta. En byrja á að taka mark á afstöðnu þjóðaratkvæði. Gildi leikreglna er ekki valfrjálst.

Fátt breytist hjá þrælunum

Punktar

Þjófaflokkurinn má vera kátur yfir stöðunni í könnunum. Þrátt fyrir endurteknar árásir á almenning er hann með 25% hjá MMR og 26% hjá Gallup. Þar á ofan hefur Evrópu-útibúið 9% hjá MMR og 11% hjá Gallup. Samtals eru þetta 34-37% fylgi auðmanna og forstjóra. Frambjóðendur Viðreisnar eru ekki minna hægri sinnaðir en frambjóðendur móðurflokksins. Fyrrverandi talsmaður álvera og kvótagreifa þykist hafa verið krati, en getur alveg eins sagzt hafa verið átján barna faðir í álfheimum. Allur er þessi klofningur í þykjustunni. Þjófaflokkurinn hefur alls rúmlega þriðjungs fylgi. Flest stefnir í að fátt breytist hjá þrælunum.

Fámennt þinghald

Punktar

Þá er endanlega búið að ákveða kjördag 29. október. Þingmenn farnir á taugum, sjá þingmennskuna ganga sér úr greipum. Verða uppteknir af kjördæmafundum næstu vikur. Lítil mæting verður í þingnefndum og þingfundum. Þar verða helzt þeir, sem þorðu ekki einu sinni að biðja um endurráðningu. Við slíkar aðstæður er ekki vit í að halda störfum alþingis áfram. Þar verða bara endalausar frestanir vegna fjarvista stjórnarþingmanna. Eins gott væri fyrir ríkisstjórnina að sjá örlögin. Þrír plástrar á stjórnarskrá skipta litlu máli. Ekki er ósætti um höft og húsnæði. Þeirra vegna væri hægt að slíta alþingi strax í dag eða um helgina.

Píratar eiga internetið

Punktar

Í fyrsta fjárlagafrumvarpi Pírata þarf að gera grein fyrir, hvaða fé er hvernig flutt frá tekjum af uppboði veiðileyfa. Og flutt til endurreisnar heilsumála og leiðréttingar á kjörum aldraðra og öryrkja. Þessi konkret atriði séu margtuggin á veggjum fésbóka. Í kosningabaráttunni þarf líka að gera grein fyrir, hvernig verði lögformlegt ferli nýrrar stjórnarskrár gegnum þær hindranir, sem verða á vegi hennar. Verði sótt að pírötum á öðrum sviðum, þarf að kynna viðkomandi stefnu pírata samstundis. Útskýra, hvernig hún verði konkret framkvæmd. Aldrei láta óvininn koma sér á óvart lengur en fimm mínútur. Píratar eiga internetið.

Forgangsröð pírata

Punktar

Flestir kjósendur hafa mestan áhuga á pyngju sinni. Sé hún sæmilega troðin, vilja þeir ekki vitja neinna ævintýra. Annar hver kjósandi hefur það sæmilegt eða gott og getur sætt sig við óbreytt ástand. Hafa takmarkaðan áhuga á fátæku fólki og velferð þess. Getur verið pirrað út af kostnaði við menntun barnanna. Er líklega ósátt við misþyrmingar ríkisstjórnarinnar á opinbera heilsukerfinu. Vill, að það verði endurreist með tekjum af útboði fiskikvóta. Vill gjarna nýja stjórnarskrá, án þess að hún sé ein í forgangi. Því ættu píratar að leggja sama þunga á útborð fiskikvóta og endurreisn heilsukerfisins eins og á stjórnarskrá.

Nú er gott að hætta

Punktar

Ríkisstjórnin missti áhuga á þrískæklingnum, sem átti að deyfa áhuga kjósenda á stjórnarskrá fólksins. Stjórnarandstaðan hefur talað gegn breytingunum þremur, þótt nefndarmenn hennar styðji þær. Og ríkisstjórnin nennir varla að rífast um svo abstrakt mál. Sjálfstæðisflokkurinn hætti við að hefna sín á Eygló Harðar fyrir að sitja hjá um sovézka langtímaáætlun um ríkisfjármál. Aðrir eru ekki andvígir húsnæðisfrumvarpi hennar. Því er óljóst, hvaða merkisfrumvörp standa í vegi þingslita í lok þessarar viku. Ekki er það sovézka haftafrumvarpið. Allir vilja höft. Er ekki ágætt að hætta, þegar stjórnin hefur misst tök á lífi sínu?

Tvær jafnar blokkir

Punktar

Ástæða er til að skoða vandlega fylgistölur úr nýjustu skoðanakönnun MMR, sem tekin var 22.-29. ágúst. Sjálfstæðisflokkurinn fær þar 24,6%, Framsókn 10,6% og Viðreisn 8,8%. Samtals eru þetta 44% hægra fylgi. Á móti hafa Píratar 22.4%, Vinstri græn 12,4% og Samfylkingin 9,1. Samtals eru þetta 43,9%, sami styrkur og á hægri vængnum. Við getum kallað þetta tvær jafnvígar hægri og vinstri blokkir. Aðrir flokkar ná ekki manni inn. Þetta sýnir, að litlar líkur eru á, að þjófræði hægri flokkanna verði rutt úr vegi. Stóri bófaflokkurinn og Evrópubrotið úr honum hafa þriðjung atkvæða! Píratar verða að standa sig betur.

Færeyska auðlindarentan

Punktar

Uppboð á fiskikvóta gefast vel í Færeyjum. Þar er boðinn upp kvóti á kolmunna, mak­ríl, síld og Barents-þorski. Niðurstaðan er stóraukin auðlindarenta ríkisins fyrir hönd skattgreiðenda og almennings. Hér aukast kröfur um hliðstæða rentu. Píratar hafa nákvæma útfærslu á rentunni á stefnuskránni. Hefur vakið skelfingu kvótagreifa, sem arðræna þjóðina í skjóli Sjálfstæðis og Framsóknar. Flytja inn hvern málsvara gjafakvótans á fætur öðrum  til að villa um fyrir fólki. Þjóðin veit samt, að Færeyingar gátu. Og veit, að við líka getum fengið auðlindarentu. Á uppboði neyðast greifar til þess að gefa sjálfir upp verðmæti veiðiheimilda.

Ríkisbankinn rotinn innan

Punktar

Landsbankinn er svo rotinn innan, að hann tekur ekki mark á eigin útboðum. Um áramótin setti hann 69,8 milljónir króna á einbýlishús í Hafnarfirði. Tilboð kom í húsið upp á 64 milljónir. Bannkinn gerði gagntilboð upp á 67,5 milljónir. Mánuði síðar fékk bankinn tilboð frá forsvarsmanni Borgunar upp á 61 milljón króna og tók því boði. Landsbankinn er í ríkiseigu, svo þarna eru umboðssvik á ferðinni. Bankinn hefur beðist afsökunar á svindlinu. Og Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á allri eignasölu Landsbankans á árunum 2010–2016. Verður niðurstaðan send Alþingi í nóvember næstkomandi. Vonandi fækkar þá bankabófum.