Punktar

Ný hrota landráða

Punktar

Wikileaks lak á föstudaginn skjölum úr TISA landráðasamningunum í tilefni af nýrri hrotu viðræðna, sem hefst á mánudaginn. Leynisamningarnir ná til stærra svæðis en aðrir hliðstæðir samningar. Fela í sér framsal valds þjóðríkja til heimsfyrirtækja með flutningi málareksturs frá fölþjóðadómstólum til dómstóla með dómurum frá fyrirtækjunum. Samkvæmt leynisamningunum má ekki setja reglur eða lög um stóriðju án samþykkis hennar. Risafyrirtæki mega kaupa og taka yfir grunnþjónustu á borð við rennandi vatn. Alls er samningurinn stærsta skref í einkavinavæðingu jarðarinnar. Ísland er aðili að viðræðunum, en vonazt er til, að leynilandráðin verði stöðvuð við aðvífandi stjórnarskipti.

Wikileaks Further Exposes Corporate Plot

Maðurinn og málefnin

Punktar

Oft er predikað, að þú eigir að fara í málin, ekki í manninn. Samt á það ekki við hér, þar sem málefnin eru að mestu bara plat. Þeir, sem hafa stjórnað í þrjú ár, lofa því sama og þeir hafa svikið. Svo koma fjölmiðlar og bera saman verðlausu loforðin. Búa til krossapróf, þar sem fólk getur séð, hvernig mál þess passa við mál flokkanna. Úr svona prófum kemur auðvitað bara hreint rugl. Stefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í húsnæðismálum ungs fólks, í málum aldraðra og öryrkja, í heilbrigðismálum og svo framvegis, fer þvert á þeirra eigin gerðir. Að ræða slík gervimál er einskis virði. Farið heldur í manninn.

Krúttvæðingin

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn fann fullkomið krútt í erfiðri kosningabaráttu. Gerði myndband af foringjanum. Bjarni Ben er sýndur sem laginn kökugerðarmaður að búa til afmælistertu með hjálp dóttur sinnar. Áhorfendur gleyma frumvörpum, sem tryggja ættingjum og aðli flokksins mola af gnægtaborði ríkissjóðs. Gleyma  færslu peninga á reikninga í skattaskjóli á aflandseyju. Gleyma meistaratign í að efna engin kosningaloforð. Gleyma, að hann er leiðtogi karlrembuflokks frá fyrri öldum. Flóttakonurnar í Viðreisn munu skila sér í stórhópum til baka til Flokksins. Í faðm nútíma húskarlsins. Glúrin almannatengsl í hæsta gæðaflokki.

Einkalíf peninga

Punktar

Hef aldrei skilið þá hugsun, að peningar séu einkalíf fólks eða eigi sér sitt einkalíf. Enn síður get ég skilið, að fyrirtæki séu persónur eða lögpersónur, sem eigi sér sitt eigið einkalíf. Með slíku er verið að reyna að jafnsetja dauða hluti lifandi fólki. Markmiðið er oftast að bregða hulu yfir svindl og svínarí, hækkun í hafi, skattaskjól og aflandseyjar, eða pólitíska bófaflokka. Sú útgáfa einkalífs stríðir gegn gegnsæi samfélagsins og upplýsingafrelsi. Gegnsæi byggist á „follow the money“. Þess vegna geta peningar og skúffufélög eða lögpersónur ekki haft neitt einkalíf. Því er Persónuvernd í ruglinu.

Endurræsum þjóðfélagið

Punktar

Gamla pólitíska settið hefur eyðilagt límið í samfélaginu. Hinir ríkustu verða enn ríkari og hinir fátækustu enn fátækari. Við getum ekki breytt þessu með gömlum pólitíkusum með þýfi í skattaskjóli á aflandseyju. Þurfum að endurræsa þjóðfélagið. Þurfum að endurræsa þjóðarauðlindirnar, fiskveiðarnar, orkuna og ferðamennskuna. Þurfum að endurræsa heilbrigðiskerfið eins og það leggur sig, eftir skipulegar misþyrmingar Sjálfstæðisflokksins. Þurfum að koma skikki á ferðamennsku, eftir óskipulegan sofanda Sjálfsstæðisflokksins. Þurfum að ná markaðsverði auðlindarentu með uppboðum. Endurræsum þjóðfélagið í boði pírata.

Afleitur forsætis

Punktar

Allir verða ágætir af samanburði við Sigmund Davíð, líka Sigurður Ingi. Sem er framsóknarlegri en sá fyrrnefndi. Þið munið gamla frasann, klettur í hafinu og allt það. Í rauninni er Sigurður Ingi afleitur forsætisráðherra. Reif sundur friðlýsingu Þjórsárvera, sem áður hafði verið samþykkt. Vildi leggja niður umhverfisráðuneytið. Tuddaðist með Fiskistofu til Akureyrar og endaði þar með forstjórann einan. Studdi Tortóla-liðið með yfirlýsingu um, að flókið sé að eiga peninga á Íslandi og að einhvers staðar verði þeir að vera. Hann bjó til hinn vonda búvörusamning, sem er eins konar Þorgeirsboli í pólitískri umræðu.

Engin pólitísk ást

Punktar

Hef enga trú á að Píratar kaupi þá hugmynd Viðreisnar að prufa sig áfram með 5% árlega aukningu uppboða á kvóta yfir 20 ára tímabil. Enn síður að prufa sig áfram með 5% árlega innleiðingu nýrrar stjórnarskrár. Píratar eru áratugum á undan Viðreisn í hugsun. Þeir telja, að hægt sé að gera á nokkrum mánuðum allt öfugt við það, sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði á nokkrum mánuðum. Allt annað sé bara japl, jaml og fuður. Vilja skipta strax yfir í uppboðskerfi á kvóta og innleiða strax alla nýju stjórnarskrána. Þarna er gjá milli flokka framtíðar og fortíðar. Píratar og Viðreisn eru andstæðir pólar, ekki ástarsamband.

Kjósendaflóttinn

Punktar

Samfylkingarfólk kvartar um, að almennt hafi flokkar stefnu Samfylkingarinnar, en kjósendur forðist samt Samfylkinguna. Skýringar eru tvær. Hægri Blair-ismi Ingibjargar Sólrúnar og Árna Páls Árnasonar hafi drepið Samfylkinguna. Eða að vinstri Corbyn-ismi Oddnýjar Harðardóttur sé að drepa Samfylkinguna. Vandinn er þó stærri. Árni Páll hafði ekki pólitískan kjörþokka og Oddný hefur hann ekki heldur. Um alla Evrópu og Bandaríkin er bakslag frá Blair-isma og sumpart yfir í Corbyn-isma. Verra er þó, að vinstra láglaunafólk hefur látið plata sig yfir í þjóðrembuflokka á hægri kanti. Hafa glatað nánd við Samfylkinguna.

Grænar hosur Viðreisnar

Punktar

Á erfitt með að sjá fyrir mér Viðreisn gera hosur sínar grænar fyrir Pírötum. Stefnan er svo sem fallega skrifuð, en mér lízt misjafnlega á mannskapinn. Hvernig á fyrrverandi grátkarl atvinnurekenda að samþykkja, að láglaunafólk sé ekki að sliga atvinnulífið? Ég tel, að hjá þessu fólki slái hjartað með þeim Sjálfstæðisflokki, sem var fyrir yfirtöku nýfrjálshyggjunnar. Kosningarnar munu einkum snúast um, í hvaða mæli kjósendur trúa fagurgala Viðreisnar. En mun hún samþykkja uppboð á fiskikvóta og nýja stjórnarskrá? Kannski 10% skref til prufu í áttina, varla meira. Viðreisn mun þvælast fyrir endurreisn okkar.

Lifandi vefur pírata

Punktar

Píratar.is eru mikilvæg kynning á pírötum og stöðu þeirra í umræðunni. Nærri tíuþúsund þátttakendur, misjafnlega hlynntir eða andvígir. Nokkur rugluð tröll eru í hópnum, en hver fyrir sig getur strikað þá út, sem hann nennir ekki að skoða. Mikilvægt er, að þarna sé í gangi virk umræða og gagnrýni. Þarna sjá píratar margt, sem fær fólk til að efast. Og geta eftir stutta umræðu tekið afstöðu til gagnrýninnar. Umræðan slípar pírata fyrir alls konar kaffispjall úti um borg og bý. Hún er að því leyti betri en einhliða umræða flokksfólks, sem finna má annars staðar á vefnum. Píratar.is vegur upp á móti fjölmiðlunum.

Píratar.is

Minn rasismi

Punktar

Minn rasismi felst í andstöðu við íslam sem trúarbrögð, andstæð veraldlegum nútíma. Er hins vegar ekki andvígur búsetu múslima. Ekki heldur moskum þeirra, ef þar eru ekki predikaðar miðaldir. Við móttöku og aðlögun múslima vil ég fara gætilegar á nokkrum sviðum, sem hafa reynzt erfið í nágrannalöndunum. Ég vil ekki sérstök fátækrahverfi múslima. Ég vil, að þeim sé sagt frá menningarlegum mismun. Hann felst til dæmis í jafnstöðu íslenzkra kvenna og aðild þeirra að samfélaginu. Ég tel ekki þörf á að banna slæður. En mér finnst, að múslimar og múslimur eigi að taka þátt í atvinnulífinu og öðrum þáttum mannlífs á Íslandi.

Þeir lötu og þeir þreyttu

Punktar

Pírötum hefur gengið vel í slagnum, þótt þess sjáist lítil merki í könnunum. Hafa komizt gegnum prófkjör með minni háttar ýfingum, sem hafa skilað ágætum frambjóðendum. Píratar sjást vel í umræðunni vegna fjölmennrar aðildar að vefmiðlum, einkum fésbók. Hefðbundin fyrirferð er líka fín, með skrifstofum og fundahöldum. Mikilvægt er á síðustu vikum að láta öfundarmenn ekki komast upp með margvíslegar mistúlkanir á stefnu eða meintu stefnuleysi. Mesti vandinn er eins og áður að koma ungum og öldruðum á kjörstað. Unga fólkið er of latt og gamla fólkið er of þreytt. Píratar þurfa að hafa mikið fyrir mætingu fólksins.

Klippt og límt

Punktar

Lítill munur er á loforðum flokka. Sjálfstæðis telur sig bara þurfa að lofa öldruðum og öryrkjum því sama og fyrir þremur árum og svikið var. Þá lofaði hann því strax, en nú dugar að lofa því 2018. Ekki strax, heldur þegar vinstri stjórn er komin. Metingur er um, hver hafi fyrst lofað hverju. Samfylkingin kvartar um, að Píratar klippi og lími hennar loforð. Björt framtíð kvartar um, að Viðreisn klippi og lími hennar loforð. Viðreisn segist elska Pírata. Allir þessir virðast þannig vera á sama loforðabletti. Skiptir litlu, því loforð eru verðlítil. Hjá Sjálfstæðis og Framsókn reyndust þau vera með öllu verðlaus.

Í mörgum flokkum

Punktar

Útlendingahatarar hafa lengi kannað hitastigið í pólitíska vatninu og stundum kastað sér til sunds. Hafa sinn eigin flokk, Þjóðfylkinguna. Býr að vísu við sama fylgisleysi og Frjálslyndi flokkurinn áður. Slíkt hatur þrífst illa eitt og sér, en í samhengi við annað er árangur oft skárri. Síðast stigu slíkar dans við Framsókn í Reykjavík, og höfðu frægan sigur. Baráttukonur haturs á útlendingum eru enn í fylkingarbrjósti Sigmundarista. Dögun er líka full af slíku hatri, svo sem Guðjóni Arnar, Sturlu Jónssyni alþýðuhetju og Sigurjóni Þórðarsyni. Flokkur fólksins er skipaður kunnum hatara á borð við Magnús Þór Hafsteinsson, sem reyndi að hindra komu flóttamanna til Akraness. Þurfa þessir ekki að sameinast í einum flokki?

Óbærilega óbreytt

Punktar

Svo heimskir geta íslenzkir kjósendur varla verið, að 26% velji Sjálfstæðis og 12% til viðbótar velji Viðreisn. Sjálfstæðisflokkurinn er bófaflokkur hinna allra ríkustu og stefnir óhikað að einkavinavæðingu velferðar. Síðustu daga fjármálaráðherra notar hann til að einkavinavæða fasteignir ríkisins. Viðreisn er nánast eingöngu skipuð fyrrverandi sjálfstæðismönnum, hugsanlega ekki eins hvinnskum. Þetta gera samtals 38%. Það, sem á vantar, getur Sjálfstæðis fengið hjá 12% Framsókn, þótt hún verði ekki eins öfgahægrisinnuð hjá Sigurðir Inga og hún var hjá Sigmundi Davíð. Kannanir spá óbærilega óbreyttri ógnarstjórn.