Punktar

Flúið úr einni lygi í aðra

Punktar

Steingrímur J. Sigfússon er á villigötum. Fyrir tveimur mánuðum sagði hann Svavar Gestsson hafa staðið sig frábærlega í samningum við Breta. Íslendingar slyppu líklega við að borga IceSave. Löngu síðar kom í ljós, að bjartsýnin byggðist á skoðun brezks endurskoðanda, sem hafði sýnt Alþjóða gjaldeyrissjóðnum skjal. Samninganefndirnar sáu aldrei þetta skjal. Svo var samningurinn undirritaður og reynt að ljúga til um innihaldið. Það lak samt út og sýndi alls kyns furðuhluti. Steingrímur sagði þetta bara vera fasta liði, sem ekki yrði beitt. Prófessorar hafa vefengt þá kenningu Steingríms.

Lífeyrisskattur hefur áhrif

Punktar

Skattlagning iðgjalda lífeyrissjóða í stað útgreidds lífeyris mundi rýra hag lífeyrisþega. Núna er skattlagningu frestað um ár og áratugi. Á meðan vinna allir peningarnir fyrir vöxtum, sem efla lífeyrinn. Eignarhluti ríkisins vinnur líka fyrir lífeyrisþegann. Þetta virkar beint í séreignasjóðum og óbeint í sameignarsjóðum. Ef skatturinn er færður fremst á ferlið, vinna skattpeningarnir ekki fyrir lífeyrisþegann. Endalaust má deila um, hvor aðferðin sé sanngjarnari. En hinu má ekki að leyna, að útkoman hefur rosaleg áhrif á hagsmuni lífeyrisþega. Stórgróði ríkisins er stórtap lífeyrisþega.

Ruðningsáhrif IceSave

Punktar

IceSave samningurinn hefur ruðningsáhrif. Hann þyngir byrði ríkisins af skuldum og ábyrgðum. Þannig lækkar hann lánshæfismat ríkisins og neyðir það til að greiða hærri vexti en ella. Þetta hefur áhrif á stöðu skuldsettra fyrirtækja hins opinbera, svo sem Landsvirkjunar og Orkuveitunnar. Skuldir þeirra kunna hreinlega að verða gjaldfelldar. Að minnsta kosti hækka vextir af lánum, sem þessi fyrirtæki verða að taka vegna framkvæmda fyrir stóriðju. Þau var áður illa arðbær, jafnvel niðurgreidd, og verða enn síður arðbær í kjölfar þessa. Við þurfum að fara afar varlega í öllu, sem eykur skuldir.

Græðgiskarlar látnir borga skatta

Punktar

Fjöldi loftbólukarla verður látinn greiða 35% launatekjuskatt í stað 10% fjármagnstekjuskatts. Geta ekki lengur svindlað með hlutabréfakaupum á sérkjörum. Ríkisskattstjóri endurleggur skatta á höfðingjana. Við það fær ríkið milljarða. Launatekjuskattur er 35%, en fjármagnstekjuskattur var 10%, verður 15%. Þrátt fyrir hækkun fjármagnstekjuskatts er hann enn innan við helmingur af launatekjuskatti. Er arfleifð græðgistímans. Fólk er talið eiga skilið að borga helmingi meiri skatt en græðgiskarlar. Ég hef alltaf borgað margfalt meira skatta en Björgólfur Thor Björgólfsson með sitt vinnukonuútsvar.

Viðurlög eru kaffi og kleinur

Punktar

Ef Lalli Jóns stelur kartoni af sígarettum, er hann dreginn fyrir dómara og umsvifalaust dæmdur í fangelsi. Ef kvótagreifar stela gjaldeyri, eru þeir góðfúslega beðnir um að koma í Seðlabankann að fá sér kaffi. Þeir eru ekki einu sinni nafngreindir. Lögin ná til Lalla Jóns, en ekki til kvótagreifa. Þeir hafa ekki skilað gjaldeyri lögum samkvæmt, heldur fela hann á erlendum reikningum. Þetta rýrir gengi krónunnar og skaðar þjóðina. Ekki skortir viðurlög við slíkum þjófnaði, aldrei þessu vant, en þeim er bara ekki beitt gegn kvótagreifum. Menn hita bara kaffi í Seðlabankanum og kaupa kleinur.

Heyrir hvorki né sér gallana

Punktar

Steingrímur J. Sigfússon segir engan hafa getað sýnt fram á, að IceSave samningurinn sé hættulegur. Heyrir og sér ekki það, sem ég sé. Í fréttum og bloggi tæta valinkunnir lögmenn samninginn sundur og saman. Þegar ég segi “valinkunnir”, á ég ekki við stjörnulögmenn útrásarinnar. Ég á við venjulega lögmenn, sem velta málum fyrir sér. Rétt lýsing á umræðu samfélagsins um IceSave mundi segja, að gildum efasemdum hafi verið sáð um samninginn. En Steingrímur heyrir hvorki né sér neitt óþægilegt. Hann er firrtasti maður landsins um þessar mundir, lokaður inni í fílabeinsturni valdafíknarinnar.

Prívat stjórnarskrá Íra

Punktar

Írar höfnuðu í fyrra stjórnarskrá Evrópusambandsins, Lissabon-textanum, sem aðrir höfðu samþykkt. Hún tók því ekki gildi. Nú er reynt að juða Írum til samþykkis. Sambandið vill hnika stjórnarskránni til fyrir Írland án þess að þurfa að taka breytinguna fyrir í öðrum ríkjum. Írsk útgáfa gerir ráð fyrir hlutleysi Íra og andúð á fóstureyðingum. Stjórnarskrá Evrópu verður þannig í sérútgáfu fyrir eitt ríki. Sambandið er ofsa sveigjanlegt. Það vill líka fá Serbíu inn, þótt ríkið hafi ekki handtekið Ratko Mladic. Hann sést opinskátt á myndskeiðum, sem Evrópusambandið neitar að skoða til að spilla ekki aðild.

Niðurlagður ríkislögreglustjóri

Punktar

Frábært er, ef ríkisstjórnin lætur verða af hugmyndum sínum um að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra. Sjálfur er hann mesti vandræðagripur, hefur þindarlaust þanið út embættið. Nú er kominn tími til að skera niður stórveldisdraumana. Einkum sérsveitir og leyniþjónustu hans. Mikilvægt er einnig að leggja landhelgisgæzluna undir varnarmálastofnun og losna þar með við stjórnunarvanda gæzlunnar. Sparnaður í ríkisrekstri er stundum ekki bara grátur og gnístran tanna. Stundum er hann þjóðinni til velfarnaðar. Svo getur orðið að þessu sinni, einkum með afnámi embættis ríkislögreglustjóra.

Öfugi endinn

Punktar

Auðvitað þarf að skera niður hjá öldruðum og öryrkjum eins og öðrum. En að byrja á þeim hlýtur að teljast öfugur endir. Fyrst á að hefja markvissar og sýnilegar aðgerðir gegn hagsmunum Björgólfs Thor Björgólfssonar og Björgólfs Guðmundssonar, eigendum IceSave, svo og útrásarvíkinga, sem hafa komið fé undan til skattaparadísa. Stjórnin hefur ekki sýnt einbeittan áhuga á að koma lögum og réttlæti yfir þá, sem ollu tjóninu. Áhugaleysið sker í augu og eyru, þegar við sjáum og heyrum aðgerðir hennar gegn fátæklingum. Linnulaust blaður um samstöðu þjóðarinnar er til lítils meðan skúrkarnir njóta verndar.

Innihaldslaust ráðherrablaður

Punktar

Þjóðarforeldrarnir Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Sigfússon vilja, að innihaldslausum fullyrðingum sínum sé trúað. Þótt gögn sýni annað. Þótt IceSave samningurinn sýni annað. Frægust er fullyrðingin um, að 75%-95% skulda IceSave muni endurheimtast. Hún hefur aldrei verið rökstudd, ekki einu sinni fyrir samninganefndunum. Þau segja líka, að þjóðin fái að ráða ferðinni um aðild að Evrópusambandinu. Þótt kosningin verði bara ráðgefandi. Jóhanna segist “viss um”, að farið verði eftir niðurstöðunni. Jóhanna og Steingrímur hafa ekki traust til að geta rakalaust fullyrt út í loftið.

Endurskoðun heima og heiman

Punktar

Endurskoðunarstofan KPMG sá um pappíra Stein Bagger hins danska. Skrifaði upp á bókhald hans. Hann stal sextán milljörðum króna með bókhaldsbrögðum. Er nú í fangelsi, enda er réttlæti margfalt hraðvirkara í Danmörku en hér. Endurskoðun Anderson var einu sinni stærst í heimi. Hún sá um Enron, mesta bókhaldssvindl sögunnar, og dó með Enron. Nú hefur Aðalsteinn Hákonarson, eftirlitsstjóri ríkisskattstjóra, lýst áhyggjum af íslenzkum endurskoðendum. Telur marga ekki standa á bremsunni. Setji kíkinn fyrir blinda augað við skoðun bókhalds. Endurskoðendur eru því hættulegir hér sem annars staðar.

Það sem hentar á degi hverjum

Punktar

Fyrst sagði ríkisstjórnin texta IceSave samningsins vera leyndó, af því að Bretland og Holland heimtuðu það. Því andmæltu samningamenn Bretlands og Hollands. Leyndó-stefnan var íslenzk, ekki útlend. Síðan sagði ríkisstjórnin ekkert athugavert vera við samninginn. Lesið yrði úr honum fyrir þingmenn, svo að þeir gætu greitt atkvæði. Þingmenn og þjóðín sögðu þetta vera rugl, leyndó-samningur yrði aldrei samþykktur á Alþingi. Nú segir ríkisstjórnin aldrei hafa staðið til að hafa leyndó á þessum samningi. Ríkisstjórnin segir bara það, sem hentar á degi hverjum. Hún hrekst úr einu víginu í annað.

Ríkisstjórn og kerfisþursar

Punktar

Sverrir Stormsker skrifaði fína grein í Moggann í gær. Sýndi fram á, að ríkisstjórn og kerfisþursar hugðust misnota nafn Evu Joly. Ráða hana, en ekki taka mark á henni. Starfsemi hennar var haldið í fjársvelti. Hún fékk ekki skrifstofu og aðstoðarmaður hennar fékk ekki kaup. Hlupu svo upp til handa og fóta, þegar hún kvartaði eftir þriggja mánaða tafir, vegartálma og hindranir. Kerfið skelfist bara dagsljósið og Kastljósið og Egil Helgason. Af hálfu stjórnar og kerfisþursa átti Eva Joly bara að vera til sýnis. Nú er rógsvélin komin í gang, Ólína Þorvarðar, Sigurður Guðjóns og Jón Kaldal.

Hóflegar skattahækkanir

Punktar

Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru hóflegar og sanngjarnar. Beztur er 15% fjármagnstekjuskatturinn, sem var alltof lágur, 10%, lægri en annars staðar. Raunar hefði mátt hækka hann enn frekar. Næstbezt er tryggingagjaldið, því að það fer í atvinnuleysisbætur og vangreiðslur launa. Hálaunaskatturinn er fyrst og fremst táknrænn, réttmætur sem slíkur, en gefur lítið af sér. Hann miðast við 700.000 krónur, sem er skynsamari viðmiðum en lægri tölur, er áður voru nefndar. Ástandið í samfélaginu krefst skattahækkana. Þær ná þó tæpast því marki að vernda beinagrindina af velferðarkerfinu. Eru of litlar.

Silfurskeið og hagsmunir

Punktar

Árni Johnsen og Bjarni Benediktsson eru þingmenn, sem hafa sitthvað að fela. Þeir hafa hvorki gert grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum né útskýrt hvers vegna. Frestur Alþingis vegna skráningar hagsmuna er runninn út. Árni og Bjarni fóru ekki eftir reglunum. Pukur Árna kemur ekki á óvart, en Bjarni er formaður Sjálfstæðisflokksins. Einkum er hann þó gæzlumaður og arftaki hagsmuna Engeyjarættarinnr. Skrítið er fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa formann í þessari stöðu. Fæddan með silfurskeið í munni og ófæran um að gera þjóðinni grein fyrir hagsmunum sínum. Hann er ekki trúverðugur pólitíkus.