Punktar

Sókn inn á miðjuna

Punktar

Framsókn víkur frá öfgahægri stefnu Sigmundar Davíðs. Stefnir í átt til miðju stjórnmálanna, sem flokkurinn gumaði af hér áður fyrr. Í stað ofsa Sigmundar er komin sáttatónn Sigurðar Inga. Eftir kosningarnar lítur flokkurinn á víxl til vinstri og hægri og kannar möguleika á að losna úr sóttkví öfganna. Ætti að vera létt verk, því komnir eru tveir flokkar, sem dekka hægri kantinn. Og miðjan er í upplausn, þar sem Björt framtíð fylgir Viðreisn til hægri og Samfylkingin hefur glatað sjálfri sér. Framsókn gæti einnig nagað úr dreifbýlisfylgi Vinstri grænna. Það eru þekktar slóðir, þar sem Framsókn undi sér vel hér áður fyrr.

Eftirlit í molum

Punktar

Fjölmargar athugasemdir hafa verið gerðir á búum Brúneggja frá árinu 2007. Það var ekki fyrr en eftir þvingunaraðgerðir Matvælastofnunar að fyrirtækið fór að lögum um dýravelferð. Matvælastofnun var seinþreytt til aðgerða og Brúnegg tók ekki mark á þeim. Bæði framleiðandi og eftirlit brugðust. Lengi hefur legið það orð á eftirlitinu, að það þjónaði framleiðendum fremur en neytendum. Og eigandinn er siðblindur. Annað mál annars eðlis kom upp í Crossfit. Tveir keppendur neituðu lyfjaeftirliti og hótuðu eftirlitsfólki ofbeldi. Fengu samt verðlaun, sem síðan voru afturkölluð. Auðvelt er að sjá, að þessir keppendur eru siðblindir. En svona verður Ísland. Með eftirlit í molum. Sérhver gengur fram í siðlausri hrokablindu.

Allt í plati stefna

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er sérstæður. Breyttist fyrir og eftir aldamótin úr íhaldi yfir í Thatcherisma og loks í varðstöðu þröngra sérhagsmuna, einkum kvótagreifa. Leiddi til stofnunar Viðreisnar, sem rekur varðstöðu víðari sérhagsmuna eigenda og rekenda atvinnulífsins. Flokkarnir hafa stefnuskrár á skjön við veruleikann, eins konar sósíaldemókratíu eða Blair-kratisma. Ekkert mark er tekið á stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem í raun rak og rekur andstöðu við velferð kratismans. Viðreisn slapp betur gegnum kosningarnar. Margir kratar trúðu á Blair-kratisma stefnunnar og væla nú, er Viðreisn reynir að komast í fang Sjálfstæðisflokksins.

Grái listi Benedikts

Punktar

Eftir kosningarnar birti Jæja-hópurinn myndskeið um tíu grá atriði úr lífshlaupi Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar. Jæja hafði áður skipulagt nokkra útifundi á Austurvelli til að mótmæla verkum stjórnvalda. Benedikt tók gráa listanum ekki blíðlega og andmælti tveimur eða þremur atriðum hans. Ekki hefur þó verið gerð tilraun til að vefengja hin atriðin. Jæja-fólkið hefur síðan hafnað andmælum Benedikts og félaga hans. Þetta er fróðlegur listi, sem kemur illa út fyrir Benedikt og Viðreisn. Athyglisvert er þó, að Jæja birti ekki listann fyrr en að kosningum loknum. Birtingin hafði því ekki áhrif á kosningahegðun kjósenda.

Útvíkkun inn á við

Punktar

Margt fróðlegt kemur í ljós eftir kosningar, sem áður var talið vera villutrú. Til dæmis er komið í ljós, að tveir flokkar eru í hjarta sínu andvígir uppboðum á veiðileyfum. Sérhagsmunir vaða yfir almannahagsmuni, þegar til kastanna kemur. Hvað sem stendur í stefnuskrám Viðreisnar og Vinstri grænna, þá er ljóst, að markaðslausnir í sjávarútvegi henta þessum flokkum fremur illa. Á því rann myndun nýrrar ríkisstjórnar út í sandinn. Þetta var öðrum fremur mál þessara kosninga. Viðreisn þóttist vera markaðssinnaður miðjuflokkur, en er bara gamla íhaldið, risið úr baðinu. Við fáum því gömlu ríkisstjórnina aftur. Útvíkkaða inn á við.

Dómarar sakna trausts

Punktar

Traust kemur ekki af himnum ofan né kemur það út stólnum, sem þú situr í. Traust verður þú að vinna inn frá degi til dags. Skorti þig traust, verður þú fyrst að skoða sjálfan þig. Tali stjórnmálamenn án virðingar um dómara, þurfa dómarar að skoða sinn garð. Er arfinn þar mest áberandi? Erlendir fjölþjóðadómstólar hafa ítrekað rekið íslenzka dóma til baka, sagt þá andstæða mannréttindum og raunar andstæða mannasiðum. Svo sem dóma um meiðyrði. „Fórnardýr“ meintra meiðyrða hafa sjálfdæmi um stærð móðgunar. Hér hefur myndast skrítin hefð, þar sem lagatæknar leggja mest upp úr skrítnum orðskýringum en almennri siðvitund vestrænna hefða.

Svarti Pétur Benedikts

Punktar

Daginn eftir fund sinn með helztu kvótagreifum landsins, sleit Benedikt viðræðum stjórnarandstöðunnar um myndun ríkisstjórnar. Kenndi um tillögu flokkanna um tuga milljarða fjármögnun heilbrigðismála. Sem var raunar kosningaloforð Benedikts og Viðreisnar. Fór Benedikt sjálfur með Svarta Pétur út af lokafundi fimmflokksins. Hann sagði sig „skorta sannfæringu“ fyrir þessari stjórnarmyndun. Kvótagreifarnir höfðu þá sannfært hann um, að markaðslögmál hentuðu ekki í sjávarútvegi. Ekkert var þá farið að ræða búvörusamninginn. Benedikt vildi ekki, að uppboð á afla fjármögnuðu heilbrigðismál, þótt hann hefði sjálfur lofað uppboðum fyrir kosningar.

Óbeint forsetavald

Punktar

Með því að veita fyrst Sjálfstæðisflokknum og síðan Vinstri grænum umboð til að mynda ríkisstjórn er forsetinn að taka stærð þingflokka fram yfir önnur viðmið. Hefði Guðni Th. Jóhannesson notað sama viðmið og Ólafur Ragnar Grímsson notaði síðast, mundi hann hafa valið fyrst Pírata og síðan Viðreisn. Þeir fjölguðu mest sínum þingmönnum. Guðni valdi það gamla umfram það nýja, því hann er íhaldsmaður. Staðfesti það, þegar hann fór ekki í þriðja val, gaf ekki pírötum boltann. Með því gaf hann þeirri villu byr undir báða vængi, að píratar væru ekki stjórntækir. Væntanlega af því að þeir séu ekki þekkt stærð. Þannig hefur forseti óbeint vald.

Losaraleg kosningahegðun

Punktar

Kosningarnar á Íslandi og í Bandaríkjunum sýna breytta hegðun kjósenda. Áður voru menn ákveðnir með löngum fyrirvara. Nú ákveða nærri 30% Íslendinga sig ekki fyrr en á kjördegi, þar af 17% ekki fyrr en í kjörklefa. Rýrir gildi skoðanakannana og gerir kosningasprengjur vænlegri en áður. Vefmiðlar og staðreyndatékk er ekki enn orðin svo öflug, að þau hamli að ráði gegn kosningabombum. Þrátt fyrir endalausar upplýsingar byggja margir kjósendur atkvæði sitt á ákaflega sérhæfðum forsendum, sem standast engin rök. Það er eins og kjósendur hafi minni meðvitund en nokkru sinni fyrr. Þeir vita, að flest er lygi, en haga sér eins og svo sé engan veginn.

Hægri öfgar í Viðreisn

Punktar

Stjórnartilraun Katrínar leiddi í ljós, að Viðreisn er ekki öll þar sem hún er séð. Katrín hefði fyrr átt að taka eftir, að Viðreisn tók í þykjustunni þátt í viðræðunum. Benedikt sagði svo pass, þegar aðilar áttu að leggja fram hugmyndir sínar. Hann taldi þó óhæfu að leggja fram tillögur um útgjöld í heilbrigðismálum og vegamálum, sem ráðherrar Sjálfstæðis lögðu fram viku fyrir kosningar. Þetta viðhorf staðfestir stöðu Viðreisnar til hægri við Sjálfstæðis. Ekki frjálslyndur miðjuflokkur, heldur róttækur hægri flokkur. Sama gildir um fylgitungl Benedikts, Proppé. Og svo er farið að dreifa lista yfir tíu pilsfalda-fjárglæfra Benedikts sjálfs.

Tíu atriði Benedikts

Þriggja orða fundir

Punktar

Viðreisn ætlaði sér aldrei neitt með aðild að tilraun Katrínar Jakobsdóttur til stjórnarmyndunar. Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé sögðu bara þrjú orð á fundunum, góðan daginn og bless. Lögðu aldrei fram nein gögn. Skrítnast var, að aðrir fundarmenn sögðu fundina góða. Að málin þokuðust í átt til samkomulags. Viðreisn þokaðist samt ekki um eina tommu og þar við sat. Allt þetta var bara tímasóun. Viðreisn var, er og verður strangt til hægri. Smám saman verður fólk svo þreytt, að unnt verður að telja meirihluta Framsóknar tækan í endurnýjaða  hægri stjórn. Kjósendur eru dauðhræddir við breytingar og vilja lénsherra sína.

Benedikt sagði bara pass

Punktar

Tilraunir Katrínar Jakobsdóttur til myndunar ríkisstjórnar fóru út um þúfur. Viðreisn vildi ekki leggja fram neitt plagg. Benedikt Jóhannesson þagði mest á fundunum, enda var umræðan mest í plati af hans hálfu. Allir aðrir voru búnir að gefa mikið eftir. Búið var að stilla upp ýmsum dæmum í kvótamálinu. Einnig var sáttavilji í öðrum málum, sem rædd höfðu verið. Benedikt sagði bara pass, þegar á hólminn kom. Gaf engar málefnalegar skýringar. Fyrir löngu var vitað, að staða ríkissjóðs var slæm. Kannski var hann bara að fiska, hve langt væri hægt að fara með hina. En svona gerast kaupin á eyrinni. Kannski er Benedikt ekki stjórntækur.

Björgunarstjórn

Punktar

Ég næ því ekki, að Vinstri græn muni ná betri samningi við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn en við Pírata, Viðreisn og miðflokkana. Ég næ því heldur ekki, að Katrín geti á einhvern hátt myndað vinstri stjórn með hægri flokkum og miðflokkum. Held að flokkurinn sé þar á hættulegum villigötum, verandi eini vinstri flokkurinn með aðeins tíu þingmenn. Flokkur í slíkri stöðu verður að skilja takmörk sín, annars verður hann varadekk hjá hægri stjórn. Betra er að hafa forustu fyrir stjórn með Viðreisn, þótt það sé ekki nein vinstri stjórn. Ríkisstjórn Katrínar verður ekki vinstri stjórn, heldur stjórn til að bjarga okkur undan ógnarstjórn bófaflokka.

Fá ágreiningsefni

Punktar

Eitt erfiðasta verkefnið í stjórnarmyndun Katrínar er sambandið milli gjalda og tekna ríkisbúsins. Flestir átta sig á, að heilbrigðismál hafa setið á hakanum hin síðustu ár. Þar hafi safnast upp vandi, sem brýnt sé að lina sem fyrst. Bent er á aukna auðlindarentu með markaðsverði á kvóta og öllum fiski á markað. Þar hafa vinstri græn verið íhaldssömust. Einnig þarf auðlindarentu á stóriðju, sem notar ímyndaða vexti til að sneiða hjá tekjuskatti. Auðlindarentu þarf í ferðaþjónustu, til dæmis með fullum vaski á mat og þjónustu eða með gistináttagjaldi. Svo er enn óleystur vandi láglaunafólks, öryrkja, sjúkra og aldraðra, er lifa varla á sulti.

Ógnarsögur Agnesar

Punktar

Agnes Bragadóttir skáldar hryllingssögur af stjórnarmyndun Katrínar Jakobsdóttur, sem fer í taugar Davíðs. Agnes og Davíð telja, að fundarmönnum líði frekar illa vegna aðkomu pírata. Sé ekki bætandi á ágreining Vinstri grænna og Viðreisnar út af hækkun eða lækkun skatta. Enginn annar hefur tekið eftir þessum hryllingi á fundunum. Enda eru heimildarmenn engir aðrir er þingmenn bófaflokkanna tveggja, sem telja sig eiga ríkisvaldið. Í rauninni eru fundarmenn meira sammála en sundurorða. Raunar meira sammála er búist var við. Því telur Mogginn, málgagn kvótagreifa, vænlegt í stöðunni að láta semja hryllingssögur um gang viðræðna.