Punktar

Óvinurinn er heima

Punktar

Fólk um víða veröld hefur áhyggjur af, að öryggi Kalda stríðsins sé lokið og að ógnartímar séu framundan. Slunginn skákmaður sé kominn til valda í Rússlandi og geðsjúklingur kominn í Hvíta húsið. Öfgaflokkar séu komnir í stjórn í mörgum ríkjum og jafnvel tekið völdin í Tyrklandi og Ungverjalandi. Norður-Kórea sé með langdræg kjarnorkuvopn. Alls staðar er fólki sagt, að útlandið sé hættulegt og ógni öryggi. Það er nefnilega í þágu þeirra fáu, sem eiga nánast allt, að fólk haldi, að óvinurinn sé í útlandinu. Ekki þurfi að endurræsa samfélagið, heldur auka stöðugleika og samstöðu stéttanna. Ferlið mun leiða til klofnings samfélaga.

Einmana píratar

Punktar

Píratar kvarta stundum yfir að hafa lakari aðgang að fjölmiðlum en hefðbundnir stjórnmálaflokkar. Þurfa raunar sjálfir að skoða betur sinn gang. Stundum virðist svo sem lítil almannatengsl séu þar í gangi eða að fólk haldi þau gerast af sjálfu sér. Svo er ekki. Hafi flokkar eða aðrir hópar eitthvað að segja, þurfa þeir að vekja athygli fjölmiðla og vefmiðla á málefni sínu. Fjölmiðlar og ekki síður vefmiðlar eru opnir fyrir pírötum eins og öðrum. Fjölmiðlun á vegum pírata er í skötulíki. Fuglabjargið er nánast ónotað og Pírataspjallið hefur dofnað. Nú eru þingmenn pírata orðnir tíu og þeir eiga að vera sýnilega eitthvað að gera.

Víða trumpast fólk

Punktar

Þegar við dissum Trump fyrir að fangelsa flugfarþega, skulum við muna, að hann er að stæla Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmála. Sá fangelsaði ólöglega hóp af friðarsinnum, svonefnda Falun Gong og rak úr landi. Enn er Trump ekki verri en Björn, hvað sem síðar verður. Þegar við dissum Útvarp Sögu og Pétur Gunnlaugsson fyrir óvirðulegt hjal í útvarpi, skulum við muna, að leyft er að hafa róttækar eða óvinsælar skoðanir hér á landi. Samt veit ríkissaksóknari það ekki og höfðaði mál gegn Pétri fyrir „hatursorðræðu“ [sic]. Skemmst er frá því að segja, að dómarinn vissi betur og kastaði vitleysunni úr rétttrúnaðar-liðinu út í tunnu.

Hvað „lækar“ þú

Punktar

Kosningafyrirtæki eru farin að nota fésbókina og aðra vefmiðlun til að kortleggja persónuleika fólks. Mikið er byggt á „lækum“ og viðbrögðum við auglýsingum, en einnig á textameðferð fólks. Þannig er til dæmis hægt að finna þá, sem hafa áhuga á bandarískum bílum og senda þeim, og bara þeim, loforð Trump um skatta á útlenda bíla. Líka er hægt að finna þá, sem eru frekar heimskir og finnst Bjarni Ben hafa flotta hárgreiðslu. Þetta er talið hafa haft töluverð áhrif á framvindu baráttu forsetaefnanna í Bandaríkjunum. Allir Bandaríkjamenn voru flokkaðir í fáa tugi persónuleika og hver fékk sérhannað erindi. Kjósendur þurfa að fara að passa sig.

Víða leitað vina

Punktar

Theresa May á bágt í Bretlandi. Hún er fyrir hönd Íhaldsflokksins að reyna að framkvæma Brexit, brottför ríkisins úr Evrópusambandinu. Smám saman er að koma í ljós, að gallarnir eru fleiri en kostirnir. London og Skotland höfnuðu Brexit og eru fjarska ósátt. London mun missa miðstöð bankaviðskipta yfir til Frankfurt. Evrópa er stærri biti en brezka samveldið og virðist lítið ætla að gefa eftir. May leitar í örvæntingu að vináttu úr öðrum áttum. Fyrst fór hún vestur um haf, þar sem geðsjúklingur er kominn til valda. Síðan fór hún til Tyrklands, þar sem Erdogan hamast. Hver verður næstur, Bjarni Ben eða Kim Jong Un í Norður-Kóreu?

Lítil orð um Bjarna

Punktar

Stundum segja menn of stór orð notuð á fésbók. Því miður er íslenzkur veruleiki svo ljótur, að erfitt er að ýkja. Til dæmis er Bjarni Benediktsson bæði lyginn og ómerkilegur formaður bófaflokks og er þá hvergi ofsagt. Fyrst faldi hann skýrslu um skattaskjólin fram yfir kosningar og stjórnarmyndun. Fiktaði þar að auki við hana og varð tvísaga. Þegar sá hvellur var búinn, kom líka í ljós, að hann hafði á sama hátt og jafnlengi falið skýrslu um leiðréttingu húsnæðislána. Hún sýndi, að almenningur borgaði leiðréttingu fyrir ríka. Þannig smeygði hann sér fyrst inn á þing og síðan í embætti forsætisráðherra. Bjarni Ben er því hreinn óþverri.

Friðsælt stríð

Punktar

Benedikt Jóhannesson fjármála segist hafa sagt skattaskjólum Íslendinga stríð á hendur. Þau urðu fræg í vor, þegar þáverandi forsætis og núverandi forsætis voru vísir að földu fé í skattaskjólum. Enda er stríð Benedikts ekki bara kalt, heldur beinlínis friðsælt. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er ekki minnst einu orði á skattaskjólin, fjármagnsflutninga til aflandseyja eða skattaundanskot. Enn sem komið er birtist stríð Benedikts við skattaskjólin eingöngu í digurbarkalegum mannalátum. Að mestu er málaskráin þýðing á tilskipunum frá Evrópusambandinu. Þið munið þetta ógnarsamband, sem sagt er troða eitruðum mat í íslenzka kjósendur.

Einn mesti glæfrakarlinn

Punktar

Afskriftir fyrirtækja, sem Bjarni Benediktsson stýrði fram í hrun, eru komnar upp í 82 milljarða króna. Mest urðu þessar skuldir til á stjórnartíma Bjarna. Þetta eru einkum fyrirtæki í BNT og N1 samstæðunni. Þá er ennþá eftir að afskrifa 50 milljarða skuld í því, sem áður hét Vafningur. Ekki meðtaldar afskriftir upp á 48 milljarða í Földungi, sem Glitnir yfirtók. Bjarni er einn helzti fjárglæframaður landsins. Því var vel við hæfi, að hann tæki yfir ríkissjóð fyrir tæplega fjórum árum. Og nú er hann orðinn eini forsætisráðherra heimsins, sem hefur fólgið fé  sitt í skattaskjóli á aflandseyju. Íslenzkir kjósendur eru engum öðrum líkir.

Hvíta húsið á hvolfi

Punktar

Þegar Trump jós kosningaloforðum yfir mannskapinn, sögðu menn: „Þetta eru bara loforð.“ Svo varð hann forseti og byrjaði samdægurs að tísta fyrirskipanir á Twitter. Fólk er farið að róa fram í gráðið og segja: „Þetta verður stoppað.“ En Trump heldur áfram að taka starfsfólk Hvíta hússins á taugum. „Þú ert rekinn“ segir hann. Starfsmannastjórinn fékk taugaáfall og kallað var í varaforsetann, sem hélt bænastund. Mexikó-forseti segir: „Éttu hann sjálfur“. Enginn tekur mark á Trump, nema Theresa May, sem er með Bretland í öngviti út af Brexit. Hún leitar sálufélaga, hvar sem er. Senn hringir hún líka í Bjarna Ben, prinsinn af Panama.

Allir banksterar eins

Punktar

Frægð Lilju Bjarkar Einarsdóttur var mest, er hún markaðssetti illræmda IceSave reikninga Landsbankans í Bretlandi 2006-2008. Nú orðin bankastjóri Landsbankans, leysir Steinþór Pálsson af hólmi. Hann var líka frægur að endemum. Þetta eru sýnishorn af mistökum stjórnvalda eftir hrun. Ráðherrum vinstri og hægri stjórna hefur mistekizt að endurreisa bankana. Þeir eru undir stjórn nákvæmlega eins fjárglæfrasnillinga og fyrir hrun þeirra. Þeir hafa ekki orðið bankar fyrir fólk. Hafa aldrei áður níðst eins mikið á almenningi og þeir hafa gert síðustu árin. Meðan þeir hjálpa glæframönnum Mammons að skipta um kennitölur eins og sokka.

Óttarr er hataður

Punktar

Óttarr Proppé segir nú, að kosningastefnuskrá Bjartrar framtíðar hafi ekki verið kosningaloforð, heldur kosningaáherzlur. Dæmigerður útúrsnúningur. Einnig segir hann óvíst, að flokkurinn styðji þessi mál, þegar þau koma fram. Loks nuddar hann salti í sárin: „Fátt gleður mig meira en að velta fyrir mér siðferðilegum og heimspekilegum spurningum.“ Vissulega varaði ég við því, að loforð skiptu Óttarr engu. Björt framtíð væri ekki flokkur málefna, heldur flokkur um ráðherrastóla. Meirihluti kjósenda flokksins trúði samt kosningaloforðunum og fer ófögrum orðum um jókerinn, mest hataða pólitíkus mánaðarins. Björt framtíð er vissulega svört.

Trump ólmast bara

Punktar

Trump mun halda áfram að abbast upp á Mexíkó út af múrnum fræga. Vilji hann múr, borgar hann múr, en sendir ekki reikninginn annað. Trump mun skera Obamacare á spítölum og fá rauðhálsana til að klóra sér í skallanum. Trump mun nefnilega, nákvæmlega eins og Bjarni Ben, eingöngu hugsa um hag hinna allra ríkustu. Enda hefur Trump eingöngu valið slíka í ríkisstjórn sína. Hagsmunir smælingjanna, sem kusu hann út á rembing hans, verða að víkja. „The white trailer trash“ mun verða fyrir gífurlegum vonbrigðum. Allt þetta mun smám saman grafa undan Trump. Einnig grafa undan flokknum, sem tók hann í sátt, Repúblikönum. Þar er framtíðin svört.

Píratar þagna

Punktar

Rödd pírata hefur dofnað, þótt þingmönnum þeirra hafi fjölgað. Þeir hafa að mestu yfirgefið Pírataspjallið á vefnum. Áður var þar mikið fjör og þar vildu jafnvel andstæðingar pírata tala. Nú er sama innleggið eftir Jón Þór Ólafsson búið að hanga á toppnum í þrjár vikur samfleytt. Auðvitað á þar að vera nýtt efni nokkrum sinnum á dag. En það er eins og allur vindur hafi fokið burt í kosningunum, sem ollu mörgum vonbrigðum. Eftir miklar væntingar í baráttunni náðu gömlu flokkarnir og afkvæmi þeirra vopnum sínum. Fimmtán prósent er samt góð tala. Nógu góð til að halda dampi áfram. Róm var ekki sigruð á einum degi. Þolinmæði þarf og úthald.

Brexit og Trump mistök

Punktar

Bandaríska Nieman stofnunin hefur gefið út skýrslu um vaxandi erfiðleika Breta í kjölfar úrsagnar úr Evrópusambandinu. Alls konar della var á oddinum hjá óvinum aðildar, einkum stjórnmálamönnum, sem réðu ferðinni. Til dæmis trúði fólk, að brottfall á greiðslum til sambandsins gæti staðið undir heilbrigðiskerfi Breta. Í skýrslunni er sagt, að stofnanir, sem vaka yfir „fake news“ (hjáreynd) og vara við þeim, geti hindrað mistök á borð við sigur Brexit í Bretlandi og Trump í Bandaríkjunum. Nieman vill efla slíkar staðreyndavaktir og þrýsta á fjölmiðla til að segja frá rannsóknum þeirra í stað þess að leyfa firrtum pólitíkusum að láta gamminn geisa átölulaust.

NIEMAN

Demókratar eiga Kaliforníu

Punktar

Demókratar unnu öll alríkisþingsæti Kaliforníu í kosningunum. Hafa afgerandi 67% meirihluta þings Kaliforníu til stjórnarskrárbreytinga í ríkasta ríki USA. Þetta er partur af upphafi á viðnámi gegn sápukúlu Brexit, Trump, le Pen, Bjarna Ben og allra heimsins bankstera. Við tekur samfélag unga fólksins. Þeirra, sem munu fara inn í veröld róbota og stjórna þeim. Fólk með nýja hugsun og nýja heilbrigði eins og píratar á Íslandi. Fólks sem skilur hugtök eins og borgaralaun og hjáreynd og lætur fjölmiðla valdsins ekki ljúga að sér. Ef Trump tekst ekki að sprengja upp jörðina, springur bóla hans eins og bóla kommúnisma sprakk og gufaði upp á viku.

SACRAMENTO BEE