Punktar

Steinn klofinnar þjóðar

Punktar

Halla mér oft að sérfræðingum, þegar mig brestur skilning eða skynjun. Til dæmis í sjónlistum. Þar eru listfræðingar, sem hafa skoðun, og listunnendur, sem kaupa. Samkvæmt mælikvarða þeirra er Santiago Sierra einn af fremstu listamönnum nútímans. Það nægir mér, þótt sumir telji klofna steininn við Alþingishúsið ljótan eða slappan. Mér finnst klofinn steinn vera tákn um klofna þjóð, þar sem annars vegar eru gerendur hrunsins og meðvirka liðið, sem enn er í afneitun. Hins vegar er restin af þjóðinni, sem enn hefur ekki jafnað sig eftir rothögg hrunsins. Steinninn þarf að vera við dyr Alþingis.

Doktorar í drullu

Punktar

Fyrir löngu er upplýst, að haldlausar með öllu eru ráðagerðir Orkustofnunar, Orkuveitunnar og Landsvirkjunar um virkjun jarðvarma. Þær munu þurrka upp heita vatnið á þremur áratugum, eru ekki sjálfbærar. Samt berja æðikollar höfðinu við steininn enn og aftur. Síðast fékk Arion útlenda hagsmunaaðila til að predika orkustreng til útlanda. Hvaða orku á að flytja í honum að 30 árum liðnum? Hvaða hveri á að skilja eftir til að sýna ferðamönnum? Hugsjón jarðýtunnar virðist stjórna endalausri röð doktora í drullu að hætti Gunnars J. Birgissonar. Ætlar þessi arma þjóð aldrei að læra að fara að með gát?

Gróði hvarf í braski

Punktar

Skuldir sjávarútvegs stafa að litlu leyti af viðbótum og endurnýjun innan greinarinnar. Helmingurinn af 400 milljarða skuldaaukningu sjávarútvegs á blöðruárunum 1997-2008 stafar af ótengdri starfsemi og af fjárglæfrum erlendis. Mest af restinni stafar af kaupum á auknum kvóta á uppsprengdu verði. Þetta kemur fram í skýrslu Háskólans á Akureyri. Kvótagreifar notuðu ekki gróðann til að efla sjávarútveginn, heldur til að fá lán til að braska með. Kvótagreifar eru ekki sjávarútvegur, heldur sníkjudýr á sjávarútvegi. Grisja þarf eignarhaldið með uppboðum á veiðiheimildum.

Réttur staður listaverks

Punktar

Reykjavík getur ekki hafnað höfðinglegri gjöf eins mesta listamanns okkar tíma. Enn síður getur borgin falið verkið annars staðar en þar, sem atburðir málsins gerðust. Búsáhaldabyltingin var gerningur með alþjóðlega vídd. Því er listaverk Santiago Sierra nákvæmlega þar, sem það á að vera. Dæmigert fyrir eymd og fýlu og andlega fátækt forsætisnefndar alþingis er að amast við þessu verki á þessum stað. Þjóðin þarf einmitt að hafa þarna áminningu um, hvernig fór fyrir henni, þegar hún valdi sér aumingja að pólitíkusum. Minning búsáhaldabyltingarinnar mun lengur blífa en forsætisnefndarinnar.

Þið berið ábyrgðina

Punktar

Þið náið aldrei árangri með því að velja pólitíkusa eins og þið hafið hingað til gert. Þótt þið hristið hausinn yfir alþingismönnum, hafið sjálf valið þá. Þið náið ekki heldur árangri með því að velja forseta eins og þennan. Hann hefur langa ævi staðið fyrir illindum og klofningi. Og allra sízt munið þið leysa vanda þingræðis með því að flytja völdin yfir í forsetaræði. Þið þurfið fremur að taka sönsum. Hætta að trúa loforðum og stefnu, gaspri og útúrsnúningum. Þið gerðuð þó eitt rétt, völduð Stjórnlagaráð. Nú þurfið þið að fá lykilmenn ráðsins til að bjóða fram lista um okkar grundvallargildi.

Kalifornía og Grikkland

Punktar

Paul Krugman er ágætur pistlahöfundur, en afar amerískur. Rétt getur verið hjá honum, að Grikkir verði að kveðja evruna og taka upp eigin mynt. Þá geta þeir lækkað gengi nýrrar drökmu eins og Íslendingar lækka krónuna. Þannig verður öllum vanda kastað á klafa fólks þar eins og hér. Hins vegar dettur Krugman ekki í hug að halda fram, að Kalifornía eigi að segja skilið við dollarinn. Er þó ríkið gjaldþrota kruss og þvers út á þjóðaratkvæði. Þau hafa snúist um að lækka skatta og auka þjónustu í senn, ávísun á hrun. Sé evran vond fyrir Grikkland, er dollarinn vondur fyrir gjaldþrota Kaliforníu.

Hinn fullkomni glæpur

Punktar

Lífeyrissjóðirnir eru sérkennileg fyrirbæri langt utan veruleikans. Beztir við þá, sem verst fóru með þá, einkum í Bakkavör. Telja Bakkavararbræður hæfasta í rekstri, gott dæmi um Stokkhólms-heilkenni. Telja sér leyfilegt að sukka með fé sjóðsfélaga á einn hátt, en alls ekki á annan hátt. Það varði við stjórnarskrá að slá af skuldum sjóðfélaga. Skuldir bófa megi hins vegar afskrifa, enda til komnar á fylleríi og ferðalögum. Peningar lífeyrissjóða eru sagðir eign gamla fólksins, sem hefur þó alls engan rétt til afskipta af ráðstöfun þeirra. Þetta er líklega heimsins fullkomnasta aðferð ræningjans.

Veiðimenn á jarðýtum

Punktar

Jarðýtuhugsun stýrir meðferð okkar á auðlindum lands og sjávar. Við þekkjum flumbru Orkuveitunnar og Orkustofnunar. Vitum líka, að fiskur veiðist bara vegna langvinnrar skömmtunar. Ferðaþjónustan hagar sér eins og aðrir, tekur bara og gefur ekki til baka. Fyrirtæki hafa tugmilljóna tekjur á ári af að sýna hellinn Víðgemli. En verja ekki krónu á móti í að verja hann skemmdum. Fyrirtæki hafa tugmilljóna tekjur á ári af að nýta Silfru til köfunar. Hafa ekki varið þangað krónu. Ekki fyrr en núna, að frumkvæði Þingvallanefndar. Af hverju stjórnast Íslendingar af taumlausri græðgi veiðimanns á jarðýtu?

Ófriður um víðan völl

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson fann gamalkunna aðferð til að dylja forustu sína í skelfilegri útrás fjárglæframanna. Klæðist dulargervi og þyrlar upp ryki til að fela flóttann frá fortíðinni. Samt glittir enn vel í gamla pólitíkusinn. Óralangur stjórnmálaferill hans hefur frá upphafi verið markaður sundrungu. Byrjaði á að kljúfa Framsóknarflokkinn og síðan Alþýðubandalagið. Hvarvetna gengur hann fram með offorsi, sem hefur einkennt allan hans feril. Enginn hefur skipt eins oft um föruneyti og valdið eins miklu ósætti. Sem forseti hefur Ólafur Ragnar vakið ósætti og sundrungu. Alveg eins og í gamla daga.

Flokkarnir dauðadæmdir

Punktar

Enn gat vont versnað í könnum. Sú nýja nær áður óþekktri lægð í skilum, bara 40% úrtaksins taka afstöðu. Tölur um stöðu flokka skortir gildi við slíkar aðstæður. Sjálfstæðisflokkurinn hefur 18% fylgi, ekki 44%. Framsókn er með 7% fylgi, ekki 17%. Samfylkingin er með 6% fylgi, ekki 14%, rétt slefar inn þingmanni. Vinstri grænir ná varla inn manni með 5% fylgi og nýju framboðin eru órafjarri þingmanni. Fráleitt er, að þeir, sem láta ekki ná í sig, neita að svara eða skila auðu, skiptist milli flokka eins og hinir. Könnunin er bara dauðadómur yfir fjórflokknum og nýju framboðunum í senn.

Firrt fjölþjóðastofnun

Punktar

Allt er til í heimi stofnana. Vissi ekki, að til er UNTWO, skammstöfun fyrir Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ekki er vitað til, að stofnunin hafi nokkurn tíma gert neitt gagn. Að minnsta kosti hef ég aldrei frétt af neinu slíku. Um daginn vann hún það afrek að velja Robert Mugabe, einræðisherra Zimbabwe, sem heiðurs-ferðamálafulltrúa heimsins. Þessi 88 ára gamli dólgur er samt eftirlýstur fyrir glæpi gegn mannkyni og er í ferðabanni til Evrópu og Bandaríkjanna. Svo tjúlluð ákvörðun, að hún er ekki einu sinni fyndin. Fjölþjóðastofnun er svo firrt, að hún gerir Sameinuðu þjóðirnar að athlægi.

Sambandsleysið stóra

Punktar

Lengi hef ég ekki haft áhuga á stefnu manna, horfi heldur á sögu þeirra. Ef forsetaframbjóðandi segist hafa einhverja stefnu, les ég hana ekki, því að hún kemur mér ekki við. Reynslan sýnir, að ekkert samband er milli stefnu frambjóðenda fyrir kosningar og verka þeirra eftir kosningar. Núna fyllist umræðan af útleggingum á orðum frambjóðenda. Ég fullvissa ykkur um, að það er tilgangslaus iðja. Horfið heldur á persónurnar, sem eru í framboði. Og metið, hvort þið treystið þeim til góðra verka eða ekki. Lífsins skóli ætti fyrir löngu að hafa kennt ykkur það, sem ég reyni að segja í þessum pistli.

Frávik frá hefð

Punktar

Ólöf Nordal og Lilja Mósesdóttir urðu sér til skammar í eldhúsi Alþingis. Slík er orðin venja þingmanna. Athyglisverðara var, að þrír aðaltalsmenn flokka í umræðunni stóðu sig vel. Voru ekki í tuðinu, heldur sögðu eitthvað, sem við þurfum að heyra. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var þar fremstur í flokki með framtíðarmúsík án lýðskrums. Svo nýtt af nálinni, að kallast má bylting. Sömu sögu má segja af Birgittu Jónsdóttur og Magnúsi Orra Schram. Voru málefnaleg, hvort með sínum hætti, öðruvísi en aðaltalsmenn Samstöðu og Sjálfstæðis. Ósköp væri notalegt, ef fleiri þingmenn skiptu yfir í þann gír.

Hrunið var útkoman

Punktar

Ólaf Ragnar Grímsson flokka ég eins og Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Þessi fimm eru hluti Gamla Íslands fjórflokksins, sem drottnaði yfir þjóðinni áratugum saman. Hrunið var niðurstaða ferils þeirra og hefði átt að vera sjálfgefinn endir á þeim ferli. Nú er færi á að losna við einn þeirra, Ólaf Ragnar, sem var foringi í útrásinni. Lofaði bófana í hástert heima og erlendis, hélt veizlur þeirra og hlóð á þá fálkaorðum. Lykill að endurreisn er að losna við slíka gaura úr pólitískri umferð. Þannig getur mædd og sködduð þjóð hafið sitt nýja líf.

Persónur orðum merkari

Punktar

Hef margra áratuga reynslu í að taka ekki mark á því, sem pólitíkusar segja. Yfirleitt er ekkert mark á því takandi. Ummælin eru bara til brúks líðandi stundar. Allra sízt hefur mér reynzt vera mark takandi á yfirlýsingum Ólafs Ragnars Grímssonar. Hef allan fyrirvara á lýsingum hans á forsetaembættinu. Henti honum annað á morgun, gefur hann nýja lýsingu og segir þá fyrri aldrei hafa verið til. Skemmti mér við að lesa álitsgjafa velta vöngum yfir mismun sjónarmiða forsetaframbjóðenda. Ég lít frekar á persónuna að baki og spyr, hvort forsaga hennar sé traustvekjandi. Hefur reynzt mér farsælli nálgun.