Punktar

Hafna aga og þrá gjafir

Punktar

Bezti kostur Evrópusambandsins eru reglurnar um ríkisfjármál. Versti gallinn er að fylgja þessum reglum illa eftir. Ein meginreglan er, að halli fjárlaga megi ekki vera meiri en 3%. Almannavilji fylgir ekki svona strangri reglu. Jafnvel Hollendingar mótmæla við þinghúsið. Kjósendur vilja ekki þjáningu, þeir sækjast eftir gjafmildi. Frjór jarðvegur fyrir pólitíska bófa, sem lofa fólki fjáraustri. Hér lofa bófar afskrift fjárskuldbindinga. Kjósendur taka því fagnandi. Ekki er von, að Íslendingar vilji aga frekar en Hollendingar. Stuðningur við Evrópusambandið fer því smám saman þverrandi þar og hér.

Kína – Indía – Rússía

Punktar

Kínverjar eru sagðir geta hugsað sér að eignast Íslandsbanka. Bara vantar, að Indverjar eignist Arion og Rússar eignist Landsbankann. Þá eru komin að málinu þrjú helztu vinaríki forseta vors, sem hefur óbeit á Evrópu. Sagt er, að þetta muni minnka snjóhengju gjaldeyrismála um meira en helming og gera krónuna aftur gjaldgenga. Svo er spurning, hvort Kínverjar, Rússar og Indverjar verði harðdrægari við kúnnana heldur en núverandi stjórnendur og eigendur bankanna. Líklega getur vond staða ekki versnað. Við bíðum bara eftir, að ríkisstjórn, er hatar Evrópu, gefi þessum vinum sínum grænt ljós.

Þríþættur afsláttur

Punktar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist ekki ætla “að gefa neinn afslátt af því markmiði að við hættum að reka ríkissjóð með tapi.” Sanngjarnt, því að Sjálfstæðisflokkurinn skapaði kviksyndið, sem ríkissjóði var hrint í á valdaárum Bjarna sem þingflokksformanns. Samt hafa þrjú fyrstu verk Bjarna ekki stefnt á minni afslátt. Fyrst þarf hann því að falla frá þeim afslætti, sem hann gaf af auðskatti, auðlindarentu kvótagreifa og virðisaukaskatti ferðaþjónustu. Hvert um sig skaðar afkomu ríkissjóðs um milljarða á ári. Billegt er að blaðra um taplausan ríkissjóð og byrja á að magna taprekstur.

Egill eða Gunnar Bragi

Punktar

Ólíkt betra væri að hafa heimsmanninn Egil Helgason sem utanríkisráðherra en sendisveininn Gunnar Braga Sveinsson. Réttur maður á réttum stað að höndla við útlendinga á góðgjörnum nótum um hagsmuni Íslands. Á ýmsum tungumálum. Egill telur hugsanlegt, að hann hefði orðið að taugahrúgu, ef óskhyggja Sigmundar Davíðs hefði náð fram að ganga. Auðvitað hefði það verið afleit niðurstaða. Ég freistast þó til að líta frekar á jákvæðar hliðar málsins. Framsóknarflokkurinn er fullur af bjánum, sumum illa innrættum. Egill hefði í þeim hópi náð langt í að gera Ísland að viðræðuhæfum aðila að útlandinu.

Franklin Graham kemur

Punktar

Of mikið er gert af því að æsa sig upp út af skoðunum. Þær eru skoðanir, ekki annað, ekki lög eða reglugerðir. Í góðu lagi er, að þekktur hommahatari komi til landsins og prediki yfir róttækum sértrúarsöfnuðum um pípulagnir í mannslíkamanum. Trúarbrögð eru hefðbundið klósett fyrir rugl. Hins vegar er ófært, að þjóðkirkjan taki þátt í rugli Franklin Graham. Hún baðst að vísu afsökunar á frumhlaupinu, en þarf að ganga lengra. Einnig þarf að upplýsa, hverjir störtuðu ruglinu og hverjir kosta það. Um þetta snýst málið, en ekki um, hvort fólk megi hafa undarlegar skoðanir og predika þær sértrúarfólki.

Plága nútímans

Punktar

Það gerðist hægt og bítandi. Bandaríkin glutruðu niður forustu vestrænna ríkja. Eru orðin paríi á undarlega vænisjúkum jaðri. Fáir líta lengur upp til Bandaríkjanna. Enn síður telja menn þau vera kyndilbera lýðræðis. Bera sekt af Guantanamo og réttarhöldum yfir flautublásurunum Manning og Snowden. Bandaríkin geta ekki lengur litið á sig í spegli. Enda eru allir borgarar landsins óvinir ríkisins í augum njósnastofnana þess. Bandaríkin eru teboð, þar sem heimska er jafngild vísindum. Ríkið verndar verstu bófa heimsins, þar á meðal siðblinda herforingja þriðja heimsins. USA er plága nútímans.

Kommúnistaflokkurinn

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir forréttindum, ekki samkeppni. Borinn lengi upp af silfurskeiðungum úr benzínbransanum. Nú borinn uppi af kvótagreifum, sem njóta forgangs að auðlindum þjóðarinnar. Borga tap Moggans og framboð þingmanna Sjálfstæðis og Framsóknar. Markaðshyggjan felst í einkavinavæðingu í þágu silfurskeiðunga og skorti á eftirliti með græðgi spilltra bankstera. Flokkurinn er sumpart af ætt sovézka kommúnistaflokksins og rússneska Pútín-flokksins. Einnig er hann flokkur auðræðis að hætti bandarískra demókrata og repúblikana. Sem kostaðir eru af helztu forréttindagreifum atvinnulífsins.

Minnisvarðar bankabólu

Punktar

Turnar eru helzti minnisvarði bankabólunnar. Hér er það hálfsetinn turn á Höfðatorgi. Sóldýrkendur á Benidorm sjá annan turn, Tempo, hæsta fjölbýli heims. Þú kemst raunar ekki að því að sjá, hann stingur svo í stúf við allt. Orðinn að rúst áður en hann er fullbyggður. Caixa Galicia banki fjármagnaði ruglið, er siðblindir bankamenn reyndu að blása blöðru úr engu. Svipaða sögu er að segja af tvíburaturnunum í Dubai, þegar átti að reyna að gera eitt afturhaldssamasta karlremburíki heims að ferðaparadís. Bankastjórar eru allra manna vanhæfastir. Enda veljast áhættufíknir siðblindingjar í starfið.

Tröllasaga um tölvublaður

Punktar

Engum með viti dettur í hug, að oddvitar al Kaída leggi í tölvusamskiptum á ráðin um hryðjuverk. Þeir vita eins og þú og ég, að Bandaríkin hlera símtöl og samskipti á veraldarvefnum. Þegar Bandaríkin loka sendiráðum, er það ekki vörn gegn hryðjuverkum. Enda kemur tröllasagan um blaður al Kaída á vefnum beint í kjölfar uppljóstrana um síma- og tölvuhleranir. Hún er misheppnuð tilraun til að segja fólki, að njósnir Bandaríkanna séu nytsamlegar og beri árangur. Barack Obama reynir að segja landsmönnum, að afnám borgaralegra réttinda sé bráðnauðsynlegt af öryggisástæðum. Það er allt og sumt.

Skortir mannasiði

Punktar

Geislafræðingavandi Landsspítalans er fyrst og fremst forstjóranum, Birni Zoëga, að kenna. Fannst hægt að losa sig við formann félags geislafræðinga í miðjum samningaviðræðum. Atvinnurekendur hafa fyrir löngu fattað, að slíkt gengur alls ekki. Samningamenn málsaðila eru friðhelgir. Ósiðlegt er að semja við menn, sem sitja undir ógn brottrekstrar. Eitthvað vantar í Zoëga, sem fattar þetta ekki. Fattar ekki heldur, að forstjórinn getur ekki fengið hærri laun, þegar laun starfsmanna eru fryst. Þess vegna er Landsspítalinn í sífelldum manna- og samningavandræðum. Yfirmenn þurfa að kunna mannasiði.

Einkavinir án eftirlits

Punktar

Einkavinavæðing Davíðs á viðskiptabönkunum hlaut óhjákvæmilega að leiða til ófarnaðar. Þegar við bættist skipulagður eftirlitsskortur hins opinbera, hlutu bankarnir að leiðast út í fjárhættuspil og sýndarmennsku. Leiðin frá einkavinavæðingu og eftirlitsskorti til bankahruns var bein og breið. Hrunið hófst ekki með Jóni Ásgeiri og Glitni. Heldur með því samanlagt, að klíka Davíðs fékk Landsbankann, klíka Halldórs fékk Kápþing og klíka Jóns Ásgeirs fékk Glitni. Allt var þetta innbyggt í peningaspekinni, sem Davíð rak eftir forskrift spámannsins Hannesar Hólmsteins. Því heitir þetta Davíðshrunið.

Bakka-fléttan

Punktar

Húsavík hefur ekki náð samningum við PCC um orkusölu til stóriðju á Bakka. Leggur samt í mikinn kostnað. Hyggst nú semja við PCC um lóð og höfn. Þegar sá kostnaður er útlagður, hefst hefðbundið væl. Um, að búið sé að leggja svo mikinn kostnað út, að ófært sé að hætta við. Að venju verður Landsvirkjun pínd til að kaupa of stóra rafala, samanber Helguvík. Og til að lækka verð á orku niður fyrir kostnaðarverð. Þannig verður stóriðjan gerð óhjákvæmileg. Sama, gamla raunasagan, sem kallast Helguvíkur-fléttan. Ríkisstjórn séríslenzks pilsfaldakapítalisma mun stuðla að þessari gamalkunnu útkomu.

Sókn unga íhaldsins

Punktar

Ungt fólk skilur pólitík öðruvísi en gamlingjar. Hægri sjónarmið sækja fram. Lítið bara á alþingiskosningarnar í vor og á kosningarnar til stúdentaráðs. Þar malaði Vaka vinstri menn. Hugmyndir um jöfnuð eru víkjandi. Einkaskólar og einkasjúkrahús eru ekki lengur bannorð. Atvinnuleysi er talið bera vott um skort á framtaki. Ungt fólk eigingjarnt vill síður borga háa skatta. Sama gerist víðar á vesturlöndum. Guardian skrifar um breytt viðhorf kjósenda í Bretlandi. Margt ungt fólk skilur ekki glæpaeðli Framsóknar og Sjálfstæðis. Pólitískra bófaflokka, sem gæta hagsmuna fámennra klíkna gegn almannahag.

Óhjákvæmileg afleiðing

Punktar

Óhjákvæmileg afleiðing einkavinavæðingar og eftirlitshruns Davíðs var aukinn pilsfaldakapítalismi og yfirtaka andverðleika á bönkum. Hrunið varð mest í Seðlabankanum, sem Davíð stjórnaði þvert á alla fjármálafræði. Eftirlit með viðskiptabönkum var afnumið og Davíð jós fé á báðar hendur. Allt eyddist það fé og á kostnað almennings. Kjósendur virðast sáttir við bófana, því að í alþingiskosningunum í vor komust pólitísku bófaflokkarnir til valda, þeir sem höfðu framkallað hrunið. Eftir að hafa gaukað milljörðum að kvótagreifum og ferðaþjónustu lögðust ráðherrarnir á sitt græna eyra og eru nú í sólbaði.

Sjálfræði smákónga

Punktar

Hvernig stendur á því að Páll Winkel fær að gerast þriðja dómstigið ofar Hæstarétti? Fær að setja reglur um fangavist, sem fela í sér kerfisbundna þjónustu við fínimanns-bófa. Hvernig stendur á, að Jón Gíslason fær að hunza ársgamlar gamlar reglur um merkingu erfðabreyttra matvæla? Samkvæmt nýjum fréttum eru þær enn eitraðri en hingað til hefur verið talið. Hvernig stendur á, að hann má halda kadmíum-mengun leyndri? Hvernig stendur á, að smákóngar í ríkisgeiranum geta hagað sér eins og þeim sýnist, fram hjá lögum og rétti? Af hverju eru þeir ekki reknir og kærðir fyrir umboðssvik?