Punktar

Hundheiðin jól

Punktar

Á jólum heilsuðu ásatrúarmenn hækkandi sól. Nafnið er frá þeim tíma. Enn í dag eru jólin að mestu heiðin. Að vísu hefur Mammon tekið við af Óðni sem verndari jólanna. Kaupmenn gerðu hátíðina að keppni í sukki. Þannig eru jólin hundheiðin eins og þau voru fyrir innreið kristni. Fátt er kristið við jól, helzt sálmar og helgileikir. Jólasveinarnir eru hundheiðnir eins og jólatréð, þótt þeir hafi komið sér upp rauðri húfu. Grýla og Leppalúði hafa vinningin yfir jesúbarnið í jötunni. Kristnir reyndu að smeygja sér inn í þjóðarsálina með því að yfirtaka jólin. Þau urðu hér samt aldrei neitt „Christ-mass“. Eru enn og verða „jól“.

Góð Amazon viðskipti

Punktar

Venjulega dettur mér skyndilega í hug að lesa bók hér og nú. Sé það erlend bók, panta ég stafræna útgáfu á Amazon. Tekur hálfa mínútu. Sé hún innlend, er hún oftast ekki til stafræn. Útgefendur eru hér tregir til nýrra viðskiptahátta. En ég get farið niður í bæ og keypt bókina. Tekur kortér, sem er alveg þolanlegt. Erlendis og utanbæjar væri málið flóknara, því þar eru bókabúðir ekki á hverju strái. Kaupi líka sjónvarpsþætti á Amazon. Mér finnst verð á Amazon þolanlegt. Tel hins vegar höfunda eiga að fá hærri prósentu. Íslenzkir bókaútgefendur eru nízkir og bulla um ofurkostnað við útgáfu rafbóka. Sá kostnaður er sáralítill.

Uggur í fólki

Punktar

Útsölur eru hafnar í jólaösinni. Margir kaupmenn sitja uppi með alltof dýran lager, því fólk kaupir ekki. Er hætt að taka þátt í „hagvextinum“. Ýmist sparar það peningana eða á ekki peningana. Svokallaður hagvöxtur hefur enginn verið á árinu, þvert ofan í fullyrðingar ríkisstjórnar og seðlabanka. Enda mælir hann bara viðskiptaveltu, sem er undir væntingum. Of margir vita, að góðærið er bara venjuleg ímyndun forsætisráðherra. Fólk vill ekki sitja auralaust undir næstu hremmingum. Nú eru læknar að segja upp á Landspítalanum og engir nýir koma í staðinn. Það er þungur uggur í fólki og hann kemur niður á jólakaupmönnum.

Þrjózkur braskari

Punktar

Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar var að skipa fjárglæfrakonuna Höllu Sigrúnu Hjartardóttur formann Fjármálaeftirlitsins. Var hún þó í kræfu braski fyrir og eftir skipunina. Braskið komst í hámæli og Halla lofaði að segja af sér formennsku á stjórnarfundi 3. desember. Notaði það til að neita að mæta á fund efnahags- og viðskiptanefndar alþingis til að svara spurningum. Svo kom 3. desember og Halla stóð ekki við loforðið. Þóttist vera upptekin allan mánuðinn. Enn hefur hún ekki verið rekin og stjórnar enn eftirlitinu með fjármálum banka. Þar hæfir vissulega skel kjafti, enda gerir ríkisstjórnin ekkert í máli hennar.

Kvalræði Evrópu

Punktar

Hataða Evrópusambandið kvelur okkur. Neyðir okkur til að taka upp ljósaperur, sem nota tæpan helming rafmagnsins, sem við notuðum áður Neyðir okkur til að fá skaðabætur, þegar áætlunarflugi seinkar. Neyðir okkur til að nota kæliskápa, sem nota fjórðung rafmagnsins, sem við notuðum áður. Neyðir okkur til að hætta notkun ýmissa stórhættulegra eiturefna, sem okkur þótti svo vænt um. Neyðir snyrtivörugerðir til að hætta notkun eiturefna. Bannar bændum að nota vinsælt eitur af ýmsu tagi. Svo ekki sé talað um ryksugurnar og svo framvegis. Þetta vonda Evrópusamband abbast upp á okkar fullvalda þjóð. Sjá grein í GUARDIAN.

Hlutverkaruglingur

Punktar

Ýmis ruglingur verður í hlutverkum, þegar gerræði leysir verkferla af hólmi. Lögreglan tekur við af alþingi í setningu laga. Alþingi ákveður, hver lög skuli vera, en löggan tekur ekkert mark á því. Hún gengur hart fram í sumum lögum og sinnir öðrum ekki. Húseigandi getur til dæmis framið húsbrot á leigjanda sínum, rekið starfsfólk og haldið eftir eigum þess og leigjandans, þar á meðal tekjum af viðskiptum hans. Samanber Caruso. Fangelsismálastjóri tekur við dómsvaldinu í uppkvaðningu dóma. Hann ákveður, hversu mikið er slegið af lengd fangelsunar, hvaða dómar séu notaðir og hverja hann skuli úrskurða upp á nýtt. Skrítin þjóð.

Óvinsælir ráðherrar

Punktar

Þótt stjórnarflokkarnir hafi fundið sinn botn í samanlögðu 35% fylgi, er botn allra ráðherranna töluvert lægri. Sigmundur Davíð hefur 18% fylgi, þegar mæld er ánægja og óánægja með störf hans. Minnst óvinsæl er Eygló Harðardóttir með 26% fylgi, enda gerir hún ekkert. Verr gengur hjá Sigurði Inga með 17% fylgi, Gunnari Braga með 19% fylgi, Illuga Gunnarssyni með 21% fylgi og Kristjáni Þór með 22% fylgi. Enda hafa þeir verið í ýmsum skítverkum gegn almenningi. Allir ráðherrarnir eru óvinsælli en ráðherrarnir voru í stjórn Jóhönnu. Þetta vekur vonir um, að kjósendur fari að yfirfæra óvinsældir ráðherra á flokka þeirra.

Gullöld sögð hafin

Punktar

Skoðanakannanir benda til, að rétt sé kenning mín um, að stjórnarflokkarnir séu búnir að finna sinn botn og fari ekki neðar. Þeir geti hagað sér eins og þeim þóknast án þess að glata meira fylgi. Gæti verið skýringin á veruleikafirrtu rugli formanna og talsmanna flokkanna tveggja. Þeir tala um manndrápsfjárlögin sem endurreisnarfjárlög. Hrun Landspítalans kalla þeir innspýtingu. Hækkanir skatta kalla þeir lækkanir og ört vaxandi fátækt kalla þeir hagvöxt. Almennt má segja um orð þeirra, að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Þegar þetta hefur engin áhrif á fylgið, virðist þriðjungur fólks ímynda sér, að hér sé gullöld.

Stóru bófarnir sleppa

Punktar

Þjóðfélaginu gengur ekkert að koma réttlæti yfir helztu útrásarbófa landsins. Nú síðast voru nokkrir sýknaðir í héraði. Annað hvort er Sérstakur saksóknari of lélegur til að gegna embætti eða þá að dómstólar sinna ekki réttlæti, bara meintum orðhengilshætti í lagatextum. Hugsanlega er um hvort tveggja að ræða. Flokkar ríkisstjórnarinnar láta sér þetta vel líka. Þeir skipuðu á löngum tíma nánast alla dómara landsins og Sérstakan að auki. Hins vegar er þetta vont fyrir samstöðu þjóðarinnar. Endurteknir sýknudómar eru ávísun á framhald ofsa og haturs í þjóðmálaumræðunni. Réttlætiskrafa mun áfram krauma undir niðri.

Ísrael einangrast

Punktar

ÍSRAEL einangrast hægt og bítandi undir forustu Benjamin Netanyahu. Hann hefur lítil svör við atburðarásinni. Dómstóll Evrópusambandsins hefur tekið Hamas á Gaza út af terroristaskrá. Þing Evrópusambandsins hefur samþykkt Palestínu sem ríki. Bandaríkin eru orðin einangruð í Sameinuðu þjóðunum vegna stuðnings við Ísrael og ná þar engu öðru fram. Fyrirlitin ítreka þau vetó í öryggisráðinu. Netanyahu gargar bara um helför gyðinga fyrir sjö áratugum. Evrópumenn nútímans bera samt enga ábyrgð á henni og stofnuðu Evrópusamband til að hindra þjóðrembu og rasisma í nútíð og framtíð. Dagar rasisma og hryðjuverka Ísraels eru taldir.

Uppeldi í fangelsi

Punktar

Bandarísk fangelsi í Írak voru og eru gróðrarstía brjálaðs haturs terrorista á öllu vestrænu. Ógeðið í Abu Ghraib gerði múslima að hörðum terroristum. Þegar þetta illræmda bandarískra fangelsi var lagt niður, voru fangarnir fluttir í Camp Bucca, þar sem helztu foringjar ISIS samtakanna mótuðust. Þar á meðal Abu Bakr al-Baghdadi, yfirforingi ISIS, sem nú er efstur á lista eftirlýstra. Í GUARDIAN í dag er viðtal við einn foringjanna, sem al-Baghdadi mótaði í Bucca. Þar kemur fram, að innrásin í Írak og hörkulegt hernám landsins framkallaði geðbilaða hugsun fanga. Lýsir sér núna í morðum á tugum skólabarna í Pakistan.

Múslimahatur vex

Punktar

Vestur-Evrópa er að klofna í hatursmenn múslima og venjulegt fólk. Hvarvetna eru haldnir fjölmennir fundir gegn múslimum. Og stjórnmálaflokkar hatursmanna fá vaxandi fylgi, sums staðar 20% eða meira. Hryðjuverk fárra morðóðra múslima kynda undir þessu hatri. Búast má við, að andstaðan við múslima harðni á næstu misserum. Í næstu kosningum er líklegt, að Framsókn reyni að bjarga sér fyrir horn með auknum stuðningi við múslimahatur. Við þurfum því að búa okkur undir vandann áður en hann birtist. Einnig þarf að hindra, að morðóðir múslimar flytjist hingað. Og losa okkur við þá sárafáu, sem hér kynnu að verða staddir.

„Norska aðferðin“

Punktar

Hræddur er ég um, að Norðmenn yrðu ósáttir, ef þeir fréttu, að lögreglumenn á Íslandi telja fantabrögð á almenningi vera „norsku aðferðina“. Athygli hefur vakið myndband af fantabrögðum brjálaðs lögreglumanns, sem nýlega var dæmdur í Hæstarétti. Starfsbræður hans eru svo ókátir með dóminn, að stéttarfélag þeirra hefur ítrekað kvartað opinberlega. Það er uggvænlegt. Ekki bara ein lögga leikur lausum halda í skjóli „norsku aðferðarinnar“, heldur virðist stéttin í heild telja fantabrögð frambærileg. Þessi afstaða stéttarfélagsins styður það útbreidda sjónarmið, að almennt séu íslenzkir lögreglumenn á rangri hillu í lífinu.

Harpan er hrákasmíði

Punktar

Þótt hún sé ný, er Harpa farin að kosta mikið í viðhaldi. Frægt var, þegar skipta þurfti út glerkubbunum vegna gallaðrar framleiðslu. Síðan kom í ljós, að sumir nýju glerkubbarnir voru farnir að ryðga. Og nú er það loftræstikerfið, sem ógnaði Silfurbergi í nótt, þegar flæddi inn á loftið. Eitthvað virðist líka vera að litastýringunni, sem strax í upphafi minnti á bilaða jólaseríu. Og ekki má gleyma saltrokinu, sem leggst á veggina og gerir gluggaþvott að Kleppsvinnu.  Hversu ánægjulegur sem hljómburðurinn er, þá virðist hönnun og smíði hússins vera gölluð á ýmsan hátt. Og ekki finnst mér Harpan vera fögur borgarprýði.

Gerræði gefst illa

Punktar

Gerræði leysir þingræði af hólmi. Ráðherra vilja fara sínu fram, án þess að spyrja alþingi. Hafa lagt fram frumvarp um að færa megi embætti út og suður án þess að spyrja kóng eða prest. Þeir geti rifið starfsmenn upp með rótum með kostnaði upp á hundruð milljóna. Sigurður Ingi Jóhannsson ætlaði að skutla Fiskistofu til Akureyrar. Ráðherrar Framsóknar ætla að skutla nokkrum stofnunum til Skagafjarðar. Sigurður vísar til þess, að Norðmenn hafi flutt stofnanir út á land. Sá hængur er þar á, að flutningurinn reyndist illa. Starfsmenn láta ekki skutla sér og stofnanirnar drabbast niður. Gerræði er vond stjórnsýsla.