Punktar

Slokknað í rústunum

Punktar

Fögnum því, að Kristján Þór hundskaðist til að semja við spítalalækna. Eldurinn er slokknaður í rústunum, hægt að fást við uppsagnir lækna, verkfall skurðlækna og tvöföldun biðlista. Ráðherrann var í felum mestan tímann, taldi enda hrun Landspítalans ágætt skref í átt til einkavæðingar að hætti Albaníu. Þvermóðska heilsuráðherra og fjármálaráðherra endurspeglaði þrá teboðsmanna í gróða af einkastofum Albaníu-Ásdísar. Samt er fyrir löngu sannað, að opinber rekstur er ódýrari og nær betri árangri. Einkaæðið byggist ekki bara á þráhyggju, heldur einnig á heimsku og mannvonzku ráðherra og þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Laga má markaðskerfið

Punktar

Þekktustu hagfræðinar heims deila um, hvort markaðskerfið hafi gengið sér til húðar. Thomas Pikkety telur aukna stéttaskiptingu óhjákvæmilegan fylgifisk markaðskerfis. Joseph Stiglitz telur aukna stéttaskiptingu vera gerviútgáfu af markaðinum. Auka megi jöfnuð í þjóðfélaginu með því að falla frá aðgerðum, sem kenndar eru við Reagan og Thatcher. Endurheimta hagvöxt með því að hækka skatta á fjármagnstekjur og erfðafé, fjárfesta meira í menntun, þrengja möguleika á einokun, takmarka tekjur bankstera, forstjóra og annarra sníkjudýra. Þannig megi efla markaðsfrelsi og hagvöxt. Ísland stefnir í öfuga átt, til stöðnunar.

Teboðskonur hylltar

Punktar

„Leyfum [mennta]kerfinu að sigla, en mölvum út úr því“. Það sagði Margrét Pála Ólafsdóttir á fundi Samtaka atvinnulífsins. Síðar mætti Ásdís Halla Bragadóttir á fund sömu samtaka og sagði: „Albanía er ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri“ Látum hjá líða að ræða heimsku orðanna. Voru sögð til að freista greifa til fjárfestinga í einkareknum fyrirtækjum í menntun og heilsu. Vil bara minna á ofsalegan fögnuð fundarmanna, sem hlustuðu á tvenn skilaboð frá íslenzkum anga hins fanatíska bandaríska teboðs. Æstir atvinnurekendur telja núna vera gott færi á að rústa ríkisrekstri innviða samfélagsins.

Orð ráðherrans

Punktar

Orð nýja ráðherrans á liðnu ári:
„Við sögðum, að við myndum aldrei ganga í Evrópusambandið nema að undangenginni kosningu og við ætlum ekkert að ganga í Evrópusambandið. Þannig að það þarf enga kosningu.“ „Alveg hrífst ég af, hvað stjórnarandstaðan er hrifin af formanni mínum og ég er ekki hissa á því“.  „Hvers vegna nærist þjóðarvitundin á sífellt neikvæðum fréttum, fremur en jákvæðum?“ „Mér finnst alltaf vera mjög tortryggt allt, sem framsóknarmenn leggja til og tala um og snúið út úr því á alla enda og kanta.“ „Ég held, að menn skilji ekki alveg hugsanagang framsóknarmanna, sem mér finnst vera bara ljúfur og góður.“ „Viljum við fórna því að spara kannski einhverjar krónur í innfluttu kjöti gegn heilsuleysi síðar á ævinni. Ég segi nei takk.“
Vonandi verða verkin viturlegri en orðin.

Opinber rekstur beztur

Punktar

RÚNAR VILHJÁLMSSON prófessor hefur dregið saman niðurstöður ýmissa rannsókna á árangri mismunandi heilbrigðiskerfa. Þær sýna, að félagslegt kerfi með ókeypis heilsuþjónustu skilar beztum árangri. Blandað kerfi einkarekstrar og opinbers rekstrar að evrópskum hætti skilar árangri í meðallagi. Einkarekstur eins og í Bandaríkjunum skilar lökustum árangri. Þar er kerfið dýrast á mann og þjónar aðeins hálfri þjóðinni. Enda eru heilsa og ævilíkur lakari þar en á Kúbu, sem hefur félagslegan rekstur. Öfugt við niðurstöður rannsókna stefnir ríkisstjórn Íslands að eyðileggingu ríkisrekstrar í heilsuþjónustu. Að einkavæðingu hennar.

Síminn hringir sífellt

Punktar

Vitið þið, við hvaða útlending Vladimir Putin talaði oftast í síma á liðnu ári? Við Angelu Merkel auðvitað. Vitið þið, við hvaða útlending Barack Obama talaði oftast í síma á liðnu ári? Við Angelu Merkel auðvitað. Vitið þið, hvaða ríki heims hefur mestan útflutning á eftir Kína? Auðvitað Þýzkaland Angelu Merkel. Stendur fyrir efnahagsrefsingum, sem eru um það bil að kollvarpa efnahag Rússa. Hún er ráðandi afl í Evrópusambandi, sem hefur meiri framleiðslu en Bandaríkin og Kína. Angela Merkel var stjórnmálamaður ársins 2014. Lesið það, sem TIMOTHY GARTON ASH segir í Guardian um voldugu prestsdótturina frá Austur-Þýzkalandi.

Gallaða himnaríkið

Punktar

Þótt ég sé hrifinn af Evrópu og Evrópusambandinu, geri ég mér grein fyrir ýmsu ólagi. Jean-Claude Juncker er spilltur pólitíkus, sem ræður ekki við framtíð Evrópu. Gullni meðalvegurinn hefur ekki fundizt milli sparnaðar Angelu Merkel og atvinnuverndar François Hollande og Matteo Renzi. Sem betur fer tekur enginn samt lengur mark á David Cameron. Í Suður-Evrópu er óbærilegt atvinnuleysi og svikult Grikkland verður rekið úr evrunni. Franskir bankar tapa á yfirvofandi gjaldþroti grískra banka. Fjölmenning hefur beðið skipbrot, einkum í Þýzkalandi og Frakklandi. Evrópa verður að taka fastar á skertri aðlögunarhæfni múslima.

Albanía er fyrirmyndin

Punktar

Ásdís Halla Bragadóttir skefur ekki af skrímslinu sínu. „Albanía er ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri“, segir hún. ALBANÍA er einmitt illræmt fyrir versta heilbrigðiskerfi Evrópu. Þar verður fólk að mestu leyti að borga sjálft fyrir ömurlega heilsuþjónustu, en auðgreifar hafa aðgang að þolanlegu kerfi. Þetta er það, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill hingað. Þess vegna er hann að rústa Landspítalanum. Vill rýma til fyrir einkareknum spítala Ásdísar Höllu. Hún er galin. Myrka miðaldaríkið Albanía er fyrirmyndin. Svartasta afturhald álfunnar er himnaríki í augum samtaka atvinnurekenda. Galið lið.

Hóflaus fyrirgreiðsla

Punktar

Fyrirgreiðsla ríkisins í þágu kirkjunnar gengur of langt. Opt-out á að víkja fyrir Opt-in. Skráning barna í trúfélag kirkjunnar má ekki vera sjálfvirk. Frumkvæði á að koma frá hinum trúaða. Bara formlega séð nýtur kirkjan aðildar meirihluta þjóðarinnar. En bara lítill hluti hennar sækir kirkju ótilneyddur. Staða kirkjunnar er sama og greifanna, forgangur í úreltu teboðskerfi ríkisins, sem hossar forréttindahópum. Er ekki samkvæmt stjórnarskránni, heldur samkvæmt öfgatúlkun stjórnarskrárinnar. Eins og raunar öll túlkun gerir, nema hófs sé gætt. Heilsa og velferð almennings á að fara framfyrir kirkjuna í forgangi.

Neita sér um meðferð

Punktar

Samkvæmt tölum velferðarráðuneytisins neitar tíundi hver Íslendingur sér um læknis- og tannlæknisþjónustu. Eigin hlutdeild sjúklinga í heilsukostnaði er orðin of há. Þetta er þvert á stefnu nágrannalandanna í norðanverðri Evrópu. Þar er heilbrigðisþjónusta ókeypis. Hér greiða krabbameinssjúklingar hundruð þúsunda króna á ári fyrir lakari þjónustu. Því veldur græðgisstefna kjósenda stjórnarflokkanna. Telja sjúklinga geta sjálfum sér um kennt. Brýnna sé að létta auðlindarentu af kvótagreifum og skattbyrði af öllum greifum. Í því skyni þurfi að skera niður heilsukostnað ríkisins. Svei ykkur, kjósendur bófaflokka.

Þýzk-frönsk fyrirmynd

Punktar

Þýzkaland og Frakkland hafa tekið við af Norðurlöndum sem fyrirmyndarríki okkar tíma, hvort með sínum hætti. Báðum þessum ríkjum hefur tekizt að bræða saman markaðshyggju og félagshyggju. Upphafið af þessum bræðingi má rekja til Ludwig Erhard, er var efnahagsráðherra Adenauer og síðar kanzlari Þýzkalands. Frakkar eru að því leyti sérstæðir, að þeir nota velmegunina til að gera vel við sig í mat og öðrum lífsnautnum. Þjóðverjar eru að því leyti sérstæðir, að þeir leggja velmegunina fyrir til hugsanlega magurra ára. Ég held, að meðalvegur af þessu tvennu væri farsælli en öfga-græðgisstefna íslenzku ríkisstjórnarflokkanna.

Stundin rennur upp

Punktar

Gott er, að fyrrverandi stjórnendur og starfsmenn DV skuli stofna Stundina, nýjan fjölmiðil á vef og pappír. Ljóst mátti vera, að nýir eigendur DV mundu fara með blaðið til helvítis. Fagfólk þarf til að reka fjölmiðil, ekki World Class rusl og meiðyrða-lögmenn. Sama sagan og um aldamótin, þegar Óli Björn Kárason keypti stöndugt DV og keyrði í þrot á átján mánuðum. Sama ógæfa sást strax, þegar nýir eigendur töldu sig geta tjónkað við Hallgrím Thorsteinsson fagmann. Þoldu hann í fjóra mánuði og skiptu svo út fyrir blaðurfulltrúa, sem var þeim að skapi. Líklegt er, að Stundin muni leysa framsóknar-DV af hólmi.

Of litlar byrðar

Punktar

Með nýju ári hefst áróður samtaka atvinnurekenda um, að starfsfólk sé of dýrt í rekstri og verði helzt ekki ráðið. Greiða þó þvílík lúsarlaun, að fólk þarf að bæta það upp með sníkjum hjá góðgerðasamtökum. Það er nýtt í samfélaginu, að láglaunafólk þurfi á slíku að halda. Til skamms tíma þurftu samtökin aðeins að styrkja velferðarþega. Katrín Óladóttir hjá Hagvangi reið á vaðið með kvartanir um byrðar atvinnulífsins. Þannig eru frekjudallar Íslands, fá aldrei nóg. Hæst gráta þó kvótagreifar, sem þykjast lifa á barmi hungursneyðar. Engin ástæða er til að hlusta á neitt af þessum þvættingi. Byrðar atvinnulífsins eru of litlar.

Hægri jaðar óvinsæll

Punktar

Í flestum nágrannalöndum okkar höfða hægri öfgaflokkar ekki til ungs fólks. Í Bretlandi hefur Ukip, flokkur Nigel Farage, sáralítið fylgi 17-22 ára kjósenda. Einnig er óvinsæll Nick Clegg hjá Frjálslyndum, sem komnir eru frá miðju yfir á hægri kant eins og Framsókn. Í þessum aldurshópi er líka eindregið fylgi við aðild að Evrópusambandinu. Fylgi ungra skiptist 41% á Labour, 26% á Tories, 19% á Græningja og 6% á Frjálslynda, enn minna á Ukip. Það neikvæða er, að erfitt er að draga ungt fólk á kjörstað. Það nennir fáu, sem það getur ekki afgreitt heima í tölvunni. Vonandi verður samt pólitísk þróun svipuð hér. (GUARDIAN)

Merkel er merkust

Punktar

Angela Merkel er merkasti pólitíkus okkar tíma, íhaldsmaður af gamla skólanum. Ég kannaðist við slíka hér, áður en Davíð Oddsson stal Sjálfstæðisflokknum með manni og mús og græðgisvæddi hann. Í ÁRAMÓTAÁVARPINU tók Angela þá kjósendur á beinið, sem mæta á útifundi hægri öfgahópa og telja útlendinga orsök gæfuleysis síns. Fordómar, kuldi og hatur er slæm forskrift, sagði hún. Útifundir þessir hafa einkum verið fjölsóttir í gamla Austur-Þýzkalandi, svo sem í Dresden. Þar er fólk enn miklu fátækara en í ríka vestrinu. Angela er sjálf prestsdóttir úr austrinu og þekkir þaðan böl fordóma. Segir vitleysingum óhrædd til syndanna.