Punktar

Sérhverri hæfni hafnað

Punktar

Jóhannes Kr. Kristjánsson er þekktasti rannsóknablaðamaður landsins. Gerði áður garðinn frægan á Kompás og síðast í Kastljósi. Ekki hefur borið skugga á vönduð verk hans. Nú er ráðning hans við Ríkisútvarpið ekki framlengd. Honum sparkað og það er meira en hræðilegt. Hinn gamli hornsteinn íslenzkrar fjölmiðlunar er ummyndaður í skötulíki, hossar bara bulli og sporti. Egill hættur með Silfrið og Jóhannes hættur í Kastljósi. Magnús Geir er á undarlegu ferðalagi með þessa áður virðulegu þjóðarstofnun. Bófapólitíkin er vissulega á bakinu á honum og Framsókn hatar klabbið. En „fyrr má nú aldeilis fyrrvera“ skipstjóri á flaki.

Óðir berja fornminjar

Punktar

Fyrst ætlaði ég ekki að trúa. Hafði tveggja áratuga reynslu af bandarískum og nató-lygum í værukærum fjölmiðlum. En þetta var þá satt. Íslamska ríkið drepur ekki bara vegfarendur, nauðgar ekki bara börnum og kastar ekki bara hommum fram af húsþökum. Íslamska ríkið ræðst líka á mannkynssöguna, minjar um stórveldi fornu Assýringanna í Nimrud og nágrenni. Notar sleggjur á styttur og jarðýtur á veggi. Þetta er fullkomlega galið, því að það þjónar engum tilgangi, þvingar engan til hlýðni. Er sennilega bara gert til að ganga fram af hugsandi fólki. Íslamska ríkið nærist á sértrúar-túlkun höfundarins Abu Bakr Naji á kóraninum.

Sértrúarsöfnuður Landsnets

Punktar

Ekki er nóg með, að kostnaður jarðstrengja hafi lækkað í námunda við kostnað af loftlínum. Jarðstrengir spara líka styrjaldir Landsnets við sveitarfélög, sem heimta jarðstrengi. Þeir spara líka viðhald og kostnað, sem leiðir af ísingu og öðrum hamförum í vetrarharðindum. Aðdragandi að lagningu jarðstrengja er einnig miklu styttri, tvö ár í stað átta, því að fyrirstöður eru færri í ferlinu. Landsnet hefur leikið þann soraleik, að panta bullskýrslur frá Mannviti og Eflu til að koma sér hjá að viðurkenna ofangreindar og augljósar staðreyndir. Skipta þarf út yfirmönnum Landsnets, sem koma fram eins og galinn sértrúarsöfnuður.

Flokkur í feigðarósi

Punktar

Samfylkingin er í vanda, sem hún ræður ekki við. Sveik þjóðina um stjórnarskrá og þjóðareign á kvóta. Hangir enn í aðild að Evrópusambandinu, sem enginn vill hlusta á þessa dagana. Samfylkingin getur kúvent, tekið upp harðan stuðning við stjórnarskrána, uppboð kvóta og auðlindarentu, herlög gegn bankabófunum, vask á ferðaþjónustu og virkan stuðning við kröfu fólks um réttlát laun. Flokkurinn er fastur í leifum Blairismans og er kominn langt frá uppruna sínum. Árni Páll er tákngervingur hins illa í flokknum og verður að fara frá hið fyrsta. Svo verða kjósendur að meta, hvort restin af flokknum sé trúverðug til góðra verka.

Misvinsælir fundarmenn

Punktar

Smám saman er að koma í ljós, að umbar kvótagreifa treystast ekki á fundi nema geta grisjað fundarmenn. Vilja til dæmis ekki Ólaf Jónsson, betur þekktan sem Óla ufsa. Og ekki heldur Kristinn H. Gunnarsson, fyrrum þingmann. Næst vantar, að Karen Kjartansdóttir gefi út bannlista, svo hægt sé að halda grátfundi um kvóta. Og kannski annan lista um æskilega fundarmenn. Á honum væru þessi nöfn: Björt Ólafsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Björt Ólafsdóttir. Sá þingmaður Bjartrar framtíðar flutti á þingi kvótagreifa það fáránlegasta skjall, sem ég hef lesið. Fjallaði meðal annars um „þorskígildi og allar þessar vitleysur út um allt“.

Eiturör frá Sádi-Arabíu

Punktar

Ágreiningur er risinn í Félagi múslima um, hvort þiggja beri 135 milljónir frá Sádi-Arabíu til byggingar mosku. Salman Tamini er mótfallinn gjöfinni og segist ekki hafa haft hugmynd um hana. Sverrir Agnarsson fagnar henni hins vegar og segist hafa beðið um hana. Ólafur Ragnar Grímsson flækist inn í málið, sagður hafa sýnt sendiherra Sádi-Arabíu lóðina. Óþolandi er, að eitt versta ríki heims hafi slík afskipti af trúmálum hér. Það bannar kirkjur heima fyrir, en greiðir um allan heim stórfé í moskur róttækra bókstafssafnaða, sem predika wahabisma. Öll bókstafstrú er eitur, en wahabismi er mannskæðasta bókstafstrú nútímans.

Thorsil verður ómagi

Punktar

Kísilver Thorsil fær svipaðar ölmusur og álverin. Fær ekki bara tombóluverð á raforku. Fær þar á ofan fjórðungs afslátt af tekjuskatti, helmings afslátt af tryggingagjaldi, helmings afslátt af fasteignagjöldum, þriðjungs afslátt af gatnagerðargjaldi, undanþágu frá aðflutningsgjöldun og frestun á vaski. Einnig nýtur stóriðja skattaundanskota með færslu arðs til systurfélaga í skattaskjólum. Til viðbótar koma svo undanþágur frá lögum og reglum. Þetta er hrein svívirða, langt utan heilbrigðrar skynsemi. Stóriðja hefur ætíð verið og er enn ómagi á samfélaginu. Furðulegt er að sóa orkuauði þjóðar á þennan fáránlega hátt.

Vilja byltingu

Punktar

Fimmti hver Þjóðverji telur byltingu nauðsynlega til að bæta lífskjörin. Meira en helmingur þjóðarinnar telur lýðræði marklaust, þar sem auðurinn hafi meiri áhrif en atkvæðin. Það kemur fram í víðtækri KÖNNUN Freie Universität í Berlín. Þessi uppgjöf á svokölluðu lýðræði er annars eðlis en róttækni á hægri kanti stjórnmálanna, svo sem hjá nýnazistum, Pegida og Alternative für Deutschland. Könnunin sýnir, að undir niðri er sterkur straumur vinstri róttækni gegn hægri róttækni, sem hefur verið meira í sviðsljósinu. Sláandi er, að þriðji hver Þjóðverji telur, að kapítalismi leiði óhjákvæmilega til fátæktar og hungurs.

Dómsvald gert pólitískara

Punktar

Ítrekað finnur ríkisstjórnin leiðir gerræðis til að sauma að góðu regluverki. Nýja uppfinningin er landsréttur milli héraðsdómstóla og hæstaréttar. Samkvæmt frumvarpinu má innanríkisráðherra skipa dómarana án þess að dómnefnd hafi áður raðað umsækjendum í hæfnisröð. Alvarlegt frávik frá regluverki nágrannaríkja. Afturför til fyrri alda, þegar pólitíkin átti dómstólana. Um þetta segir Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipun: „Ráðherra er í þessum drögum, sem nú liggja fyrir, veitt raunverulega algjörlega óheft pólitískt vald til að ákveða hvern hann skipar í dómaraembætti. Og með þessu tel ég vera horfið langt aftur til fortíðar, til tíma pólitískra embættisveitinga í dómskerfinu.“

Ferðaþjónusta langstærst

Punktar

Ferðaþjónusta er langsamlega öflugasti atvinnuvegur þjóðarinnar og langmesta uppspretta gjaldeyris. Tekjur hennar í fyrra námu 300 milljörðum. Sjávarútvegur er hálfdrættingur á við ferðaþjónustu. Tekjur ferðaþjónustu síast líka um allt samfélagið. En tekjur af útgerð renna að mestu í vasa fárra. Sama gildir um stóriðju og orkuver. Þau veita fáum atvinnu og arðurinn fer nánast allur úr landi. Af þessum þremur þjóðarauðlindum skilar ferðaþjónustan ein auðlindarentu til samfélagsins. Hinar tvær eru kvótagreifar og álgreifar, sem skila lítilli eða engri auðlindarentu. Rétt auðlindarenta ætti að standa undir velferð allra.

Gagnaver gagnast lítt

Punktar

Gagnaver eru ekki eins spennandi og margir telja. Þetta eru rafknúnir kælar með ærandi hvin innandyra. Störfin eru sáraeinhæf og felast í að renna út biluðum skúffum og renna inn nýjum skúffum í staðinn. Alls engin hálaunastörf handa tölvunarfræðingum og tæknifræðingum. Það er skítabisness miðað við tombóluverð á orku og stórafslátt af tekjuskatti, tryggingagjaldi, fasteignagjöldum, gatnagerðargjaldi, aðflutningsgjöldun, svo og vaskfrestun og aðstöðu til skattaundanskots. Þriðjaheimsdæmi frá A til Ö. Gagnaverin eru svipuð álverum, byggjast á rosakostnaði við byggingu orkuvera og nánast engum atvinnutækifærum.

Enn er svikið loforð

Punktar

Ríkisstjórnin hefur svikið enn eitt kosningaloforð stjórnarflokkanna. Engin vinna er í gangi í ráðuneytum við áður boðað lyklafrumvarp. Það átti að gera yfirskuldsettum eigendum kleift að afhenta kúgurum sínum lyklana að húsum sínum og ganga út skuldlausir. Báðir stjórnarflokkarnir lofuðu því. „Ekkert frumvarp er í smíðum í innanríkisráðuneytinu sem snýr að lyklamálum“, segir Ólöf Nordal, nýkominn ráðherra. Í stað þess að efna loforð sín reynir ríkisstjórnin að rústa innviðum samfélagsins, einkum Landspítalans. Og efna til ófriðar hjá þjóðinni. Spurning er, hvort eitthvað er enn lifandi af löngum loforðalista svikaranna.

Evrópa sundrar okkur

Punktar

Ég hafði lengi barist fyrir aðild að Evrópusambandinu. Samt sannfærður nú um, að hún sé ekki þess virði. Deilurnar í síðustu ríkisstjórn sannfærðu mig um, að þær sundruðu samstarfinu. Hér er augljós og eindregin andstaða við aðildina. Deilurnar um hana komu tveimur bófaflokkum til valda og urðu þjóðinni þannig til stórtjóns. Auk þess hefur Evrópusambandið versnað upp á síðkastið. Í stað áherzlu á félagslegan jöfnuð og neytendavernd komust siðblindir vinir bankstera og auðgreifa þar til valda. Fyrst með José Manuel Barroso og síðan með Jean-Claude Juncker. Eins og hér. Áróður fyrir aðild Íslands núna skemmtir bara skrattanum.

Þriðja heims Nordal

Punktar

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir lögreglustjórann hafa verið í góðri trú. Sigríður Björk Guðjónsdóttir sagðist telja, að kalli ráðuneyti eftir gögnum, beri að afhenda þau. Hún trúir á gerræði pólitíkusa fram yfir regluverk laga og réttar. Verið getur, að kvígildið geti sinnt einhverju starfi, en lögga getur það tæpast verið, hvað þá lögreglustjóri. Eigi einhver að fara eftir regluverki í þessu bananaríki, þá er það lögreglustjórinn. Nú fara allir að herma eftir henni. „Ég var í góðri trú, sá ekki skiltið“, segja bílstjórar. „Ég var í góðri trú, las ekki lögin“, segja banksterar. Þannig virkar þriðji heimurinn, obbosí.

Píratar styðja fólkið

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er enn og aftur í sínum botni með fjórðung kjósenda í nýrri könnun Gallup. Framsókn er enn í rúst með sín tíu prósent. Fylgi hennar hefur dreifzt til Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, en mest þó til Pírata, sem hafa þrefaldað fylgið frá kosningunum. Vinstri græn eru hins vegar frosin í rétt rúmlega kosningafylginu. Segir okkur, að ríkisstjórn bófanna nýtur lítils álits og er stöðugt í algerum minnihluta. Segir mér líka, að andstaðan er ekki tilbúin til að taka við. Samfylkingin hangir enn í Evrópuást og Björt framtíð er bara varahjól fjórflokksins. Aðeins Píratar styðja þjóðarviljann í raun.