Punktar

Varla líður sá dagur

Punktar

Varla líður sá virki dagur, að enginn ráðherra eða stjórnarþingmaður verði frægur af spillingu, heimsku eða fólsku. Hanna Birna er snúin aftur. Illugi er á framfæri orkuvíkings. Sigurður Ingi stelur makrílnum af þjóðinni. Blöndal vill gera láglaunafólk bótaskylt fyrir verðsamráð fyrirtækja. Páll Jóhann Pálsson segist ekki vanhæfur. Evrópuráðið sendir kvörtunarbréf út af séríslenzkri spillingu. Furðulegt er að horfa á þetta litla Ísland, þar sem kjósendur eru svona skakkir af meðvirkni og þrælslund. Að illa innrættir og illa heimskir bófar skuli geta rænt og ruplað öllu, sem þeir koma höndum yfir. Flýið íslenzkt ógeð til Noregs.

Fánum prýtt majones

Punktar

Framsókn gerir sér það til dundurs á þingi að leggja til, að íslenzkar afurðir verði merktar fánanum. Sér fyrir sér biðraðir í Fortnum & Mason, þegar þangað koma Ora baunir, Vals tómatsósa og Gunnars majones. Allt prýtt íslenzkum fána á umbúðum. Kaldhæðnir þingmenn benda þó á, að vænlegra til árangurs væri að setja mynd af Björk á umbúðirnar. Afdalakarlarnir með mosann í skegginu lifa í sérkennilega brengluðum heimi. Fremstur fer forsætis, vefur jafnan um sig fánanum og fer með þjóðsönginn, þegar menn atast í honum. Tillaga Framsóknar er sögð leiða til fleiri atkvæða í kosningum. Kjósendur eru veikir fyrir innantómri þjóðrembu.

Íslenzk skyndimenntun

Punktar

Misráðið er að stytta skólakerfið. Miklu nær væri að lengja það. Bæta við einu menntaskólaári í heimspeki, siðfræði og hugtakafræði. Háskólar útskrifa núna meira eða minna skyndimenntað fólk. Sjáið hagfræðingana, sem raða upp rugli á forsendum marklausra áróðurs-hugtaka á borð við framleiðni og hagvöxt. Sjáið lögfræðingana, sem kunna eingöngu orðhengilshátt. Sjáið guðfræðingana, sem eru útlærðir í biblíusögum og mistúlkun einnar ritningar. Stytting menntaskólanna mun enn frekar tryggja, að skyndimenntað fólk streymi úr háskólum, þjóðinni til vandræða. Nær er að lengja tímann og gefa fólki séns á að komast til þroska.

Refsað fyrir tjáningu

Punktar

Samkvæmt ítölskum fasisma Mussolinis átti fólk að standa saman stétt með stétt um eina stefnu, sem Mussolini ákvað. Eins og kaþólska kirkjan var fasisminn andvígur frjálslyndi. Þegar talað er núna um skoðanafasisma er átt við, að ekki sé bara ein skoðun rétt, heldur sé refsivert að birta aðra skoðun. Því brenndi kaþólska kirkjan fólk í gamla daga fyrir að segja jörðina hnöttótta og snúast um sólina. Skoðanafasismi okkar daga telur, að þagga beri niður tjáningu vondra skoðana. Þær geta til dæmis verið múslimahatur, útlendingahatur, nýbúahatur eða hommahatur. Skoðanafasismi vill refsa fólki að lögum fyrir að tjá vonda skoðun.

Þöggunarkrafa skoðanafasista

Punktar

Samtökin 78 heimta þöggun. Hyggjast kæra tíu manns fyrir svonefnd hatursummæli, „háð, róg og smánun“ í garð hinsegin fólks. Skref í átt til nýrrar þöggunar að hætti handhafa sannleikans. Móðgaðir fara að kæra fólk fyrir að tjá sig. Skárra þó en að grípa til vopna eins og móðgaðir múslimar. Eigi að síður upphafið að endalokum tjáningarfrelsis á vesturlöndum. Fleiri hópar handhafa sannleikans telja sig finna fyrir „vanlíðan“ vegna mótdrægrar tjáningar. Tjáningarfrelsi er samt hornsteinn lýðræðis frá upphafi þess. Menn hafa mátt tjá  „vondar“ skoðanir sínar eins og „góðar“. Þöggunarkrafa Samtakanna 78 er skoðanafasismi.

Móðgum pamfílana

Punktar

Um skeið töldu íslenzkir dómarar, að móðgun væri refsiverð, segðist sá móðgaði vera móðgaður. Slík móðgun kostaði milljón. Nú hafa dómarar fallið frá þessari sérstæðu heimildavinnu. Enn eru þó margir ósáttir við refsileysi fyrir að „svívirða, niðurlægja, smána og hæðast að fólki“. Er skemmst að minnast æðis, sem rennur á suma múslima, þegar gert er réttmætt grín að rugluðum spámanni. Ég hef aldrei fundið neinn færan um að úrskurða, í hvaða tilvikum skuli greiða milljón fyrir móðgun. Jafnan eru móðgaðir ófærir um að svara móðgunum öðruvísi en með að æpa „móðgun, móðgun, ég vil milljón“. Í lýðræði er þó brýnt að móðga pamfíla.

Sveppir éta eitur

Punktar

Á útskriftarsýningu Listaháskólans sýnir nemandi í iðnhönnun, hvernig nota má íslenzka matsveppi til að eyða eitri í jarðvegi. Sigrún Thorlacius líffræðingur og iðnhönnuður ræktaði sveppi, sem éta eitur á sorphaugum tæknialdar. Notaði þá til að hreinsa Renault Megane bílvél, löðrandi í eitri. Breytti mengandi efnum í meinlaus. Notaði sveppi gegn blýi og cadmium, olíum, sílikoni og kvikasilfri. Sýndi bílvélina, er sveppirnir voru að breyta í skaðlaust járnarusl. Fyndið er, að Listasafn Reykjavíkur sýnir hreinsun sílikons í Hafnarhúsinu. Í sömu viku og Reykjavíkurhafnir semja við Silicor um sílikonmengandi stóriðju á Grundartanga.

Afneitun til vansæmdar

Punktar

Síðan þjóðrembingar komust til valda í Tyrklandi með flokki Erdoğan forseta, hefur ríkið fjarlægzt Evrópu. Fylgifiskur þjóðrembings Tyrkja er afneitunin á þjóðarmorðinu á Armenum fyrir einni öld. Tyrkir eru jafnvel farnir að tala um sig sem fórnardýr vestrænna rógsbera. Afneitunin er Tyrklandi til vansæmdar og gerir ríkinu ókleift að taka sæti meðal vestrænna þjóða. Vægi nútíma í Istanbul hefur hnigið, en risið trúartengt afturhald frá sveitum Litlu-Asíu. Erdoğan forseti hnýtti saman þessa fortíðarhyggju og gróðafíkn innvígðra braskara. Tyrkland siglir frá hefðum lýðræðis til gerræðis að hætti ríkja spámannsins.

Naut í flagi

Punktar

Heldur daprast minnisvarðar Kristjáns L. Möller. Fyrrverandi samgönguráðherra er orðinn dýrasti ráðherra sögunnar. Fyrst var það Landeyjahöfn og síðan eru það Vaðlaheiðargöng. Í hvort tveggja var ráðizt af offorsi og óforsjálni, sem einkennir einbeitta kjördæmapotara. Bara drífa í þessu, hugsaði kratinn eins og hann væri Framsókn. „Árangur áfram, ekkert stopp“ var slagorð Framsóknar, en fleiri hafa reynzt kræfir. Á Landeyjasandi er dælt og dælt og ekkert lagast. Og í Vaðlaheiði verður dælt og dælt og ekkert lagast. Fleiri komu að ruglinu en Kristján einn, en ráðherra dæmist til að vera persónugervingur „nauts í flagi“.

Spurningar hunzaðar

Punktar

Hver snillingurinn á fætur öðrum segir okkur að leggja rafstreng til Bretlands hið bráðasta. Þannig verði raforkuverð sjöfaldað, að sögn snákaolíusölumanns úr Íhaldsflokknum. Ekki er enn upplýst, hver á að borga spottann eða ábyrgjast, að hann verði greiddur. Ekki er heldur enn upplýst, hversu mikið rafmagnið muni hækka til almennings, þegar raforkuverðið sjöfaldast. Enn síður er upplýst, hvaðan orkan eigi að koma. Ætla snákaolíusölumenn að virkja Skógafoss og Gullfoss? Makalaust er, að svona mikil froða sé um eina himnaríkissendingu án þess að knýjandi spurningum sé svarað. Lærum nefnilega aldrei af reynslunni.

Í tímavél til 2007

Punktar

„Þetta er eins og að vera kominn í tímavél stillta á 2007“, sagði bílasali, sem boðinn var nýlega í mikið Landsbankapartí á Kex um daginn. Bankinn var frægur fyrir veizluhöld árin fyrir hrunið, þegar Sigurjón Árnason skar heilsteikt svín í Hong Kong. Nú fetar Steinþór Pálsson í fótspor hans, að vísu ekki lengra en á Skúlagötu. Tilefni veizlunnar var kynning á nýjum bílalánum bankans í stíl við þau, sem fræg urðu fyrir hrun. Þau ollu miklum hörmungum og valda enn, hvað sem verður um uppvakning Steinþórs árið 2015. Vinstri stjórnin trassaði að koma böndum á óða bankastjóra. Og hægri stjórnin heldur ótrauð áfram ógæfubrautina.

Vestræn stefnubreyting

Punktar

Stuðningur við mannréttindi minnkar ört á vesturlöndum. Flokkar á hægri jaðri útlendingahaturs hafa fest rætur í mörgum löndum. Framsókn græddi tvo fulltrúa í borgarstjórn út á múslimahatur. Straumur flóttamanna yfir Miðjarðarhafið er benzín á bálið. Hratt færist áherzlan frá björgun mannslífa yfir í að hindra flutninginn. Mál einstakra hælisleitenda verða ekki lengur könnuð hvert fyrir sig. Þeir verða strax og án skoðunar sendir til baka eins og Ástralía gerir. Evrópa vill gera Líbýu að landamærastöð, sem gegn gjaldi stöðvar flóttamenn. Það blasir við, að Evrópa vill ekki fá milljón miðafríkumenn yfir Miðjarðarhaf.

Heimtum okkar eitur

Punktar

Silicor hét Calisolar til skamms tíma. Undir því heiti var fyrirtækið hrakið frá Toronto í Kanada og síðar frá Ohio og Missisippi í Bandaríkjunum. Mengunin frá verksmiðjunni keyrði út yfir allan þjófabálk. Silicor býr til poly-sílikon. Sú framleiðsla er svo mengandi, að einungis Kína vill sjá hana. Og svo auðvitað Ísland, sem elskar að velta sér upp úr mengun og svínaríi. Við þurfum stóriðju, hvað sem það kostar, segja sjálfstæðismenn, undir forustu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur ráðherra. Faxaflóahafnir hafa samið við Silicor um eiturfabrikku á Grundartanga án umhverfismats. Hvað verður um eiturefnið sílikon tetraklóríð? Hvað fær borgin í auðlindarentu fyrir að leyfa að eitra fyrir ríkisborgurum?

Tími íspinna liðinn

Punktar

Þrátt fyrir skerta heyrn samtaka atvinnurekenda finna sumir stjórar til sárrar taugaveiklunar. Fyrst sprakk á limminu hinn illræmdi Grandi, sem áður gaf fólki íspinna fyrir afrek í starfi. Nú fellst Kristján Loftsson á stóra bónusa fólks, sem slaga hálfa leið í bónus Kristjáns sjálfs. Lengi má manninn reyna. Samt er enn eftir að semja um launin. Víðar titra menn. Á Húsavík vilja tólf fyrirtæki ræða kjör á grundvelli kröfu Framsýnar um 35.000 króna mánaðarhækkun. Með sama framhaldi riðlast samstaða atvinnurekenda um að neita fólki um miklar hækkanir á núverandi smánarlaunum. Skjaldborg atvinnurekenda reynist vera úr sápukúlum.

Daglegar vinarkveðjur

Punktar

Fjölmiðlar bera okkur daglega vinarkveðjur frá atvinnurekendum. Segja okkur, að framleiðni vinnu okkar sé lítil og því geti kaupið okkar ekki hækkað. Samt er þjóðarframleiðsla á mann með þeirri allra hæstu í heiminum. Þess sér bara ekki stað í lífskjörunum. Þeir segja okkur, að laun séu hér hin sjöundu hæstu í heimi, en þess sér samt ekki stað í lífskjörunum. Ég veit ekki, hvern Ásdís Kristjánsdóttir „hagfræðingur“ er að sannfæra með gengdarlausu bulli af slíku tagi. Kannski er hún bara að halda Þorsteini Víglundssyni grátkarli uppréttum, þegar auraleysið er að svelta hann í hel. Við þurfum að hlúa að þjóðhetjunni.