Punktar

Vitfirrt trúarofstæki

Punktar

Alveg eins og Björk Guðmundsdóttir söngkona segir, er ríkisstjórnin vitfirrt. Trúir í blindni á hagspekilegar trúarsetningar, sem hafa verið prófaðar og hafa reynzt hættulegar. Svo sem um einkavæðingu og ósýnilega hönd markaðarins. Sumir ráðherrar ganga fram í þessu af ofsa. Ofan á vitfirringuna bætist svo eindregin tilfærsla fjármuna frá fátækum til hinna allra ríkustu. Ótrúlega ógeðfelld ríkisstjórn. Annað eins höfum við ekki séð hér á landi í heila öld. Á toppi trónir silfurskeiðungur, sem er sambandslaus við veruleika almennings. Biðjið því guð ykkar um hjálp í neyð þessa kjörtímabils. Þið, sem kusuð þetta, skamm.

Stabíl pólitík

Punktar

Skoðanakannanir sýna stjórnmálin í föstum skorðum allt þetta ár. Flokkarnir hafa fundið sinn sess. Píratar hafa þriðjung, Sjálfstæðis fjórðung og restin hefur tíund hver. Píratar mynda næstu stjórn með tveimur öðrum flokkum. Líklega með Samfylkingu og Vinstri grænum, ef ofstæki núverandi stjórnar linnir ekki. Samfylkingin og Vinstri græn þurfa að sætta sig við, að vera minni máttar, með samanlagt minna fylgi en Píratar einir. Svona verður það stabíl og góð pólitík. Unnt verður að vona, að nýja stjórnarskráin taki gildi; ríkisbáknið verði gert gegnsærra, sömuleiðis bankaheimurinn; auðgreifum verði settar þrengri skorður.

Í pels og á túttum

Punktar

Að þessu sinni eru heimsleikar íslenzka hestsins haldnir í Herning í Danmörku. Heimsleikarnir eru jafnan frábærir. 10.000 vinir íslenzkra hesta horfa á keppni í hinum frægu greinum, sem einkenna hestinn, tölti og skeiði. Í úrslitum verður allt snælduvitlaust á pöllunum, fylkingar stappa niður fótum og allt leikur á reiðiskjálfi. Ég hef aldrei fundið aðra eins stemmningu. Hvergi annars staðar kemur barónessa í pels úr Rolls Royce og stígur gömlum íslenzkum gúmmítúttum á jörð. Í heiminum eru þúsundir auðdætra, sem verja tugmilljónum í vináttu sína við þessa vingjarnlegu og hæfileikaríku tegund hesta. Sem veltir milljarði.

Siglufjörður er tromp

Ferðir, Punktar

Nýja hótelið á Siglufirði er aðstandendum og yfirvöldum til sóma. Fellur alveg að mannvirkjum, sem fyrir eru í miðbænum. Lágreist eins og gömlu húsin, einfalt og látlaust eins og þau. Passar við skemmur og vinnslustöðvar. Allt önnur Ella en tilsvarandi hótel í Reykjavík, sem lýsa frati á umhverfi sitt. Siglufjörður er orðinn eitt mesta aðdráttarafl landsins, skemmtilegri en Akureyri, sem býður sundurtætt Hafnarstræti. Á Siglufirði er það allur pakkinn, söfn, kaffihús, matarhús og hótelið. Eftir dýrð Siglufjarðar er óneitanlega dapurlegt að keyra gegnum Ólafsfjörð og Dalvík á hæsta löglega hraða. Þar stoppar mann ekki neitt.

Látið ekki bófana sleppa

Punktar

Stjórnendur Landspítalans segja efnislega: Þetta er vont, en það venst, verði það ekki verra. Svo verður það verra. Þá segja þeir efnislega: Þetta er vont, en það venst, verði það ekki verra. Svo verður það verra. Fatta ekki, að rólega er spítalann kyrktur til að rýma fyrir einkarekstri. Spítalafólkið tekur á sig ábyrgð af að segja engan skaðast. Samt skaðast fólk og deyr núna drottni sínum. Ríkisstjórnarbófar eiga að bera ábyrgðina, ekki spítalafólk í spennitreyju. Það á að segja: Þetta er komið yfir mörkin, við ráðum ekki við þetta lengur. Verðum að rifa segl, skerða þjónustu og rýra lífslíkur vegna ofbeldis pólitískra bófa.

Niðurstöður komnar í hús

Punktar

Við höfum fordæmi einkavæðingar heilbrigðismála í Bandaríkjunum. Eru tvöfalt dýrari en í Norður-Evrópu og þjóna aðeins helmingi þjóðarinnar, þeim sem betur standa. Sem sagt fjórum sinnum óhagkvæmari. Hægri ríkisstjórnir í Svíþjóð hafa fikrað sig í sömu átt. Og niðurstöðurnar eru þegar komnar í hús. Einkavæðing heilbrigðismála eykur kostnað og minnkar þjónustu. Þetta gátu Svíar raunar sagt sér áður, með því að skoða Bandaríkin. En þeir þurftu samt að prófa. Minnir á Íslendinga. Ásdís Halla hefur líka fengið að prófa hér, með hörmulegum árangri. Sjúkrahótel hennar urðu minnisvarði um græðgi, sóðaskap og skort á þjónustu.

Einmana forstjóri

Punktar

Flutningur Fiskstofu fólst á endanum í, að forstjórinn flytur norður og enginn annar. Dæmigerð íslenzk niðurstaða. Felst í svo miklu rugli, að ekki er einu sinni hægt að hlæja. Fjármunum skattgreiðenda er fleygt út í tómið eitt. Ætla mætti, að Sigurður Ingi sé í vandræðum með að koma peningum þínum í lóg. Þessir vitleysingar hanga dauðahaldi í mistökum sínum og fást alls ekki til að slaka á klónni. Þetta er eins og náttúrupassinn hjá Ragnheiði Elínu. Eða einkavæðing Landspítalans hjá Kristjáni Þór. Eru eingöngu fávitar í ríkisstjórninni? Nóg er, hversu illa innrættir ráðherrarnir eru. Verri glæpur er þó heimska þeirra.

Samfylkingin í blakkáti

Punktar

Samfylkingin ráfar um pólitík eins og róni í blakkáti. Kannanir sýna stuðning fólks við velferð. Varla mælist fylgi við einkarekstur í heilsugeiranum. Á sama tíma er Samfylkingin á flótta undan gömlum stefnumálum. Heldur, að gósenlandið sé að finna í nýfrjálshyggju. Ætlar seint að losna undan dáleiðslu Tony Blair stríðsglæpamanns. Stefnuskrá flokksins og ræður þingmanna fikta við tilraunir í einkavæðingu heilbrigðismála. Ráfa þar í fótspor Bjartrar fortíðar. Hvaða fylgi er Samfylkingin að sækjast eftir yzt af hægri jaðrinum? Hún er þar alveg í sama rugli og brezki Labour, sem skilur alls ekki fylgi fólksins við Jeremy Corbyn.

Gagnslaus Potemkin-tjöld

Punktar

Tími Potemkin-tjalda er löngu liðinn. Haustið 2008 var sá tími liðinn hér. Áður gátu menn sýnt keisaranum eitt andlit og almenningi annað. Þannig var haldið við rósrauðri ímyndun. Landsspítalann stendur árið 2015 í þessum vanda. Hefur ekki lengur burði til að veita þjónustu að norðurevrópskum hætti. Tekið er þá til þess ráðs að veita fyrirmennum óbreytta þjónustu. Spítalinn er þannig að reyna að sýnast fyrir ráðamönnum. Lakari þjónustan leggst þá af meiri þunga á almenning. Nokkur dæmi hafa birzt um slíkt. Þetta er misráðin stefna. Tækni upplýsingamiðlunar er orðin svo almenn, að Potemkin-tjöld fela ekkert lengur.

Enginn styður gegnsæi

Punktar

Píratar styðja sumir afnám gegnsæis í álagningarskrám. Skortur á persónuvernd er samt ekki knýjandi vandi hér á landi. Skortur á gegnsæi er hinn stóri vandi Íslendinga eins og alls mannkyns. Reynt er að halda öllu leyndu fyrir fólki. Til þess að þið sjáið ekki spillinguna, rotnun samfélagsins. Ef þið sjáið ekki vinnukonuútsvör gróðafíkla, haldið þið kannski, að allt sé í stakasta lagi. Og látið bófaflokkana í friði. Hér á landi felst persónuvernd í persónuvernd glæpa og rotnunar. Samt eru peningar ekki einkamál, þeir eru opinberir, eiga að vera gegnsæir. Enginn flokkur styður gegnsæi, ekki einu sinni tvístígandi píratar.

Kostulegur klúbbur

Punktar

Við erum í kostulegum bófaflokki, sem heitir Nató. Þar stjórna hin stríðsóðu Bandaríkin. Þau borguðu Isis fyrir að berjast við Assad Sýrlandsforseta. Misstu svo tökin á Isis eins og þau misstu áður tökin á Al Kaída. Nató er í sömu villu og Bandaríkin, styður nú árásir Tyrkja á Kúrda, helztu óvini Isis í Sýrlandi og Írak! Ruglið er auðvitað engu lagi líkt. Bandaríkin eru alltaf í vinfengi við verstu bófa heims. Minna á ÓRG. Glötuðu völdum í Suður-Ameríku, sitja uppi  með Sádi-Araba á Arabíuskaga, sem rækta terrorista gegn vestri. Nefnum ekki Ísrael. Við getum verið í ruglinu okkar hérna heima, án þess að taka líka þátt í Nató.

Einkavæðingunni hafnað

Punktar

Í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar sést mikið og vaxandi fylgi við opinberan rekstur heilbrigðismála. Stuðningurinn hefur aukizt frá svipaðri könnun fyrir níu árum. Þorrinn tekur opinberan rekstur fram yfir einkarekstur. Fylgi mælist varla við einkarekstur heilsugæslustöðva, endurhæfingarstöðva, heimahjúkrunar, hjúkrunarheimila og lýðheilsustarfs. Mikill meirihluti er fyrir ríkisrekstri annarra þátta, svo sem tannlækninga og læknastofa. Þjóðin hafnar einkavæðingu heilbrigðismála. Þvert á móti vill hún félagsvæða. Kristján Þór aflar því ekki fylgis á að rústa Landspítalanum að undirlagi ofsatrúar Óla Björns Kárasonar.

Sparkað í smælingja

Punktar

Hætt er við, að kvarnist úr velvild þjóðarinnar í garð Landspítalans, ef dæmi hlaðast upp um hirðuleysi í meðferð smælingja. Nýlega var fjallað um tvö slík dæmi. Á bráðadeild var fínifrú með hruflaða hendi tekin fram fyrir plebbastrák með brotinn sköflung og áverka á höfði. Aldraður hjartasjúklingur var rekinn heim peningalaus um miðja nótt og varð nánast úti á heimleið. Athyglisvert er, að yfirmenn spítalans vilja ekki ræða þessi mál. Mannauðsstjóri bráðamóttöku neitaði bara staðreyndum. Forstjórinn lætur ekki ná í sig, yfirmenn sinna ekki loforðum um samband og fela sig síðan eins og forstjórinn. Spítalinn að bresta?

Þöggun á þjóðhátíð

Punktar

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur tekið að sér hagsmunagæzlu aðstandenda Þjóðhátíðar. Páley Borgþórsdóttir krafðist þess bréflega, að þeir, sem koma að meðferð kynferðisbrota, haldi kjafti við fjölmiðla. Þöggun sína byggir hún á persónulegri skoðun, sem stingur í stúf við nútímaþekkingu. Er ekki faglega hæf til að halda fram slíkri skoðun, enda ekki vitað, hvaðan hún hefur hana. Lengi hefur loðað við Vestmannaeyjar, að þar sé kjörlendi slíkra afbrota um þessa ferðahelgi. Hagsmunaaðilum líkar miður, að fjallað sé um slík mál, ef það kynni að rýra tekjur. Einsdæmi er þó, að lögreglustjóri fari í skítverkin fyrir þá.

Aukum gegnsæi álagningar

Punktar

Fyrir 2001 voru upplýsingar úr álagningarskrám skatta birtar í Noregi á sama hátt og hér. Hægt var að fletta skránum í þrjár vikur á skrifstofum skatts og sveitarfélaga. Árið 2001 var birtingafrelsið aukið í Noregi. Þá voru þessar skrár gerðar öllum aðgengilegar á veraldarvefnum og árið um kring. Þetta bætti skattaskil í Noregi um 3%. Búast má við svipuðum árangri hér. Ekki sízt, ef skrárnar eru uppfærðar mánaðarlega eins og Gunnar Th. Kristinsson, staðgengill skattrannsóknastjóra bendir á. Við þurfum að losna úr viðjum meinlokunnar, að fjármál séu einkamál. Leyndó í fjármálum er hornsteinn íslenzkrar spillingar.