Punktar

Miðaldir gegn nútíma

Punktar

Framtíð fjölmenningar er dökk um alla Evrópu, líka á norðurlöndum, þar á meðal hér. Ítrekaðar fréttir af lokun járnbrautarstöðva, almenningstorga og brúa; af árásum á konur á götum úti. Her og lögregla verður það, sem sést bezt á götum. Köln. Bruxelles og París eru dæmin. Hvert atvik magnar óbeit fólks á múslimum. Fólk sér hættu á hverju horni, ekki að ástæðulausu, gleymum því ekki. Móttaka hælisleitenda frá löndum múslima mun dofna. Fólk hættir ekki lífi og limum í þágu fjölmenningar. Hún er dæmd til að verða að „collateral damage“ í stríði miðalda gegn nútíma. Þöggunin um vandann í Þýzkalandi mistókst einfaldlega.

Teiknidólgarnir

Punktar

Fyrirhugað hús á horni Lækjargötu og Tryggvagötu er miklu verra en fyrirhugað hús á horni Lækjargötu og Vonarstrætis, sem einnig er forljótt. Í fyrsta lagi er fyrra húsið tveimur hæðum of hátt og þar á ofan fáránlega mikil andstæða við umhverfið. Dagur B. Eggertsson og Hjálmar Sveinsson telja sig þurfa að skríða fyrir bröskurum. Ættu þó að geta gert fegurðarkröfur. Hafa greinilega ekki auga fyrir fegurð, ekki frekar en braskararnir, sem hafa þá í þrælkun. Nógu mikið hefur verið fjallað um málefnið, kominn tími til að fara í manninn. Hverjir eru teiknidólgarnir, sem fórnuðu fagheiðrinum í viðurstyggðina?

Braskaraborgin

Punktar

Reykjavíkurborg og skipulagsráð hennar hafa misst þróun Reykjavíkur úr höndum sér í krumlur braskara. Samþykktir eru forljótir steypu- og glerkassar, sem gernýta lóðarpláss og stinga í stúf við stíl miðborgarinnar. Lóðarverð að baki einnar íbúðar er eitt og sér að hoppa yfir þrjátíu milljónir króna. Bílastæði eru nánast bönnuð og íbúar nýrra húsa leggja bílum við gömlu húsin. Þannig eru lífsgæðin rýrð víðs vegar um borgina. Ástin á bröskurum blandast saman við óskhyggju upp úr áróðri um nýjan lífsstíl gangandi og hjólandi fólks. Ég sé ekki, að núverandi meirihluti verði upp á marga fiska í næstu borgarkosningum.

Uppskrúfuð karlremba

Punktar

Hef komið til ríkja múslima og dvalizt viku eða tvær í hverju þessara ríkja: Marokkó, Egyptalandi, Palestínu, Jórdaníu, Tyrklandi og Íran. Hitti heimamenn, einkum kaupmenn, leigubílstjóra og kaffihúsaspekinga. Þetta er prýðisfólk eins og fólk á vesturlöndum. Sá munur er á, að trúin er miklu miðlægari í lífsmynd þeirra. Fara daglega í mosku og falla oft á dag á hné sín í bæn. Tengd trúnni er hin skarpa karlremba, sem litar allan heim múslima. Margfalt magnaðri en karlremba er á vesturlöndum. Það merkilega er svo, að mögnuð karlremban linast ekki, þegar múslimar flytjast til vesturlanda. Og veldur þar rosalegum vanda.

Þegja fyrst – ljúga svo

Punktar

Þöggun hefur öfug áhrif, þegar hún kemst upp. Nú sést, að yfirvöld í Svíþjóð og Þýzkalandi ljúga skipulega um vanda tengdan múslimum í hópi innflytjenda. Verra er, að fjölmiðlar taka þátt í þessari þöggun. Þannig sjá Þjóðverjar, að fjölmiðlar þögðu um nýjársnótt í Köln í fjóra daga í von um, að vandinn gufaði upp og hyrfi. Hundrað konur urðu fyrir skelfilegri lífsreynslu, en yfirvöld og fjölmiðlar þögðu bara. Þögðu bara. Sögðu svo, að ekki væri hægt að fullyrða neitt um gerendur. Haldið þið, að fólk sé lengur tilbúið að trúa? Sú aðferð að leysa vanda með því að þegja fyrst og ljúga svo hefur gengið sér til húðar.

„Græðgi er góð“

Punktar

Græðgi er góð, spakmæli Ayn Rand og Hannesar Hólmsteins, hefur valdið skaða á þjóðarsálinni. Andverðleikafólk með aðstöðu hefur misnotað spakmælið til að telja sér trú um eigin gæzku og jafnvel göfgi. Geðbilað fólk er talið manna bezt hæft til að stjórna stóru bönkunum. Strætó og Isavia eru svipuð martröð. Allt þetta svínaríi á jaðri ríkis og einkarekstrar stjórnast af græðgi. Sjáið sporin út um allt, í sjúkrahóteli Ásdísar Höllu og menntaskóla Ólafs Johnsen. Undir pilsfaldi ríkisvaldsins eru gráðugir að rupla og ræna þjóðina. Hugsjón veruleikafirrts andverðleikafólks með góð sambönd er einföld: Græðgi er góð.

Illa flughæft Mýflug

Punktar

Rúmum klukkutíma fyrir lendingu boðaði flugstjóri Mýflugs fjölmiðlum lendingu á hinni umdeildu stuttbraut í Reykjavík. Þegar flugvélin lenti þar, voru allar aðrar flugvélar að lenda á langbrautunum, sem venjulega eru notaðar. Er Mýflug sneri til baka, notaði það aðra langbrautina. Þá voru fjölmiðlar ekki boðaðir. Málið var stönt eða farsi, hluti af áróðursstríði flugstjórans og félaga. Eru flugvélar Mýflugs verr en aðrar vélar til þess hæfar að lenda í Reykjavík við svona aðstæður? Gáfulegra væri þá að semja um sjúkraflug við annað félag, sem getur boðið lendingarhæfar flugvélar. Sjúklingarnir eiga það líklega skilið.

Skip gamlingjanna

Punktar

Fáfnir er hrunfyrirtæki, þar sem gróðafíklar vildu græða glás á nýrri útrás. Fengu fínar fyrirgreiðslur í bönkum, þar sem menn elska flotta loftkastala. Beztar viðtökur voru hjá lífeyrissjóðunum, sem fannst upplagt að sóa peningum gamlingjanna í hillingar. Smíða átti og reka skip, sem fengju rosatekjur af þjónustu við olíuborpalla á Drekasvæðinu. Polarsyssel er komið og dútlar við Svalbarða, því borpallana vantar. Dýrasta skip okkar, upp á fimm milljarða. Í smíðum er enn stærra skip. kostar enn meira, Fáfnir Viking. Skellurinn lendir svo á gamlingjunum. Sem hafa það of helvíti gott að mati firrtra landsfeðra.

Hægjum á ferðafólki

Punktar

Ferðamönnum fjölgaði 25% árið 2014 og 30% árið 2015. Ekkert lát er á rosalegri sprengingu í ferðaþjónustu. Björk og bíómyndir trekkja áfram. Ferðaþjónustan mun áfram tryggja rúmlega fulla atvinnu í landinu næstu ár. Því þarf að stinga við fótum. Ragnheiður Elín Árnadóttir getur ekki treyst innviði á ferðastöðum. Frá henni kemur ekkert vitrænt, getulausri til allra verka. Hana þarf að reka strax, svo ferðamenn geti pissað og kúkað. Gera þarf atlögu að undirborgunum starfsfólks og vasksvikum fyrirtækja. Setja þarf upp lágmarkslaun, fráleitt að reisa nýjan atvinnuveg á skítalaunum. Ferðabransinn á að vera hálaunabransi.

Dýr aðlögun

Punktar

Landamærum Evrópu hefur meira eða minna verið lokað fyrir flóttafólki. Sjónir fólks beinast í auknum mæli að flóttafólkinu. Hvað á að gera við allt fólkið, hver á að útvega húsnæði, mat, aðlögun, heilsuvernd og skólagöngu. Ekki síður hver á að siða mannskapinn og hver á að borga. Falsaða bókhaldið dugir ekki. Í Svíþjóð kom í ljós, að yfirlýstur hagvöxtur felst ekki í, að flóttafólk hafi eða fái neina vinnu. Felst bara í, að fjöldi Svía fær góða vinnu við að sinna flóttafólki. Sumt af því er óvinnufært af trúarástæðum og tengdum miðalda-ósiðum. Kostnaður við aðlögun miðaldafólks að veraldlegu lífi verður meiri en annarra.

Ofbeldi frá miðöldum

Punktar

Þýzkaland er í áfalli yfir árásum þúsund ungra hælisleitenda og nýbúa á konur í Köln, Hamborg og Stuttgart. Drukknir múslimar óðu um götur og torg án þess að óviðbúin lögregla fengi að gert. Því er þöggunin að hrynja um glæpabylgju, sem fylgir hælisleitendum með sjónarmið úr miðöldum. Norðurlandabúar eru líka að fatta, að fjölmiðlar reyna að fela aðild múslima að ofbeldisglæpum. Málugir fjölmiðlar eru sakaðir um rasisma. „Af hverju draga fram trúna“, er spurt, „fjölmenning er góð“. Nú er þagnarmúrinn hruninn. Brostin er afneitun á vanda aftan úr miðöldum. Eigum ekki að bjóða hingað miðaldafólki, það er of dýrt.

Der Spiegel:
„Die Täter stammen übereinstimmenden Aussagen zufolge aus dem nordafrikanischen und arabischen Raum“.

(Die Zeit)

35% siðblindingjar

Punktar

Vísindalegar skoðanakannanir sýna fáséða festu í stuðningi kjósenda við flokka í átta mánuði samfleytt. Ríkisstjórnin og flokkar hennar komast ekki neðar en í 35% fylgi og sitja þar fastir. Samt kemur ítrekað fram, að þetta eru bófar og bjánar, sem vilja þjóðinni illt. Flest er þetta siðblint lið, sem reynir að rústa innviðum samfélagsins sem allra mest á sem skemmstum tíma. Þjóðinni er lífsspursmál að losna undan oki lyginna mannhatara. Þegar 35% kjósenda eru á öndverðum meiði, má ljóst vera, að verkefnið er einkar erfitt. Með frumlegum loforðum getur græðgisliðið að auki vélað 15%, fávitana, í næstu kosningum.

Fréttir segja fátt

Punktar

Fréttir af stjórnarskrárnefnd alþingis eru dæmi um, hversu lélegir fjölmiðlar eru orðnir. Spyrja ekki augljósra spurninga, lesendur eru litlu nær um kjarna máls. Hvernig stendur á misvísandi upplýsingum? Hvers vegna segir formaðurinn, að niðurstaða fáist á árinu, en einstakir nefndarmenn segja, að ósamkomulag sé um allar greinar? Hvers vegna ríkir alger leynd um framvindu málsins? Hvers vegna er ekki skoðuð fullbúin stjórnarskrá fólksins, sem fjórflokkurinn hefur læst niður í skúffu. Þetta er ekki einstakt dæmi. Á hverjum degi klóra ég mér í hausnum yfir fréttum, er sjálfkrafa leiða til fleiri spurninga en þær svara.

Lekandi settur í hleranir

Punktar

Lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu er grunaður um að leka upplýsingum um gang rannsókna á umfangsmiklum fíkniefnamálum. Mikilvægt er fyrir afbrotamenn að fá slíkar upplýsingar, því að verð tekinna fíkniefna getur í einu máli numið einum milljarði króna. Annars staðar í heiminum væri slíkur lekandi gerður óskaðlegur, meðan málið væri skoðað. Ekki hér. Lögreglumaðurinn var færður yfir í hleranir símtala, þar á meðal í fíkniefnamálum. Þannig veit hann, hverjir eru hleraðir á hverjum tíma og getur lekið verðmætari upplýsingum en nokkru sinni fyrr. Kannski stígur lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins ekki í vitið.

Schengen rotaðist

Punktar

Schengen er fallið úr gildi. Sérhvert ríki setur upp hindranir á landamærunum og vísar flóttafólki burt. Danmörk sendi herinn að landamærum Þýzkalands og setti þar upp eftirlit. Svíþjóð setti upp eftirlit á brúnni yfir Eyrarsund og á ferjum, sem sigla yfir sundið. Efnahagssvæðið Kaupmannahöfn-Málmey er laskað í bili, því ferðin yfir brúna fram og til baka hefur lengzt um klukkutíma. Í Austur-Evrópu er landamærum hreinlega læst og sama er um Ermasundsgöngin til Bretlands. Partur af því að lenda í styrjöld menningarheima. Evrópusambandið lætur reka á reiðanum, enda stýrt af undirmálsfólki, sem ver ekki ferðafrelsi okkar.