Punktar

Gatslitið öryggisnet

Punktar

Í ágætri úttekt Gunnars Smára í Fréttatímanum kemur fram, að samtals séum við 140 milljörðum á ári neðan við norræna velferð. Til viðbótar upplýsingum Kára Stefánssonar um 45 milljarða skort í heilsu kemur 95 milljarða skortur vegna gamlingja, barna, foreldra og öryrkja. Íslenzka öryggisnetið er miklu veikara en það norræna. Samt eru þjóðartekjur á mann hér eins og á norðurlöndum. Erum ekki á norrænni línu, heldur milli hennar og bandarískrar línu. Upplýsingarnar eru frá Nomesco, sem er gagnagrunnur hagtölunefndar Norðurlandaráðs. Engin furða er, að ungt barnafólk flýi vonleysið hér til mannsæmandi lífs í Noregi.

Fávitahæli kontórista

Punktar

Utanríkisráðuneytið sendi í gærkvöldi samningamann úr TISA viðræðunum á fund í Norræna húsinu að kynna málið fyrir áhugafólki. Vissi lítið um málið, minna en fundargestir. Hafði ekki kynnt sér birtingu leyniskjala Wikileaks um málið né fréttir fjölmiðla. Sé þessi sauður hinn skásti í ráðuneytinu, hvernig eru þá hinir? Upplýst var, að ráðuneytið rekur eins sofandi að feigðarósi þessa dagana og það hefur gert frá upphafi. Langvinn umræða um málið hefur engin áhrif haft. Okkur er skutlað í martröð, þar sem gráðug risafyrirtæki hafa réttarstöðu þjóðríkja í viðskiptapólitík heimsins. Ráðuneytið reynist bara vera fávitahæli kontórista.

Fréttir af vini ÓRG

Punktar

Margir vilja vingast við Rússland eins og Ólafur Ragnar. Þar er mjög sérstætt stjórnarfar. Gagnrýnendum Pútíns er kálað með fjölbreyttum hætti. Munið þið eftir Litvinenko, Politovskaya, Magnitsky og Nemtsov? Í landinu er þjófræði undir stjórn Pútíns í bland við vænisjúka þjóðrembu. Mannslíf eru einskis virði. Þotur í farþegaflugi skotnar niður, sambanber MH17. Í Beslam umsátrinu drápust 334 gíslar, þar af 186 börn. Slíkt gerist ekki í vestrinu. Leikreglur gilda ekki í Rússlandi Pútíns. Þegar ríki með minni framleiðslu en Ítalía ein þykist vera heimsveldi, verður eitthvað undan að láta, til dæmis mannréttindi.

Stríð á röngum stað

Punktar

Bernie Sanders hefur rétt fyrir sér. Það er ekki hlutverk vestrænna herja að heyja stríð í miðausturlöndum. Hvorki að reyna að hefja þau eða að ljúka þeim. Deilur milli greina íslams í heimi múslima eru eingöngu á færi múslima sjálfra. Vilji þeir losna við Isis, Talibana eða Wahabisma, þá gera þeir það sjálfir. Löng röð hörmunga hefur fylgt vestrænum afskiptum af málum í þeim heimshluta. Afganistan og Írak eru hræðilegustu dæmin. Evrópa átti aldrei og á aldrei að vera taglhnýtingur Bandaríkjanna. Herir í Evrópu hafa frekar það hlutverk að verja eigin brautarstöðvar, borgartorg og önnur almannarými fyrir terroristum.

Margs konar frjálshyggja

Punktar

Sem virkur í athugasemdum setti ég þennan texta á vegg annars staðar í morgun:
Frjálshyggja (libertarianism) er:
A. Tvítugur Heimdellingur, sem hatar ríkið, vill einkarétt umfram almannarétt og trúir á ósýnilega hönd markaðarins.
B. Þrítugur fyrrverandi Heimdellingur, sem er ósáttur við fertuga Heimdellinginn og leitar skjóls hjá pírötum.
C. Fertugur Heimdellingur, sem hefur öðlast næga reynslu til að trúa á góð sambönd og hlýjan pilsfald ríkisins.
(Fleiri tegundir eru til, sjá hér í færslunni á undan, en þessar eru skemmtilegastar)

Orð sem framkallar þoku

Punktar

Þegar flokkur eflist, sjá margir þar tækifæri til frama. Stundum eru prófkjör yfirtekin til að gæta þannig hagsmuna. Slík samtök hafa oft fæðst í Heimdalli. Flokkar þurfa að vera á varðbergi. Margir píratar óttast því innreið frjálshyggju. En orðið frjálshyggja þýðir margt. Hún getur falizt í ríkis- og skattahatri, í einkarétti gegn almannarétti. Stundum er hún bara fínt orð yfir rugl Hannesar Hólmsteins og Davíðs Oddssonar. Felist hún hins vegar í frelsun fátækra og annarra minni máttar undan okinu, er hún flott. Eða sem tæki í samskiptum, svo sem frjálsum markaði, sé hann til. Orðin geta stundum ruglað okkur í ríminu.

Er Guð sekur í Kaupþingi?

Punktar

Hef áður sagt, að Páll Vilhjálmsson er einn skemmtilegasti bloggari okkar. Sér oft vinkla, sem enginn annar gefur gaum. Í dag spyr hann um héraðsdóminn í Chesterfield-máli Kaupþings: „Kannski eru héraðsdómararnir þeirrar skoðunar, að guð almáttugur hafi verið að verki?“ Vísar til Adolf Eichmann, sem vildi náðun, sagðist bara hafa fylgt fyrirskipunum. Héraðsdómur virðist taka rök Eichmann góð og gild. Ekki hafi komið í ljós, hver gaf ordruna og því sé ekki hægt að sakfella neinn í goggunarröðinni. Dómurinn í máli Eichmann var öfugur við hinn íslenzka héraðsdóm. Skondinni útkomu verður án efa áfrýjað, Guði til verndar.

Skítur á priki

Punktar

Sem betur fer er ört vaxandi stuðningur við listamannalaun. Hann mældist 39% árið 2010, 46% árið 2013 og núna 53%. Á sama tíma hefur andstaðan minnkað úr 61% árið 2010, í 54% árið 2013 og núna niður í 47%. Þetta sýnir ört vaxandi meðvitund um mikilvægi menningar. Ágúst Einarsson prófessor telur hana leggja 4% í þjóðarbúið, samanborið við 1% hjá landbúnaði og 11% hjá sjávarútvegi. Þar að auki er hluti sprengingar í ferðaþjónustu tengdur menningu. Í samanburði við þetta eru listamannalaun bara skítur á priki. Auðvitað reyna bófar að dreifa athygli fátækra frá kúgurum sínum með því að magna árásir á listamannalaun.

Þorri fólks veit þetta

Punktar

Flestir Íslendingar þekkja dæmi um hrun heilsukerfis hins opinbera. Fjölskyldur hafa komið saman um jól og áramót. Þar hafa flogið upplýsingar um kostnað fólks af veikindum sínum og langvinnri setu á biðlistum. Fjölmiðlar hafa birt þúsund fréttir af þessari hægfara kyrkingu heilsuþjónustunnar. Allur þorri fólks veit, að verið er að svelta velferðarkerfi heilsunnar. Einu mótbárurnar koma frá ráðherrum, sem gefa órökstuddar yfirlýsingar um gæði þjónustunnar. Einnig frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Brynjari Níelssyni, sem veifa brengluðum töflum. Telja töflurnar mikilvægari en veruleikann. Það er beizkt vegarnesti í pólitík.

Styrjöld menningarheima

Punktar

Margir fræðimenn hafa skrifað vandaðar bækur um sambúð vesturs og íslams. Með þeim fyrstu var Samuel Huntington, sem skrifaði 1993 greinina „The Clash of Civilizations“ og síðan samnefnda bók. Kenningar hans hafa elzt einna bezt. Hann rekur stríðsvanda heimsins, er hefur þungamiðju í styrjöldum innan íslams og milli íslams og annarra menningarheima. Íslam hefur ætíð verið hernaðarlega sinnað og átt erfitt með að samlagast annarri menningu. Það hefur síðan verið staðfest í flótta múslima til Evrópu. Margir múslimar aðlagast ekki, kynslóð eftir kynslóð. Þetta er þriðja heimsstyrjöldin, sem hófst í París í fyrra.

Bjarni Ben umpólast

Punktar

Þegar fyrri ríkisstjórn var komin niður í 37% fylgi í könnunum, heimtaði Bjarni Benediktsson afsögn. Nú er ríkisstjórn bófans komin niður í 30% og hann segir samt ekki af sér. Lítið mark á svona gaur. Þar á ofan telur ríkisstjórnin sér fært að flytja hvert málið á fætur öðru þvert á vilja fólks. Fylgislítil stjórn á ekki að ögra fólki, heldur sigla lygnan sjó. Eins og Bjarni vilji skemma sem mest á því rúma ári sem eftir er. Líti á næstu kosningar sem sín leiðarlok. Kosningabaráttan er hafin og í fyrsta skipti lætur ríkisstjórn ríkið borga fyrir sig áróðurinn. „Ríkið, það er ég“. Ekki verður það til að sætta fólkið.

Hástig andverðleika

Punktar

Andverðleikasamfélagið nær hástigi í banksteranum Steinþóri Pálssyni. Opnar ekki munninn án þess að stinga fætinum upp í hann. Allt frá bankaskrifstofum við Hörpu yfir í gjafir til Engeyinga. Aldrei hefur hann hugmynd um andúð fólks og ævinlega eru útskýringar hans og hroki einskis virði. Fær skriðu eineltis í hausinn hverju sinni. Fer svo að útskýra mál sitt og flytur okkur ný og breytt undanbrögð á hverjum degi. Inn á milli upplýsir hann fátæklinga um, að hér sé „blússandi góðæri“. Væntanlega hjá banksterum. Skil ekki, að nokkrum ráðherra eða bankasýslumanni geti dottið í hug, að hann sé frambærilegur til neinna verka.

50 milljarða rústabjörgun

Punktar

Ekki er ofáætlað, að rústabjörgun heilsukerfisins kosti 50 milljarða á ári. Fjölga þarf tækjum og endurnýja, fjölga stöðugildum og hreinsa þannig biðlista. Afnema þarf þátttöku sjúklinga í heilsukostnaði. Taka þarf tannviðgerðir inn í heilsukostnað hins opinbera. Morð fjár kostar að lyftast úr kviksyndi þriðja heimsins upp í norðurevrópsk gæði. Vel er sloppið, ef þetta rúmast allt innan 11% hlutdeildar heilsukostnaðar í landsframleiðslu. Við verðum að gera þetta, svo að unga fólkið flýi síður rústirnar. Við náum þessu í fullri auðlindarentu og í endurupptöku auðlegðarskatts. Þá þarf ekki að skera neitt niður á móti.

Undirbúningur í ólestri

Punktar

Hvorki ríkið né Rauði krossinn undirbúa það brýnasta við móttöku flóttamanna. Þeir eru ekki fræddir um vestræn gildi, sem móta líf fólks á Vesturlöndum. Eru ekki fræddir um, að sharia sé hér ógilt. Eru ekki fræddir um, að í veraldlegu þjóðfélagi tíðkist að gera grín að guðdóminum, hver sem hann er. Eru ekki fræddir um jafnstöðu karla og kvenna, né að karla skorti ægivald yfir konum sínum og dætrum. Ekkert er gert til að hindra, að konur lokist mállausar inni á heimilum og innprenti sonum brenglaðar miðaldir. Reynsla annarra ríkja bendir til, að slík atriði valdi skertri aðlögun margra múslima kynslóð eftir kynslóð.

Frelsi ríkra eða fátækra

Punktar

Frelsi getur verið frelsi hinna sterku til að níðast á þeim veiku. Getur líka verið frelsi hinna veiku til að verjast hinum sterku. Ríkið getur verið lóð á vogarskálina hvoru megin sem er. Ríkið er hvorki gott né vont að eðlisfari. Er bara brýnt tæki. Undanfarna áratugi hér og erlendis hefur ríkið verið vopn hinna sterku. Ríkisstjórn okkar er grófasta dæmið. Erlendis sjáum við TISA og TTIP. Evrópusambandið hefur fært sig úr herbúðum hinna veiku til hinna sterku. Næsta ríkisstjórn hér þarf að snúa dæminu við, vera í liði með nýrri stjórnarskrá, stóraukinni velferð, endurreisn heilsu og skóla, og allsherjar auðlindarentu.