Punktar

Ríkiseignir étnar út

Punktar

Ríkisstjórnin selur eignir ríkisins, til dæmis bankana, og notar kaupverðið til að lina þjáningar atvinnulífsins í stað þess að nota það til að grynnka á skuldum ríkisins. Þremur mánuðum fyrir kosningar vaknar ríkisstjórnin til meðvitundar og reynir að bæta fyrir tvísýnt efnahagsástand og vaxandi atvinnuleysi með því að éta út eignir ríkisins. Hún hagar sér eins og húseigandinn Tómas Jónsson, sem át út húsið sitt í Metsölubók Guðbergs Bergssonar. Allir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, virðast vera sáttir við og jafnvel ánægðir með þessi vinnubrögð, sem eru skólabókardæmi um óráðsíu í meðferð opinberra fjármuna á kosningaári.

Ruddaleg ofsatrúarfroða

Punktar

Munurinn á Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum er sá, að austan hafs eru trúarofstækismenn lokaðir inni í sértrúarsöfnuðum, en vestan hafs eru þeir við stjórnvölinn. Daglegar áminningarræður George W. Bush forseta eru gegnsósa af trúarlegum tilvitnunum hins endurborna, kryddaðar kotrosknum slagorðum úr kúrekamyndum, sem sannfæra múslima um, að hann sé í krossferð gegn þeim, enda datt orðið krossferð einu sinni upp úr honum. Hlutverk hins froðufellandi Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra er svo að kasta daglega skít í ráðamenn Vestur-Evrópu, rétt eins og hann eigi að tryggja, að þeir haldist sífellt sármóðgaðir. Orðbragðið í ræðum og viðtölum ráðamanna Bandaríkjamanna og talsmanna þeirra um framgöngu ráðamanna í útlöndum er grófara en áður hefur sézt í samskiptum ríkja. Enda sannfærast á fleiri um, að ruddalegir ráðamenn Bandaríkjanna séu mesta ógnunin við heimsfriðinn um þessar mundir.

Munur er á sókn og vörn

Punktar

Árum saman hefur enginn ráðamanna í landamæraríkjum Íraks heyrzt telja ríki sínu stafa hætta af Saddam Hussein. Þar á meðal hefur árum saman ekki heyrzt, að ráðamenn Tyrklands telji ríkinu stafa hætta af Írak. Þau vopn, sem Tyrkir vilja fá frá Atlantshafsbandalaginu, tengjast ekki ógnun af hálfu Íraks, heldur hugsanlegum stuðningi Tyrklands við fyrirhugaða árás Bandaríkjanna á Írak og hugsanlegum varnaraðgerðum Íraks í stríðinu. Ráðamenn Frakklands, Þýzkalands og Belgíu vita, að Atlantshafsbandlagið er varnarbandalag, en ekki árásarbandalag, þótt herskár utanríkisráðherra Íslands virðist telja annað. Þess vegna hafa þeir beitt neitunarvaldi í bandalaginu gegn kröfunni um vopnastuðning við aðild Tyrklands að vopnaðri árás í annarri heimsálfu. Það eru ekki þeir, sem hafa splundrað hinu lífsþreytta bandalagi, heldur hinir, sem árangurslaust vilja breyta því í árásarbandalag.

Sykruð Húsavíkur-jógúrt

Punktar

Fyrir framan mig er forsíða sjónvarpshandbókar, sem dreift er ókeypis í hús. Á forsíðunni er auglýsing frá Húavíkur-jógúrt, þar sem fullyrt er, að afurðir fyrirtækisins séu án allra aukaefna. Þetta er ekki satt, því að allar níu vörutegundirnar, sem sýndar eru á auglýsingunni, eru sykraðar. Engin hrein jógúrt sést á myndinni. Þetta er ein af mörgum auglýsingum hér á landi, sem gera ráð fyrir, að neytendur séu algerir bjánar.

Hlýðinn og þægur

Punktar

Fáir vita, hver er Guðmundur Hallvarðsson, þægur og hlýðinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann lætur lítið fyrir sér fara, enda hefur hann enga skoðun hefur á neinu. Sem formaður samgöngunefndar Alþingis hefur hann samt það ábyrgðarmikla hlutverk að sjá um, að vilji samgönguráðherra flokksins nái fram að ganga, Halldórs Blöndal áður fyrr og núna Sturlu Böðvarssonar. Nefndin hefur mikið vald til að skipta vegafé milli kjördæma. Hlutverk Guðmundar er að gæta þess, að Reykjavík og höfuðborgarsvæðið fái hlutfallslega miklu minna vegafé en aðrir landshlutar. Meðan peningum er mokað í arðlaus jarðgöng gegnum fjöll gætir þingmaðurinn þess vandlega, að Reykjavík fái sem fæst mislæg gatnamót, sem draga úr slysahættu Reykvíkinga og spara þeim bæði benzín og tíma.

Dauðateygjur NATÓ

Punktar

Svo virðist sem rétt hafi verið frétt þýzka fréttablaðsins Spiegel um, að Frakkland og Þýzkaland séu að undirbúa tillögu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um flugbann á flugher Íraks, þreföldun vopnaleitarmanna og þyrlur og hermenn þeim til aðstoðar. Þetta á að leiða til þess, að þeir finni ólöglegu vopnin, sem Bandaríkin fullyrtu með myndasýningu í öryggisráðinu, að Saddam Hussein væri að fela. Bandaríkin hafa þegar tekið tillögunni afar illa og kalla hana “fáránlega”. Klofningurinn í Atlantshafsbandalaginu er dýpri en nokkru sinni fyrr og verður tæpast læknaður úr þessu. Belgíumenn hafa tilkynnt, að þeir muni beita þar neitunarvaldi gegn því, að Tyrkjum verði sendur vopnabúnaður til að auðvelda þeim að styðja innrás Bandaríkjanna í Írak. Í International Herald Tribune í dag segir Joseph Fitchett frá dauðateygjum Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkin eru að reka sig á, að þau geta ekki farið með alla bandamenn sína eins og hunda.

Fimm forsendur ófriðar

Punktar

Fimm ástæður valda því, að senn fara Bandaríkin í stríð við Írak. Í fyrsta lagi er þar að hafa ógrynni herfangs af olíu, sem Frakkar og Rússar fá aðild að, ef þeir samþykkja stríðið. Í öðru lagi vill Ísrael stríðið og Bandaríkin sjá jafnan um, að Ísrael fái ítrustu kröfum sínum fullnægt. Í þriðja lagi dreifir stríðið athygli Bandaríkjamanna frá því, að Osama bin Laden leikur enn lausum hala og öll hans skæruliðsamstök, fjármögnuð af Sádi-Arabíu og ræktuð í Pakistan, en algerlega óviðkomandi Írak. Í fjórða lagi er stríðið hefnd fyrir útreið föður núverandi Bandaríkjaforseta í fyrra Persaflóastríði, þar sem Saddam hélt velli, en gamli Bush féll fyrir Clinton. Í fimmta lagi telur Karl Rove, áróðursstjóri Bandaríkjaforseta, að stríð sé bezta leiðin til að vernda og efla vinsældir forsetans.

Forstokkuð forgangsröð

Punktar

Ef menn vilja stríð gegn verstu óvinum lýðræðis í heiminum, er nærtækara að byrja á stríði gegn t.d. Pakistan og Sádi-Arabíu, fremur en Írak. Ef menn vilja stríð gegn hættulegustu handhöfum gereyðingarvopna, er nærtækara að byrja á stríði gegn t.d. Pakistan, Norður-Kóreu og Ísrael, fremur en Írak. Ef menn vilja stöðva hryðjuverk á Vesturlöndum, er nærtækara að byrja á stríði gegn t.d. al Kaída, Pakistan, Ísrael og Sádi-Arabíu, fremur en Írak. Ef menn vilja treysta heimsfriðinn sem mest, er nærtækara að byrja á stríði gegn t.d. Bandaríkjunum og Ísrael, fremur en Írak. Heimurinn er fullur af fúlum valdhöfum. Saddam Hussein er bara einn af mörgum og sennilega ekki sá versti. Fyrirhugað stríð við Írak er á vitlausum stað í forgangsröð heilagra stríða.

Fölsuð skýrsla um Írak

Punktar

Í ræðunni í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrr í vikunni hrósaði Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, nýútkominni brezkri ríkisstjórnarskýrslu um vonzku Saddam Hussein Íraksforseta og sagði skýrsluna mjög vandaða. Brezka ríkisstjórnin hafði logið því að brezka þinginu, að skýrslan fæli í sér nýjustu upplýsingar frá brezku leyniþjónustunni. Fréttastofa Channel 4 í Bretlandi upplýsti hins vegar, að skýrslan var að mestu leyti stæld og stolin upp úr gamalli ritgerð eftir Ibrahim al-Marashi, fræðimann í Monterey í Kaliforníu, og hafði ekkert nýtt að geyma. Margt var orðrétt upp úr ritgerðinni, meira að segja prentvillurnar. Lesið um þetta í fréttum Associated Press.

Jeppamenn sendir í stríð?

Punktar

Jeppamenn sæta vaxandi árásum í Bandaríkjunum, rétt eins og reykingamenn eða konur í minkapelsum. Í auglýsingum er jeppaeigendum líkt við hryðjuverkamenn. Undir framrúðuþurrkur jeppa eru settar áminningar til þeirra um að snúa til betri vegar. Sjá má áróðursspjöld, þar sem á stendur: “Sendið jeppaeigendur fyrsta í stríðið við Írak”. Clotaire Rapaille mannfræðingur segir, að jeppaeigendur séu haldnir risaeðluduld. Sarah Jain mannfræðiprófessor við Stanford háskóla segir, að jeppaeigendur séu ófærir um að tengja eyðsluvenjur sínar við áhrif þeirra á umhverfið. Patricia Leigh Brown skrifar bráðskemmtilega grein í New York Times um nýjustu mótmælaölduna í Bandaríkjunum.

Til Sviss til sjálfsvígs

Punktar

Í vaxandi mæli leita menn til Sviss til að láta binda enda á þjáningar sínar, ef þeir eru illa haldnir af ólæknanlegum sjúkdómi. Þrír útlendingar létu aflífa sig í Zürich árið 2000, 38 árið 2001 og 55 árið 2002. Þetta er leyft samkvæmt svissneskum lögum frá 1942. Aðstoð við slík sjálfsvíg er líka leyfð í Hollandi og Belgíu, en þar eru gerðar meiri kröfur um langvinnt samband sjúklings og læknis, áður en svo afdrifarík ákvörðun er tekin. Í Sviss geta menn hins vegar komið að morgni og verið látnir síðdegis. Alison Langley segir í New York Times frá deilum í Sviss um þessa óvenjulegu viðbót við ferðaþjónustuna í landinu.

McDonalds í súpunni

Punktar

Í almenningsálitinu hefur McDonalds þegar farið illa út úr málaferlum tveggja feitra kvenna, sem kenna skyndibitakeðjunni um líkamlegt ástand sitt. Robert Sweet dómari í málinu hefur gefið þeim tækifæri og tíma til að breyta ákærunni til að gera hana líklegri til árangurs. Hann hefur upplýst, að í svokölluðum Chicken McNugget séu 30-40 aukaefni. Talsmenn McDonalds hafa talið sig neydda til að verja fyrirtækið með óheppilegum yfirlýsingum á borð við, að allir skynsamir menn eigi að vita, að þeir séu að borða óhollan og fitandi mat, þegar þeir heimsækja McDonalds. Adam Cohen segir í New York Times, að hugsanlegt sé, að konurnar vinni málið á þeirri forsendu, að viðskiptavinir McDonalds hafi ekki fengið tækifæri til að átta sig á, hversu hættulegt sé að heimsækja veitingahús keðjunnar.

Lítið kjöt á ræðubeini

Punktar

Sönnunargögnin um gereyðingarvopn Íraks vantar enn. Ræða Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær var mikil froða, sem breytti engum sjónarmiðum í Vestur-Evrópu að mati fjölmiðla í morgun. Myndirnar, sem hann sýndi öryggisráðinu, gætu allt eins hafa verið teknar í Nevada. Ronan Bennett og Alice Perman rekja í Guardian í dag langa sögu uppljóstrana um myndafalsanir og aðrar falsanir bandarískra leyniþjónusta, til dæmis frá fyrra Persaflóastríðinu. Í sama blaði rekur Timothy Garton Ash ýmis rök með og móti nýju stríði og segir ræðu Powell ekki hafa sannfært sig. Þær ríkisstjórnir í Suður- og Austur-Evrópu, sem hingað til hafa stutt fyrirhugaða árás, segja ræðu Powell hafa verið sannfærandi, en ríkisstjórnir ríkjanna í Vestur- og Norður-Evrópu láta sér fátt um finnast. Sjálfur bjóst ég við meira kjöti á beinum ræðunnar.

Klofningur í Evrópu

Punktar

Ríkisstjórnir Frakklands og Þýzkalands styðja ekki fyrirhugað stríð Bandaríkjanna við Írak, ekki heldur ríkisstjórnir Svíþjóðar og Finnalands, ekki Hollands og Belgíu, ekki heldur Írlands og Lúxemborgar. Hins vegar er stríðið stutt af ríkisstjórnum Bretlands og Spánar, Portúgals og Ítalíu, svo og Danmerkur, þótt almenningsálit allra þessara landa sé jafn eindregið andvígt stríðinu og almenningsálit fyrrnefndu landanna. Stuðningurinn við stríðið er meiri í Austur-Evrópu, þar sem tíu ríkisstjórnir hafa lýst yfir stuðningi við stríðið, að vísu án stuðnings almenningsálitsins í löndum þeirra. Allar þessar yfirlýsingar voru á vettvangi fyrir ræðu Colin Powell í öryggisráðinu í gær og leiða ekki til meirihluta í ráðinu með fyrirhuguðu stríði.

Barnamorðinginn í Pentagon

Punktar

George Monbiot fjallaði í gær í Guardian um heimsókn kólumbíska hershöfðingjans Carlos Ospina til bandaríska hermálaráðuneytisins, þar sem honum var tekið með kostum og kynjum í síðustu viku. Ospina er illræmdur fyrir stjórn sína á fjórðu deild hersins í Kólumbíu, sem hefur náið samstarf við dauðasveitir hægri manna, er hafa myrt 15.000 manns í landinu, suma á hryllilegan hátt, til dæmis með því að afhausa börn. Mörg illvirki Ospina hafa verið skrásett í smáatriðum af Human Right Watch. Bandaríkin, landeigendur í Kólumbíu, hershöfðinginn og dauðsveitirnar eru í samstarfi um hryðjuverk gegn fátæklingum í Kólumbíu. Nýlega veittu Bandaríkin sem svarar átta milljörðum króna til þessara hryðjuverka og hafa sent sérsveitir til Kólumbíu til að þjálfa hryðjuverkamennina. Á sama tíma hneykslast ráðamenn Bandaríkjanna á hryðjuverkum annarra.