Lítið kjöt á ræðubeini

Punktar

Sönnunargögnin um gereyðingarvopn Íraks vantar enn. Ræða Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær var mikil froða, sem breytti engum sjónarmiðum í Vestur-Evrópu að mati fjölmiðla í morgun. Myndirnar, sem hann sýndi öryggisráðinu, gætu allt eins hafa verið teknar í Nevada. Ronan Bennett og Alice Perman rekja í Guardian í dag langa sögu uppljóstrana um myndafalsanir og aðrar falsanir bandarískra leyniþjónusta, til dæmis frá fyrra Persaflóastríðinu. Í sama blaði rekur Timothy Garton Ash ýmis rök með og móti nýju stríði og segir ræðu Powell ekki hafa sannfært sig. Þær ríkisstjórnir í Suður- og Austur-Evrópu, sem hingað til hafa stutt fyrirhugaða árás, segja ræðu Powell hafa verið sannfærandi, en ríkisstjórnir ríkjanna í Vestur- og Norður-Evrópu láta sér fátt um finnast. Sjálfur bjóst ég við meira kjöti á beinum ræðunnar.