Munur er á sókn og vörn

Punktar

Árum saman hefur enginn ráðamanna í landamæraríkjum Íraks heyrzt telja ríki sínu stafa hætta af Saddam Hussein. Þar á meðal hefur árum saman ekki heyrzt, að ráðamenn Tyrklands telji ríkinu stafa hætta af Írak. Þau vopn, sem Tyrkir vilja fá frá Atlantshafsbandalaginu, tengjast ekki ógnun af hálfu Íraks, heldur hugsanlegum stuðningi Tyrklands við fyrirhugaða árás Bandaríkjanna á Írak og hugsanlegum varnaraðgerðum Íraks í stríðinu. Ráðamenn Frakklands, Þýzkalands og Belgíu vita, að Atlantshafsbandlagið er varnarbandalag, en ekki árásarbandalag, þótt herskár utanríkisráðherra Íslands virðist telja annað. Þess vegna hafa þeir beitt neitunarvaldi í bandalaginu gegn kröfunni um vopnastuðning við aðild Tyrklands að vopnaðri árás í annarri heimsálfu. Það eru ekki þeir, sem hafa splundrað hinu lífsþreytta bandalagi, heldur hinir, sem árangurslaust vilja breyta því í árásarbandalag.