Punktar

Greinar um gjána miklu

Punktar

Margar fróðlegar greinar hafa verið birtar að undanförnu í heimsblöðunum um hríðversnandi sambúð Bandaríkjanna og Evrópu. Í New York Times einu sér hafa birzt greinar eftir Richard Bernstein, Craig S. Smith, Sarah Lyall og Maureen Dowd. Spurningin, sem brennur á allra vörum er, hvort endanlegur aðskilnaður hafi orðið milli hinna tveggja meginþátta vestræns samfélags.

Leppstjórn glæpamanna

Punktar

Samtök landflótta stjórnarandstæðinga frá Írak hafa eindregið mótmælt þeim ráðagerðum Bandaríkjastjórnar að setja bandaríska herstjórn yfir Írak í heilt ár með aðstoð heimafenginna glæpamanna, það er að segja embættismanna, herforingja og lögregluforingja úr Baath flokknum, flokki Saddam Hussein forseta. Stjórnarandstæðingar telja nauðsynlegt að skipta út valdhöfum og hreinsa alla Baathista úr opinberum embættum. Þeir telja fáránlegt, að Bandaríkin skuli vilja vernda völd stuðningsmanna Saddam Hussein. Þeir óttast líka, að Tyrkjum verði þakkaður stuðningur við fyrirhugaða innrás með því að leyfa þeim að hernema lönd Kúrda í norðurhluta landsins. Ennfremur óttast þeir, að óbreytt stjórnkerfi leiði til þess, að Sjítar og Kúrdar fái ekki völd til jafns við hlutfall sitt af íbúafjölda landsins. Um þetta var fjallað í Observer í gær.

Gjáin mikla

Punktar

New York Times benti í gær á, að fjölmennustu mótmælagöngur laugardagsins gegn fyrirhuguðu stríði við Írak voru í Bretlandi, Spáni og Ítalíu, einmitt þeim löndum, þar sem ráðamenn hafa stutt stefnu George W. Bush Bandaríkjaforseta. Skoðanakannanir sýna, að 80% íbúa þessara landa eru andvíg stefnunni. Stóra gjáin í klofningi Evrópu er því ekki gjáin milli ríkisstjórna í Evrópu, heldur gjáin milli almennings í öllum löndum Evrópu annars vegar og nokkurra ríkisstjórna í Evrópu hins vegar. Blaðið telur, að mótmæli laugardagsins hafi magnað evrópska andstöðu við fyrirhugaða styrjöld.

Trylltur af bræði

Punktar

Að sögn Observer í gær eru menn í bandarískra utanríkisráðuneytinu orðnir skelkaðir út af ofsareiði og taumlausri hefnigirni hins orðljóta Donald Rumsfeld stríðsmálaráðherra, sem heimtar, að Þýzkalandi verði refsað fyrir mótþróann gegn fyrirhuguðu stríði Bandaríkjanna gegn Írak með því að leggja niður allar bandarískar herstöðvar í Þýzkalandi og svipta Þýzkaland tekjunum, sem fylgja þeim. Þetta á að vera til viðvörunar öllum öðrum ríkjum, sem kynnu að vilja þvælast fyrir Bandaríkjunum. Það gleymist, að margir Þjóðverjar væru bara fegnir að losna við herstöðvarnar. Samkvæmt heimildum Observer er Rumsfeld trylltur af bræði í garð Þjóðverja. Í utanríkisráðuneytinu óttast menn, að refsinga- og hefndarstefna Rumsfeld hafi þveröfug áhrif. Yfirgangur og þvinganir gegn erlendum ríkjum muni bara kála Atlantshafsbandalaginu, magna Ameríkuhatur enn frekar og efla andstöðu um allan heim gegn fyrirhuguðu stríði við Írak. Spurningin er svo, hversu lengi svona vanstilltur maður fái að stjórna öflugasta her í heimi.

Orð og athafnir fara á mis

Punktar

Þótt stjórnmálaflokkarnir hafi ýmsar stofnanir, sem semja stefnuskrár og eiga fræðilega séð að hafa ýmis önnur áhrif, er reyndin sú, að gerðir ráðherra og þingmanna eru hin raunverulega stefna flokka. Þannig er Sjálfstæðisflokkurinn í rauninni eins mikill óvinur höfuðborgarsvæðisins og Framsóknarflokkurinn. Ráðherrar flokksins og þingmenn efla misrétti landshluta. Til dæmis fær höfuðborgarsvæðið aðeins 18% af nýlega veittu 5,6 milljarða viðbótarfé til vegamála í atvinnubótaskyni, þótt þar sé 69% af atvinnuleysinu og 56% af mannfólkinu. Ráðherrar og samgöngunefndarmenn flokksins gæta þess líka, að Vegagerðin seinki útreikningum á framkvæmdum í Reykjavík, svo sem mislægum gatnamótum á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, svo að unnt sé að fullyrða, að undirbúningur þeirra sé of skammt á veg kominn til hafa með í atvinnubótapakkanum. Sjálfstæðisflokkurinn þykist vera vinsamlegur höfuðborgarsvæðinu, en í gerðum ráðherra og þingmanna er hann svarinn óvinur þess.

Einangraðir valdamenn

Punktar

Veraldarsögunnar stærstu mótmælagöngur í gær staðfesta fyrri skoðanakannanir, sem sýna, að 80% íbúa Vestur-Evrópu og 70% íbúa Austur-Evrópu eru andvíg styrjaldarstefnu Bandaríkjanna gagnvart Írak. Þegar herskáir forsætisráðherrar á borð við Tony Blair í Bretlandi, Silvio Berlusconi á Ítalíu og José María Aznar á Spáni fylgja George W. Bush Bandaríkjaforseta að málum, endurspegla þeir ekki vilja þjóða sinna. Það eru því ekki Jacques Chirac í Frakklandi og Gerhard Schröder í Þýzkalandi, sem hafa einangrazt frá Evrópu, heldur frá nokkrum herskáum forsætisráðherrum. Það eru hins vegar Blair, Berlusconi, Aznar og aðrir slíkir, sem hafa einangrast frá evrópskum almenningi. Chirac og Schröder tala fyrir hönd Evrópumanna almennt og þurfa því að sæta linnulausu skítkasti bandarískra valdamanna, sem halda að þeir eigi heiminn.

Mogginn einangraður

Punktar

Fróðlegt var að sjá óheiðarlega lágar tölur Moggans á vefnum um þátttöku fólks í mótmælagöngum víða um heim í gær. Þær voru um það bil einn tíundi af þeim tölum, sem gefnar voru upp í fréttum bandarískra dagblaða og sjónvarpsstöðva á borð við Washington Post og CNN. Mogginn hélt því til dæmis fram, að 100.000 manns hefðu mótmælt í Róm, þótt löggan þar í borg viðurkenni, að þeir hafi verið 750.000 og ýmsir ábyrgir fjölmiðlar, sem voru með menn á staðnum, telji þá hafa verið fleiri en milljón og sumir nefnt tvær milljónir. Fróðlegt væri að vita, hvort Mogginn skáldar erlendar fréttir sínar frá grunni eða hvort fréttastofa einhvers pólitísks sértrúarsafnaðar í útlöndum er að baki.

Hundalógík í hávegum 1

Punktar

Ein hundalógíkin, sem valdamenn Bandaríkjanna hafa látið sér sæma að undanförnu, er þessi: Ef vopnaleitarmenn Sameinuðu þjóðanna finna ekki ólögleg vopn í Írak, þarf að fara í stríð við Írak, af því að Saddam Hussein hafi tekizt að fela ólöglegu vopnin. Ef vopnaleitarmennirnir finna hins vegar ólögleg vopn í Írak og eyða þeim, þarf að fara í stríð við Írak, af því að Saddam Hussein taldi þessi vopn ekki fram í skýrslu sinni til vopnaleitarmanna. Því verður farið í stríð, hver sem verður niðurstaða vopnaleitarinnar. Rökfræði Bandaríkjastjórnar gerir ekki ráð fyrir þeim tveimur eðlilegu niðurstöðum, að annað hvort hafi engin ólögleg vopn verið í Írak eða að vopnaleitarmenn hafi komið höndum yfir þessi ólöglegu vopn og gert þau óskaðleg. Báðar niðurstöðurnar mundu þó gera stríðið óþarft.

Hundalógík í hávegum 2

Punktar

Ein af forsendum rökfræðinnar sem vísindagreinar er, að ekki sé víst, að A styðji B, þótt B styðji A. Á mæltu máli þýðir þetta, að ekki sé víst, að Írak styðji Al Kaída samtökin, þótt Al Kaída samtökin styðji Írak. Enda gat Osama bin Laden ekki stillt sig um að lýsa frati á guðleysingjann Saddam Hussein í nýjustu ræðunni, þar sem hann bað menn um að styðja Írak. Kenningar Colin Powell og annarra ráðamanna Bandaríkjanna um, að stuðningur Al Kaída við málstað Íraks jafngildi stuðningi Íraks við Al Kaída er hrein rökleysa, svokölluð hundalógík, sem sýnir rökfræðilegt gjaldþrot árásarstefnu Bandaríkjanna.

Sambúð verður aldrei söm

Punktar

Ruddalegir og ofstækisfullir valdamenn Bandaríkjanna, sem tala um valdamenn evrópskra ríkja eins og hunda og áminna þá eins og hunda, geta ekki vænzt þess, að Evrópa fylgi þeim að málum í heimspólitíkinni. Bandaríkjastjórn getur beitt þvingunum og ógnunum til að fá ríki til að styðja sig í fjölþjóðlegum stofnunum á borð við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagið. Það er skammgóður vermir, því að almenningsálitið í Bretlandi, Suður-Evrópu og Austur-Evrópu er jafn andvígt stríðsgleði Bandaríkjanna og almenningsálitið í kjarnaríkjum Evrópu, sem nú neita að lúta forustu ruddalegra ofstækismanna í Washington. Á örfáum mánuðum hefur Bush Bandaríkjaforseta og Rumsfeld varnarmálaráðherra tekizt að glutra niður forustuhlutverki Bandaríkjanna á Vesturlöndum. Sambúð Vesturlanda verður aldrei söm.

Eltir alla ævi

Punktar

Stríðsglæpamaðurinn Ariel Sharon, sem er forsætisráðherra Ísraels og hetja sjónvarpsstöðvar trúarofstækismanna á Íslandi, verður kærður í Belgíu fyrir stríðsglæpi, þegar hann fer frá völdum heima fyrir. Hæstiréttur Belgíu ákvað þetta í gær. Sharon verður kærður af þeim, sem lifðu af fjöldamorð hans í Sabra og Chatila flóttamannabúðunum árið 1982. Samkvæmt fjölþjóðalögum fyrnast stríðsglæpir aldrei. Þess vegna skjálfa ekki bara stríðsglæpamenn Ísraels, heldur einnig stríðsglæpamenn Bandaríkjanna, sem létu varpa efnavopnum á Viet Nam á sínum tíma, siguðu villimanninum Pinocet á íbúa Chile og frömdu hundruð annarra stríðsglæpa og svonefndra glæpa gegn mannkyninu. Gott er að vita í gömlu Evrópu af einu litlu landi, sem tekur alvarlega á meiri háttar afbrotum. Einnig er gott að vita af nýja Alþjóða stríðsglæpadómstólnum í Haag, sem Bandaríkin börðust ákaft gegn. Vonandi verða fleiri illræmdir stríðsglæpamenn ákærðir, til dæmis Bandaríkjamaðurinn Henry Kissinger, sem nú þorir ekki að ferðast til Evrópu af ótta við að vera handtekinn og kærður. Vonandi verða illmennin elt alla ævi.

Hvað skyldi Davíð segja?

Punktar

Flestir Íslendingar eru frjálsir menn og sínir eigin herrar. En til eru þeir, ekki sízt á hæstu stöðum, sem haldnir eru þrælsótta og skríða í duftinu. Til dæmis eru margir áhrifamenn í viðskiptalífinu hræddir við Davíð Oddsson forsætisráðherra. Þeir koma beint og óbeint til hans fyrirspurnum um, hvort þeir megi ráða þennan eða hinn í lykilstöðu og hvort þeir megi taka þessa eða hina stefnuna í rekstri fyrirtækisins. “Hvað skyldi Davíð segja”, spyrja þeir sjálfa sig og skjálfa á beinunum. Ótti þeirra kann að vera fyllilega ástæðulaus, en forsætisráðherra hefur samt ekkert gert til að lina þrælsóttann og veita birtu frelsisins inn í litlar sálir hina hræddu áhrifamanna. Honum finnst nefnilega gott, að menn skríði fyrir sér. Honum finnst Afríkustandið vera notalegt.

Fínar greinar á netinu

Punktar

Veraldarvefurinn er frábær. Í morgun gat ég fengið á kortéri með kaffinu góða innsýn í þá heimssögulegu atburði, sem nú eru að gerast, með því að lesa greinar William Pfaff, Barry James og Maureen Dowd í International Herald Tribune, greinar Gary Younge, Jon Henley og Seumas Milne í Guardian og greinar Thomas L. Friedman, Patrick Tyler og James Dao í New York Times. Hvarvetna blasir við, hvernig ofstækismenn bandarísku ríkisstjórnarinnar eru að brjóta allar brýr að baki sér í stríðsþrá sinni. Athyglisvert er, að allir eiga þessir ofstækismenn það sameiginlegt að hafa komið sjálfum sér undan herþjónustu á sínum tíma.

Hefur lokið hlutverkinu

Punktar

Upphlaupið í Atlantshafsbandalaginu flýtir fyrir hægu andláti þess. Evrópusambandið er að byrja að yfirtaka síðasta verkefni bandalagsins í Evrópu, friðargæzlu á Balkanskaga, og er farið að undirbúa 60.000 manna evrópska hersveit í viðbragðsstöðu. Stjórnir Frakklands, Þýzkalands og Belgíu viðurkenna ekki, að Tyrklandi stafi hætta af Írak eins og er. Í bandaríska hermálaráðuneytinu er þetta sjónarmið sagt vera upphafið að endalokum bandalagsins. Þar er farið að undirbúa samdrátt í herafla Bandaríkjanna í Evrópu, einkum í Þýzkalandi. Ráðamenn Bandaríkjanna og talsmenn þeirra kasta linnulaust skít í ráðamenn Frakklands og einkum Þýzkalands, rétt eins og aldrei þurfi að tala við þá aftur á diplómatískum nótum. Allt stefnir þetta að dapurlegum endalokum fornfrægrar stofnunar, sem átti sína dýrðardaga, en hefur nú lokið hlutverki sínu.

Ljósaperan úrelt

Punktar

Barnaby J. Feder segir í New York Times, að ljósaperan verði orðin úrelt á heimilum fólks eftir fjögur ár, þegar ljóskristalla-tölvukubbar hafa lækkað nógu mikið í verði til að verða samkeppnishæfir. Þeir muni spara milljarða dollara í rafmagni og viðhaldi og bylta aðferðum við lýsingu. Slíkir kubbar eru þegar komnir í notkun í ljósaskiltum á Times Square í New York og munu senn leysa neon-ljós af hólmi. Enn eru ljóskubbarnir dýrir, en munu eins og tölvukubbarnir lækka í verði með meiri fjöldaframleiðslu og betri framleiðslutækni.