Veraldarsögunnar stærstu mótmælagöngur í gær staðfesta fyrri skoðanakannanir, sem sýna, að 80% íbúa Vestur-Evrópu og 70% íbúa Austur-Evrópu eru andvíg styrjaldarstefnu Bandaríkjanna gagnvart Írak. Þegar herskáir forsætisráðherrar á borð við Tony Blair í Bretlandi, Silvio Berlusconi á Ítalíu og José María Aznar á Spáni fylgja George W. Bush Bandaríkjaforseta að málum, endurspegla þeir ekki vilja þjóða sinna. Það eru því ekki Jacques Chirac í Frakklandi og Gerhard Schröder í Þýzkalandi, sem hafa einangrazt frá Evrópu, heldur frá nokkrum herskáum forsætisráðherrum. Það eru hins vegar Blair, Berlusconi, Aznar og aðrir slíkir, sem hafa einangrast frá evrópskum almenningi. Chirac og Schröder tala fyrir hönd Evrópumanna almennt og þurfa því að sæta linnulausu skítkasti bandarískra valdamanna, sem halda að þeir eigi heiminn.