Punktar

Stríði frestað enn

Punktar

Í nótt voru birtar tvær tillögur í öryggisráðinu, tillaga Bandaríkjanna, Bretlands og Spánar um, að kominn sé tími til árásar á Írak, og tillaga Frakklands, Þýzkalands og Rússlands um, að ekki sé kominn tími enn, heldur skuli áfram leitað ólöglegra vopna um sinn. Bandaríkin hafa hins vegar ekki nema stuðning eins ríkis til viðbótar, Búlgaríu, og hyggjast því ekki leggja áherzlu á afgreiðslu sinnar tillögu fyrr en eftir rúmar tvær vikur, þegar betur er komið í ljós, hvort Saddam Hussein fer að kröfum vopnaleitarmanna. Í rauninni verður því farið eftir tillögu Frakklands næstu tvær vikurnar.

Franska lexían

Punktar

Franski rithöfundurinn Régis Debray skrifaði í gær örstutta og ágæta grein í New York Times, þar sem hann ber saman Íraksstefnu Bandaríkjanna annars vegar og Frakklands og Þýzkalands hins vegar. Hann bendir á, að stuðningsstjórnir Bandaríkjanna í Evrópu njóti ekki stuðnings almennings í þessu máli. Hann bendir á, að heimsveldi geti ekki til lengdar farið með bandamenn sína eins og leppa eða lénsmenn. Hann bendir á, að Evrópa hafi lært af biturri reynslu sinna gömlu heimsveldisóra, hafi lagt niður hrokann og sé farin að viðurkenna, að sín menning sé ekki ein í heiminum. Aðrir menningarheimar, til dæmis Íslam, geti haft eitthvað til síns máls. Bandaríkin séu hins vegar haldin hrokafullu trúarofstæki og taumlausri trú á eigin ágæti. Þau séu ófær um að skilja, að ekki sé alltaf víst, að þau ein hafi rétt fyrir sér. Þess vegna séu Bandaríkin að glata forustu hins vestræna heims.

Tæknin magnar mótmælin

Punktar

Á sjöunda áratugnum voru skipuleggjendur mótmæla gegn stríðinu við Vietnam hálft fimmta ár að tuttugfalda þátttöku í mótmælaaðgerðum. Nú eru skipuleggjendur mótmæla gegn fyrirhuguðu stríði við Írak aðeins hálft ár að tuttugfalda þátttöku í mótmælaaðgerðum. Jennifer Lee segir í New York Times, að þessi aukni hraði stafi af samskiptatækni nútímans, netinu og símanum. Í tölvupósti og símaskilaboðum er hægt að boða mótmæli og breyta stað og stund fyrirvaralítið. Þegar hundruð þúsunda og jafnvel milljónir manna komu á einn stað á sama tíma fyrir rúmri viku til að mótmæla Íraksstefnu Bandaríkjastjórnar, var engin stjórnmiðstöð að baki. Ólíkir hópar gátu unnið saman að einu marki, án þess að neitt kerfi væri að baki. Skilaboð bárust með leifturhraða um samfélagið. Þetta veldur ráðamönnum og lögreglustjórum mikilli skelfingu, ekki sízt í löndum eins og Kína og Singapúr, þar sem mótmæli eru illa séð. Þannig er tækni nútímans orðin að vopni almennings gegn valdhöfum, sem hunza vilja almennings. Það er engin tilviljun, að milljónamótmælin voru einmitt í löndum, þar sem valdhafarnir styðja herskáa Bandaríkjastjórn, á Bretlandi, Ítalíu og Spáni.

Brenglað orðaval

Punktar

Terry Jones skrifar í Observer í dag um sérstætt tungumál Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, helztu sölumanna fyrirhugaðs stríðs við Írak. Þeir saka andstæðinga sína í röðum ráðamanna Vesturlanda um heigulshátt, rétt eins og það sé vottur um hugrekki að sitja við skrifborð á Vesturlöndum og láta henda sprengjum á fátæklinga í þriðja heiminum. Þeir segjast fylgja forskriftum alþjóðasamfélagsins, þótt allar skoðanakannanir sýni, að gífurlegur meirihluti nærri allra vestrænna þjóða og langflestra annarra þjóða sé andvígur fyrirhuguðu stríði. Orðin “cowardice” og “international community” hafa fengið brenglaða merkingu í munni helztu sölumanna dauðans um þessar mundir. Þetta minnir á tungumálið Newspeak í “1984”, skáldsögu George Orwell.

Google fer í bloggið.

Punktar

John Naughton skrifar í Observer í dag um kaup leitarvélarinnar Google á Pyra, sem var lykillinn að vinsældum “blogging”, dagbóka einstaklinga á veraldarvefnum. Google hefur á rúmlega tveimur árum orðið að feiknarlega vinsælli leitarvél og rekur þar að auki fréttasöfnunarvefinn news.google, sem ég nota á hverjum degi. Öfugt við önnur netfyrirtæki hefur Google verið rekið með hagnaði frá fyrsta degi. Í greininni rekur Naughton þróun bloggsins og hvernig það birtir í ýmsum tilvikum traustari og nákvæmari fréttir en hinir hefðbundnu fjölmiðlar. Þetta er orðið sérstaklega mikilvægt, síðan bandarískir fjölmiðlar ákváðu, að hlutverk þeirra væri ekki lengur að segja fréttir, heldur að selja stríð. Hann minnir á, að Google keypti í febrúar allan Usenet logginn frá Deja og þar með alla gamla frétta- og skoðanavefi á vefnum allt aftur til áttunda og níunda áratugarins. Hann telur, að kaupin á Pyra hljóti að vera skynsamleg, úr því að Google sé að verki, og muni leiða til, að fréttir og skoðanir í dagbókum einstaklinga verði aðgengilegri á vefnum. Þá mega hefðbundnir frétta- og skoðanamiðlar fara að vara sig.

Ábyrgðarlaus yfirboð

Punktar

Örvæntingarfullur Halldór Ásgrímsson er afkastamestur pólitíkusa í ábyrgðarlausum yfirboðum þessa dagana. Nú vill hann nota söluverð ríkisbankanna til að kaupa atkvæði kjósenda, sem margir eru veikir fyrir glórulausum yfirboðum og þyrstir í skattalækkun. Jafnframt reynir Halldór að telja okkur trú um, að þetta séu peningar, sem komi úr stóriðjunni. Skynsamlegra væri að nota söluverð ríkisbankanna í að greiða niður ríkisskuldir, til þess að eignir og skuldir ríkisins haldist í jafnvægi og til þess að reikningurinn fyrir óráðsíu Halldórs og annarra af sama sauðahúsi sé greiddur strax, en ekki sendur afkomendum okkar. Nóg hefur þeim samt verið sent.

Nató til Afganistan?

Punktar

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lagði í gær til, að Atlantshafsbandalagið taki umtalsverðan þátt í friðargæzlunni í Afganistan. Tillagan siglir í kjölfar mánaðarlangs þjarks í bandalaginu um, hvort það sé innan verksviðs varnarbandalags að senda hergögn til Tyrklands til varnar gagnárás, ef ríkið tekur óbeinan þátt í árás Bandaríkjanna á Írak. Vafalaust er bandalagið komið langt út fyrir verksvið sitt, ef það tekur að sér að vernda leppstjórn Bandaríkjanna í Afganistan. Þar hafa hrunið vonir manna um bætt stjórnarfar og bætta líðan fólks eftir fall Taliban-stjórnarinnar. Víðast hvar í landinu eru konur ofsóttar sem fyrr. Ræktun eiturlyfja hefur margfaldazt frá valdatímum Taliban. Morðglaðir herstjórar vaða uppi um allt land og hafa geðþótta sinn fyrir lög og reglu. Frá sjónarmiði vestræns þjóðskipulags er Afganistan dæmi um misheppnaða íhlutun Vesturlanda. Þótt George Robinson, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hafi tekið vel í tillögu Powell, er vafasamt, að bandalag, sem er í sárum vegna yfirgangs Bandaríkjanna, eigi að taka þátt í ábyrgð á misheppnuðu ævintýri þeirra í Afganistan.

Stríð við eigin bandamenn

Punktar

Þótt stríð sé ekki hafið enn í Mesópótamíu, hefur Bandaríkjastjórn allan valdatíma núverandi forseta rekið eins konar stríð gegn bandamönnum sínum á Vesturlöndum. Það hófst með breiðsíðu fyrirlitningar á margvíslegum fjölþjóðasáttmálum, sem ráðamönnum Evrópu eru kærir, af því að þeir fela í sér sættir ólíkra sjónarmiða, allt frá Kyoto-sáttmálanum yfir í stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna. Stríðið gegn bandamönnum Bandaríkjanna hefur náð hástigi í vetur með fjölbreyttum hótunum og ógnunum um pólitískt og efnahagslegt ofbeldi, skætingi í garð Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og persónulegum árásum á alla þá ráðamenn í Evrópu, sem lúta ekki vilja Bandaríkjastjórnar í einu og öllu. Það er engin furða, þótt kjósendur um alla Evrópu segi í skoðanakönnunum, að Bandaríkin séu ekki bara mesta, heldur langmesta ógnunin við heimsfriðinn um þessar mundir.

Sjónvarpsgjá Vesturlanda

Punktar

Paul Krugman segir í International Herald Tribune, að skoðanamunur Bandaríkjamanna og Evrópumanna í máli Íraks stafi sumpart af gerólíkum sjónvarpsfréttum. Í heimsmets-mótmælum um allan heim um síðustu helgi sýndu evrópskar stöðvar myndir frá mótmælum í Evrópu, en bandarískar stöðvar sýndu myndir frá mótmælum í Írak. Fox-fréttirnar fóru háðulegum orðum um mótmælendur í New York, kölluðu þá þessa venjulegu rað-mótmælendur. CNN-fréttirnar snerust um, hversu mikla gleði mótmælin hefðu vakið í Írak. Krugman segir, að mánuðum saman hafi bandarískar sjónvarpsstöðvar hagað sér eins og þeim væri skylt að búa Bandaríkjamenn undir stríð. Hann telur líklegt, að innrætingin sé þvílík í Bandaríkjunum, að hver sá, sem efast um réttmæti utanríkisstefnu forsetans, sé talinn vera óþjóðlegur.

Höfuðborg Austur-Evrópu

Punktar

Bruce Jackson er bandarískur baráttumaður á hægri kanti stjórnmálanna, áhugamaður um árás á Írak og sérfræðingur í pólitískum þrýstingi. Hann er einnig ráðgjafi sendiráða flestra ríkja Austur-Evrópu í Washington og auðveldar þeim aðgang að bandarískum ráðamönnum. Thomas Fuller skrifar um hann í International Herald Tribune í dag og hefur eftir nafngreindum sendiráðsmönnum, að Jackson hafi samið uppkastið að stuðningsyfirlýsingu ríkja Austur-Evrópu við stefnu Bandaríkjanna í Íraksmálinu. Endanleg útgáfa er að hluta orðrétt frá honum. Sendiherrar þessara ríkja seldu ríkisstjórnum sínum hugmyndina og endanlegum texta var dreift til fjölmiðla frá skrifstofu Jackson. Almenningur í Austur-Evrópu er andvígur fyrirhuguðu stríði, en ríkisstjórnirnar vilja tryggja, að bandaríska þingið samþykki aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu. Í greininni vekur Fuller athygli á, að samstarf Austur-Evrópuríkja sín á milli fer fram í Washington, en ekki í Bruxelles, pólitískri höfuðborg Evrópusambandsins.

Falsfréttir berast hingað

Punktar

Í Venezúela eru fjórar harðskeyttar sjónvarpsstöðvar í eigu ríkra landeigenda og olíukónga. Þær eru afar andsnúnar hinum lýðræðislega kjörna forseta landsins, Hugo Chavez, sem studdur var til valda af fátæklingum landsins. Stöðvarnar voru í þungamiðju misheppnaðrar tilraunar til að steypa forsetanum af stóli í fyrra og hvöttu menn linnlaust til aðgerða. Ríkisstjórn Bandaríkjanna tók undir gagnrýni sjónvarpsstöðvanna og studdi byltingartilraunina óbeint, unz Samtök Ameríkuríkja lýstu yfir stuðningi við rétt kjörinn forseta. Naomi Klein segir í Guardian frá reynslu þekkts blaðamanns, sem fékk nóg af því að starfa við fréttafalsanir sjónvarpstöðvanna. Sú mynd, sem við fáum hér í sjónvarpinu og Mogganum af stöðu mála í Venezúela, er bandarísk mynd, sem er sterkt lituð af hagsmunum óvenjulega gráðugra auðmanna í Venezúela. Þetta er gott dæmi um brenglaðar fréttir, sem berast hingað til lands og eru hafðar fyrir sannar.

Menningargjáin magnast

Punktar

Craig S. Smith segir í grein í New York Times, að Ameríkumenn og Evrópumenn eigi í vaxandi erfiðeikum með að skilja hver annan. Skoðanakönnun í Hollandi sýni, að Bandaríkjamenn eru komnir í hóp óvinsælustu útlendinganna. Evrópumenn hafi slegið striki yfir styrjaldir fyrri alda í álfunni og smíðað sér alls konar fjölþjóðasamtök til að fella samskipti þjóða í traustan farveg. Bandaríkjamenn hafa hins vegar upp á síðkastið hafnað miklum fjölda slíkra samtaka. Evrópumenn fái gæsahúð af framgöngu núverandi ráðamanna Bandaríkjanna, trúarofsa þeirra og einstefnu. Evrópumenn vilji blanda velferðarstefnu við markaðsbúskapinn og séu algerlega andvígur dauðarefsingunum, sérkenni bandarísks réttarfars. Íraksmálið hafi magnað fyrri menningargjá milli Evrópu og Ameríku.

Einkaheimur Moggans

Punktar

Mogginn sagði í fyrirsögn á forsíðu í gær, að Evrópusambandið hafi lýst samstöðu með Bandaríkjunum í Íraksdeilunni. Það er fjarri öllu sanni, eins og sjá má af texta ályktunar bandalagsins, sem víða hefur birzt orðrétt, svo sem í New York Times. Þar er aftast boðað samstarf við Bandaríkin, en ekki samstaða. Öll ályktunin er að öðru leyti ítrekun á sérstöðu Frakklands og Þýzkalands. Þar segir meðal annars, að Sameinuðu þjóðirnar og öryggisráðið séu þungamiðja lausnar málsins. Afvopna megi Írak með friðsamlegum hætti. Valdbeiting sé aðeins síðasta úrræðið. Lýst er yfir stuðningi við frekara starf vopnaleitarmanna. Sérstaklega er tekið fram, að þeir þurfi meiri tíma, þótt vopnaleitin geti að vísu ekki verið endalaus. Evrópusambandið leggur svo lykkju á leið ályktunarinnar með tilvísun til deilna Ísraels og Palestínu. Allt eru þetta atriði, sem stinga í stúf við stefnu Bandaríkjastjórnar. Ég skal játa, að árum saman hef ég ekki lesið erlendar fréttir Morgunblaðsins, nema allra síðustu. Það rifjast upp, hvers vegna ég lét þær eiga sig á sínum tíma. Þær lýsa öðrum heimi en fréttir erlendra stórblaða.

Chirac stælir Bush

Punktar

Forseti Frakklands er farinn að haga sér eins og forseti Bandaríkjanna og aðrir ráðamenn þeirra. Jacques Chirac segir leiðtogum Austur-Evrópu að halda kjafti um Íraksmálið, ef þeir séu ósammála kjarnaríkjum Evrópusambandsins, Frakklandi, Þýzkalandi og Belgíu. Hann segir stuðning leiðtoganna við stefnu Bandaríkjanna vera barnalegan og gálausan. Hann gefur í skyn, að erfiðara en ella verði fyrir ríki Austur-Evrópu að ná samkomulagi um aðild að Evrópusambandinu. Þetta verður ekki skilið öðru vísi en hótun að hætti Bandaríkjastjórnar. Um svona framgöngu gildir gamalkunnugt lögmál um, að líki þú eftir andstæðingi þínum, verður þú fljótlega eins og hann. Og Chirac hefur fengið það sama upp úr krafsinu og Bush, litlu karlarnir hafa sameinazt gegn honum og stefnu hans.

Heimsendir sagður nálgast

Punktar

Enn einu sinni hefur verið skrifað um “hið sanna ástand heimsins”. Nýjasti höfundurinn er ekki aldeilis sammála Lomborg hinum danska og Fiskifélagi Íslands, sem telja ástand náttúrunnar miklu betra en heimsendaspámenn grænfriðunga og annarra slíkra hafi fullyrt. Þvert á móti segir nýjasti spámaðurinn, að ástandið sé í rauninni miklu verra og að það sé alls ekki umdeilanleg skoðun. Það er sjálfur umhverfisráðherra Bretlands, Michael Meacher, sem segir þetta í grein í Guardian. Hann bendir á, að stórflóð, sem áður komu einu sinni á tuttugu ára fresti, komi nú átján sinnum á tuttugu ára fresti. Hann bendir á, að slík flóð hafi skaðað sjö milljón manna á ári fyrir fjórum áratugum en skaði nú 150 milljón manna á ári. Hann bendir á, að ofsarok hafi skaðað þrjár milljónir manna á ári fyrir þremur áratugum en skaði nú 25 milljón manna á ári. Greinin heitir: Heimsendir er í nánd, það er orðið opinbert.