Sjónvarpsgjá Vesturlanda

Punktar

Paul Krugman segir í International Herald Tribune, að skoðanamunur Bandaríkjamanna og Evrópumanna í máli Íraks stafi sumpart af gerólíkum sjónvarpsfréttum. Í heimsmets-mótmælum um allan heim um síðustu helgi sýndu evrópskar stöðvar myndir frá mótmælum í Evrópu, en bandarískar stöðvar sýndu myndir frá mótmælum í Írak. Fox-fréttirnar fóru háðulegum orðum um mótmælendur í New York, kölluðu þá þessa venjulegu rað-mótmælendur. CNN-fréttirnar snerust um, hversu mikla gleði mótmælin hefðu vakið í Írak. Krugman segir, að mánuðum saman hafi bandarískar sjónvarpsstöðvar hagað sér eins og þeim væri skylt að búa Bandaríkjamenn undir stríð. Hann telur líklegt, að innrætingin sé þvílík í Bandaríkjunum, að hver sá, sem efast um réttmæti utanríkisstefnu forsetans, sé talinn vera óþjóðlegur.