Einkaheimur Moggans

Punktar

Mogginn sagði í fyrirsögn á forsíðu í gær, að Evrópusambandið hafi lýst samstöðu með Bandaríkjunum í Íraksdeilunni. Það er fjarri öllu sanni, eins og sjá má af texta ályktunar bandalagsins, sem víða hefur birzt orðrétt, svo sem í New York Times. Þar er aftast boðað samstarf við Bandaríkin, en ekki samstaða. Öll ályktunin er að öðru leyti ítrekun á sérstöðu Frakklands og Þýzkalands. Þar segir meðal annars, að Sameinuðu þjóðirnar og öryggisráðið séu þungamiðja lausnar málsins. Afvopna megi Írak með friðsamlegum hætti. Valdbeiting sé aðeins síðasta úrræðið. Lýst er yfir stuðningi við frekara starf vopnaleitarmanna. Sérstaklega er tekið fram, að þeir þurfi meiri tíma, þótt vopnaleitin geti að vísu ekki verið endalaus. Evrópusambandið leggur svo lykkju á leið ályktunarinnar með tilvísun til deilna Ísraels og Palestínu. Allt eru þetta atriði, sem stinga í stúf við stefnu Bandaríkjastjórnar. Ég skal játa, að árum saman hef ég ekki lesið erlendar fréttir Morgunblaðsins, nema allra síðustu. Það rifjast upp, hvers vegna ég lét þær eiga sig á sínum tíma. Þær lýsa öðrum heimi en fréttir erlendra stórblaða.