Punktar

Sykur er sökudólgurinn

Punktar

Í morgun gáfu Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) og Alþjóða landbúnaðarstofnunin (FAO) út sameiginlega skýrslu um offitu, samda af þrjátíu vísindamönnum. Í henni er mælt með, að viðbættur sykur sé innan við 10% af hitaeiningum matar. Að öðru leyti eru ráðleggingarnar svipaðar og í fyrri skýrslum af þessu tagi. Sykur, salt og fita eru sökudólgar offitu og sykurinn er stærsti sökudólgurinn. Þetta er í fyrsta skipti, að hámarksprósenta er notuð sem markmið í alþjóðlegri manneldisstefnu, enda hafa samtök gosdrykkjaframleiðenda varizt af hörku. Þau hafa beitt sömu aðferðum og samtök tóbaksframleiðenda og samtök lyfjaframleiðenda. Frá þessu er sagt í Washington Post í morgun.

Ekki framselt til Ameríku

Punktar

Ekki hefur náðst samkomulag um gagnkvæmt framsal meintra glæpamanna milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Í Evrópu, einkum Frakklandi, eru efasemdir um, að samningurinn tryggi, að framseldir menn verði ekki teknir af lífi í Bandaríkjunum. Ennfremur eru áhyggjur af því í Evrópu, að í Bandaríkjunum geta herdómstólar látið taka útlendinga fasta án dóms og laga á grundvelli gruns um aðild að hryðjuverkum og geta síðan haldið þeim endalaust í steininum, án þess að taka mál þeirra fyrir. Í viðræðunum um gagnkvæmt framsal hafa Frakkar forustu um að krefjast betri trygginga fyrir því, að hefðbundin mannréttindi verði tryggð í Bandaríkjunum. Frá þessu segir í International Herald Tribune.

Gestgjafinn hlerar

Punktar

Observer hefur komizt yfir bandarískt leyniskjal, dagsett 31. janúar 2003, frá Frank Koza, yfirmanni hjá National Security Agency, þar sem yfirmönnum deilda NSA er skipað að herða njósnir gegn fulltrúum erlendra ríkja hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York, þar á meðal stöðuga hlerun símtala og tölvupósts. Markmiðið er að Bandaríkjastjórn geti á hverri mínútu fylgzt með, hvernig atkvæði muni falla í öryggisráðinu, hverjir séu veikleikar fulltrúanna og annað, sem talið er skipta máli. Það var öryggisstjóri Bandaríkjaforseta, Condolezza Rice, sem krafðist þessara njósna. Þær hljóta að vekja efasemdir um, að Bandaríkin séu hæf til að vera vettvangur funda öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þau hafa herfilega misnotað hlutverk gestgjafans og haga sér eins og Sovétríkin sálugu.

Mótþrói stjórnarandstöðu

Punktar

Gegn eindregnum vilja Bandaríkjastjórnar hafa stjórnarandstæðingar Íraks sameinazt um að mynda nú þegar bráðabirgðastjórn fulltrúa hinna ýmsu þjóða landsins, Sjíta, Kúrda og Súnna. Bandaríkin vilja heldur setja upp eigin herstjórn með stuðningi illa þokkaðra embættismanna úr Baatistaflokki Saddam Hussein. Stjórnarandstæðingar hafa líka sameinazt um skipun sendinefndar til Tyrklands til að mótmæla fyrirhuguðu hernámi Tyrkja í löndum Kúrda í norðurhluta Íraks. Stjórnarandstæðingar segjast munu grípa til vopna, ef Tyrkir ráðizt inn í landið. Zalmay Khalilzad, sendimaður George W. Bush Bandaríkjaforseta, fór sneypuferð fyrir helgina á fund írakskra stjórnarandstæðinga í Alaheddin. Svokölluð frelsun Íraks virðist greinilega vera flóknara mál en stjórn Bandaríkjanna og málsvarar hennar víða um heim vilja vera láta. Frá þessu segir í New York Times.

Evrópa er að læra

Punktar

Evrópa hefur lært mikið um stöðu sína í heiminum á síðustu mánuðum. Bandaríkjastjórn hefur beitt gamalkunnum aðferðum Rómarveldis, deilt og drottnað. Hún hefur verið Evrópu fjandsamleg, sigað ríkisstjórnum álfunnar hverri gegn annarri og sýnt fram á, að Evrópa hefur enga utanálfustefnu og litla hernaðarstefnu. Á sama tíma hefur fjármálastefna Evrópu styrkzt með sameiginlegum seðlabanka og sameiginlegri mynt, sem sífellt hækkar í verði gagnvart dollar. Skýringin á misþróun Evrópu er að verða mönnum ljós. Evrópusambandið er of ungt til að láta að sér kveða í umheiminum, til dæmis í miðausturlöndum, en getur tryggt innri velsæld og innra öryggi. Atlantshafsbandalagið er að liðast sundur, enda orðið óþarft. Evrópusambandið er að byrja að tryggja frið á Balkanskaga. Senn munu kjarnaríki Evrópu svara margvíslegri ögrun Bandaríkjanna með því að fresta því að taka inn önnur ríki Austur-Evrópu en þau, sem hallast fremur að evrópskum en bandarískum viðhorfum til lífsins og tilverunnar.

Elzta trikkið í bókinni

Punktar

Hingað til hefur kosningabarátta stjórnarflokkanna snúist um elzta trikkið í kennslubókinni, hvernig megi hafa kjósendur að fífli á þægilegan hátt. Tekjur af sölu banka eru étnar út í stað þess að leggja þær fyrir. Þetta er gert til að hafa kjósendur glaða, þegar þeir fara inn í kjörklefann. Kastað er fyrir róða fyrra daðri við ábyrga fjármálastjórn. Lofað er skattalækkunum og flýtt er verklegum framkvæmdum, einkum arðlausum framkvæmdum á borð við jarðgöng á afskekktum stöðum. Ríkisstjórnin segir við kjósendur: Étum og drekkum og verum glöð, lifum á líðandi stund, sendum reikninginn til barna okkar og barnabarna. Og enn einu sinni munu kjósendur kokgleypa öngulinn.

Umræðan komin í fræðirit

Punktar

Gott er, að umræðan um marktækni eða markleysi rannsókna deCode Genetics á Íslandi skuli vera að færast úr daglegum fjölmiðlum, þar sem hún á ekki heima, yfir í fræðirit, þar sem hún á heima. Tímaritið Nature hefur birt nokkrar greinar um kenningar Einars Árnasonar prófessors um, að Íslendingar séu tiltölulega sundurleitir að upplagi, en ekki einsleitir, eins og haldið er fram hjá deCode. Þótt enn sýnist sitt hverjum, eru greinar í þessu hefðbundna umhverfi ólíkt meira traustvekjandi heldur en sú aðferð talsmanna deCode að flytja hástemmdar yfirlýsingar á blaðamannafundum um stórkostlegar uppfinningar fyrirtækisins. Í fræðiritum fara fullyrðingar gegnum síu, en á blaðamannafundum leika þær lausum hala og gera raunar enn hjá deCode, samanber Moggann í gær.

Margir þættir mannsins

Punktar

Fjórðungi bregður til fósturs, segir forspátt spakmæli, sem hæfir umræðu nútímans um hina ýmsu þætti, sem móta manninn. Ekki er fráleitt að ætla, að fjórðungur af okkur felist í erfðum, fjórðungur í fóstrun, fjórðungur í umhverfi og fjórðungur í persónu okkar. Þannig nær erfðasjúkdómur oft ekki fram að ganga, af því að hinir þrír þættirnir vinna á móti honum. Það gildir jafnt um hjartamein, krabbamein og drykkjumein, útbreiddustu sjúkdóma nútímans. Með hjálp góðrar fóstrunar og góðs umhverfis geta menn orðið sinnar eigin gæfu smiðir, eins og segir í öðru góðu spakmæli. Vegna framgangs erfðavísinda er um þessar mundir mikið skrifað í erlend blöð um tengsli erfða við aðra þætti, sem móta manninn. Ein greinin, eftir Natalie Angier, birtist í New York Times í gær.

Heimsveldis- og stríðsþrá

Punktar

Dálkahöfundurinn Jonathan Freedland segir í Guardian, að hinir stríðsglöðu ráðgjafar Bandaríkjaforseta, Dick Cheney, Donald Rumsfeld, Paul Wolfowitz, Richard Perle og Jeb Bush forsetabróðir, séu stofnendur Áætlunar um nýja Bandaríkjaöld, sem hefur verið til húsa við 17da stræti í Washington síðan 1997. Þetta er eins konar hugmyndabanki, þar sem fjallað er um, hvernig Bandaríkin geti náð heimsyfirráðum á öllum sviðum á þessari öld. Stefnt er að heimi, þar sem sambúð ríkja við Bandaríkin sé þeim mikilvægari en sambúðin við öll önnur ríki. Enginn afkimi hnattarins verði utan valdsviðs Bandaríkjanna. Settar verði upp herstöðvar um allan heim, Kína verði umlukt bandarískum herstöðvum og lokamarkmiðið verði hernaðarlegur sigur á Kína. Búast má við ótryggum heimi meðan þessi stefna er við völd, því að heimurinn mun tregðast við að lúta Bandaríkjunum.

Stríð er fyrsta úrræðið

Punktar

Þótt ráðamenn Bandaríkjanna séu stríðsglaðari en fyrirrennarar þeirra, er öll saga utanríkisstefnu landsins blóði drifin. Dálakhöfundurinn Simon Tisdall minnir í Guardian á stríð Bandaríkjanna í Kóreu, Vietnam, Persaflóa og Afganistan, stuttar atlögur við Líbíu, Panama, Grenada og Sómalíu, langdregin átök á borð við kalda stríðið, stríð gegnum leppa í Angóla og Mósambík, stríð að tjaldabaki í Líbanon og Kambódíu, leynistríð í Chile og Kúbu, Nicaragua og El Salvador. Eins og fyrri heimsveldi á borð við Róm og Bretland nærast Bandaríkin á ofbeldi í þriðja heiminum. Ef einhver ríki eru fyrir Bandaríkjunum, er stríð ekki síðasta úrræðið, heldur það fyrsta. Þess vegna verður farið í stríð við Írak, hvað sem Sameinuðu þjóðirnar segja og hvað sem almenningsálitið segir um allan heim.

Bandaríkjamenn gegn Bush

Punktar

Dálkahöfundurinn Matthew Engel lýsir í Guardian ferðum sínum um Bandaríkin og segir, að erfitt hafi verið að finna stuðningsmenn utanríkisstefnu George W. Bush Bandaríkjaforseta, jafnvel í miðvesturríkjunum. Hann minnir á, að bandaríski dálkahöfundurinn Thomas Friedman hafi komizt að sömu niðurstöðu. Skiljanlegt sé, að allir hati Bush í útlöndum, en athyglisverðara sé, að hann hafi ekki sannfært Bandaríkjamenn um réttmæti fyrirhugaðs stríðs við Írak.

Bandaríkin á hengiflugi

Punktar

Einhver bezta grein, sem birzt hefur um nýja stöðu Bandaríkjanna í heiminum, var í Guardian í gær. Dálkahöfundurinn George Monbiot segir, að Bandaríkin valti yfir önnur ríki með hótunum og mútum og séu að eyðileggja hverja fjölþjóðastofnunina á fætur annarri. Þau séu komin vel á veg með Sameinuðu þjóðirnar og séu nú að rústa Heimsviðskiptastofnuninni. Hann telur, að ríki heimsins muni í auknum mæli hunza Bandaríkin á sama hátt og Bandaríkin hafa hunzað umheiminn að undanförnu. Hann rekur nokkur merki þess, að evran og kínverska yuanið muni í auknum mæli leysa dollarinn af hólmi og spákaupmenn muni selja dollara í auknum mæli. Hann leiðir rök að því, að tryllt heimsvaldastefna muni kollsteypa efnahag Bandaríkjanna, og hann dregur í efa, að Bandaríkjamenn muni lengi þola núverandi stjórnarfar í landinu.

Bush styður tóbaksneyzlu

Punktar

Bandaríska krabbameinsfélagið og nokkur önnur heilbrigðissamtök í Bandaríkjunum fullyrða, að ríkisstjórn George W. Bush forseta gangi erinda tóbaksframleiðenda af miklum þunga og sé að reyna að grafa undan fjölþjóðlegu tóbaksvarnaþingi á vegum Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar. Fulltrúar þriðja heimsins á ráðstefnunni saka Bandaríkin um að reyna markvisst að draga allar tennur úr væntanlegri niðurstöðu þingsins. Flest ríki heimsins vilja víðtækar aðgerðir gegn tóbaki, þar á meðal auglýsingabann og strangar viðvaranir á umbúðum. Bandaríska sendinefndin hefur hótað, að styrkir til alþjóðlegra tóbaksvarna verði afnumdir, ef hún nái ekki vilja sínum fram á þinginu. Alfred Munzer, talsmaður bandaríska lungnafélagsins, segist skammast sín fyrir ríkisstjórn lands síns. Um þetta var fjallað á BBC í gær.

Kaupþing og Eining

Punktar

Forstjóri Kaupþings á sjálfsagt skilið að eiga fyrir salti í grautinn. Minnisstæðastur er hann þó fyrir einna verst rekna lífeyrissjóð landsins, Einingu. Vandamálum Kaupþings var sópað yfir í Einingu á kostnað sjóðfélaga. Þykir slíkt vafalaust greindarleg fjármálastefna í samræmi við nútímasiðferði í viðskiptum. Athyglisvert er, að mikið af herfangi forstjórans var ekki fengið með hagnaði af rekstri, heldur með sölu eigna fyrirtækisins. Formaður verzlunarmannafélagsins og aðrir meðvitundarlitlir stjórnarmenn Kaupþings hafa heldur betur látið taka sig í nefið.

Kárahnjúkar Ameríku

Punktar

Fróðlegt var að sjá í stífluþætti Ómars Ragnarsson í fyrrakvöld, hvernig Bandaríkjamenn voru fyrir þrjátíu árum orðnir ólíkt umhverfisvænni en Íslendingar eru nú á dögum. Fyrir vestan hættu menn við að reisa Kárahnjúkavirkjun þess tíma. Þessi samanburður er gott dæmi um, hversu róttækir umhverfissóðar Íslendingar eru að meðaltali, langt að baki siðmenntaðra þjóða.