Einhver bezta grein, sem birzt hefur um nýja stöðu Bandaríkjanna í heiminum, var í Guardian í gær. Dálkahöfundurinn George Monbiot segir, að Bandaríkin valti yfir önnur ríki með hótunum og mútum og séu að eyðileggja hverja fjölþjóðastofnunina á fætur annarri. Þau séu komin vel á veg með Sameinuðu þjóðirnar og séu nú að rústa Heimsviðskiptastofnuninni. Hann telur, að ríki heimsins muni í auknum mæli hunza Bandaríkin á sama hátt og Bandaríkin hafa hunzað umheiminn að undanförnu. Hann rekur nokkur merki þess, að evran og kínverska yuanið muni í auknum mæli leysa dollarinn af hólmi og spákaupmenn muni selja dollara í auknum mæli. Hann leiðir rök að því, að tryllt heimsvaldastefna muni kollsteypa efnahag Bandaríkjanna, og hann dregur í efa, að Bandaríkjamenn muni lengi þola núverandi stjórnarfar í landinu.