Hingað til hefur kosningabarátta stjórnarflokkanna snúist um elzta trikkið í kennslubókinni, hvernig megi hafa kjósendur að fífli á þægilegan hátt. Tekjur af sölu banka eru étnar út í stað þess að leggja þær fyrir. Þetta er gert til að hafa kjósendur glaða, þegar þeir fara inn í kjörklefann. Kastað er fyrir róða fyrra daðri við ábyrga fjármálastjórn. Lofað er skattalækkunum og flýtt er verklegum framkvæmdum, einkum arðlausum framkvæmdum á borð við jarðgöng á afskekktum stöðum. Ríkisstjórnin segir við kjósendur: Étum og drekkum og verum glöð, lifum á líðandi stund, sendum reikninginn til barna okkar og barnabarna. Og enn einu sinni munu kjósendur kokgleypa öngulinn.