Punktar

Hvarvetna fyrirlitnir

Punktar

Í skoðanakönnunum víðs vegar um vesturlönd kemur í ljós, að fólk telur George W. Bush vera hættulegri en Saddam Hussein. Þessi skoðun ríkir meira að segja í gömlum bandalagsríkjum á borð við Kanada og Írland. Vesturlandabúar telja almennt, að heimsfriðnum stafi margfalt meiri hætta af Bandaríkjunum en Írak. Þeir fáu valdamenn, sem styðja Bandaríkin, gera það af skelfingu eða fyrir peninga, en ekki af góðum vilja. >Nicholas D. Kristof ræðir í New York Times um allt það tjón, sem orðið er á samskiptum Bandaríkjanna og umheimsins, áður en hleypt er af fyrsta skotinu í fyrirhuguðu stríði.

Látum þá hata okkur

Punktar

Utanríkisstefna George W. Bush Bandaríkjaforseta og nánustu samstarfsmanna hans felst í latneska orðskviðnum: Oderint dum metuant. Látum þá hata okkur, ef þeir bara óttast okkur. Af heimsku og ábyrgðarleysi hefur ríkisstjórn hans eyðilagt margra áratuga uppbyggingu vináttu milli Bandaríkjanna annars vegar og hins vegar fyrrverandi bandamanna þeirra í Evrópu, í Miðausturlöndum og raunar um allan heim. Paul Krugman ræðir í New York Times um ógöngur hinnar nýju stefnu bandarískrar lítilsvirðingar á umheiminum, bandamönnum jafnt sem öðrum.

Íhlutun lúti reglum

Punktar

Reglan um fullveldi ríkja hefur verið hornsteinn utanríkismála allt frá Westfölsku friðarsamningunum 1648, eins og við þekkjum vel hér á landi. Ef menn vilja rjúfa þessa mikilvægu reglu, verða að vera um það skýrar reglur, svo sem að víðtækt fjölþjóðasamkomulag sé um íhlutun og að hún valdi ekki meiri skaða en henni er ætlað að hindra. Augljóst er, að fyrirhuguð árás Bandaríkjanna á Írak fellur ekki að neinum slíkum reglum og mun magna öryggisleysi jarðarbúa. Menn spyrja, hverjir verði næstir í vegi hinna stríðsglöðu. Jonathan Freedland ræðir í Guardian um vandamál íhlutunar í fullveldi ríkja.

Óvæntur auður flokka

Punktar

Í síðustu alþingiskosningum var greinilegt af magni auglýsinga og annars áróðurs, að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin höfðu tugmilljónum króna meira fé til ráðstöfunar í kosningabaráttunni en flokkarnir hefðu getað aflað sér með eðlilegum og hefðbundnum hætti hjá fólki og fyrirtækjum. Aldrei hefur verið skýrt, hvernig flokkarnir komust yfir þessa miklu peninga. Nú hafa nafnkunnir menn sagt í fjölmiðlum, að eitt stórfyrirtæki hafi sennilega greitt og annað stórfyrirtæki hafi sennilega haft áhuga á að greiða fé til að liðka fyrir hagsmunum sínum. Þurfum við frekari staðfestingu þess, að birta þurfi beinan og óbeinan stuðning við stjórnmálaflokka og -menn, svo að sértæk greiðasemi sé öllum sýnileg?.

Íslenzkir valdahringir

Punktar

Leðjuslagur vikunnar sýnir óeðlileg afskipti stjórnmálavalds af peningavaldi og óeðlileg afskipti peningavalds af stjórnmálavaldi, þar sem fjölmiðlun og ríkisvald er misnotað fram og aftur. Markmið mafíósa er að mynda hringrás, þar sem peningavald fjármagnar stjórnmálavald og stjórnmálavald fjármagnar peningavald. Við erum byrjuð að feta í humátt á eftir Bandaríkjunum, þar sem pólitík og auður samtvinnast í valdahringjum, sem eru að ná fullveldinu af lýðnum og breyta lýðræði í auðræði.

Bandarískar pyndingar

Punktar

Guardian segir frá því morgun, að tveir fangar hafi látizt af völdum pyndinga í herstöð Bandaríkjanna í Bagram í Afganistan. Aðrir fangar í herstöðinni hafa lýst vinnubrögðum, sem notaðar eru við yfirheyrslur fanga. Þær eru langt utan þess ramma, sem heimilaðar eru samkvæmt alþjóðalögum. Þetta er í samræmi við, að Bandaríkin neituðu að taka þátt í hinum nýstofnaða stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna, börðust af hörku gegn stofnun hans og hafa lagt mikla áherzlu á að knýja undirgefin ríki til samninga um að draga ekki bandaríska ríkisborgara fyrir dómstólinn.

Fyrst verða fjöldamorð

Punktar

Samkvæmt heimildum New York Times hyggjast bandarískir herstjórar hefja stríðið við Írak með því að varpa 3.000 sprengjum og eldflaugum á landið fyrstu 48 klukkustundirnar, þar á meðal á höfuðborgina Bagdað. Richard Myers, formaður herráðsins, hefur varað blaðamenn við að vera í Bagdað, þegar stríðið hefst. Af þessu má ljóst vera, að Bandaríkin munu hefja stríðið með víðtækum fjöldamorðum á almenningi.

Þrýstar kvarta

Punktar

Allir þrýstihópar reyna að hafa áhrif, rétt eins og fyrirtæki og stofnanir reyna að hafa áhrif. Landsvirkjun og Iðnaðarráðuneytið leita allra færa til að reisa sem flest orkuver og beita í því skyni alls konar þrýstingi. Það er hrein hræsni, þegar slíkir aðilar kvarta um, að áhugasamtök um verndun ósnortinna víðerna reyni að hafa áhrif á alls konar aðila, sem geta lagt stein í götu ráðagerða um víðtæk landspjöll. Ef slík samtök geta fengið verktaka til að hætta við að bjóða í verk og fjármálastofnanir til að hætta við að fjármagna þær, er það ekkert annað en einn þrýstingurinn af mörgum. Þrýstar geta ekki kvartað, þegar þrýst er á móti þeim.

Hver talar fyrir Evrópu?

Punktar

Þegar taldir eru upp ýmsir evrópskir landsfeður, sem styðja hernaðarstefnu George W. Bush Bandaríkjaforseta, gleymist oft að geta þess, að almenningsálitið í öllum löndum Evrópu er feiknarlega andvígt fyrirhuguðu stríði við Írak. Það eru alls ekki Gerhard Schröder og Jacques Chirac, sem eru einangraðir í Evrópu. Þeir tala fyrir hönd almennings í Bretlandi, Spáni og Ítalíu, en ekki Tony Blair, José Aznar og Silvio Berlusconi. Schröder og Chirac tala fyrir hönd almennings á Íslandi, en ekki Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson.

Bandalag mútaðra og kúgaðra

Punktar

Bandaríkjastjórn reynir að fá Tyrklandsstjórn til að ráðast með sér á Írak. Í því skyni er henni ýmist lofað 26 milljarða dollara aðstoð eða hótað að skrúfa fyrir aðstoð. Sama gildir um ríkisstjórnir, sem eru svo heppnar eða óheppnar að eiga fulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þeim er hótað öllu illu, ef þær styðja ekki tillögu Bandaríkjastjórnar, og lofað öllu fögru, ef þær samþykkja hana. Ráðamenn Bandaríkjanna segjast vera með þessu að búa til “bandalag hinna fúsu”, sem á að leysa fyrri bandalög af hólmi, þar á meðal Atlantshafsbandalagið, sem ekki vill vera með. Miðað við aðferðir Bandaríkjastjórnar er ekki rétt að tala um bandalag hinna fúsu, heldur bandalag hinna mútuðu og kúguðu.

Stalín byrlað eitur

Punktar

Nýtt sagnfræðirit um dauða Stalíns 1. marz 1953, eftir Vladimir Naumov og Jonathan Brent, kemst að þeirri niðurstöðu, að einræðisherranum hafi verið byrlað eitrið warfarin í fjögurra manna borðhaldi, þar sem voru Nikita Krústsjov og Lavrenti Beria. Höfundarnir telja Beria hafa framið verknaðinn, enda kom hann í veg fyrir, að Stalín fengi læknishjálp fyrstu klukkutímana eftir verknaðinn. Höfundarnir telja morðið tengjast fyrirhuguðum sýndarréttarhöldum, þar sem Stalín ætlaði að láta taka af lífi fjölda lækna fyrir samsæri um að ráða sig af dögum. Michael Wines skrifar grein um sagnfræðiritið í New York Times í dag.

Krossferð trúarofstækis

Punktar

Dálkahöfundurinn Nicholas D. Kristof segir í New York Times í dag, að skoðanir og gerðir George W. Bush byggist á trúarofsa hans, sem sé í samræmi við róttæka trú þeirra 46% Bandaríkjamanna, sem segjast vera endurfæddir í kristni. Bush segist ekki trúa þróunarkenningunni, enda trúa 48% Bandaríkjamanna sköpunarkenningunni, en aðeins 28% þróunarkenningunni. Það fylgir bandaríska trúarofsanum, að 68% þeirra trúa, að djöfullinn sé til. Í þessu samhengi er Bush eins konar Messías, sem varar lýðinn við illum öflum úti í heimi og hyggst endurhanna allt stjórnmálaferli í Miðausturlöndum. Hann er trúarofstækismaður á leið í krossferð gegn illum múslimum.

Af hverju endilega Írak?

Punktar

Engin svör fást hjá stríðsglöðum skrifborðsmönnum á borð við utanríkisráðherra Íslands, hvers vegna endilega skuli ráðizt á Írak í vetur, en ekki (1) eitthvert ríki, sem sannanlega er hættulegra borgurum landsins, nágrannaríkjum eða Vesturlöndum; (2) eitthvert ríki, sem sannanlega ræktar hryðjuverkamenn eða kennir þeim hryðjuverk eða fjármagnar þá; (3) eitthvert ríki, sem sannanlega á kjarnorkuvopn eða efnavopn eða önnur gereyðingarvopn og hefur hótað að beita þeim. Síðan Saddam Hussein hætti að vera skjólstæðingur Bandaríkjanna er hann orðinn hálfgerði meinleysingi í samanburði við Kim Sjong-il, Ariel Sharon, Pervez Musharaff, George W. Bush, Vladimir Pútín, Islom Karimof, Robert Mugabe eða Fahd Al Saud. Ef menn endilega vilja stríð, er þá ekki rétt að taka slúbbertana í mikilvægisröð?.

Stríð er að hefjast

Punktar

Bandaríkjamenn og Bretar eru farnir að gera loftárásir á hernaðarlega mikilvæg skotmörk í Írak til þess að deyfa varnir landsins, þegar landhernaður hefst. Frá því segja Richard Norton-Taylor og Nicholas Watt í Guardian í dag. George W. Bush Bandaríkjaforseti og talsmenn hans eru hættir að verja fyrirhugað stríð og farnir að tala um, hvernig Írak verði stjórnað að stríði loknu. Frá því segir David E. Sanger í New York Times í dag. Bush og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafa ákveðið, að tilgangslaust sé að halda áfram umræðum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í meira en hálfa aðra viku í viðbót. Ef Bandaríkin og Bretland telja ólíklegt, að meirihluti fáist í ráðinu með tillögu þeirra um stríð, munu þessi ríki ekki leggja áherzlu á afgreiðslu tillögunnar, heldur fara í stríð. Frá því segir Karen DeYoung í Washington Post í dag.

Magnaðri mótmæli

Punktar

Á alþjóðlegum samstarfsfundi mótmælasamtaka í London um helgina var ákveðið að herða baráttuna gegn fyrirhugaðri árás Bandaríkjanna á Írak. Til viðbótar mótmælagöngum og -fundum verður aðgerðum beint gegn hergagnaflutningum í Evrópu.
Baráttuviljinn hefur magnazt í kjölfar mikillar og óvæntrar þátttöku í mótmælum fyrir tveimur vikum, þegar samtals sex-tólf milljón manna mótmæltu stríðinu víða um heim. Einnig er gert ráð fyrir mótmælagöngum um allan heim að kvöldi innrásardagsins og alþjóðlegum risamótmælum laugardaginn þar á eftir. Frá þessu segir í Washington Post í morgun.