Þegar taldir eru upp ýmsir evrópskir landsfeður, sem styðja hernaðarstefnu George W. Bush Bandaríkjaforseta, gleymist oft að geta þess, að almenningsálitið í öllum löndum Evrópu er feiknarlega andvígt fyrirhuguðu stríði við Írak. Það eru alls ekki Gerhard Schröder og Jacques Chirac, sem eru einangraðir í Evrópu. Þeir tala fyrir hönd almennings í Bretlandi, Spáni og Ítalíu, en ekki Tony Blair, José Aznar og Silvio Berlusconi. Schröder og Chirac tala fyrir hönd almennings á Íslandi, en ekki Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson.